Það voru mörg en ólík verkefni sem einkenndu vikuna sem er að líða.
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum í gær, fimmtudag, viðauka við eigendasamkomulag varðandi urðun í Álfsnesi. Viðaukinn kveður á um framlengingu á nýtingu urðunarstaðarins að hámarki til ársloka 2030 fyrir óvirkan úrgang. Sett eru stíf skilyrði fyrir framkvæmdinni sem eru eftirtalin:
- Urðun á lyktarsterkum og lífrænum úrgangi verður hætt 31. desember 2023
- Blandaður og baggaður úrgangur verður ekki urðaður í Álfsnesi eftir 31. desember 2023 sem hefur veruleg áhrif en áætlað er að 40-50 þúsund tonn af bögguðum úrgangi séu urðuð árlega. Þá liggur fyrir að útflutningur á bögguðum úrgangi hefjist á næstu vikum.
- Brennslustöð fyrir úrgang verður ekki reist i Álfsnesi
- Til að lágmarka sjónræn grenndaráhrif verður opnuð ný rein til urðunar á óvirkum úrgangi í norðanverðu Álfsnesi árið 2024.
- Sorpa mun vinna markvisst að því að finna nýjan urðunarstað og samhliða leita leiða til að draga úr allri urðun í Álfsnesi.
- Sorpa fer í aðgerðir til að lágmarka lyktarmengun s.s. með því að auka verulega við jarðvegs- og gróðurþekju urðunarstaðarins.
- Unnið verði markvisst að víðavangshreinsun í Álfsnesi og skógrækt.
- Sorpa mun standa fyrir hugmyndasamkeppni um frágang og framtíðarsýn svæðis urðunarstaðar í Álfsnesi á árinu 2024.
Bæjarráð bókaði svohljóðandi vegna málsins:
Bæjarráð Mosfellsbæjar lýsir yfir vonbrigðum með að urðun í Álfsnesi verði ekki hætt í árslok líkt og eigendasamkomulag frá árinu 2013 með síðari viðaukum um meðhöndlun úrgangs í Álfsnesi kveður á um. Ein helsta ástæða fyrir því er að annar urðunarstaður fyrir höfuðborgarsvæðið hefur ekki fundist.
Sá viðauki við eigendasamkomulagið sem nú liggur fyrir kveður á um framlengingu á nýtingu urðunarstaðar í Álfsnesi til ársloka 2030 fyrir óvirkan úrgang. Sett eru stíf skilyrði um að urðun alls lífræns úrgangs verði hætt 31. desember 2023. Þar að auki kveður samkomulagið á um víðtækar aðgerðir til að koma í veg fyrir lyktar- og sjónmengun auk umfangsmikillar skógræktar í Álfsnesi.
Til að tryggja eftirfylgni við samkomulagið verður sett á fót þriggja manna verkefnastjórn sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar mun sitja í. Bæjarráð leggur áherslu á að verkefnastjórnin tryggi að vinna við leit að nýjum urðunarstað verði í forgangi þannig að unnt verði að hætta urðun í Álfsnesi sem fyrst. Er lögð áhersla á að verkefnastjórn skili framvinduskýrslu til eigenda tvisvar á ári.
Meðal annars í ljósi þess að hætt verður að urða lífrænan úrgang, að útflutningur á bögguðum úrgangi er að hefjast auk þeirra skilyrða sem fram koma í samkomulaginu samþykkir bæjarráð Mosfellsbæjar fyrirliggjandi viðauka við eigendasamkomulagið með þeim skilyrðum sem þar koma fram, þ.á.m. að urðun verði alfarið hætt í árslok 2030.
Bæjarstjóra er falið að undirrita samkomulagið fyrir hönd Mosfellsbæjar.
Mikill undirbúningur hefur átt sér stað á árinu við mótun þessara skilyrða sem eru forsenda viðaukans. Staðan var mjög snúin þar sem síðasti viðauki, gerður árið 2020, kveður á um að urðun verði hætt í árslok 2023 en hinsvegar var enginn urðunarstaður í sjónmáli þegar við hófum vinnuna síðastliðið haust. Það tekur fimm ár frá því að urðunarstaður er fundinn og þar til hægt er að hefja urðun. Við höfum átt fjölmarga fundi með Sorpu vegna málsins, sem og fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í vikunni komu fulltrúar Sorpu á tvo undirbúningsfundi, annarsvegar á mánudag með öllum bæjarfulltrúum og á þriðjudag með bæjarfulltrúum og stjórn íbúasamtaka Leirvogstungu. Það sem íbúar hafa sett á oddinn er fyrst og fremst að það sé raunveruleg leit að nýjum urðunarstað í gangi, að hætt verði að taka á móti lífrænum úrgangi og að það verði ekki sorpbrennsla í Álfsnesi. Reykjavík hefur samþykkt þessa kröfu fyrir sitt leyti og þar að leiðandi er ekki horft til Álfsness í framtíðarsýn varðandi sorpbrennslu á Íslandi, heldur Helguvík. Ég sótti einmitt örfund í morgun sem SSH hélt um forverkefni um sorpbrennslu en SSH og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa ákveðið að ráðast í forverkefni til að afla upplýsinga og gera samanburð á tveimur valkostum varðandi uppbyggingu sorporkustöðva á Íslandi. Annars vegar eina vinnslu í Helguvík og hinsvegar eina vinnslu í Helguvík og aðra á Dysnesi við Eyjafjörð. Samanburðurinn mun taka á fjárhagslegum þáttum, stofnkostnaði, rekstrarkostnaði og flutningskostnaði, en einnig umhverfisþáttum og mati á áhættu. Megináhersla verkefnisins er að kortleggja framtíðarþróun um kröfur í umhverfismálum og taka hana inn í greininguna, eins og kostur er. Helgi Þór Ingason verkfræðingur og verkefnisstjóri kynnti stöðu verkefnisins og helstu niðurstöður sem liggja nú þegar fyrir.
Á þriðjudag var skrifað undir viljayfirlýsingu á milli Mosfellsbæjar, fyrirtækisins Bakka og Húsnæðis og mannvirkjastofnunar um uppbyggingu á hagstæðum íbúðum fyrir tekjulágt fólk og fyrstu kaupendur. Byggingarfélagið Bakki skuldbindur sig til að byggja allar 60 íbúðirnar við Huldugötu 2-4 og 6-8 þannig að þær uppfylli skilyrði og reglugerð um hlutdeildarlán. Einnig skuldbindur félagið sig til að selja að lágmarki 30 þeirra til einstaklinga sem hafa fengið samþykki fyrir veitingu lánsins. Þá skuldbindur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sig til að gera ráð fyrir úthlutun að lágmarki 30 hlutdeildarlána á umræddum lóðum. Um er að ræða 2ja og 3ja herbergja íbúðir.
Ég hitti líka fulltrúa Eirar öryggisíbúða í vikunni og tók nokkur viðtöl vegna einstaklingamála en ég er með opinn viðtalstíma á fimmtudögum. Mér finnst þetta mjög mikilvægur hluti af starfi bæjarstjóra, að veita íbúum Mosfellsbæjar og forsvarsmönnum fyrirtækja og hagsmunaaðila tækifæri á að ræða sín mál þó að ég geti að sjálfsögðu ekki hlutast til um formlegar ákvarðanir nefnda eða sjálfstæðra embætta.
Ég átti líka fjölmarga innanhússfundi í vikunni um ýmis mál sem brenna á starfsmönnum. Haustin eru tíminn þegar allt er að fara af stað og mikið álag á ýmsum deildum innanhúss sem og stofnunum bæjarins. Atvik eins og það sem kom upp í Lágafellskóla í síðustu viku, þegar trúnaðargögn fóru í umferð, hafa að sjálfsögðu áhrif á starfsemi hér innanhúss og þá sérstaklega á fræðslu- og frístundasvið. Við erum líka í miklum breytingafasa á bæjarskrifstofunni og það er mikilvægt fyrir mig að muna að hlúa að starfseminni og starfsfólki í slíku ferli, þegar verkefni færast á milli starfsmanna og deilda og tímabil óvissu tekur við. Við erum til dæmis í miðju ferli við að „lykla“ verkefni til að skýra ábyrgðarskiptingu á milli einstaklinga, deilda og sviða og það er tímafrek en nauðsynleg vinna til að stilla saman strengi. Við erum komin mislangt á sviðunum og það skapar ákveðið óþol sem við þurfum að takast á við saman. Við erum líka í miðju fjárhagsáætlunarferli en það hefur gengið vel hingað til, þökk sé frábæru starfsfólki á fjármála- og áhættusviði og forstöðumönnum stofnana bæjarins.
Í morgun átti ég góðan fund með Ágústi Jenssyni framkvæmdastjóra Golfklúbbs Mosfellsbæjar og Jóhönnu Hansen sviðsstjóra umhverfissviðs en við höfum átt mörg samtöl í vetur og sumar, vegna skipulags vallarins. Við fengum bréf frá íbúum í Súluhöfða sem var lagt fyrir bæjarráð í gær vegna hættu af golfboltum sem lenda á húsum og görðum við götuna. Mér var falið að svara íbúum sem ég mun að sjálfsögðu gera en málið á sér langa forsögu í stjórnkerfi bæjarins.
Í dag sótti ég opnun einkasýningar Ölfu Rós Pétursdóttur í Listasal Mosfellsbæjar sem nefnist Floating Emotions eða fljótandi tilfinningar. Sýningin samanstendur af textílverkum og smáskúlptúrum sem eru öll handgerð samkvæmt hefðbundnum handverksaðferðum og þar sem vatn er í aðalhlutverki við túlkun.
Forsíðumyndin er af Margréti Hauth sýningarstjóra Listasafns Mosfellsbæjar og Arnari Jónssyni sviðsstjóra menningar-, iþrótta- og lýðheilsusviðs.
Að því sögðu óska ég ykkur góðrar helgar.