Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
1. desember 2023

Pist­ill­inn að þessu sinni er helg­að­ur mála­flokki fatl­aðs fólks en á sunnu­dag­inn 3. des­em­ber er al­þjóða­dag­ur fatl­aðs fólks á veg­um Sam­ein­uðu þjóð­anna. Af því til­efni er Kjarn­inn lýst­ur upp með fjólu­blá­um lit, dag­ana 1. til 5 des­em­ber. Al­þjóða­dag­ur­inn var hald­inn í fyrsta sinn árið 1992 og hér á Ís­landi hef­ur Þroska­hjálp hald­ið óslit­ið upp á dag­inn með því að veita Múr­brjót­inn til að­ila sem þykja hafa sýnt frum­kvæði og ýtt und­ir ný­sköp­un varð­andi þátt­töku fatl­aðs fólks í sam­fé­lag­inu og þann­ig sýnt sam­fé­lags­lega ábyrgð. Ör­yrkja­banda­lag­ið hef­ur sömu­leið­is hald­ið upp á dag­inn með veit­ingu hvatn­inga­við­ur­kenn­ing­ar ÖBÍ og má nán­ar sjá hverj­ir eru til­nefnd­ir á vef ÖBÍ.

Í Mos­fells­bæ hafa ver­ið nokkr­ar vörð­ur í mála­flokki fatl­aðs fólks á ár­inu 2023. Fyrst ber að nefna samn­ing frá 25. maí á milli Mos­fells­bæj­ar, Inn­viða­ráðu­neyt­is­ins og IOGT sem var rekstr­ar­að­ili Skála­túns um yf­ir­færslu á þjón­ustu við íbúa Skála­túns  til Mos­fells­bæj­ar.

Þann 1. júlí komu því 32 fatl­að­ir ein­stak­ling­ar  í þjón­ustu Mos­fells­bæj­ar og 110 starfs­menn. Fyr­ir sveit­ar­fé­lag af okk­ar stærð hef ég oft bor­ið töl­urn­ar sam­an við Reykja­vík en það væri svip­að og ef borg­in hefði tek­ið við 320 fötl­uð­um íbú­um og yfir eitt þús­und starfs­mönn­um á nokkr­um vik­um. Þetta hefði ekki tek­ist nema und­ir stjórn frá­bærs starfs­fólks á vel­ferð­ar­sviði Mos­fells­bæj­ar und­ir for­ystu Sig­ur­bjarg­ar Fjöln­is­dótt­ur sviðs­stjóra,  starfs­fólks á Skála­túni, launa­deild­ar og fjár­mála­sviðs Mos­fells­bæj­ar auk bæj­ar­lög­manns, að ógleymd­um íbú­um sem hafa tek­ið þess­um tíð­ind­um af ein­stöku æðru­leysi.

Við réð­um  ut­an­að­kom­andi ráð­gjafa, Sig­ríði Ind­riða­dótt­ur sem vann að samrun­an­um en okk­ur þótti mjög mik­il­vægt að sam­ein­ing­in yrði eins átaka­laus hægt væri og það væri skýrt að  þetta væri ekki yf­ir­taka Mos­fells­bæj­ar held­ur sam­ein­ing og virð­ing borin fyr­ir hefð­um og venj­um hvors að­ila fyr­ir sig. Það voru haldn­ar vinnu­stof­ur og fund­ir með það að mark­miði að hrista hóp­ana sam­an. Við héld­um grill­veislu með íbú­um og starfs­mönn­um á Skála­túni í byrj­un júlí til að fagna tíma­mót­un­um og feng­um Jógv­an Han­sen til að skemmta.

Á sól­björt­um sum­ar­degi í júlí tók­um við skóflu­stungu að nýj­um íbúða­kjarna sem Þroska­hjálp bygg­ir við Úu­götu. Þar verða 5 íbúð­ir fyr­ir fatl­aða ein­stak­linga og ein starfs­mann­a­í­búð. Verk­efn­ið geng­ur mjög vel og von­andi geta íbú­arn­ir flutt inn fyr­ir jólin 2024.

Í lok sum­ars réð­um við leið­toga mála­flokks fatl­aðs fólks, Gest Guð­rún­ar­son en  fjár­magn fyr­ir stöðu­gild­inu fékkst þar sem staða  fram­kvæmda­stjóra Skála­túns var lögð nið­ur við að­ila­skipt­in. Gest­ur hef­ur kom­ið mjög sterk­ur inn sem stuðn­ing­ur við for­stöðu­menn sem unnu á Skála­túni, ekki síst í inn­leið­ingu á Vinnust­und og öðr­um starfs­manna­tengd­um mál­um. Það var mik­ill áfangi að fá þessa stöðu á vel­ferð­ar­svið og mikl­ar vænt­ing­ar um for­ystu Gests í mála­flokkn­um. Við feng­um líka frá­bær­an sér­fræð­ing í mál­efn­um fatl­aðra barna á vel­ferð­ar­svið, Lukku Berg­lindi Brynj­ars­dótt­ur í byrj­un árs en það var einn­ig ný staða á svið­inu.

Við hóf­um sam­st­arf við Vinnu­mála­stofn­un á ár­inu um ráðn­ing­ar fatl­aðra ein­stak­linga í starf­semi bæj­ar­ins og erum með starfs­mann í eld­hús­inu hjá okk­ur á bæj­ar­skrif­stof­un­um og ann­an í bóka­safn­inu. Við vilj­um efla þetta sam­st­arf enn frek­ar og fá for­stöðu­menn stofn­ana í lið með okk­ur.

Þá höf­um við svo sann­ar­lega ramp­að upp Mos­fells­bæ en 86 ramp­ar hafa ver­ið sett­ir víðs­veg­ar um sveit­ar­fé­lag­ið á ár­inu. Ramp­ur núm­er 900 var vígð­ur við fal­lega at­höfn á Reykjalundi og við vígð­um 18 rampa í Skála­túni nokkru síð­ar. Þá réð­um við að­geng­is­full­trúa og gegn­ir Hild­ur Haf­bergs­dótt­ir verk­fræð­ing­ur á um­hverf­is­sviði því verk­efni.

Það verk­efni sem hef­ur þó ver­ið mest krefj­andi í þess­um mála­flokki á ár­inu eru samn­inga­við­ræð­ur við rík­ið um fjár­mögn­un þjón­ust­unn­ar. Í fyrra feng­ust 5 millj­arð­ar til við­bót­ar í mála­flokk­inn og samn­ing­ar hafa stað­ið yfir allt árið um var­an­lega tekju­aukn­ingu til þess að hægt sé að þjón­usta fatlað fólk sem allra best.

Sveit­ar­fé­lög­in á höf­uð­borg­ar­svæð­inu tóku sam­an grein­ar­gerð um mála­flokk­inn og sendu fé­lags-og vinnu­mark­aðs­ráð­herra kröf­ur um úr­bæt­ur og ég fylgdi því eft­ir með fundi  með ráð­herra ásamt fram­kvæmda­stjóra fyr­ir hönd SSH. Á ár­inu 2022 vant­aði 14 millj­arða upp á tekj­ur frá rík­inu vegna þjón­ust­unn­ar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Við mun­um halda áfram að bæta þjón­ust­una við fötluð börn og full­orðna enda næg verk­efni í þess­um mik­il­væga mála­flokki.

Að öðru leyti hef­ur vik­an ver­ið anna­söm vegna und­ir­bún­ings að ann­arri um­ræðu í bæj­ar­stjórn um fjár­hags­áætlun Mos­fells­bæj­ar fyr­ir 2024 og til næstu þriggja ára. Ég hef þó gef­ið mér tíma til að fara á nokkra góða við­burði eins og ljósa­göngu UN Women, jóla­markað fé­lags­starfs­ins í Mos­fells­bæ, op­inn fund menn­ing­ar- og lýð­ræð­is­nefnd­ar og tendr­un jóla­ljósa í Hlé­garðs­garð­in­um, opið hús hjá fyr­ir­tækj­um í Þver­holt­inu og í dag skrif­uð­um við und­ir samn­ing við fyr­ir­tæk­ið Mineral ehf um bygg­ingu nýs eld­húss við leik­skól­ann Reykja­kot. Enn­frem­ur hafa ver­ið sam­töl og fund­ir tengd­ir Aft­ur­eld­ingu í vik­unni, enda,  eins og kom fram í síð­asta pistli, sendu fé­lög­in áskor­an­ir á bæj­ar­yf­ir­völd varð­andi sam­ráðsvett­vang, frjálsí­þrótta­að­stöðu og heild­ar­sýn svæð­is­ins.

Í vik­unni var aug­lýst hverj­ir eru til­nefnd­ir til íþrótta­manns Mos­fells­bæj­ar árið 2023 og við hvetj­um bæj­ar­búa til að kjósa en frest­ur­inn er til 11. des­em­ber.

For­síðu­mynd­in er af mæðg­un­um frá Bassa­stöð­um, þeim Ís­fold Kristjáns­dótt­ur í Folda Bassa, Ís­fold móð­ur henn­ar og Hólm­fríði syst­ur ásamt þeim Höllu Kar­enu og Höllu. Að­r­ar mynd­ir eru frá opna hús­inu í Þver­holti 5, m.a. af Ólínu í Myndó og úr  prjóna­búð­inni henn­ar Sig­ur­bjarg­ar ásamt mynd af Elvu og Guð­laugu frá jóla­mark­aði fé­lags­starfs­ins í Mos­fells­bæ.

Að end­ingu minni ég á tendr­un jóla­trés­ins hér á mið­bæj­ar­torg­inu á morg­un þar sem dag­skrá­in verð­ur fjöl­breytt.

Góða helgi!

Netspjall

Opið virka daga
mán., þri., fim. 8:00-16:00
mið. 8:00-18:00
fös. 8:00-14:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán., þri., fim. 8:00-16:00
mið. 8:00-18:00
fös. 8:00-14:00