Í þessari vinnu er eins og það sé alltaf föstudagur því tíminn líður á ógnarhraða. Vikan var með fjölbreyttara móti enda mikið um að vera þegar nær dregur jólum og áramótum. Um síðustu helgi hafði ég það hlutverk að saga fyrsta jólatréð í jólaskóginum við Hamrahlíð með aðstoð vaskra jólasveina. Fyrsta tréð fer samkvæmt hefð til Ásgarðs og voru fulltrúar þaðan viðstaddir viðburðinn. Það var mikið líf og fjör í skóginum, en skógræktarfélagið tók á móti gestum með harmonikkuleik og jólaálfarnir mættu á svæðið ásamt Vorboðunum, kór eldri borgara. Svo var boðið upp á skógarkaffi og heitt súkkulaði.
Á sunnudeginum fór ég í Gljúfrastein að hlusta á upplestur Jóns Kalmans, Elísabetar Jökuls, Kristínar Eiríks og Guðrúnar Mínevru. Þar hitti ég Guðnýju Gestsdóttur forstöðumann safnsins og fleira starfsfólk. Mjög notaleg stund í þessu fallega og sögufræga húsi.
Á mánudeginum var undirritaður tímamótasamningur á milli Mosfellsbæjar, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Kjósarhrepps og SSH um sameiginlegt umdæmisráð í barnaverndarmálum. Með umdæmisráðinu verða barnaverndarnefndir sveitarfélaganna lagðar niður. Umdæmisráðið verður skipað þremur aðilum, lögfræðingi sem er jafnframt formaður ráðsins, sálfræðingi og félagsráðgjafa. Sveitarfélögin munu hvert um sig bera ábyrgð á vinnslu barnaverndarmála líkt og verið hefur en ákvörðunarvaldið þegar kemur að þyngsta enda málanna er nú fært til sjálfstæðra stjórnsýslunefnda, þ.e. umdæmisráða, og starfsemi þeirra verður aðskilin frá barnaverndarþjónustu sveitarfélaganna. Umdæmisráðin fá þá afmarkað hlutverk en þau taka eingöngu fyrir barnaverndarmál sem barnaverndarþjónustur sveitarfélaganna vísa til þeirra, þegar taka þarf íþyngjandi ákvarðanir með úrskurði og samþykki liggur ekki fyrir. Umdæmisráðin munu því t.d. taka ákvarðanir um fóstur, um hvort heimilt sé að beita úrræðum án samþykkis foreldra þegar þörf er á og fjalla um og úrskurða um umgengni foreldra við börn sem eru í fóstri.
Á mánudeginum tók ég einnig þátt í úthlutun styrkja úr sameiginlegum sjóði sveitarfélaganna sem kallast Sóley en eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins er að hvetja til þátttöku atvinnulífsins í nýsköpunarverkefnum á sviði velferðar-og samfélagsmála annars vegar og umhverfis- og samgöngumála hins vegar. Það voru sjö verkefni sem fengu styrki, ein milljón króna hvert.
Ég hélt jólaforstöðumannafund á þriðjudag, þar sem forstöðumönnum allra stofnana bæjarins var boðið og þar gerði ég grein fyrir verkefnatillögu Strategíu um stjórnsýslu- og rekstrarúttekt auk þess að við fengum leynigest – Helgu Brögu Jónsdóttur leikkonu sem fór á kostum og endaði á að láta okkur dansa með sér magadans.
Það hefur verið venja hér að bæjarstjóri fari á stofnanir Mosfellsbæjar fyrir jólin og færi starfsmönnum góðgæti. Ég viðheld að sjálfsögðu þeirri góðu hefð og fór í leiðangur á þriðjudag og miðvikudag með aðstoð Hugrúnar verkefnisstjóra á bæjarskrifstofunni. Okkur var mjög vel tekið alls staðar og forsíðumyndin að þessu sinni er af þeim Heklu og Ingunni í íþróttamiðstöðinni Lágafelli.
Á miðvikudag fór ég á fund forsætisráðherra, innviðaráðherra og fjármálaráðherra ásamt borgarstjóra og öðrum bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu þar sem við ræddum samgöngusáttmálann, sem var undirritaður á síðasta kjörtímabili og fjallar meðal annars um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Endurbætur á Vesturlandsvegi og samgöngustígurinn sem var vígður í sumar eru einmitt verkefni sem samið var um í samgöngusáttmálanum.
Við héldum jólapeysudag á skrifstofunni í gær, fimmtudag og skemmtinefndin sá um veitingar í dagslok. Hér er mikill metnaður og skreytingar í hámarki í sumum deildum.
Að venju hafa ýmsir fundir verið haldnir í vikunni sem snúa að hagsmunum einstakra fyrirtækja og stofnana, auk hefðbundinna funda s.s. bæjarráðs. Vonir stóðu til að við gætum tekið gott fundarfrí á milli jóla og nýárs en rétt í þessu bárust okkur þær fréttir að það hefði náðst samkomulag á milli þriggja ráðuneyta og sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. Með þessu samkomulagi verður gerð breyting á útsvarsprósentu sveitarfélaga sem mun hækka um 0,22 % samhliða lækkun á tekjuskatti svo að skattgreiðendur munu ekki finna fyrir breytingunni. Þetta á að skila um fimm milljörðum inn í málaflokkinn sem hefur verið mjög vanfjármagnaður. Sveitarstjórnir þurfa að samþykkja þessa breytingu fyrir áramót þannig að það þarf að blása til fundar í bæjarstjórn.
Ég ætla að hafa þetta síðasta föstudagspistilinn á þessu ári þar sem ég reikna með að ég verði aðallega í skrifborðsvinnu næstu daga og óska ykkur hér með gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Ég þakka innilega fyrir góðar móttökur á þessu hausti og hlakka til komandi árs hér í Mosfellbæ.
Regína Ásvaldsdóttir
1. Í jólaskóginum við Hamrahlíð. Auk Stekkjastaurs og Hurðasníkis eru það þeir Lúðvík Frímannsson og Pétur Sveinþórsson frá Ásgarði sem eru með mér á myndinni ásamt Ívari Erni Þrastarsyni frá skógræktarfélagi Mosfellsbæjar
2. Helga Braga í essinu sínu
3. Með Þrúði skólastjóra Krikaskóla
4. Hugrún Ósk Ólafsdóttir verkefnisstjóri á þjónustu og samskiptasviði í leiðangri okkar á stofnanir með konfekt og mandarínur
5. Vinnufélagarnir á umhverfissviði komnir í jólaskap
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024