Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
6. janúar 2023

Gleði­legt ár kæru íbú­ar og starfs­fólk Mos­fells­bæj­ar og takk fyr­ir sam­fylgd­ina síð­ast­liðna mán­uði.

Sólin fer hækk­andi á lofti og það  hef­ur ým­is­legt drif­ið á dag­ana frá því að ég setti inn síð­asta pist­il, þann 16. des­em­ber.  Það fór að snjóa svo um mun­ar helg­ina 17 -18 des­em­ber og er talað um að ann­að eins fann­fergi hafi ekki sést á suð­vest­ur­horn­inu á þess­ari öld. Þó að snjó­koma sé ár­viss við­burð­ur þá reyn­ir alltaf mik­ið á inn­viði sveit­ar­fé­laga þá daga sem snjó kyng­ir nið­ur en kannski ekki síð­ur í fram­hald­inu. Við búum svo vel að vera með frá­bært starfs­fólk og verktaka í Mos­fells­bæ. Það er far­ið eft­ir ákveðn­um  for­gangslista við val á göt­um og er byrj­að á að tryggja sem fyrst greiða um­ferð um þær göt­ur og stíga sem mik­il­væg­ast­ar eru til sam­gangna. Stofn­braut­ir, strætó­leið­ir og fjöl­farn­ar safn­göt­ur njóta þannig for­gangs í þjón­ustu, ásamt teng­i­stíg­um í hverf­um og göngu­stíg­um.

Hægt er að sjá stað­setn­ingu gatna og stíga í for­gangi á korta­vef Mos­fells­bæj­ar. Þá hefur einnig verið safnað saman upplýsingum um snjómokstur á vef bæjarins.

Á mánu­deg­in­um 19. des­em­ber kom upp bilun í Hell­is­heiða­virkj­un og öll­um sund­laug­um á höf­uð­borg­ar­svæð­inu var lok­að í tæpa tvo sólarhringa vegna þessa og voru Lágafellslaug og Varmárlaug opnaðar aftur eftir hádegi 21. desember.

Þriðjudaginn 20. desember  ég viðstödd útskrift nemenda í framhaldsskólanum í Mosfellsbæ sem var mjög líflegur og skemmtilegur viðburður. 24 nemendur voru að útskrifast en þeir eiga það sameiginlegt að hafa varið stórum hluta náms síns í fjarkennslu vegna Covid.  Starfandi skólameistari Valgarð Már Jakobsson lagði mikið upp úr kennsluháttum skólans í útskriftarræðunni en kennsluaðferðirnar og leiðsagnarmatið hefur þróast mikið í skólanum á undanförnum árum og er orðið mjög samfléttað.

Sama dag sótti ég stjórnarfund hjá Reykjalundi endurhæfingu ehf en ég var kjörin sem fulltrúi Mosfellbæjar í stjórninni síðastliðið haust. Það var tekin ákvörðun haustið 2019 að einn fulltrúi í stjórninni væri fulltrúi bæjarins, til að efla tengslin á milli þessa fjölmenna vinnustaðar bæjarbúa og Mosfellsbæjar.

Þegar leið á vikuna fyrir jól bárust upplýsingar um að minkar hefðu sést í Reykjahverfi. Meindýraeyðir á vegum bæjarins fór strax af stað og náði að fanga þrjá minka í hverfinu en talið var að þeir hefðu sloppið úr minkabúi í Helgafellsdal. Eigandi búsins kom síðan fram í fjölmiðlum og staðfesti þann grun. Fjöldi minka hefur verið veiddur í Mosfellsdal og víðar í kjölfarið.

Síðasti fundur bæjarráðs Mosfellsbæjar var haldinn 22. desember og ennfremur aukafundur bæjarstjórnar. Tilefni aukafundarins var að samþykkja hækkun útsvars en  sam­þykkt var með öllum greiddum atkvæðum til­laga  um að álagn­ing­ar­hlut­fall út­svars fyr­ir árið 2023 hækki um 0,22% og verði 14,74% á tekj­ur ein­stak­linga, sbr. ný sam­þykkta breyt­ingu á 1. mgr. 23. gr. laga um tekju­stofna sveit­ar­fé­laga. Hækk­un­in er gerð í tengsl­um við sam­komu­lag rík­is og sveit­ar­fé­laga um breyt­ingu á fjár­mögn­un á þjón­ustu við fatl­að fólk. Sam­hliða þess­um breyt­ing­um mun rík­ið lækka tekju­skatts­pró­sent­ur svo íbú­ar verði ekki fyr­ir auk­inni skatt­heimtu vegna breyt­ing­anna.

Sam­komu­lagið  felur ennfremur í sér að unnið verði áfram að  grein­ingu á þró­un út­gjalda vegna þjón­ust­unn­ar og leit­ast við að ná sam­komu­lagi um styrk­ingu á fjár­hags­grund­velli henn­ar á næsta ári. Þetta er því mikið gleðiefni, að ná þessum áfanga og samtalinu við ríkisvaldið um þessa mikilvægu þjónustu.

Í bæj­ar­ráði  var þenn­an sama dag sam­þykkt að hækka frí­stunda­á­vís­an­ir fyrir börn og eldri borgara frá 1. ág­úst 2023. Frí­stunda­á­vís­un fyr­ir fyrsta og ann­að barn verði kr. 57.000 og kr. 65.500 fyr­ir þrjú börn eða fleiri. Þá verði frí­stunda­á­vís­un eldri borgara kr. 11.000.

Á sama fundi var samþykkt tilboð fyrirtækisins Múr og málningaþjónusta í glugga í Kvíslarskóla, rúmlega 114 mkr. Útboðið var opið og skiluðu 6 verktakar inn tilboði.

Á fundinum var einnig samþykkt að staða framkvæmdastjóra fræðslu- og frístundasviðs yrði ekki auglýst fyrr en að lokinni stjórnsýsluúttekt sem fer fram í janúar til mars á þessu ári.  Linda Udengaard framkvæmdastjóri sviðsins hefur beðist lausnar úr starfi þar sem hún tekur við starfi framkvæmdastjóra fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar í febrúar næstkomandi. Gunnhildur Sæmundsdóttir mun gegna starfinu þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn.

Jólin voru með rólegasta móti en það þurfti að ryðja götur fram eftir degi  á aðfangadag og halda helstu stofnleiðum og tengileiðum opnum á jóladag. Okkar menn stóðu vaktina undir forystu Bjarna Ásgeirssonar en á forsíðumyndinni að þessu sinni er mynd af Bjarna þegar hann leit við í þjónustuveri bæjarins. Tíkin Míla er með honum á mynd ásamt eigandanum,  Gúnda, sem sinnir meindýravörnum fyrir Mosfellsbæ með dyggri aðstoð Mílu. Á myndinni eru einnig okkar góðu starfsmenn í þjónustuverinu, þær Hafdís Óskarsdóttir, Sædís Pálsdóttir og Dagný Símonardóttir ásamt Marco Pizzpolato á umhverfissviði.

Starfsmenn Mosfellsbæjar fengu jólagjöf frá bænum í ár, eins og undanfarin ár og var það gjafakort á veitingahúsakeðju. Andvirði kortsins er 15 þúsund krónur. Með gjöfinni vill Mosfellsbær sýna þakklæti fyrir afar vel unnin störf á árinu. Bæjarfulltrúar fengu einnig jólagjöf, bókina Hersetan í Mosfellssveit og á Kjalarnesi 1940 – 1944 eftir Friðþór Eydal. Það er Sögufélag Kjalarnesþings sem gefur bókina út. Fjöldi breskra hermanna höfðust við í Mosfellbæ á þessum árum sem hafði áhrif á lífið í  bæjarfélaginu. Hægt er að nálgast bókina hjá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar.

Það var aðeins tvísýnt um áramótabrennuna vegna óvissustigs almannavarna á gamlársdag en lægðin sveigði suður af landinu sem betur fer og allt var með kyrrum kjörum veðurfarslega séð.

Ég sótti nýársdagsboð forseta sunnudaginn 1. janúar í stilltu og fallegu veðri. Það er hefð fyrir því að forsetinn bjóði helstu embættismönnum þjóðarinnar, bæjarstjórum stærstu sveitarfélaganna og fulltrúum sjálfboðasamtaka í nýársboðið sem hefur á sér mjög hátíðlegan blæ.

Tveir nýir starfsmenn hófu störf á bæjarkrifstofunni þann 2. janúar. Það eru þær Sif Sturludóttir sem kom til starfa sem leiðtogi upplýsingastjórnunar og Lukka Berglind Brynjarsdóttir ráðgjafi á velferðarsviði.

Sif mun gegna lykilhlutverki í stafrænni umbreytingu Mosfellsbæjar og vinna þvert á starfsemina að umbótum þjónustuferla og leiða vinnu við varðveislu upplýsinga og gagna Mosfellsbæjar.

Hún kemur til okkar frá Sýn þar sem hún starfaði sem forstöðumaður verkefnastofu og innri reksturs. Þar hefur hún stýrt faglegri verkefnastýringu þvert á svið, deildir og skipulag. Ennfremur bar hún ábyrgð á rekstri fasteigna, innkaupum og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins. Menntun Sifjar er B.Ed. frá Háskóla Íslands og MPM frá Háskólanum í Reykjavík.

Lukka er þroskaþjálfi að mennt og er ráðin inn sem ráðgjafi á velferðarsviði og mun þar sinna málefnum fatlaðs fólks (barna og fullorðinna) sem og ráðgjöf vegna annarra barna sem koma í þjónustu sviðsins.

Hún er þroskaþjálfi að mennt og hefur starfað í Krikaskóla frá árinu 2010 þar sem hún hefur starfað með fötluðum nemendum sem og öðrum nemendum með sérþarfir. Áður en hún réði sig til Krikaskóla starfaði hún á leikskólanum Huldubergi í tvö ár.

Ég lauk vinnuvikunni á fundi með forsvarsmönnum fyrirtækisins Strategíu, þeim Guðrúnu Ragnarsdóttur og Helgu Hlín Hákonardóttur þar sem við lögðum línurnar um þær vinnustofur sem eru fyrirhugaðir vegna úttektarinnar. Meðal annars íbúafund sem verður haldinn í byrjun febrúar.

Í dag er þrettándinn og nú á eftir verður haldin vegleg brenna neðan Holta­hverf­is við Leiru­vog­inn. Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar leið­ir blys­för frá Mið­bæj­ar­torg­inu kl. 17:30. Dag­skrá­in verð­ur fjölbreytt en fram koma Storm­sveit­in og Skóla­hljóm­sveit Mos­fells­bæj­ar. Álfa­kóng­ur og álfa­drottn­ing, Grýla og Leppal­úði verða á svæð­inu og björg­un­ar­sveit­in Kynd­ill verð­ur með glæsi­lega flug­elda­sýn­ingu.

Veðrið er gott til útivistar og ég óska ykkur góðrar skemmtunar – og helgar!

Regína Ásvaldsdóttir

Mynd 1: Út­skrift­ar­nem­end­ur fram­halds­skól­ans í Mos­fells­bæ 2022
Mynd 2: Val­garð­ur Már Jak­obs­son skóla­meist­ari
Mynd 3: Bessastað­ir 1. janú­ar
Mynd 4: Sif og Lukka fyrsta vinnu­dag­inn

Netspjall

Opið virka daga
mán., þri., fim. 8:00-16:00
mið. 8:00-18:00
fös. 8:00-14:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán., þri., fim. 8:00-16:00
mið. 8:00-18:00
fös. 8:00-14:00