Menningarlífið hér í Mosfellsbæ blómstrar og á miðvikudagskvöldið sótti ég afar vel heppnaða tónleika Stórsveitar Íslands í Lundi í Mosfellsdal. Stórsöngvararnir Sigrún Hjálmtýsdóttir, Sigurður Hansson, Birgir Haraldsson, Stefanía Svavarsdóttir og Davíð Ólafsson sungu klassískar perlur við undirleik hljómsveitarinnar. Tónleikarnir voru mjög vel sóttir og húsnæði gróðurhússins að Lundi var einstaklega skemmtileg umgjörð um viðburð af þessu tagi. Forsíðumyndin er af Sigurði Hanssyni og stórsveitinni.
Annars hefur þessi vika einkennst af stífum fundarhöldum. Meðal annars hafa verið fundir með innviðaráðherra í tengslum við hagsmuni Mosfellsbæjar gagnvart Jöfnunarsjóði og framlagi til málefna fatlaðs fólks og hinsvegar fundur í ráðherrabústaðnum með forsætis- og innviðaráðherra ásamt fulltrúa fjármálaráðherra vegna samgöngusáttmálans. Á þeim fundi kom fram ríkur vilji til þess að virða samgöngusáttmálann sem var undirritaður árið 2019 og þetta mikilvæga samstarf ríkis og sveitarfélaga um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.
Í vikunni voru haldnir tveir fundir hjá stjórn samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, annarsvegar um samgöngumál og hinsvegar afgreiðslufundur vegna fjölmargra erinda sem hafa borist samtökunum.
Þá var fundur í stjórn Reykjalundar þar sem við fengum fulltrúa frá SÍBS á fundinn til að ræða húsnæðismál Reykjalundar. Það er ljóst að húsnæðið er komið til ára sinna og töluvert mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf. Í undirbúningi er að stofna sérstakt félag utan um húseignir stofnunarinnar.
Ég hélt fund með forstöðumönnum stofnana bæjarins um málefni barna og fjölskyldna af erlendum uppruna. Við fengum fræðslu frá Árborg, Önnu Katarzyna Wozniczka verkefnastjóra í málefnum flóttamanna í Árborg sem fór yfir helstu verkefni og áskoranir sveitarfélagsins sem skrifaði nýlega undir samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku allt að 100 flóttamanna. Verkefnið hefur heilt yfir gengið vel í Árborg en þau hafa þegar tekið á móti 70 af þeim 100 sem samningurinn tiltekur.
Í bæjarráði í gær var samþykkt að hækka húsnæðisbætur í samræmi við hækkun ríkisins á almennum húsnæðisbótum og hækkar hámark húsnæðisbótanna úr 95 þúsund krónum á mánuði í rúmlega 103 þúsund. Þá var samþykkt að heimila áframhaldandi skipulagsvinnu vegna Bröttuhlíðar með þeim fyrirvara að komi til uppbyggingar verði innheimt byggingarréttargjöld.
Tilboðsfrestur vegna útboðsins Varmárvöllur – nýtt vökvunarkerfi rann út í fyrradag, þann 22. febrúar. Fjögur tilboð bárust:
- Metatron ehf. – 13.901.325 kr.
- Eldfoss pípulagnir ehf. – 15.783.609 kr.
- Wiium ehf. – 17.541.052 kr.
- Stéttafélagið ehf. – 24.437.930 kr.
Kostnaðaráætlun Mosfellsbæjar var 14.297.000. Tilboðsfjárhæðir eru birtar með fyrirvara um yfirferð tilboða m.t.t. hæfis bjóðenda og réttra útreikninga í tilboðsskrá. Tilboð allra bjóðenda verða yfirfarin m.t.t. þessa og niðurstaða útboðs tilkynnt í kjölfarið.
Það verður að segjast eins og er að vikan hefur þó mestmegnis litast af þeim sorglega atburði sem átti sér stað í Lágafellslaug á mánudag að gestur missti meðvitund í lauginni og var síðar úrskurðaður látinn. Hugur okkar er hjá aðstandendum og öllum þeim sem eiga um sárt að binda. Rauði krossinn veitti gestum og starfsmönnum Lágafellslaugar áfallahjálp vegna málsins og starfsmenn fá áframhaldandi stuðning. Atburðurinn verður rannsakaður af þar til bærum aðilum og sveitarfélagið mun veita þeim allar upplýsingar um atburðinn, viðbúnað og viðbrögð.
Ég óska ykkur góðrar helgar.
Regína Ásvaldsdóttir