Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
1. apríl 2025

Það er sann­kall­að­ur gleði­dag­ur í dag, 1. apríl en við vor­um að und­ir­rita samn­inga um sam­þætta heima­þjón­ustu við íbúa Mos­fells­bæj­ar, aukna dagdval­ar­þjón­ustu með fleiri rým­um og stofn­un end­ur­hæf­ing­ar­t­eym­is fyr­ir fólk í heima­hús­um. Með samn­ing­un­um verð­ur rekst­ur allr­ar heima­þjón­ustu á hendi Eir­ar sem rek­ur hjúkr­un­ar­heim­ili og dagdvöl í Mos­fells­bæ. Dagdvölin stækk­ar til muna og verð­ur þar rými fyr­ir 25 ein­stak­linga í stað níu áður. Með því að efla og sam­þætta heima- og dag­þjálf­un­ar­þjón­ustu á einni hendi vilj­um við bregð­ast bet­ur við  ein­stak­lings­bundn­um þörf­um not­enda og bregð­ast tím­an­lega við breyt­ing­um á að­stæð­um þeirra og heilsu­fari.

Und­ir­rit­un­in fór fram að Hlað­hömr­um og voru Inga Sæ­land, fé­lags- og hús­næð­is­mála­ráð­herra og  Alma D. Möl­ler, heil­brigð­is­ráð­herra við­stadd­ar og fluttu ávörp.  Ey­björg Helga Hauks­dótt­ir, for­stjóri hjúkr­un­ar­heim­il­is­ins Eir­ar tók á móti gest­um en fjöl­mennt var við at­höfn­ina.

For­síðu­mynd­in er ein­mitt af und­ir­bún­ings­hópn­um sem kom að gerð samn­ing­anna en það eru þau Berg­lind Magnús­dótt­ir og Herdís Björns­dótt­ir frá fé­lags­mála­ráðu­neyt­inu,  Guð­leif Birna Leifs­dótt­ir, Mos­fells­bæ, Ragn­heið­ur Ósk Er­lends­dótt­ir frá heilsu­gæslu höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, Ey­björg Hauks­dótt­ir for­stjóri Eir­ar, Sig­ur­björg Fjöln­is­dótt­ir sviðs­stjóri vel­ferð­ar­sviðs Mos­fells­bæj­ar, Þórdís Hulda Tóm­as­dótt­ir, Eir og Ingi Þór frá Eir.

Mars hef­ur sann­ar­lega ver­ið við­burða­rík­ur mán­uð­ur þar sem menn­ing­in hef­ur blómstrað sem aldrei fyrr. Menn­ing­ar- og lýð­ræð­is­nefnd lagði af stað í þenn­an leið­ang­ur, að búa til menn­ing­ar­dagskrá í mars fyr­ir tveim­ur árum og hef­ur verk­efn­ið þró­ast í mjög góða átt. Það var fullt út úr dyr­um í Hlé­garði á fimmtu­dags­kvöld þeg­ar hald­ið var sögu­kvöld­ið Ála­fossull er á við gull. Það var Hér­aðs­skjala­safn Mos­fells­bæj­ar í sam­vinnu við Hlé­garð og menn­ing­ar- og lýð­ræð­is­nefnd sem stóð að und­ir­bún­ingi sögu­kvölds­ins ásamt Leik­fé­lagi Mos­fells­sveit­ar. Bjarki Bjarna­son rit­höf­und­ur tók á móti gest­um en við­mæl­end­ur hans voru Magnús Guð­munds­son, Linda Björk Stef­áns­dótt­ir og Bjarni Ás­geirs­son en þau þekkja vel til sögu og sam­fé­lags­ins á Ála­fossi. Þá tók Álafosskórinn lagið en hann var stofnaður fyrir um áttatíu árum síðan.

Ég komst því miður ekki á sögukvöldið því ég var í fræðsluferð bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar – sem ég segi frá síðar í pistlinum en fékk sendar myndir og upptökur af fundinum. Og áhugi bæjarbúa á sögukvöldinu er greinilega mikill því þegar þetta er ritað hefur sögukvöldið Álafossull er á við gull  fengið átta þúsund og sjö hundruð heimsóknir á vefsíðu Mosfellsbæjar en þar er hægt að spila upptöku af kvöldinu.

Ég sótti hinsvegar mjög fjölmenna opnun á sýningunni Mars konur sem var haldin í Listasal Mos­fells­bæj­ar helgina á undan en þar sýna lista­kon­urn­ar Elísa­bet Stef­áns­dótt­ir, Fríða Gauks­dótt­ir og bæj­arlista­mað­ur­inn Þóra Sig­ur­þórs­dótt­ir verk sín.  Sama dag stóð kvennakór­inn Stöll­urn­ar fyr­ir menn­ing­ar­veislu í Kjarna með söng, mynd­list, blóma­skreyt­ingum, smá­sagna og ljóða­lest­ri og var fjöldi manns mættur til að taka þátt í viðburðinum.

Í byrjun mars tók ég fyrstu skóflustunguna að tveimur nýjum fjölbýlishúsum Bjargs leigufélags í Úugötu ásamt Ólafi Ósk­ars­syni formanni velferðarnefndar og Sig­ur­björgu Fjöln­is­dótt­ur sviðs­stjóra vel­ferð­ar­sviðs. Fyr­ir hönd ASÍ var Finnbjörn A. Hermannsson og frá Bjargi  Björn Trausta­son fram­kvæmda­stjóri.  Fyr­ir hönd bygg­ing­ar­að­ila voru þeir Bald­ur Páls­son og Hjálm­ar Jóns­son hjá Eð­al­bygg­ing­um. Um er að ræða 24 íbúðir og er stefnt að því að klára bygginguna næsta haust.

Bjarg er sjálf­seign­ar­stofn­un sem er rekin án hagn­að­ar­mark­miða og er ætlað að tryggja tekju­lág­um ein­stak­ling­um og fjöl­skyld­um á vinnu­mark­aði, sem eru full­gild­ir fé­lags­menn að­ild­ar­fé­laga ASÍ eða BSRB, að­gengi að ör­uggu íbúð­ar­hús­næði í lang­tíma­leigu.

Bæj­ar­ráð sam­þykkti út­hlut­un lóð­anna í tengsl­um við 5. áfanga Helga­fells­hverf­is. Á því svæði hef­ur ver­ið skipu­lögð 151 íbúð sem mynd­ar bland­aða byggð í hlíð á móti suðri. Byggingarfélagið Bakki hefur nýlega selt 30 íbúðir á svæðinu en þær  uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán. Fyrir nokkrum dögum voru svo auglýstar 16 einbýlishúsalóðir á svæðinu og er umsóknarfrestur til 22. apríl. Hér má sjá upplýsingar um lóðirnar.

Eins og fram hefur komið í pistlum áður þá hafa rakaskemmdir og léleg loftgæði orðið til þess að leikskólanum Hlaðhömrum hefur verið lokað. Starfsemin er nú í bráðabirgðahúsnæði að Þverholti 3, 5 og 7 en flytur í sumar í nýja leikskólann í Helgafellshverfi. Bæj­ar­ráð hefur sam­þykkt að fara í heild­ar­end­ur­skoð­un á hús­næði leik­skól­ans  til þess að meta hvort eigi að rífa allt hús­ið og byggja nýtt eða að hluta.  Það helst einn­ig í hend­ur við fram­tíð­ar­sýn um upp­bygg­ingu leik­skóla í bæn­um. Frá því að ný bæjarstjórn tók við völdum hefur verið farið í viðgerðir á skemmdu skólahúsnæði upp á tæpa tvo milljarða króna og fyrir liggur að það þarf að endurbyggja eða byggja nýjan  leikskóla í stað Hlaðhamra auk þess sem það þarf að endurnýja jarðhæð Varmárskóla. Heildarkostnaður gæti því numið í kringum 4 milljarða króna í verkefni sem ekki var gert ráð fyrir í langtíma áætlunum sveitarfélagsins.

Í fyrstu viku marsmánaðar þá fengum við sem erum í almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins kynningu á skýrslum Veðurstofunnar um jarðskjálftavá á höfuðborgarsvæðinu og náttúruvá  – eldsumbrot, jarðskjálftar og sprunguhreyfingar. Stefnt er að kynningu fyrir bæjarfulltrúa á föstudag og í framhaldinu verða skýrslurnar gefnar út og kynntar almenningi.

Í sömu viku héldum við í stjórn SSH fund með þingmönnum og sveitarstjórnarfólki á höfuðborgarsvæðinu og völdum tvö málefni til að fjalla um við þingmenn, börn með fjölþættan vanda og málaflokk fatlaðs fólks. Það kom í minn hlut að fjalla um börn með fjölþættan vanda en kynninguna má sjá hér.

Í máli mínu kom fram að  um langt skeið, allt frá árinu 2013, hafa verið unnar fjölmargar skýrslur og stýri- og vinnuhópar skipaðir til að kortleggja og greina þjónustuþörf barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir. Ljóst er að þörfin kallar á minnst 100 úrræði á hverjum tíma fyrir börn með fjölþættan vanda og í meðferðarkerfinu í heild sinni. Þá kom fram að þróun rekstrargjalda félagsþjónustu sveitarfélaga við börn og unglinga hefur aukist um 500% á árinum 2005 til 2020 á meðan framlög til úrræða sem rekin eru af Barna- og fjölskyldustofu hafa nánast staðið í stað. Í framhaldinu fór ég í nokkur viðtöl, m.a. í þáttinn Þetta helst á Rás 1, í Bítið á Bylgjunni og í Spegilinn á Rás 1.

Í síðastnefnda viðtalinu var ég meðal annars að ræða fyrirhugaða uppbyggingu á Farsældartúni í Mosfellsbæ.  Það eru liðin tæp tvö ár frá því að skrifað var undir samning á milli  mennta-og barnamálaráðuneytis, innviðaráðuneytis, IOGT og Mosfellsbæjar vegna fasteigna, lóða og þjónustu í Skálatúni í Mosfellsbæ. Skálatún var sjálfseignastofnun í eigu IOGT sem hafði starfað í 70 ár. Mosfellsbær tók við þjónustunni við íbúa Skálatúns sem voru 33 talsins og höfðu margir búið þar í áratugi. Í samningnum er sólarlagsákvæði varðandi íbúana – þeir búa eins lengi á heimilum sínum og þeir kjósa.

Allar fasteignir og ráðstöfun á landinu féll í hlut ríkisins, með því skilyrði að þarna yrði byggð upp þjónusta við börn og ungmenni á Íslandi. Landið er bundið þessum skilmálum. Þarna verður því hvorki íbúabyggð né önnur starfsemi, með þeim fyrirvara að Mosfellsbær hefur að sjálfsögðu skipulagsvaldið. Um er að ræða 6 hektara land. Sjálfseignastofnunin Farsældartún sem er að fullu í eigu ríkisins og heyrir undir mennta-og barnamálaráðuneytið vinnur nú að undirbúningi deiliskipulags svæðisins. Markmiðið er að þarna verði byggðar upp m.a. meðferðareiningar og búsetukjarnar fyrir börn með fjölþættan vanda. Ennfremur húsnæði fyrir Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Ráðgjafar og greiningastöð og Barna-og fjölskyldustofu en allar þessar stofnanir eru að vinna að sama markmiðinu, að veita góða þjónustu fyrir börn og ungmenni og eru í dag í leiguhúsnæði víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Það hefur ríkt mikil gleði og bjartsýni varðandi þetta verkefni – og verður vonandi áfram.

Barna og fjölskyldustofa óskaði í fyrrasumar eftir að taka húsið Blönduhlíð á leigu af Farsældartúni til að reka þar meðferðarheimili til bráðabirgða. Þá höfðu komið upp skemmdir á húsnæði Lækjarbakka og þau voru í vanda. Húsið var leigt með þeim fyrirvara að þau tækju að sér að undirbúa húsið undir starfsemina og sækja um tilskilin leyfi. Það voru því mikil vonbrigði þegar kom í ljós að húsið stæðist ekki fyllstu öryggiskröfur fyrir þá starfsemi sem þau voru að undirbúa en Barna og fjölskyldustofu til varna þá opnuðu þau nokkrum vikum síðar  samskonar meðferðarheimili og var fyrirhugað í Blöndhlíð í húsnæði sem þau fengu til afnota á Vogi.  Þau voru búin að ráða forstöðumann í nóvember og annað starfsfólk – sem er kannski mikilvægasti parturinn í svona starfsemi. Það er mikilvægt að umræðan um Blönduhlíð yfirskyggi ekki þetta góða verkefni í Farsældartúni  – að IOGT ánafnaði ríkinu 6 hektara af landi til að byggja upp þjónustu við börn og ungmenni og það er góð undirbúningsvinna í gangi við að deiliskipuleggja svæðið. Markmiðið er að það verði fjölbreytt úrræði í boði á Íslandi, ekki bara í Farsældartúni, heldur víða um höfuðborgarsvæðið og um land allt.
Það kom verulega á óvart að fá þær upplýsingar í Kveik í haust að gert væri ráð fyrir flutningi Stuðla í Farsældartún því það hafði ekki verið rætt í stjórn sjálfseignastofnunarinnar. Við tókum fund í kjölfarið  í stjórninni og í framhaldinu með Barna og fjölskyldustofu til að taka af öll tvímæli um að á Farsældartúni hafði verið reiknað með búsetukjörnum fyrir börn með fjölþættan vanda og meðferðarheimili en ekki neyðarvistun og flutningi Stuðla á svæðið.

Það var mikið gleðiefni þegar það var loksins skrifað undir samninga á milli mennta-og barnamálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að ríkið taki yfir greiðslur vegna vistunar barna með fjölþættan vanda frá 1. júní næstkomandi og frá 1. janúar 2026 taki þau alfarið yfir þjónustuna við þennan hóp. Þannig ættum við að geta byggt upp sérþekkingu á Íslandi  í stað þess að hvert og eitt  sveitarfélag sé með ábyrgð á þjónustunni. Þá ætti að skapast meira svigrúm til þess að annast barnaverndarmál á fyrsta og öðru stigi, m.a. forvörnum og snemmtækri íhlutun. Daginn eftir undirskriftina var haldið Landsþing samband íslenskra sveitarfélaga þar sem Ásthildur Lóa Þórisdóttir þáverandi mennta- og barnamálaráðherra kynnti innihald samningsins og stóð fyrir svörum.

Þar var líka Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra en ég fékk ég tækifæri til að spyrja hann út í frumvarp um Jöfnunarsjóð en Mosfellsbær skilaði mjög ítarlegri umsögn um frumvarpið sem má finna hér.

Bókun bæjarráðs var svohljóðandi um frumvarpið: ,,Bæjarráð Mosfellsbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeim breytingum sem hafa verið gerðar á frumvarpi til nýrra laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og telur óhjákvæmilegt að gerðar verði breytingar á frumvarpinu. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun það þýða 400 milljóna króna lækkun framlags á ári. Tekjutap um 400 milljónir króna myndi óhjákvæmilega hafa veruleg neikvæð áhrif fyrir bæjarfélagið og skerða getu þess til þess að takast á við brýn verkefni sem sveitarfélög standa frammi fyrir. Þar sem Mosfellsbær er, eins og öll sveitarfélög, bundinn af fjármálareglum VII. kafla sveitarstjórnarlaga er vandséð hvernig sveitarfélagið á að geta eflt velferðarþjónustu og þjónustu við börn og barnafjölskyldur eða byggt upp ný íbúðasvæði í samræmi við áætlanir stjórnvalda. Vert er að undirstrika að slík tekjuskerðing yrði öllum sveitarfélögum mikil og erfið áskorun. Það sem Mosfellsbær og önnur ört vaxandi sveitarfélög þurfa á að halda er styrking tekjustofna, ekki veiking þeirra. Bæjarráð væntir þess að frumvarpið verði lagfært í samræmi við ábendingar í umsögn Mosfellsbæjar”.

Í svari ráðherra kom fram að það hafi að einhverji leyti verið tekið tillit til umsagnar Mosfellsbæjar en við munum fylgja þessu máli fast eftir, þar sem það eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi, ekki síst þegar til framtíðar er litið.

Á landsþinginu var Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar kjörin í stjórn sambandsins. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri sagði af sér formennsku á þinginu en hún hefur verið formaður frá árinu 2022 og komið mörgum góðum málum í gegn, m.a. auknu fjárframlagi í málaflokk fatlaðs fólks. Þá hefur hún ásamt stjórn og framkvæmdastjóra staðið fyrir skipulagsbreytingum á skrifstofu sambandsins, meðal annars með nýju þróunarsviði þar sem aukin áherslu hefur verið á vinnu með hagtölur og önnur tölfræðileg gögn sem nýtast sveitarfélögunum afar vel.

Fleira skemmtilegt var í gangi í mars, við fögnuðum 10 ára afmæli slökkvistöðvarinnar við Skarhólabraut, ég fór á uppskeruhátíð Römpum upp Ísland og við skrifuðum undir samning við Fagurverk um  lagnir og yfirborð gervigrasvallarins, sem á að vera tilbúinn síðsumars.

En i lok mars fórum við starfsfólk á bæjarskrifstofunni í fræðsluferð til Helsinki sem var einstaklega vel heppnuð. Við fræddumst um stafræna þróun borgarinnar, sameiningu velferðar og heilbrigðismála, uppbyggingu íþróttamannvirkja, samfélagshlutverk bókasafnsins, mannauðsmál og fengum góða fræðslu frá Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi um hlutverk utanríkisþjónustunnar og þá stöðu sem er uppi í varnar- og öryggismálum með áherslu á Finnland og Norðurlöndin. Svona fræðsluferðir eru einstaklega mikilvægar til að efla sameiginlegan áhuga og styrkja liðsheildina. Starfsmenn borga sjálfir fyrir svona ferðir en þeir eiga rétt á framlagi úr starfsmenntasjóði síns stéttarfélags. Það er rík hefð fyrir því að leikskólar og skólar og bæjarskrifstofan fari í sambærilegar fræðsluferðir, enda græðir Mosfellsbær á ánægðu starfsfólki og áhugasömu.

Það er vor í lofti en það byrjaði líka að gjósa í morgun og töluverð skjálftavirkni hefur verið í dag og fannst skjálfti mjög greinilega hér á bæjarskrifstofunum síðdegis. Ég vona svo sannarlega að þessi eldsumbrot gangi fljótt yfir og við förum að sjá fyrir endann á þessum umbrotatímum við Grindavík.

 

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00