Bæjarstjóri Mosfellsbæjar kjörtímabilið 2018-2022 er Haraldur Sverrisson, oddviti Sjálfstæðismanna
Bæjarstjóri er æðsti yfirmaður starfsmanna fagsviða, stoðdeilda og stofnana Mosfellsbæjar. Undir skrifstofu bæjarstjóra heyra málefni sem bæjarstjóra eru falin að lögum og samþykktum sem bæjarstjórn setur um starfið.
Bóka viðtal
Þjónustuver Mosfellsbæjar hefur umsjón með viðtalstímum bæjarstjóra og skipulagningu þeirra. Hægt er að bóka viðtal í síma 525-6700 eða tölvupósti, mos[hja]mos.is.
Bæjarstjóri í nærmynd
Haraldur Sverrisson er fæddur 1961. Hann er sonur Sverris Haraldssonar listmálara og Steinunnar Marteinsdóttur leirlistamanns.
Haraldur fluttist að Hulduhólum í Mosfellsbæ 1969, 7 ára að aldri og hefur búið í bænum síðan.
Maki Haraldar er Ragnheiður Gunnarsdóttir, viðskiptafræðingur og forstöðumaður hjá Fjársýslu ríkisins. Börn þeirra eru Steinunn Anna, Valgerður Rún og Sverrir. Barnabörnin eru þrjú.
Haraldur er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og lauk Cand Ocon prófi í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands árið 1987. Hann stundaði framhaldsnám í fjármálum og stjórnun við University of Arizona árið 2001.
Eftir að Haraldur lauk viðskiptafræðiprófi starfaði hann sem framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Vals 1986 til 1988 þar til hann var ráðinn deildarstjóri á kjarasamningasviði Launaskrifstofu ríkisins. Árið 1991 tók Haraldur við starfi rekstrarstjóra fjármálaráðuneytisins og síðar stöðu skrifstofustjóra rekstrar- og upplýsingaskrifstofu ráðuneytisins. Frá september árið 2007 hefur Haraldur gegnt starfi bæjarstjóra Mosfellsbæjar.
Haraldur var varabæjarfulltrúi árin 1998-2002 og á því kjörtímabili var hann nefndarmaður í skipulags- og byggingarnefnd sem og menningarmálanefnd. Hann var í 2. sæti á framboðslista sjálfstæðismanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2002 og sat því í bæjarstjórn það kjörtímabil. Jafnframt var hann formaður bæjarráðs og skipulags- og byggingarnefndar.
Haraldur var ráðinn bæjarstjóri haustið 2007.