Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
2. júní 2024

Þeg­ar ég hóf pistla­skrifin í gær, laug­ar­dag­inn 1. júní þá var ekki far­ið að telja upp úr kjör­köss­un­um og spenn­an í al­gleym­ingi. Það var því erfitt að festa hug­ann við verk­efni maí­mán­að­ar og pistla­skrif urðu að víkja.

Í dag erum við búin að kjósa for­seta, Höllu Tóm­as­dótt­ur sem ég óska inni­lega til ham­ingju með kjör­ið. Halla er vel að sigr­in­um komin en hún sýndi mikla seiglu í gegn­um kosn­inga­bar­átt­una og missti ekki móð­inn þó að töl­urn­ar hafi ekki ver­ið henni hag­stæð­ar í upp­hafi.

Ég hitti ein­mitt Höllu á mjög skemmti­leg­um kosn­inga­fundi í Hlé­garði fyr­ir viku síð­an en ég fór á fund­inn hjá henni og einn­ig hjá Katrínu Jak­obs­dótt­ur þeg­ar hún kom í Eir­hamra.

Það var óvenju fjöl­menn­ur hóp­ur glæsi­legra fram­bjóð­enda sem bauð sig fram í kosn­ing­un­um og ég hugs­aði oft um hvað við vær­um rík af góðu fólki sem var til­bú­ið að leggja allt í söl­urn­ar í kosn­inga­bar­átt­unni. Þó um­ræð­an hafi ver­ið ljót og hat­urs­full á ýms­um sam­fé­lags­miðl­um þá féllu fram­bjóð­end­urn­ir sjálf­ir aldrei í þann pytt að tala aðra fram­bjóð­end­ur nið­ur og það er mjög virð­inga­vert.

Þess­ar kon­ur sem prýða for­síðu pist­ils­ins í dag hafa svo sann­ar­lega stað­ið í stór­ræð­um að und­an­förnu en kosn­ing­ar krefjast mik­ils und­ir­bún­ings og á sjálf­an kosn­inga­dag­inn eru marg­ir kall­að­ir til starfa. Á mynd­inni eru þær Elín Árna­dótt­ir formað­ur kjör­stjórn­ar, Júlí­ana Guð­munds­dótt­ir full­trúi í kjör­stjórn, Þóra Mar­grét Hjaltested bæj­ar­lög­mað­ur sem hef­ur yf­ir­um­sjón með kosn­ing­un­um af hendi stjórn­sýsl­unn­ar og Ingi­björg Al­exía starfs­mað­ur á bæja­skrif­stof­unni sem stóð vakt­ina í Lága­fell­skóla. Ég fékk sem bet­ur fer að gera smá gagn og fór með at­kvæði sem þurfti að rata á rétt­an kjör­stað í ráð­hús Reykja­vík­ur. Þar tók Helga Lax­dal á móti mér en hún stýr­ir kosn­ing­un­um í Reykja­vík fyr­ir hönd borg­ar­kerf­is­ins.

Ann­ars hef­ur mán­uð­ur­inn að nokkru leyti snú­ist um hand­bolta en meist­ara­flokk­ur karla háði fjóra afar spenn­andi leiki við FH um Ís­lands­meist­ara­titil­inn og end­aði með silf­ur­verð­laun­in. Þriðji flokk­ur karla náði líka glæsi­leg­um ár­angri í hand­bolt­an­um og varð Ís­lands­meist­ari. Það voru fleiri sem gerðu það gott en 9 flokk­ur karla vann  fyrsta Ís­lands­meist­ara­tit­il Aft­ur­eld­ing­ar í körfu­bolta. Vel gert!

Öld­unga­mót í blaki var hald­ið í Mos­fells­bæ helg­ina 10 til 11 maí og tóku yfir 1.300 kepp­end­ur þátt. Það var mik­il ánægja með alla um­gjörð móts­ins.  Ég var svo hepp­in að vera boð­ið á loka­hóf­ið og ég hef sjald­an upp­lifað jafn fjöl­menna sam­komu en hóf­ið var hald­ið í íþrótta­hús­inu hér í Mos­fells­bæ. Stjarna kvölds­ins var að sjálf­sögðu Gunna Stína sem hélt utan um alla þræði, af sinni al­kunnu ástríðu fyr­ir blak­inu.

Í byrj­un maí sótti ég vinnu­daga bæj­ar- og sveit­ar­stjóra lands­ins sem voru haldn­ir í Múla­þingi en þess­ir fund­ir eru ár­lega og til skipt­is í sveit­ar­fé­lög­um lands­ins. Covid setti þó strik í reikn­ing­inn og þetta var fyrsti fund­ur­inn í nokk­ur ár. Á fund­un­um er bæði fræðslu­dagskrá en það er líka far­ið í kynn­is­ferð­ir um við­kom­andi sveit­ar­fé­lög til að skoða það helsta í stjórn­sýslu og at­vinnu­lífi. Ótrú­lega gef­andi að hitta koll­ega sem eru að kljást við sömu verk­efn­in, víðs­veg­ar um land­ið.

Hér í Mos­fells­bæ eru ótrú­lega mikl­ar fram­kvæmd­ir í gangi þessa dag­ana. Bæj­ar­ráð sam­þykkti út­hlut­un­ar­skil­mála fyr­ir lóð­ir í Helga­fellsland­inu, síð­ari út­hlut­un í 5 áfanga en í boði  eru 50 lóð­ir við Úu­götu.  Þar er gert ráð fyr­ir 30 ein­býl­is­hús­um, átta par­hús­um (16 íbúð­ir) og einu fjög­urra ein­inga rað­húsi. Að mínu mati er Úugata eitt glæsi­leg­asta bygg­ing­ar­svæði höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins. Lóð­irn­ar sitja hátt í land­inu með mik­ið út­sýni. Við eigum því von á góðum tilboðum.

Fram­kvæmd­ir eru á fullu á Varmár­svæð­inu en fyr­ir­tæk­ið Óskatak sér um verk­ið. Það hef­ur geng­ið mjög vel og hrað­ar fyr­ir sig en við þorð­um að vona. Þá ganga fram­kvæmd­ir við leik­skól­ann í Helga­fellsland­inu afar vel en í þess­um mán­uði þá skrif­aði ég und­ir við­auka við samn­ing um inn­rétt­ing­ar við Magnús Þór Magnús­son for­stjóra fyr­ir­tæk­is­ins Al­efl­is sem sér um bygg­ingu leik­skól­ans. Við það til­efni var bæj­ar­full­trú­um og starfs­fólki á um­hverf­is­sviði og fræðslu og frí­stunda­sviði boð­ið að koma og skoða leik­skól­ann.

Vinna Al­efl­is felst í að steypa upp leik­skól­ann, fram­kvæma nauð­syn­leg­ar fyll­ing­ar inn­an lóð­ar og mann­virkja ásamt því að loka og klára hús­ið að fullu að inn­an og utan. Lóð leik­skól­ans verð­ur við opn­un full­klár­uð með leik­tækj­um, bíla­plani og göngu­leið­um og skal verk­inu að fullu lok­ið 1. maí 2025. Stefnt er að því að leikskólinn taki á móti fyrstu börnunum haustið 2025.

Í mánuðinum héldum við vinnufund í Hlégarði með Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um Álafosskvosina þar sem helstu hagaðilum, fulltrúum íbúa, ferðaþjónustufyrirtækja og félagasamtaka var boðið að koma og taka þátt. Spurningin var hvort Álafosskvos ætti að stefna á ferðaþjónustu og þá hvernig. Fundurinn var mjög góður og margar gagnlegar ábendingar fengust.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar fagnaði 60 ára afmæli með hátíðartónleikum í Hlégarði. Þar spiluðu alla deildir hljómsveitarinnar og undir lokin spiluðu fyrrum nemendur skólans undir stjórn Birgis D. Sveinssonar, fyrsta stjórnanda hljómsveitarinnar en hann sinnti starfinu í 40 ár. Daði Þór Einarsson er búinn að vera stjórnandi síðastliðin 20 ár og við þetta tilefni færði ég honum blómvönd og rafmagnspíanó að gjöf til skólans frá Mosfellsbæ. Þá voru þrír kennarar kvaddir við þetta tilefni, þau Þorkell Jóelsson sem hefur verið viðloðandi hljómsveitina alveg frá byrjun, fyrst sem nemandi og síðar kennari, Jón Guðmundsson sem hefur starfað í 20 ár og Sigrún Jónsdóttir sem hefur verið kennari síðastliðin 6 ár. Hlégarður var þétt setinn þetta kvöld og voru tónleikarnir einstaklega vel heppnaðir.

Ég ætla að hafa pistilinn í styttra lagi þennan votviðrasama sunnudag en framundan í dag er góðgerðaleikur fyrir malavísku drengina Levie og Precious sem spila annars vegar með stjörnuliði Balla Hallgríms og hinsvegar „Hall of fame“ hjá Aftureldingu. Þá eru stofutónleikar í Gljúfrasteini með tónlistarmanninum unga, Kára Egilssyni.

Að lokum – gleðilegan sjómannadag!

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-14:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-14:00