Dagurinn í dag hófst með fundi í almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins þar sem Víðir Reynisson kynnti vinnu við endurskoðun laga um almannavarnir. Í máli hans kom fram að það væri mikilvægt að eiga samráð við almannavarnarnefndir sveitarfélaga og móta lagaumgjörð sem gæti nýst sem rammi utan um regluverk sveitarfélaganna í almannavörnum. Það spunnust góðar umræður í nefndinni og meðal annars var rætt um mikilvægi þess að kostnaður vegna aðgerða í þágu almannavarna væri greindur fyrirfram, þannig að það væri ljóst hver áhrifin af hverri aðgerð væri. Í Covid voru teknar ákvarðanir sem höfðu gríðarlega áhrif á mönnun í velferðar- og skólaþjónustu með miklum kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin.
Því næst var fundur í slökkviliðinu þar sem farið var yfir ársreikning SHS fyrir árið 2022 sem fór athugasemdalaust í gegn af endurskoðendum byggðasamlagsins.
Ég heimsótti Ásgarð í dag ásamt Sigurbjörgu Fjölnisdóttur framkvæmdastjóra velferðarsviðs og hitti þá Heimi Þór framkvæmdastjóra og Þór Daníelsson stjórnarformann en markmið fundarins var að fara yfir samstarf Mosfellsbæjar og Ásgarðs. Í dag eru 33 einstaklingar sem fá þjónustu í Ásgarði og þar af eru 11 úr Mosfellsbæ. Það er mikill áhugi og vilji hjá forsvarsmönnum Ásgarðs að tengjast betur nærsamfélaginu og að fleiri geti nýtt þá flottu vinnuaðstöðu sem búið er að koma upp í Álafosskvosinni.
Í gær var Linda Udengaard framkvæmdastjóri fræðslu-og frístundasviðs kvödd af okkur samstarfsfélögum hennar en hún hefur störf í Garðabæ síðar í þessum mánuði. Linda hefur starfað hér í Mosfellsbæ frá árinu 2016 og hefur komið að ýmsum mikilvægum verkefnum ásamt samstarfsfólki, s.s. ungbarnaleikskóla og mótun menntastefnu Mosfellsbæjar. Það verður eftirsjá af Lindu en Gunnhildur Sæmundsdóttir deildarstjóri leikskólamála mun gegna starfi framkvæmdastjóra þar til nýr aðili verður ráðinn í starfið.
Í vikunni var einnig haldinn fundur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem við fórum yfir nokkur mál, s.s. sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið fyrir árið 2023 og kjaramál en við fengum Ingu Rún Sveinsdóttur sem fer fyrir samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga á fundinn. Við ræddum m.a. styttingu vinnuvikunnar sem hefur haft mikil áhrif á rekstur sveitarfélaga, ekki síst í vaktavinnu. Samhliða styttingu vinnuvikunnar, sem eru 24 dagar á ársgrundvelli, hefur orlofsréttur hjá opinberum starfsmönnum aukist og eru 30 dagar hjá öllum, óháð aldri. Starfsfólk er mjög ánægt með styttinguna en það hefur reynst flóknara fyrir stjórnendur að uppfylla þær þjónustukröfur sem eru gerðar samhliða styttri vinnudegi starfsmanna. Það er því ljóst að það þarf að taka tillit til þessa í næstu kjarasamningum þannig að allir starfsmenn sitji við sama borð.
Á næsta mánudag munum við funda sérstaklega um samgöngusáttmálann en töluvert hefur verið fjallað um samninginn í fjölmiðlum í dag og í gær í kjölfar greinar sem bæjarstjóri Kópavogs skrifaði. Samgöngusáttmálinn er að mínu mati mjög merkilegur samningur og þökk sé framsýnu sveitarstjórnarfólki á höfuðborgarsvæðinu að hafa komið á þessu samkomulagi á milli ríkis og sveitarfélaga um samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Félagið Betri samgöngur er félag í eigu ríkis og sveitarfélaganna og vinnur í nánu samstarfi við Vegagerðina sem ber ábyrgð á gerð áætlana og framkvæmd samgönguverkefna. Áætlanir hafa vissulega hækkað, í vegagerð sem og í annarri innviðauppbyggingu vegna verðlagshækkana og verðbóta auk þess sem fleiri verkefni hafa verið tengd inn í sáttmálann sem ekki var gert ráð fyrir í upphafi.
Ég skrifaði undir samning við verktakafyrirtækið Jarðval sf. í vikunni um gatnagerðarframkvæmdir við nýja götu við Hamraborg – Langatanga. Verkið var boðið út í desember síðastliðnum og bárust 7 tilboð. Jarðval sf. átti lægsta tilboð af þeim tilboðum sem bárust. Samningurinn hljóðar um 111 m.kr. og er áætlað að framkvæmdir standi yfir fram í júlí 2023. Á svæðinu við Hamraborg – Langatanga verða 5 raðhús, 6 einbýlishús auk tveggja fjölbýlishúsa.
Undirskrift samningsins:
Í bæjarráði á fimmtudag var lögð fram könnun Gallup á þjónustu Mosfellsbæjar en það er mjög gleðilegt að bæjarfélagið hefur hækkað á milli ára þegar kemur að lykilspurningunni um þjónustu bæjarfélagsins þegar á heildina er litið og deilir öðru sætinu á landsvísu með nokkrum öðrum sveitarfélögum.
Þjónusta sveitarfélaga 2022 - Gallup:
Það sem er gott við að fá reglulega mælingu á þjónustu bæjarins er að finna þá þætti sem þarfnast helst úrbóta. Því miður er það þjónusta við fatlaða einstaklinga í ár eins og undanfarin ár og þar þurfum við einfaldlega að gera betur. Málaflokkurinn fékk aukið framlag í fjárhagsáætlun 2023 og við vonum svo sannarlega að þeir fjármunir skili sér í ánægðari þjónustuþegum og aðstandendum.
Í bæjarráðinu á fimmtudag voru eingöngu konur við stjórnvölin en Helga Jóhannesdóttir tók sæti sem varamaður. Forsíðumyndin er einmitt frá bæjarráðsfundinum en auk bæjarfulltrúa sátu fundinn bæjarstjóri, bæjarlögmaður og framkvæmdastjórar umhverfis- og velferðarsviðs.
Á þriðjudaginn í næstu viku blásum við til íbúafundar til að fá sjónarmið bæjarbúa, atvinnurekenda og annarra hagsmunaaðila í tengslum við stjórnkerfisúttektina sem fyrirtækið Strategía heldur utan um. Ég hvet bæjarbúa til að mæta og taka þátt í þessari umbótavinnu.
Góða helgi!
Regína Ásvaldsdóttir