Annasöm en skemmtileg vika að baki þar sem við lögðum fram fjárhagsáætlun til fyrri umræðu í bæjarstjórn á miðvikudag og í dag héldum við aðalfund SSH í Salnum í Kópavogi.
Vikan hófst með hefðbundnum hætti, undirbúningsfundur fyrir vinnu viðræðuhóps um samgöngusáttmálann var fyrstur á dagskrá kl. 8.00 á mánudagsmorgunn, því næst tók við reglubundinn fundur með sviðsstjórum, þá undirbúningsfundur stjórnsýslunnar fyrir bæjarráð og svo stjórnarfundur samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem var haldinn í Hamraborg í Kópavogi. Við reynum að halda staðfundi mánaðarlega en Teams fundi þess á milli.
Á þriðjudag átti ég fund með forsvarsfólki Eir öryggisíbúða, þá var haldinn stjórnarfundur Skálatúns ses með nýjum framkvæmdastjóra verkefnisins, Sóleyju Ragnarsdóttur. Það sem liggur fyrir er að gera úttekt á þeim húsum sem eru ekki i notkun á Skálatúni með það í huga að meta ástand þeirra. Sóley er einnig að ganga frá ýmsum málum sem tengjast stofnun nýs sjálfseignafélags.
Um eftirmiðdaginn gengum við nokkur saman af bæjarskrifstofunum, undir stjórn Sifjar Sturludóttur leiðtoga stafrænnar þróunar hjá Mosfellsbæ á fellin Reykjaborg og Lala. Við ákváðum í vetur að fagna hverri nýrri lausn sem er tekin í notkun hjá Mosfellsbæ og tengist stafrænni þróun með því að ganga á einn tind í bæjarfélaginu. Innleiðing á stafrænu lausnunum gengur það vel að á þriðjudag vorum við að fagna verkefnum númer 6 og 7 með því að ganga á Reykjaborg og Lala. Dásamleg ferð, fórum upp í björtu en komum niður í myrkri og þá komu höfuðljósin svo sannarlega að góðum notum.
Á miðvikudagsmorgun voru nokkrir innanhússfundir og eftir hádegi fögnuðum við með starfsfólki verkefnisins Römpum upp Ísland og íbúum og starfsfólki á Skálatúni verklokum á uppsetningu 18 rampa á svæðinu. Þar með hafa alls 86 rampar verið settir upp víðsvegar í Mosfellbæ en helstu staðirnir eru auk Skálatúns, Reykjalundur, Reykjadalur og Hlaðgerðarkot. Ég hef áður skrifað um verkefnið, þegar við vígðum ramp númer 900 á Íslandi á Reykjalundi hvað þetta er mikilvægt verkefni til að bæta aðgengi hreyfihamlaðra.
Bæjarstjórnarfundur hófst að venju kl. 16:30 þar sem fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram til fyrri umræðu. Í upphafi fundar gerði ég grein fyrir fjárhagsáætluninni, forsendum, helstu áhersluverkefnum sem farið verður í og fjárfestingum ársins 2024.
Ég er mjög ánægð með þessa áætlun þar sem við reiknum með að skila 945 milljóna króna rekstrarafgangi en getum samt fjárfest fyrir 3,4 milljarða nettó en fjárfestingin í heild nemur 4,9 milljörðum brúttó. Við stöndum jafnframt vörð um framúrskarandi þjónustu við börn og fjölskyldur. Í Mosfellsbæ eru börnin einna yngst að komast inn á leikskóla og hér eru dvalargjöldin lægst af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Eins og ég sagði í ræðunni þá kostar átta tíma vistun með fæði 28.784 í Mosfellsbæ, 32.277 í Reykjavík og 49.474 í Kópavogi. Þegar kemur að níu tíma vistun er bilið enn hærra, en það kostar 36.124 í Mosfellsbæ, 45.045 í Reykjavík og 77.474 í Kópavogi. Mosfellsbær greiðir ennfremur niður dagvistun hjá dagforeldrum þannig að foreldrar greiða jafnhátt gjald hjá dagforeldrum og á leikskólum til að jafna aðstæður barna, þ.e. þeirra sem komast inn rúmlega eins árs og þeirra sem þurfa að bíða lengur.
Áætlunin gerir jafnframt ráð fyrir lækkun á fasteignaskatti A til að koma til móts við hækkun á fasteignamati og verður 0,190% í stað 0,195% og skattur á atvinnuhúsnæði lækkar. Við gerðum ráð fyrir því í forsendum fjárhagsáætlunarinnar að sá skattur yrði lækkaður úr 1,510% en á fundinum kom fram tillaga frá meirihlutanum að lækka skattinn enn frekar, til að fylgja eftir nýsamþykktri atvinnustefnu eða í 1,495%.
Þegar kemur að framkvæmdum þá er stærsta einstaka framkvæmdin bygging leikskóla í Helgafellshverfi. Gert er ráð fyrir 900 milljónum á árinu í þá framkvæmd og að byggingu verði lokið haustið 2025. Þá er endurbygging aðalvallar við Varmá stór framkvæmd, einnig verða utanhúss framkvæmdir við Kvíslarskóla kláraðar, nýr battavöllur við Varmárskóla settur upp og farið í innréttingar í íþróttahúsinu við Helgafellsskóla en við munum teygja á þeirri framkvæmd þannig að kostnaðurinn komi á árunum 2024 og 2025.
Nýr búsetukjarni á að taka til starfa í Helgafellshverfi haustið 2024 sem Þroskahjálp byggir fyrir þá einstaklinga sem koma til með að búa í húsinu. Þroskahjálp mun reka húsið og innheimta leigu af íbúum en Mosfellsbær sér um þjónustu við íbúana. Lóðinni Úugötu 1 var úthlutað til Þroskahjálpar í mars 2023 en við uppbygginguna nýtur Þroskahjálp stofnframlags frá HMS og Mosfellsbæ.
Áfram verður byggt upp í Helgafellslandi en gert er ráð fyrir að úthluta þar lóðum á nýju ári. Þá er uppbygging innviða á atvinnusvæði í Blikastaðalandi á áætlun en samningar við Reiti kveða á um að Mosfellsbær sjái um hönnun gatna og gatnagerð sem verður áfangaskipt en gatnagerðagjöld verða innheimt við útgáfu byggingaleyfa. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að settar verði 340 m.kr. árið 2024 í framkvæmd við gatnagerð og veitur, en fyrsti hluti tekna 300 m.kr. er færður inn á árinu 2024.
Varðandi þjónustustig er áfram gert ráð fyrir að börn fædd 1. ágúst og fyrr komist inn í leikskóla haustið 2024. Það þýðir að við verðum að brúa bil með uppsetningu einnar eða tveggja lausra stofa.
Á árinu 2024 munum við setja vinnu við innleiðingu barnasáttmálans, í samræmi við áherslur í meirihlutasáttamálanum til að fá viðurkenningu sem barnvænt samfélag í algjöran forgang sem og farsæld barna. Við munum flétta þessi verkefni saman, til að ná sem bestum árangri. Þá gerum við ráð fyrir að fara í fjölmörg umbótaverkefni sem komu fram í skýrslu Strategíu, eins og efling stafrænnar þróunar og upplýsingatækni, innri endurskoðun, endurskoðun og samræming samþykkta nefnda, mælaborð gagna og árangursmælingar, reglubundnar þjónustukannanir, gerð siðareglna fyrir kjörna fulltrúa og starfsmenn og mótun þjónustustefnu.
Í stafrænum verkefnum þá má nefna innleiðingu Snjallmennis með GPT tækni sem er unnin í samstarfi nokkurra sveitarfélaga og er innleiðing áætluð í upphafi árs 2024. Við munum fá uppsetta leitarvél sem byggir á gervigreindarspjallmenni á vefsíðuna sem verður með notendavænu viðmóti ásamt greiningartóli. Innleiðing á lausninni mun bæta þjónustu við íbúa með því að auka aðgengi að upplýsingum og þjónustu sveitarfélaga. Við stefnum að því að hærra hlutfall þjónustubeiðna verði leyst án aðkomu starfsfólks þegar íbúar geta sett inn fyrirspurn í leitina eða spjallmennið í stað þess að hringja eða senda tölvupóst.
Þá erum við að fara í samstarfsverkefni með Reykjavíkurborg og Kópavogi um samnýtingu skólalausna, svo sem innritun í grunnskóla.
Síðan erum við að taka þátt sem eitt af þróunarsveitarfélögum í mótun nýrrar byggingargáttar í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS.) Gáttin mun hafa í för með sér bætta upplýsingagjöf og einfaldara viðmót fyrir notendur.
Á næsta ári verður settur fókus á innleiðingu á atvinnustefnu sem atvinnu- og nýsköpunarnefnd hefur nýlega samþykkt og verður ekki síst horft á ferðaþjónustuna þar sem við erum þátttakendur í nýstofnaðri markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.
Það eru líka mikil tækifæri fólgin í því að þróa Skálatúnssvæðið í gegnum nýstofnað félag, Skálatún ses og hefur stjórnin ráðið framkvæmdastjóra í 6 mánuði til að koma verkefninu af stað. Ríkið hefur sett inn fjármagn vegna starfsmannakostnaðar og til að fara í hugmyndavinnu og þarfagreiningu vegna uppbyggingar stofnana og þjónustu ríkisins við börn og fjölskyldur á þessu landi.
Það mun muna rækilega um þau störf í Mosfellsbæ, en þær stofnanir sem hafa verið nefndar, Barna og fjölskyldustofa, menntamálastofnun og greiningarstöð ríkisins eru með hundruð starfsmanna í vinnu. Einnig standa yfir viðræður við fleiri ráðuneyti vegna stofnana á þeirra vegum sem þjónusta börn.
Í verkefnum velferðarnefndar ber hæst að við vorum við valin sem eitt af sex svæðum til að taka þátt í verkefninu Gott að eldast – sem er samþætting stuðningsþjónustu og heimahjúkrunar. Verkefnið er unnið með heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og markmiðið er að horfa til nýrra lausna, eins og innleiðingu velferðartækni – en þar má finna dæmi bæði um skjáheimsóknir og lyfjaskammtara inn á heimili sem geta sparað sporin og bætt líf margra. Samhliða samþættingunni er áhugi á að þróa dagþjónustuna samhliða fjölgun pláss upp í 15 talsins. Þá felast í þessu verkefni, Gott að eldast, tvö stöðugildi sem ríkið kemur með, annarsvegar sjúkraþjálfari í endurhæfingu sem mun verða staðsettur á heilsugæslunni og sérstakur verkefnisstjóri sem vinnur gegn félagslegri einangrun, það er heimsækir fólk og aðstoðar við að komast í félagsstarf og verður staðsettur hjá okkur.
Á vettvangi íþrótta og lýðheilsumála er lögð áhersla á að gera aðgerðaáætlun og mælikvarða fyrir lýðheilsustefnuna sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili og það eru væntingar um að nýtt svið, menningar, íþrótta og lýðheilsusvið setji stóraukna áherslu á heilsueflandi samfélag. Þá er stefnt að því að vera með allt að 250 fundi, samkomur og viðburði í Hlégarði á næsta ári en starfsemin þar hefur eflst og blómstrað eftir að Mosfellsbær tók húsið yfir og réð viðburðastjóra í Hlégarð.
Á vettvangi fræðslunefndar hefur innleiðing menntastefnu verið í fullum gangi í skólunum frá því stefnunni var ýtt úr vör síðastliðið haust. Skólarnir hafa verið að kortleggja kennsluefni og verkfæri sem tengjast stoðum stefnunnar, Vexti, Fjölbreytni og Samvinnu og á næstu vikum verður séstakri heimasíðu um innleiðingu stefnunnar ýtt úr vör. Síðunni er ætlað að miðla upplýsingum og ýmis konar fræðslu- og kennsluefni milli skóla og til heimila auk þess að vera hvatning og stuðningur við skólaþróun.
Áhersla verður á upplýsingatækni í skólum Mosfellsbæjar og stofnaður verður upplýsingatæknihópur sem hefur það hlutverk að vera leiðandi fyrir þróun upplýsingatækni í grunnskólum Mosfellsbæjar til næstu ára
Í umhverfismálunum ber innleiðingu hringrásarhagkerfisins hæst og er stefnt að fjölgun grenndarstöðva og þær endurbættar. Þá verður tekið upp nýtt greiðslufyrirkomulag, Borgað þegar hent er. Loftslagsmálin verða fyrirferðarmikil í umhverfismálunum, sem og veitumál.
Greinargerðin sem fylgdi með fjárhagsáætlun má sjá hér fyrir neðan en hún er með áherslum á myndrænt talnaefni og voru bæjarfulltrúar mjög ánægðir með þessa breytingu sem okkar frábæra starfsfólk á fjármála- og áhættustýringarsviði og skrifstofu umbóta og þróunar unnu í samvinnu við sviðin.
Á fimmtudag hófst bæjarráð að venju klukkan hálf átta um morguninn og þar var meðal annars samþykkt að ganga til samninga við lægstbjóðanda vegna framkvæmda við gerð battavallar á lóð Varmárskóla, eða fyrirtækið Varg ehf í kjölfar útboðs.
Eftir bæjarráð fór ég ásamt bæjarfulltrúum og nokkrum stjórnendum í heimsóknir á sjö starfsstaði Mosfellsbæjar í bænum. Við byrjuðum á heimsókn í Kvíslarskóla þar sem við skoðuðum meðal annars jarðhæðina, þar sem framkvæmdir eiga sér stað við að endurbyggja þann hluta skólans. Vistarverurunar verða glæsilegar á eftir, þar sem bæjarráð tók þá ákvörðun að stækka og síkka alla glugga þannig að birtan verður allt önnur á eftir. Við reiknum með að framkvæmdir klárist í kringum áramót í skólanum. Þá heimsóttum við Varmárskóla, íþróttahúsið að Varmá, þjónustustöðina þar sem okkur var boðið upp á ljúffengan hádegisverð, Hlégarð, skammtímavistun fyrir börn í Hulduhlíð, Leirvogstunguskóla og loks Úlfinn, frístund fyrir fötluð börn. Þetta voru mjög gagnlegar og góðar heimsóknir þar sem stjórnendur ræddu á mjög hreinskilinn hátt það sem gengur vel í starfseminni og það sem má bæta.
Föstudagurinn var helgaður aðalfundi samtaka sveitarfélaga á höfuðbogarsvæðinu og þar sem ég er formaður þá tók ég virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd fundarsins sem var haldinn í Salnum í Kópavogi. Við fengum fulltrúa byggðasamlaganna til að koma á svæðið með nýjan sorpbíl þar sem við skoðuðum útbúnaðinn í tengslum við tvískiptu tunnurnar, þá vorum við með rafknúinn strætisvagn, slökkvibíl og sjúkrabíl á staðnum, til að skoða. Fulltrúar fyrirtækjanna héldu svo góða fyrirlestra um nýtt leiðarkerfi strætó, úrgangsflokkun á árinu og tillögur að staðsetningu slökkvistöðva á höfubðorgarsvæðinu til næstu 15 ára. Við fengum svo Huldu Þórisdóttur stjórnmálafræðing til að flytja erindi um hegðunarvísindi og áhrif þeirra á stefnumótun. Frábær fyrirlestur hjá Huldu. Þá flutti ég skýrslu stjórnar og sagði frá helstu atriðum í starfinu, sem er mikilvæg hagsmunagæsla gagnvart ríkinu og hafa málefnu tengd samgöngusáttmálanum og málaflokki fatlaðs fólks borið hæst á árinu. Þetta var góður fundur sem endaði á ræðu Guðlaugs Þórs umhverfisráðherra um loftslagsmál.
Ég fer inn í helgina, eins og flestir Íslendingar með hugann við Grindvíkinga og þær jarðhræringar sem eiga sér stað á Reykjanesskaganum. Sem betur fer eigum við framúrskarandi vísindafólk og viðbragðsaðila sem ég, eins og aðrir landsmenn treystum á þessa stundina.