Pistillinn að þessu sinni er helgaður málaflokki fatlaðs fólks en á sunnudaginn 3. desember er alþjóðadagur fatlaðs fólks á vegum Sameinuðu þjóðanna. Af því tilefni er Kjarninn lýstur upp með fjólubláum lit, dagana 1. til 5 desember. Alþjóðadagurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 1992 og hér á Íslandi hefur Þroskahjálp haldið óslitið upp á daginn með því að veita Múrbrjótinn til aðila sem þykja hafa sýnt frumkvæði og ýtt undir nýsköpun varðandi þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu og þannig sýnt samfélagslega ábyrgð. Öryrkjabandalagið hefur sömuleiðis haldið upp á daginn með veitingu hvatningaviðurkenningar ÖBÍ og má nánar sjá hverjir eru tilnefndir á vef ÖBÍ.
Í Mosfellsbæ hafa verið nokkrar vörður í málaflokki fatlaðs fólks á árinu 2023. Fyrst ber að nefna samning frá 25. maí á milli Mosfellsbæjar, Innviðaráðuneytisins og IOGT sem var rekstraraðili Skálatúns um yfirfærslu á þjónustu við íbúa Skálatúns til Mosfellsbæjar.
Upplýsingar um samningana:
Þann 1. júlí komu því 32 fatlaðir einstaklingar í þjónustu Mosfellsbæjar og 110 starfsmenn. Fyrir sveitarfélag af okkar stærð hef ég oft borið tölurnar saman við Reykjavík en það væri svipað og ef borgin hefði tekið við 320 fötluðum íbúum og yfir eitt þúsund starfsmönnum á nokkrum vikum. Þetta hefði ekki tekist nema undir stjórn frábærs starfsfólks á velferðarsviði Mosfellsbæjar undir forystu Sigurbjargar Fjölnisdóttur sviðsstjóra, starfsfólks á Skálatúni, launadeildar og fjármálasviðs Mosfellsbæjar auk bæjarlögmanns, að ógleymdum íbúum sem hafa tekið þessum tíðindum af einstöku æðruleysi.
Við réðum utanaðkomandi ráðgjafa, Sigríði Indriðadóttur sem vann að samrunanum en okkur þótti mjög mikilvægt að sameiningin yrði eins átakalaus hægt væri og það væri skýrt að þetta væri ekki yfirtaka Mosfellsbæjar heldur sameining og virðing borin fyrir hefðum og venjum hvors aðila fyrir sig. Það voru haldnar vinnustofur og fundir með það að markmiði að hrista hópana saman. Við héldum grillveislu með íbúum og starfsmönnum á Skálatúni í byrjun júlí til að fagna tímamótunum og fengum Jógvan Hansen til að skemmta.
Á sólbjörtum sumardegi í júlí tókum við skóflustungu að nýjum íbúðakjarna sem Þroskahjálp byggir við Úugötu. Þar verða 5 íbúðir fyrir fatlaða einstaklinga og ein starfsmannaíbúð. Verkefnið gengur mjög vel og vonandi geta íbúarnir flutt inn fyrir jólin 2024.
Í lok sumars réðum við leiðtoga málaflokks fatlaðs fólks, Gest Guðrúnarson en fjármagn fyrir stöðugildinu fékkst þar sem staða framkvæmdastjóra Skálatúns var lögð niður við aðilaskiptin. Gestur hefur komið mjög sterkur inn sem stuðningur við forstöðumenn sem unnu á Skálatúni, ekki síst í innleiðingu á Vinnustund og öðrum starfsmannatengdum málum. Það var mikill áfangi að fá þessa stöðu á velferðarsvið og miklar væntingar um forystu Gests í málaflokknum. Við fengum líka frábæran sérfræðing í málefnum fatlaðra barna á velferðarsvið, Lukku Berglindi Brynjarsdóttur í byrjun árs en það var einnig ný staða á sviðinu.
Við hófum samstarf við Vinnumálastofnun á árinu um ráðningar fatlaðra einstaklinga í starfsemi bæjarins og erum með starfsmann í eldhúsinu hjá okkur á bæjarskrifstofunum og annan í bókasafninu. Við viljum efla þetta samstarf enn frekar og fá forstöðumenn stofnana í lið með okkur.
Þá höfum við svo sannarlega rampað upp Mosfellsbæ en 86 rampar hafa verið settir víðsvegar um sveitarfélagið á árinu. Rampur númer 900 var vígður við fallega athöfn á Reykjalundi og við vígðum 18 rampa í Skálatúni nokkru síðar. Þá réðum við aðgengisfulltrúa og gegnir Hildur Hafbergsdóttir verkfræðingur á umhverfissviði því verkefni.
Það verkefni sem hefur þó verið mest krefjandi í þessum málaflokki á árinu eru samningaviðræður við ríkið um fjármögnun þjónustunnar. Í fyrra fengust 5 milljarðar til viðbótar í málaflokkinn og samningar hafa staðið yfir allt árið um varanlega tekjuaukningu til þess að hægt sé að þjónusta fatlað fólk sem allra best.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu tóku saman greinargerð um málaflokkinn og sendu félags-og vinnumarkaðsráðherra kröfur um úrbætur og ég fylgdi því eftir með fundi með ráðherra ásamt framkvæmdastjóra fyrir hönd SSH. Á árinu 2022 vantaði 14 milljarða upp á tekjur frá ríkinu vegna þjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Við munum halda áfram að bæta þjónustuna við fötluð börn og fullorðna enda næg verkefni í þessum mikilvæga málaflokki.
Að öðru leyti hefur vikan verið annasöm vegna undirbúnings að annarri umræðu í bæjarstjórn um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir 2024 og til næstu þriggja ára. Ég hef þó gefið mér tíma til að fara á nokkra góða viðburði eins og ljósagöngu UN Women, jólamarkað félagsstarfsins í Mosfellsbæ, opinn fund menningar- og lýðræðisnefndar og tendrun jólaljósa í Hlégarðsgarðinum, opið hús hjá fyrirtækjum í Þverholtinu og í dag skrifuðum við undir samning við fyrirtækið Mineral ehf um byggingu nýs eldhúss við leikskólann Reykjakot. Ennfremur hafa verið samtöl og fundir tengdir Aftureldingu í vikunni, enda, eins og kom fram í síðasta pistli, sendu félögin áskoranir á bæjaryfirvöld varðandi samráðsvettvang, frjálsíþróttaaðstöðu og heildarsýn svæðisins.
Í vikunni var auglýst hverjir eru tilnefndir til íþróttamanns Mosfellsbæjar árið 2023 og við hvetjum bæjarbúa til að kjósa en fresturinn er til 11. desember.
Forsíðumyndin er af mæðgunum frá Bassastöðum, þeim Ísfold Kristjánsdóttur í Folda Bassa, Ísfold móður hennar og Hólmfríði systur ásamt þeim Höllu Karenu og Höllu. Aðrar myndir eru frá opna húsinu í Þverholti 5, m.a. af Ólínu í Myndó og úr prjónabúðinni hennar Sigurbjargar ásamt mynd af Elvu og Guðlaugu frá jólamarkaði félagsstarfsins í Mosfellsbæ.
Að endingu minni ég á tendrun jólatrésins hér á miðbæjartorginu á morgun þar sem dagskráin verður fjölbreytt.
Góða helgi!
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024