Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2024 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í fyrradag, þann 6. desember. Það var reyndar kominn 7. desember þegar fundi lauk en hann stóð fram yfir miðnætti.
Ég ætla að tileinka fjárhagsáætluninni þennan pistil og birta ræðuna sem ég flutti við framlagningu áætlunarinnar.
,,Forseti, ágætu bæjarfulltrúar, Á þessum fundi leggjum við fram fjárhagsáætlun ársins 2024 og þriggja ára áætlun, til síðari umræðu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Ytri aðstæður
Tímarnir eru um margt mjög óvenjulegir. Það er óróleiki í heiminum sem hefur bein áhrif á efnahagsástandið og það er líka órói á Íslandi vegna jarðhræringa sem hafa skapað álag á íslenskt efnahagslíf.
Við erum háð ríkisvaldinu með fjármögnun á fjölmörgum verkefnum, svo sem í málaflokki fatlaðs fólks. Allt þetta ár hefur verið barátta fyrir því að fá viðurkenningu á raunútgjöldum í málaflokknum, miðað við þau lög og þær reglugerðir sem við störfum eftir. Við, sveitarfélögin teljum að það þyrfti að auka framlögin um 18 milljarða á ári, til að halda áfram að veita fötluðum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.
Ríkið hefur samþykkt tæpa 12 milljarða aukningu sem felst annars vegar í þeim 5 milljörðum sem komu í fjáraukalögum í fyrra, sem er 0,22 % af útsvarinu og mun að öllum líkindum hækka í 5,8 milljarða í lok næsta árs og hinsvegar er gert ráð fyrir 6 milljörðum í þeim fjáraukalögum sem eru fyrir þinginu núna.
Við lítum á þessa niðurstöðu sem áfanga en við hér á höfuðborgarsvæðinu höfum lagt áherslu á það að það verði að halda viðræðum áfram og útkljá mál eins og vistun barna með fjölþættan vanda. Sá málaflokkur slagar í 4 milljarða hjá sveitarfélögunum og gríðarlega mikilvægt að koma á fót sérhæfðri þjónustu á vegum Barna og fjölskyldustofu þar sem þekking og sérhæfing verði undir einni stjórn í þessum flóknu málum, í stað þess að hvert og eitt sveitarfélag sé að þróa þessa sérhæfðu þjónustu.
En það eru líka mörg jákvæð spor sem við höfum tekið með ríkinu, bæði sveitarfélögin í heild og síðan Mosfellsbær. Samningurinn um Skálatún gefur okkur fyrirheit um að það verði mjög áhugaverð uppbygging á Skálatúni í þágu barna og fjölskyldna og mörg spennandi atvinnutækifæri í sérhæfðum stofnunum á vegum ríkisins á svæðinu. Sameiningin á milli starfsfólks Skálatúns og velferðarsviðs Mosfellsbæjar hefur gengið mjög vel og vil ég þakka bæjarstjórn fyrir að hafa staðið einhuga saman í þessu máli og okkar góða starfsfólki á velferðarsviði undir stjórn Sigurbjargar Fjölnisdóttur fyrir það kraftaverk að hafa náð á örfáum vikum að taka á móti helmings fjölgun starfsmanna og þrjátíu og tveimur þjónustuþegum í búsetu.
Þá hafa félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið tekið höndum saman um verkefnið Gott að eldast og við vorum valin sem eitt af sex svæðum til að taka þátt í því en það er samþætting stuðningsþjónustu á heimili – áður nefnt heimaþjónusta og heimahjúkrunar. Verkefnið er unnið með heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og markmiðið er að horfa til nýrra lausna, eins og innleiðingu velferðartækni – en þar má finna dæmi bæði um skjáheimsóknir og lyfjaskammtara inn á heimili sem geta sparað sporin og bætt líf margra. Samhliða samþættingunni er áhugi á að þróa dagþjónustuna samhliða fjölgun plássa upp í 15 talsins. Þá felast í þessu verkefni, Gott að eldast, tvö stöðugildi sem ríkið kemur með, annarsvegar sjúkraþjálfari í endurhæfingu sem mun verða staðsettur á heilsugæslunni og sérstakur verkefnisstjóri sem vinnur gegn félagslegri einangrun, það er heimsækir fólk og aðstoðar við að komast í félagsstarf og verður staðsettur hjá okkur. Innleiðing verkefnisins gengur mjög vel og vonumst við til að geta hafið verkefnið formlega á vormánuðum.
Forsendur
Forseti, ágætu bæjarfulltrúar Við lifum á tímum mikillar verðbólgu og óhagstæðra vaxtarkjara og það sýnir sig einmitt í því að á milli umræðna, á fjórum vikum hefur verðbólguspáin breyst og farið úr 4,9% í 5,6% fyrir næsta ár. Það hefur þau áhrif að fjármagnsliðir hækka um 133 milljónir miðað við áætlunina sem við lögðum fram í byrjun nóvember. Það munar um minna. Það hefur verið gert ráð fyrir þessari hækkun rekstrarútgjalda í áætluninni sem liggur nú fyrir.
- Á árinu 2024 eru heildartekjur áætlaðar 21.658 m.kr. Þar af eru útsvarstekjur áætlaðar 11.424 m.kr.
- Rekstrargjöld eru áætluð 18.648 m.kr.
- Nýframkvæmdir ársins 2024 eru áætlaðar samtals 5,1 milljarður króna brúttó.
- Afgangur verður af rekstri A- og B hluta. Gert er ráð fyrir 2.398 mkr. afgangi án fjármagnsliða. Þeir eru hinsvegar 1.429 mkr. og verður því rekstrarniðurstaðan 969 m.kr.
- Forsendur fjárhagsáætlunar er óbreytt útsvar, eða 14,74% í samræmi við lögbundna heimild sveitarfélaga sem hækkaði á síðasta ári um 0,22 % úr 14,52% í tengslum við breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk.
Fasteignagjöldin eru áætluð með eftirfarandi hætti:
- Fasteignaskattur A lækkar úr 0,195% í 0,190%
- Fráveitugjald lækki úr 0,090% í 0,089%
- Gert er ráð fyrir að lóðarleiga A og B ásamt vatnsgjaldi haldist óbreytt.
Við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar var lögð fram tillaga fulltrúa B, C og S um að
- Álagningarprósenta af fasteignaskatti C, atvinnuhúsnæði lækki úr 1,520% í 1,495% stað lækkunar í 1,510%
Áhrifin af lækkun fasteignaskatts C er um 6,5 milljónir og hefur verið tekið tillit til þessa í fyrirliggjandi áætlun en tillagan verður borin upp hér á eftir með öðrum breytingatillögum.
Við fyrri umræðu voru lagðar fram breytingatillögur bæjarfulltrúa B, C og S lista varðandi gjaldskrárhækkanir sem voru svohljóðandi:
- Gjaldskrár hækka um 7,5 % í stað 8,9 %
Áhrifin af lækkun gjaldskráa á milli umræðna er um 11,6 milljónir króna og hefur verið tekið tillit til þessa í fjárhagsáætluninni og verður tillagan borin upp hér á eftir.
Mosfellsbær er mjög hófsamur þegar kemur að gjaldskrárhækkunum en það hefur verið gert ráð fyrir því að þær hækki miðað við verðlag. Það verðlag sem var stuðst við er hækkun neysluverðs frá ágúst 2022 til ágúst 2023.
Eins og fram kom við fyrri umræðu um fjárhagsáætlunina þá erum við langlægst af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu meðal annars þegar kemur að leikskólagjöldum, fæðisgjaldi í leikskólum og grunnskólum.
Mosfellsbær greiðir ennfremur niður dagvistun hjá dagforeldrum þannig að foreldrar greiða jafnhátt gjald hjá dagforeldrum og á leikskólum til að jafna aðstæður barna, þ.e. þeirra sem komast inn rúmlega eins árs og þeirra sem þurfa að bíða.
Breytingatillögur
Í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 200 mkr. hærri tekjum af byggingaréttargjaldi þar sem við höfum seinkað úthlutun fjölbýlishúsa við Langatanga og mun sú upphæð hafa sambærileg áhrif til lækkunar á rekstrarafgangi ársins 2023. Tekjur af byggingaréttargjöldum hækka því úr 600 mkr. í 800 mkr.
Aðrar breytingatillögur sem búið er að taka tillit til í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun hækka fjárfestingaáætlun um 213 m.kr. og rekstrarkostnað um 25,2 m.kr. Heildaráhrif breytinga á áætlaða rekstrarniðurstöðu eru hækkun um 23,8 m.kr.
Á árinu 2025 er gert ráð fyrir 200 mkr. í nýjan frjálsíþróttavöll og hefur þriggja ára áætlun verið uppfærð í samræmi við það.
Fjárfestingar
Stærstu einstaka framkvæmdirnar á næsta ári eru bygging leikskóla í Helgafellshverfi og endurbygging aðalvallar við Varmá. Frágangur utanhúss og lóðar við Kvíslarskóla, fyrri áfangi innréttinga íþróttahússins við Helgafellsskóla og Battavöllur við Varmárskóla. Alls er gert ráð fyrir nýframkvæmdum upp á 5,1 milljarð króna og viðhaldsframkvæmdum upp á 258 m. kr.
Á næstu þremur árum er gert ráð fyrir 15,2 milljarða króna í brúttó fjárfestingar.
Ef skoðuð er fjárfesting síðustu 10 ára og fram til ársins 2027 þá sést greinilega að ekki hefur verið áætlað jafn mikið í fjárfestingar, ekki síst íþróttamannvirki og áætlað er til næstu þriggja ára.
Þegar Fellið var byggt, árið 2019, voru íþróttamannvirki 34 % af brúttó fjárfestingum þess árs en þá var fjárfest í heildina fyrir tæpa 4 milljarða, uppfært miðað við byggingavísitölu, sem var töluvert há upphæð.
Íþróttamannvirki hafa verið frá um 6 % af heildarútgjöldum til fjárfestinga þegar hlutfallið var lægst árin 2017 og 2018 og svo 7 % árin 2021 og 2022. Þá fóru þau hæst í 13 % árin 2014 og 2016, fyrir utan árið 2019 eins og ég gat um, þegar Fellið var byggt.
Á árinu 2023 verður hlutfall fjárfestinga íþróttamannvirkja 11 % og á árunum 2024 til ársins 2027 er áætlað hlutfall á bilinu 15 til 20%.
Rekstrarniðurstaða og lykiltölur
Ég hef nú vikið að helstu forsendum fjárhagsáætlunar auk þess sem ég hef fjallað um breytingatillögur meirihlutans nr. 6, 7 og 8, sem annars vegar lúta að tekjufærslu vegna byggingarréttargjalda og hins vegar áhrifum verðlagsbreytinga á verðbætur og vaxtakostnað langtímalána.
Rekstrarniðurstaða ársins 2024 er því áætluð í heild 969 m.kr.
Áætlun gerir ráð fyrir að skuldaviðmið 2024 verði 99,5% sem er vel undir þeim 150% sem er hámarkið.
Veltufé frá rekstri, eða þeir fjármunir sem eru eftir til fjárfestinga og afborgana lána þegar búið er að greiða allan rekstrarkostnað er áætlað um 2 milljarðar.
Ég held að við getum öll verið stolt af þessari fjárhags- og fjárfestingaáætlun. Hún er vönduð og vel ígrunduð og þó að það sé flókið í framkvæmd að setja fram svona margar breytingatillögur eins og allir flokkar hafa gert þá hefur það skapað lýðræðislega og nauðsynlega umræðu um forgangsröðun verkefna í okkar frábæra sveitarfélagi. Áætlunin rúmar bæði mjög miklar fjárfestingar miðað við stærð sveitarfélagsins og hóflegan afgang af rekstri.
Þakkir
Ég vil þakka okkar frábæra samstarfsfólki fyrir samvinnuna við gerð fjárhagsáætlunar 2024 og þriggja ára áætlunar og vil fyrst og fremst nefna þau Pétur Jens Lockton og Önnu Maríu Axelsdóttur á fjármála- og áhættustýringarsviði sem hafa verið vakin og sofin yfir verkefninu. Þá vil ég þakka okkar góðu sviðsstjórum og forstöðumönnum stofnana fyrir þeirra framlag, sem og bæjarlögmanni og skrifstofustjóra umbóta og þróunar. Þá vil ég þakka bæjarfulltrúum fyrir þeirra framlag og samstarf í þessari vinnu.“
Hér má sjá fundargerð bæjarstjórnar og helstu gögn og hér er upptaka af fundinum fyrir þá allra áhugasömustu!
Með pistlinum í dag fylgja myndir frá síðustu helgi þegar jólatréð var tendrað á miðbæjartorginu og frá markaðnum í Kjarna en ég keypti meðal annars dýrindis marengstertu frá Kvenfélagi Mosfellsbæjar og mjög fallega jólasvundtu frá Gerði og öðrum vinum mínum í Búðinni okkar.
Þá eru myndir frá fulltrúum í ungmennaráði en þau funduðu á bæjarskrifstofunum í vikunni og bæjarfulltrúunum Helgu Jóhannesdóttur, Dagnýju Kristinsdóttur og Önnu Sigríði Guðnadóttur í kaffinu fyrir bæjarstjórnarfundinn. Þær voru svo litríkar og fínar að þær lífguðu mjög upp á samkomuna.
Ég hef látið pistlana fylgja sama tímabili og bæjarstjórn fundar og tek frí frá skrifum í kringum jól og á sumrin.
Ég óska ykkur öllum, tryggum lesendum, gleðilegrar aðventu og jólahátíðar.
Lifið heil!