Þessar flottu konur sem prýða forsíðu febrúar pistilsins eru í Lionsklúbbnum Úum hér í Mosfellsbæ. Ég hitti þær eitt kvöldið í byrjun febrúar og var með kynningu á því helsta sem er að gerast í bænum og það urðu svo fjörugar umræður að ég fór langt yfir tímamörkin. Þær færðu mér fána og rauða heimaprjónaða vettlinga að gjöf þegar ég kvaddi. Lionsklúbbur Mosfellbæjar á merkilega sögu hér í bæ þar sem félagið byggði fyrsta áfanga dvalarheimilis aldraðra, sem nú heitir Hamrar hjúkrunarheimili. Peningasöfnun klúbbsins til verkefnisins hófst upp úr 1970 og fyrsta skóflustungan var tekin 26. nóvember 1976. Verkinu tókst að ljúka farsællega og þann 12. júlí 1980 var húsið afhent Mosfellsbæ fullbúið. Árið eftir unnu klúbbfélagar svo við standsetningu lóðarinnar umhverfis húsið. Lionsklúbburinn Úa hefur haldið áfram að styrkja og styðja hjúkrunarheimilið og gefið gjafir í gegnum tíðina. Í fyrra færði klúbburinn hjúkrunarheimilinu tvær rafdrifnar loftdýnur. Það er dýrmætt fyrir hvert samfélag að eiga öfluga sjálfboðaliða sem styðja við góð málefni.
6. febrúar var dagur leikskólans haldinn hátíðlegur og af því tilefni heimsóttum við Gunnhildur Sæmundsdóttir sviðsstjóri fræðslu og frístundasviðs og Þrúður Hjelm, leiðtogi leikskólamála leikskólann Hlaðhamra og færðum Sveinbjörgu Davíðsdóttur leikskólastjóra orðabók að gjöf. Þær eru kamapakátar, Gunnhildur, Sveinbjörg og Þrúður á einni af myndunum sem fylgja þessum pistli. Við opnuðum líka nýja heimasíðu leikskólans og frumsýndum þetta myndband um starfið í skólanum.
Þá héldum við líka upp á það að Vala leikskólakerfi og smáforritið (appið) Vala séu tilbúin til notkunar fyrir foreldra til að gera umsóknarferli í leikskóla einfaldara og upplýsingaflæði betra á milli leikskóla og foreldra. Smáforritið (appið) Vala er hugsað fyrir dagleg samskipti og þar geta forráðamenn séð tilkynningar, fréttir, skilaboð, matseðla og viðburðadagatal leikskólans.Með tilkomu Völu leikskóla er Mosfellsbær kominn með sama kerfi fyrir leikskóla, mötuneyti grunnskóla, vetrar- og sumarfrístund og vinnuskólann. Á einni af myndunum með þessum pistli má sjá þær Rósu ritara í Krikaskóla og Viktoríu skólastjóra með appið en innleiðingin hefur gengið von framar í skólanum.
Á sama tíma hafa vefsíður leikskóla verið uppfærðar og samræmdar og þá stendur yfir vinna við að uppfæra og samræma einnig vefi grunnskólanna.
Annars einkenndist febrúar af töluvert mikilli snjókomu. Það komu dagar þar sem færðin var mjög erfið, sérstaklega í ákveðnum hlutum bæjarins og það komu margar ábendingar til umhverfissviðs og þjónustuvers með ósk um betri þjónustu. Það komu líka þakkir fyrir moksturinn úr ákveðnum hverfum. Þetta eru vísbendingar um að þjónustustigið sé kannski ekki alveg eins allsstaðar í bænum. Núverandi samningar um snjómokstur renna út á árinu og því er tækifæri til að rýna vel útboðsslýsingu og taka ákvörðun um þjónustustig áður en boðið verður út að nýju.
Að þessu sögðu þá vil ég þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum og verktökum sem hafa annast snjómoksturinn af mikilli elju og metnaði fyrir Mosfellsbæ. Þegar snjóar þá vinna þeir frá fjögur að nóttu og langt fram á kvöld. Kröfur fólks um þjónustu eru að aukast og breytast með auknum áherslum á t.d. notkun heilsársdekkja í stað nagladekkja og með auknum fjölda rafbíla sem eru ekki endilega fjórhjóla. Þá vill fólk fara út og njóta þess að ganga á ruddum stígum á fallegum vetrardögum og þetta hefur allt áhrif á óskir um hærra þjónustustig í snjómokstri.
En sem betur fer eru aðrir sem hafa verið himinlifandi með snjókomuna vegna þess að þá er hægt að njóta þess að fara á skíði, í Bláfjöllum og á gönguskíði víða um höfuðborgarsvæðið. Göngubrautin við Blikastaði hefur slegið rækilega í gegn hjá Mosfellingum og öðrum höfuðborgarbúum. Eins og kom fram í síðasta pistli samþykkti bæjarráð að fara í samvinnu við Icebike Adventures, þau Magne Kvam og Ástu Briem sem eru með Sporið og hafa verið að leggja brautir á höfuðborgarsvæðinu. Magne gerði síðan tilraun með lagningu brautar á Mosfellsheiði sem kom mjög vel út. Á facebook síðu Sporsins eru ný spor kynnt um leið og þau eru tilbúin.
Og nemendur í leikskólanum í Helgafellskóla nutu þess svo sannarlega að læra á gönguskíði. Skólinn fékk sérstakan styrk úr Klörusjóði til að fjárfesta í gönguskíðum til kennslu í leikskólanum. Myndbandið um skíðakennsluna sló algjörlega í gegn en tæplega 58 þúsund manns horfðu á það á facebook síðu Mosfellsbæjar. Vel gert Helgafellsskóli!
Um miðjan febrúar kom Guðjón Svansson til starfa sem nýr íþrótta-og lýðheilsufulltrúi. Okkar góði Sigurður Guðmundsson lét af störfum í árslok eftir áratuga starf fyrir Mosfellsbæ. Ég færi honum bestu þakkir fyrir frábær störf í þágu samfélagsins í Mosfellsbæ. Verkefni Guðjóns verða víðtækari eins og titillinn ber með sér, þ.e. aukin áhersla á lýðheilsumál. Mosfellsbær hefur sett sér lýðheilsu- og forvarnarstefnu en verkefni Guðjóns felast meðal annars í því að gera aðgerðaætlun á grunni stefnunnar og fylgja verkefnum eftir. Stefnan er mjög metnaðarfull og snýr að börnum og unglingum og ýmisskonar forvörnum, öryggismálum, áfengis-og vímuefnamálum, virkni einstaklinga, heilsueflingu, útivist og samgöngum.
Stýrihópur um framtíðarnýtingu Varmársvæðisins var settur á laggirnar í janúar og hefur fundað þrívegis og farið í vettvangsheimsókn í Úlfarsárdal. Eitt af mikilvægum verkefnum er þarfagreining fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá. Nýrri þjónustu- og aðkomubyggingu er ætlað að verða miðpunktur íþróttamiðstöðvarinnar þar sem veitt er ýmiskonar þjónusta með fjölbreyttri aðstöðu fyrir iðkendur, starfsfólk og gesti.
Mikilvægur liður í þarfagreiningunni er spurningakönnun meðal hagaðila og íbúa. Markmið hennar er að afla upplýsinga um þarfir og væntingar ólíkra hópa til þjónustu- og aðkomubyggingarinnar. Könnunin hefur þegar verði send á ýmsa hagaðila svo sem iðkendur og forsjáraðilar, starfsfólk Mosfellsbæjar sem vinnur á eða tengt íþróttasvæðinu að Varmá, starfsfólk íþróttafélaganna, þjálfara og sjálfboðaliða. Könnunin er einnig opin öllum íbúum, því að sjálfsögðu viljum við heyra raddir sem flestra íbúa og hvetjum því öll til þátttöku í henni en hún verður birt og kynnt á heimasíðu Mosfellsbæjar.
Vinnu samningahóps á vegum SSH og ríkisins við endurskoðun samgöngusáttmálans miðar ágætlega og von á niðurstöðum á næstu vikum. Líklega hef ég sagt þetta áður en það verður að segjast eins og er að jarðhræringar og eldgos hafa seinkað þessari vinnu umtalsvert enda stór viðfangsefni sem ríkisvaldið hefur fengið í fangið. Samgöngusáttmálinn sem er frá árinu 2019 inniheldur framkvæmdaáætlun þar sem stærstu verkefnin eru ellefu stofnvegaverkefni og sex lotur Borgarlínu. Auk uppbyggingar innviða fyrir virka ferðamáta og fjármögnun í umferðastýringar og aðgerðir fyrir aukið umferðaflæði og öryggi. Heildarfjármögnun höfuðborgarpakkans var áætluð 120 ma.kr. á verðlagi ársins 2019. Samkomulag var um fjármögnun verkefnisins, sem skiptist á milli beinna framlaga ríkis og sveitarfélaga, flýti- og umferðagjalda (eða önnur fjármögnun sbr. 4. gr. sáttmálans) og ábata af sölu Keldnalands.
Tilefni uppfærslunnar eru breytingar á kostnaðaráætlunum til hækkunar og röskun á framkvæmdaáætlun sáttmálans, mikilvægi þess að ákveða rekstrarform nýs kerfis almenningssamgangna sem og innviða og þörf fyrir mörkun og skilgreiningu framkvæmda þannig að fyrir liggi hvaða þættir einstakra framkvæmda sveitarfélaga eru greiddir af samgöngusáttmálanum og hverjir ekki.
Frá árinu 2016 hefur íbúum á svæðinu fjölgað um 34 þúsund og skráðum bílum um 29 þúsund. Að jafnaði hafa því um 90 íbúar og 70 bílar bæst við umferðina á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins í hverri viku með tilheyrandi álagi á innviði. Það er því mikilvægt að ráðast í umfangsmiklar umbætur á samgöngukerfinu á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar ég skoða dagbókina mína fyrir febrúar þá tel ég 111 fundi á þessum fjórum vikum. Mjög margir fundir eru að sjálfsögðu innanhúss, vegna undirbúnings bæjarráðs og bæjarstjórnar, fundir með sviðsstjórum vegna framgangs einstakra verkefna ofl. En það voru fjölmargir aðrir fundir, svo sem hjá samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og með samninganefnd vegna samgöngusáttmálans, hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, með Veðurstofunni vegna gerðar áhættumats fyrir höfuðborgarsvæðið, með Sambandi íslenskra sveitarfélaga m.a. vegna kjarasamningaviðræðna, með stýrihópi vegna Varmársvæðis, með nefnd um Barnvænt sveitarfélag, eigendafundur Sorpu var einnig haldinn og fundur með verkefnisstjórn vegna samnings um Álfsnes auk fjölda funda með einstaklingum í gegnum opna viðtalstíma og með félagasamtökum. Sem betur fer fara mjög margir fundir fram í gegnum Teams og ég hef það fyrir reglu að bóka yfirleitt aðeins 30 mínútna fundi og hafa þá skilvirkari.
Um miðjan mánuð fórum við nokkur úr stjórnsýslunni í mjög góða kynningarferð í Árborg, þar sem við fengum fræðslu um fjárhagslíkan og greiningartól sem þau nýta sér en sveitarfélagið hefur farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og þurft að hraða innleiðingu á hugbúnaðarlausnum til að fá betri yfirsýn yfir reksturinn. Frábærlega vel tekið á móti okkur af Fjólu bæjarstjóra og hennar fólki.
Bikarúrslitaleikur kvenna í blaki var haldinn í Digranesi í Kópavogi 17. febrúar og var æsispennandi. Afturelding sigraði og var bikarmeistari 2024. Hrikalega vel gert og mikil stemning á leiknum. Enn og aftur til hamingju!
Í gær áttum við Lovísa Jónsdóttir oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn mjög góðan fund með þingmönnum Viðreisnar, þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Sigmari Guðmundssyni en þau voru á ferðalagi í bænum í kjördæmavikunni. Alltaf dýrmætt að eiga samtal um þau málefni sem snerta nærsamfélagið hér en eru á forræði ríkisins.
Það var ekki mikið um menningartengda viðburði í febrúar á vegum bæjarins en þeim mun meira framundan núna í mars þegar hátíðin Menning í mars hefur göngu sína. Mjög flott dagskrá og ég ætla að hefja leik í kvöld á tónleikum í Hlégarði með Stöllunum og kórnum Sóldísi úr Skagafirði. Í fyrramálið er svo Dagur listaskólans sem verður með opið hús hjá tónlistardeildinni, skólahljómsveitinni og leikfélagi Mosfellssveitar. Á sunnudag er svo frumsýning á leikritinu sívinsæla, Línu langsokk hjá leikfélaginu. Það eru því bjartir dagar framundan í menningarlífinu í Mosfellsbæ!
Góða helgi.