Um síðustu helgi auglýstum við sjö stöður stjórnenda hjá Mosfellsbæ. Um er að ræða stöður sviðsstjóra mannauðs og starfsumhverfissviðs, skrifstofustjóra umbóta og þróunar, leiðtoga í málefnum fatlaðs fólks, faglega stjórnendur grunnskóla og leikskólamála auk stjórnenda Veitna og umhverfis og framkvæmdamála. Ástæður þess að við auglýsum margar stöður saman eru nokkrar. Þrír stjórnendur hafa hætt í vetur og við höfðum beðið með að auglýsa þær stöður þar til stjórnsýsluúttekt kláraðist. Þá munu tveir stjórnendur hætta vegna aldurs í sumar og stöður þeirra eru auglýstar. Tvær stöður eru nýjar, annars vegar staða skrifstofustjóra umbóta og þróunar og hins vegar staða leiðtoga í málaflokki fatlaðs fólks en sú staða tengist m.a. yfirtöku á þjónustu við Skálatún.
Umsóknarfrestur vegna starfanna er 16. júní næstkomandi og við höfum fengið ráðgjafafyrirtækið Intellecta til þess að annast utanumhald og úrvinnslu umsókna. Forsíðumyndin er einmitt mynd sem við notuðum í auglýsingu í fjölmiðlum um síðustu helgi og er fengin frá Mosfellingi en hún var tekin í tengslum við hátíðina Í Túninu heima.
Verkföll starfsmanna í leikskólum og yfirvofandi allsherjarverkfall hafa óneitanlega verið mál málanna í þessari viku. Starfsfólk á leikskólum í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ hafa verið í verkfallsaðgerðum frá miðjum maí, eða í þrjár vikur. Í öðrum sveitarfélögum hafa aðgerðirnar staðið skemur yfir eða í tvær vikur. Þessi staða er farin að hafa alvarleg áhrif á samfélagið hér og foreldrar eðlilega ósáttir.
Eins og fram hefur komið í opinberri umræðu er samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga með samningsumboðið fyrir hönd sveitarfélaganna þannig að bæjarstjórn eða bæjarstjóri semur ekki fyrir sitt sveitarfélag. Þessi staða getur reynst snúin, á alla kanta. Hún er snúin fyrir samninganefndina sem þarf að fara bil beggja þar sem hún er að semja fyrir ólík sveitarfélög með mismunandi áherslur. Hún er líka snúin fyrir sveitarfélögin sem hafa vinnuveitendaábyrgð og ábyrgð á þjónustuveitingunni. Samninganefndin heldur bæjar- og sveitarstjórum upplýstum um stöðu mála og það hafa verið jákvæð teikn í gær og í dag, hvað sem verður.
Ég upplýsi bæjarráð reglulega um stöðuna og áhrif verkfallanna á starfsemi Mosfellsbæjar.
Í bókun bæjarráðs frá því í gær, fimmtudag lýsir bæjarráð yfir áhyggjum af því að ekki hafi tekist að semja.
„Bæjarráð Mosfellsbæjar lýsir miklum áhyggjum af því að enn hafi ekki tekist samningar milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fer með samningsumboð sveitarfélaganna. Bæjarráð hvetur samningsaðila til að gera sitt ýtrasta til að samningar náist sem allra fyrst. Verkfallið sem nú stendur yfir hefur nú þegar haft ómæld áhrif á starfsemi sveitarfélagsins og fjölskyldur í bænum og brýnt að samningsaðilar finni lausn áður en allsherjarverkfall skellur á í næstu viku“.
Ef verkföll hefjast á mánudag þá munu þau hafa áhrif á leikskólana í bænum með tilheyrandi lokunum og/eða skerðingu á starfseminni. Skerðing verður á þjónustu bæjarskrifstofunnar þar sem þjónustuverið mun loka en það verður hægt að hringja á tilteknum tíma dagsins og senda tölvupósta og skilaboð með rafrænum hætti. Íþróttamannvirki loka líka og þar með taldar sundlaugar. Þá verða starfsmenn þjónustustöðvarinnar líka í verkfalli. Það er mikilvægt að fylgjast vel með vef bæjarins en þar koma fram nánari upplýsingar um þjónustuna, komi til allsherjarverkfalls. Skólastjórar upplýsa foreldra beint um stöðuna í hverjum leikskóla eins og verið hefur.
Það var ýmislegt fleira á dagskrá vikunnar. Ég fór í stórskemmtilega göngu um síðustu helgi með Bjarka Bjarnasyni um slóðir Halldórs Kiljan Laxness en við gengum frá Gljúfrasteini að Mosfellskirkju með viðkomu á nokkrum stöðum, meðal annars Guddulaug þar sem við fengum að dreypa á ljúffengu og tæru vatni úr læknum en það er sagt hafa mikinn töframátt. Gangan var hluti af vordagskrá Gljúfrasteins 2023 sem var glæsileg þetta árið.
Ég heimsótti líka starfsfólk Blikastaðalands sem er félag í eigu Arionbanka en þau hafa komið sér vel fyrir í gamla íbúðarhúsinu að Blikastöðum. Þar er búið að koma fyrir húsgögnum úr Góða hirðinum í anda þess tíma sem Blikastaðir voru stórbýli. Framkvæmdastjóri Blikastaðalands er Þorgerður Arna Einarsdóttir og formaður stjórnar Blikastaðalands er Margrét Erlendsdóttir. Þorgerður og verkefnisstjórar Blikastaðaverkefnisins hafa fast aðsetur í húsinu.
Til upprifjunar þá var samþykkt vorið 2022 að hefja samstarf við Blikastaðaland um uppbyggingu á Blikastaðalandinu.
Skipulagssvæðið sem um ræðir er alls um 90 hektarar og gert er ráð fyrir að landið sem hægt verði að nýta til fyrirhugaðrar uppbyggingar nýs íbúðasvæðið sé um 80 hektarar. Alls á að byggja um 3.500 til 3.700 íbúðir.
Skipulagsnefnd hefur samþykkt að hafinn verði undirbúningur 1. áfanga deiliskipulags Blikastaðalandsins. Aðal- og rammaskipulag svæðisins verður kynnt til umsagna og athugasemda á næstunni þar sem til stendur að halda íbúafund og kynningu vegna verkefnisins. Arkitektar og hönnuðir frá íslensku arkitektastofunni Nordic og dönsku landslagsarkitektastofunni SLA munu koma að verkinu. Í undirbúningi skipulags felst að rýna áfangaskiptingu, inngrip, græn svæði, staðhætti landsins, húsagerðir og mögulegar umbreytingar Blikastaðabæjarins áður en til deiliskipulags kemur.
Á fimmtudag gengum við frá samkomulagi við Eldingu um afhendingu æfingaraðstöðunnar við Varmá. Starfsemin mun færa sig um set og salurinn verður afhentur Aftureldingu þann 1. júlí næstkomandi. Við þetta tilefni voru Hjalta færð blóm með þakklæti fyrir samstarf Mosfellsbæjar og Eldingar allt frá árinu 2007 en Elding hefur rekið almenna líkamsrækt og sérhæfða aðstöðu til styrktarþjálfunar fyrir afreks- og íþróttafólk í Mosfellsbæ í samræmi við þjónustusamning á milli Eldingar og Mosfellsbæjar. Afturelding hefur óskað eftir bættri aðstöðu fyrir íþróttafólk og þjálfara félagsins og hafa breytingar staðið til um all langt skeið. Afturelding mun starfrækja sérhæfða aðstöðu til styrktarþjálfunar fyrir afreks- og íþróttafólk í Mosfellbæ, meðal annars UMFA, GolfMos, Hestamannafélagi Harðar, Motomos og Öspinni.
Ég óska ykkur góðrar helgar með þá von að kjaradeila Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB leysist farsællega og að það þurfi ekki að koma til verkfalla á mánudag.
Forsíðumyndin er úr myndasafni Mosfellings en aðrar myndir eru m.a. úr göngunni frá Gljúfrasteini að Mosfellskirkju og heimsókninni að Blikastöðum en þar má sjá Þorgerði Örnu Einarsdóttur framkvæmdastjóra Landeyjar ásamt Þóru Hjaltested bæjarlögmanni í hlöðunni. Þá er mynd af okkur Gunnhildi sviðsstjóra skóla og frístundasviðs og Hjalta Úrsus en Elding er að ljúka starfsemi við Varmá og færðum við honum bestu þakkir.