Það má til sanns vegar færa að þetta hafi verið vika Aftureldingar. Ótrúlega spennandi undanúrslitaleikur í blakinu á miðvikudagskvöld þar sem okkar konur spiluðu frábærlega en leikurinn endaði í 15-13 KA í vil í fimmtu hrinu. Bæði liðin hafa unnið tvo leiki þannig að í kvöld fer fram úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn norður á Akureyri. Leikurinn hefst kl. 19.00 og er sýndur á RUV 2.
Í gærkvöldi var svo undanúrslitaleikur karla í handbolta þar sem Afturelding mætti Haukum. Sá leikur fór 30:31 eftir 2 x 5 mínútna framlengingu. Æsispennandi leikur og mögnuð stemning að Varmá. Afturelding hafði yfirtökin megnið af leiknum en Haukar náðu sér á strik undir lokin. Á sunnudaginn fer fram síðasti leikurinn á milli þessara tveggja öflugu liða, sem kepptu einmitt um bikarinn fyrr í vetur og það lið sem vinnur mun mæta ÍBV í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn.
En, þó að við gleðjumst yfir því að íþróttalífið sé í miklum blóma í Mosfellsbæ þá hefur fyrirhugað verkfall töluverð áhrif á vinnustaðina og heimilin í bænum og auðvita börnin. Ég verð að segja eins og er að ég man ekki eftir svona erfiðum átökum á millii Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB eins og núna. Deilan snýst um gildistíma samningins, ekki um launahækkunina sem slíka. Ég vona svo innilega að við náum saman, fyrr en síðar en verkfallið hefur áhrif á starf í leikskólum, frístundaheimilum og grunnskólum. Mosfellsbær hefur sótt um undanþágu vegna fatlaðra barna í Úlfinum og í skóla og leikskóla en við höfum ekki fengið svör. Það verða fundir um helgina með stjórnendum okkar stofnana til að undirbúningur verði sem bestur.
Í vikunni var skrifað undir samning um framkvæmdir á leiksvæðinu við leikskólann Reykjakot og er það fyrirtækið Vargur sem fékk verkið. Við skrifuðum undir á staðnum, til að geta tekið fyrir og eftir myndir, en það verður frábært að fá lóðina loksins í gott stand.
Fjölmargir fundir hafa verið haldnir í vikunni, meðal annars með fulltrúum FaMos, Sorpu, golfklúbbnum, samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga, samninganefnd við ríkið vegna almenningssamgangna auk vinnufunda með bæjarfulltrúum og ýmissa funda með starfsmönnum. Þá var bæjarstjórnarfundur í vikunni og í bæjarráði í gær voru fjölmörg mál afgreidd, s.s. tillögur um veitingu stofnframlags til húsbyggingarsjóðs Þroskahjálpar til byggingar á búsetukjarna, 29 mkr. og vegna kaupa Brynju á tveimur íbúðum fyrir öryrkja, alls 13 mr. Þá liggur fyrir heimild hjá húsnæðis-og mannvirkjastofnun til stofnframlags vegna 24 íbúa á vegum Bjargs sem verða byggðar í 5. áfanga í Helgafelli. Það eru því tímamót hvað varðar fjölda íbúða sem ætlaðar eru fyrir einstaklinga með sérþarfir og tekjulága einstaklinga.
Á sama fundi var samþykkt að heimila umhverfissviði að semja við fyrirtækið Múr- og Málningarþjónustuna Höfn ehf um gluggaskipti í Kvíslarskóla. Þá var jafnframt gefin heimild fyrir viðræðum við Landsbankann um óloknar framkvæmdir á Leirvogstungumelum. Um er að ræða yfirtöku á opnum svæðum og gatnagerð í hverfinu en samkvæmt samningi á milli Mosfellsbæjar og Ístaks sem Landsbankinn tók síðar yfir þá ber eiganda lóðarinnar að ganga frá svæðinu. Landsbankinn hefur óskað eftir því við Mosfellsbæ að bærinn annist verkefnið gegn greiðslu kostnaðar.
Í gær átti ég stuttan fund með Sævari Birgissyni formanni atvinnu-og nýsköpunarnefndar ásamt Birni Reynissyni ráðgjafa og Arnari Jónssyni forstöðumanni þjónustu- og samskiptadeildar til að ræða endanlegt upplegg á opnum stefnumótunarfundi næstkomandi þriðjudag. Björn verður með kynningu á fundinum um stöðuna í atvinnumálum í Mosfellsbæ og mun svo stýra vinnustofu í framhaldinu. Við fáum líka Dóra DNA til að vera með stutta hugvekju um skapandi greinar sem vaxandi atvinnugrein á Íslandi.
Ég hvet sem flesta til að mæta á fundinn og taka þátt í umræðum og hugmyndavinnu til að móta atvinnustefnu Mosfellsbæjar. Fundurinn verður haldinn í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ frá kl. 17 – 19 þriðjudaginn 16. maí.
En, nú er klukkan að verða 19.00 og stelpurnar okkar hefja leik norður á Akureyri eftir nokkrar mínútur þannig að ég ætla að stilla á RUV 2 og fylgjast með.
Svo er fyrsti heimaleikur okkar í lengjudeild karla í kvöld kl. 19.30 en þá koma Þórsarar frá Akureyri í heimsókn. Leikurinn fer fram á Framvellinum í Úlfarsárdal.
Áfram Afturelding og góða helgi!