Þegar ég hóf pistlaskrifin í gær, laugardaginn 1. júní þá var ekki farið að telja upp úr kjörkössunum og spennan í algleymingi. Það var því erfitt að festa hugann við verkefni maímánaðar og pistlaskrif urðu að víkja.
Í dag erum við búin að kjósa forseta, Höllu Tómasdóttur sem ég óska innilega til hamingju með kjörið. Halla er vel að sigrinum komin en hún sýndi mikla seiglu í gegnum kosningabaráttuna og missti ekki móðinn þó að tölurnar hafi ekki verið henni hagstæðar í upphafi.
Ég hitti einmitt Höllu á mjög skemmtilegum kosningafundi í Hlégarði fyrir viku síðan en ég fór á fundinn hjá henni og einnig hjá Katrínu Jakobsdóttur þegar hún kom í Eirhamra.
Það var óvenju fjölmennur hópur glæsilegra frambjóðenda sem bauð sig fram í kosningunum og ég hugsaði oft um hvað við værum rík af góðu fólki sem var tilbúið að leggja allt í sölurnar í kosningabaráttunni. Þó umræðan hafi verið ljót og hatursfull á ýmsum samfélagsmiðlum þá féllu frambjóðendurnir sjálfir aldrei í þann pytt að tala aðra frambjóðendur niður og það er mjög virðingavert.
Þessar konur sem prýða forsíðu pistilsins í dag hafa svo sannarlega staðið í stórræðum að undanförnu en kosningar krefjast mikils undirbúnings og á sjálfan kosningadaginn eru margir kallaðir til starfa. Á myndinni eru þær Elín Árnadóttir formaður kjörstjórnar, Júlíana Guðmundsdóttir fulltrúi í kjörstjórn, Þóra Margrét Hjaltested bæjarlögmaður sem hefur yfirumsjón með kosningunum af hendi stjórnsýslunnar og Ingibjörg Alexía starfsmaður á bæjaskrifstofunni sem stóð vaktina í Lágafellskóla. Ég fékk sem betur fer að gera smá gagn og fór með atkvæði sem þurfti að rata á réttan kjörstað í ráðhús Reykjavíkur. Þar tók Helga Laxdal á móti mér en hún stýrir kosningunum í Reykjavík fyrir hönd borgarkerfisins.
Annars hefur mánuðurinn að nokkru leyti snúist um handbolta en meistaraflokkur karla háði fjóra afar spennandi leiki við FH um Íslandsmeistaratitilinn og endaði með silfurverðlaunin. Þriðji flokkur karla náði líka glæsilegum árangri í handboltanum og varð Íslandsmeistari. Það voru fleiri sem gerðu það gott en 9 flokkur karla vann fyrsta Íslandsmeistaratitil Aftureldingar í körfubolta. Vel gert!
Öldungamót í blaki var haldið í Mosfellsbæ helgina 10 til 11 maí og tóku yfir 1.300 keppendur þátt. Það var mikil ánægja með alla umgjörð mótsins. Ég var svo heppin að vera boðið á lokahófið og ég hef sjaldan upplifað jafn fjölmenna samkomu en hófið var haldið í íþróttahúsinu hér í Mosfellsbæ. Stjarna kvöldsins var að sjálfsögðu Gunna Stína sem hélt utan um alla þræði, af sinni alkunnu ástríðu fyrir blakinu.
Í byrjun maí sótti ég vinnudaga bæjar- og sveitarstjóra landsins sem voru haldnir í Múlaþingi en þessir fundir eru árlega og til skiptis í sveitarfélögum landsins. Covid setti þó strik í reikninginn og þetta var fyrsti fundurinn í nokkur ár. Á fundunum er bæði fræðsludagskrá en það er líka farið í kynnisferðir um viðkomandi sveitarfélög til að skoða það helsta í stjórnsýslu og atvinnulífi. Ótrúlega gefandi að hitta kollega sem eru að kljást við sömu verkefnin, víðsvegar um landið.
Hér í Mosfellsbæ eru ótrúlega miklar framkvæmdir í gangi þessa dagana. Bæjarráð samþykkti úthlutunarskilmála fyrir lóðir í Helgafellslandinu, síðari úthlutun í 5 áfanga en í boði eru 50 lóðir við Úugötu. Þar er gert ráð fyrir 30 einbýlishúsum, átta parhúsum (16 íbúðir) og einu fjögurra eininga raðhúsi. Að mínu mati er Úugata eitt glæsilegasta byggingarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Lóðirnar sitja hátt í landinu með mikið útsýni. Við eigum því von á góðum tilboðum.
Framkvæmdir eru á fullu á Varmársvæðinu en fyrirtækið Óskatak sér um verkið. Það hefur gengið mjög vel og hraðar fyrir sig en við þorðum að vona. Þá ganga framkvæmdir við leikskólann í Helgafellslandinu afar vel en í þessum mánuði þá skrifaði ég undir viðauka við samning um innréttingar við Magnús Þór Magnússon forstjóra fyrirtækisins Aleflis sem sér um byggingu leikskólans. Við það tilefni var bæjarfulltrúum og starfsfólki á umhverfissviði og fræðslu og frístundasviði boðið að koma og skoða leikskólann.
Vinna Aleflis felst í að steypa upp leikskólann, framkvæma nauðsynlegar fyllingar innan lóðar og mannvirkja ásamt því að loka og klára húsið að fullu að innan og utan. Lóð leikskólans verður við opnun fullkláruð með leiktækjum, bílaplani og gönguleiðum og skal verkinu að fullu lokið 1. maí 2025. Stefnt er að því að leikskólinn taki á móti fyrstu börnunum haustið 2025.
Í mánuðinum héldum við vinnufund í Hlégarði með Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um Álafosskvosina þar sem helstu hagaðilum, fulltrúum íbúa, ferðaþjónustufyrirtækja og félagasamtaka var boðið að koma og taka þátt. Spurningin var hvort Álafosskvos ætti að stefna á ferðaþjónustu og þá hvernig. Fundurinn var mjög góður og margar gagnlegar ábendingar fengust.
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar fagnaði 60 ára afmæli með hátíðartónleikum í Hlégarði. Þar spiluðu alla deildir hljómsveitarinnar og undir lokin spiluðu fyrrum nemendur skólans undir stjórn Birgis D. Sveinssonar, fyrsta stjórnanda hljómsveitarinnar en hann sinnti starfinu í 40 ár. Daði Þór Einarsson er búinn að vera stjórnandi síðastliðin 20 ár og við þetta tilefni færði ég honum blómvönd og rafmagnspíanó að gjöf til skólans frá Mosfellsbæ. Þá voru þrír kennarar kvaddir við þetta tilefni, þau Þorkell Jóelsson sem hefur verið viðloðandi hljómsveitina alveg frá byrjun, fyrst sem nemandi og síðar kennari, Jón Guðmundsson sem hefur starfað í 20 ár og Sigrún Jónsdóttir sem hefur verið kennari síðastliðin 6 ár. Hlégarður var þétt setinn þetta kvöld og voru tónleikarnir einstaklega vel heppnaðir.
Ég ætla að hafa pistilinn í styttra lagi þennan votviðrasama sunnudag en framundan í dag er góðgerðaleikur fyrir malavísku drengina Levie og Precious sem spila annars vegar með stjörnuliði Balla Hallgríms og hinsvegar „Hall of fame“ hjá Aftureldingu. Þá eru stofutónleikar í Gljúfrasteini með tónlistarmanninum unga, Kára Egilssyni.
Að lokum – gleðilegan sjómannadag!
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024