Dagurinn í dag hófst á fundi í framkvæmdaráði almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins, sem bæjarstjórar og borgarstjóri eiga sæti í ásamt lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Með okkur starfa Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarna hbs og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir verkefnisstjóri, en þau þekkja mjög vel til starfa neyðarstjórna í hverju sveitarfélagi fyrir sig eftir Covid. Á fundinum í dag fórum við yfir skipulag mála sem tengjast skóla-og velferðarþjónustu við Grindvíkinga.
Framkvæmdaráðið hittist síðasta laugardag í kjölfar rýmingar á föstudagskvöldinu með Fannari bæjarstjóra. Þar var farið yfir stöðu mála og þær bráðaaðgerðir sem voru í gangi. Það verkefni sem okkur var falið, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, er að huga að skóla og frístundamálum grindvískra barna. Það var skipaður hópur í kringum hvern málaflokk sem tengist skóla og frístundastarfinu og meðal annars kom það í hlut Gunnhildar Sæmundsdóttur sviðsstjóra fræðslu og frístundasviðs í Mosfellsbæ að fara fyrir teymi á höfuðborgarsvæðinu sem vinnur að skipulagningu leikskólamála fyrir börn úr Grindavík. Það er búið að safna saman upplýsingum um mögulegt húsnæði, bæði fyrir leikskóla og skóla en stjórnsýslan í Grindavík þarf að stýra för, bæði hvað varðar staðsetningu leikskóla og mönnun. Mikilvægast er að fá yfirsýn yfir staðsetningu á starfsfólki leikskólanna í Grindavík, til að hægt sé að skipuleggja starfsemina þar sem hún mun byggjast á starfsfólki bæjarins. Ég tók líka stuttan Teams fund með fulltrúum bæjarskrifstofunnar í neyðarstjórn til að upplýsa þau um stöðu mála.
Við hittumst svo allir bæjarstjórarnir á landinu á sunnudag á Teams fundi og fórum yfir stöðuna með Fannari og skipulögðum næstu skref. Íbúar Grindavíkur eru ekki eingöngu á höfuðborgarsvæðinu, heldur eru margir á Reykjanesi og í sumarbústöðum í uppsveitum Árnesssýslu þannig að það þarf að skipuleggja öðruvísi ramma í kringum þá íbúa.
Við tókum ákvörðun á sunnudeginum að bjóða öllum grindvíkingum frítt í sund og auk þess sundföt og handklæði þar sem það var ljóst af fréttum að margir höfðu ekki náð að taka nauðsynlegustu hluti með sér við rýmingu.
En hefðbundin vinnuvika hófst á mánudagsmorgni á fundi á vegum stýrihóps SSH vegna samgöngusáttmálans, síðan framkvæmdastjórnarfundi innanhúss á bæjarskrifstofunni og svo komu innanhússfundir vegna ýmissa mála, s.s. eignasjóðs og skipulagsmála þann daginn auk þess sem við nýtum mánudaga í stjórnsýslunni til að undirbúa bæjarráðsfundi. Fyrstu dagar vikunnar einkenndust af innanhússfundum með sviðsstjórum, neyðarstjórn ofl.
Umhverfissviðið var með starfsdag eftir hádegi á miðvikudag og ég var með ávarp í upphafi og ræddi um þjónustustefnu Mosfellsbæjar sem er eitt af verkefnum sem komu fram í umbótatillögum Strategíu. Til þess að fá sem gleggsta mynd af því hvernig bæjarbúar eru að upplifa þjónustuna þarf að setja fram reglulegar þjónustumælingar hjá notendum. Mosfellsbær hefur tekið þátt í viðhorfskönnunum Gallup undanfarin ár en sú könnun mælir eingöngu hvaða upplifun fólk hefur af ýmsum þjónustuþáttum í Mosfellbæ þó að þau hafi ekki nýtt sér þjónustuna. Við viljum heyra beint frá notendum með þeim þjónustukönnunum sem eru framundan.
Á miðvikudagskvöldinu fór ég á glæsilegt bókmenntahlaðborð á vegum bókasafns Mosfellsbæjar. Þar voru rithöfundarnir Bergþóra Snæbjörnsdóttir sem las upp úr bókinni Duft, Friðgeir Einarsson með Seratónínendurupptökuhemla, Guðmundur Pétursson með bókina Öll nema fjórtán: sögur úr Vesturbænum og víðar,
Sverrir Norland með Kletturinn og Sólveig Pálsdóttir með Miðillinn. Sunna Dís Másdóttir skáld og bókmenntagagnrýnandi Kiljunnar stýrði umræðum. Það er skemmst frá því að segja að rithöfundarnir fóru á kostum og það myndaðist mjög góð stemning. Frábært framtak hjá bókasafninu.
Á fimmtudag var bæjarráð og þar tókum við nokkur mál fyrir. Meðal annars verkefnið Bara tala sem Kristján Þór Magnússon mannauðsstjóri kynnti. Bara tala er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Í gegnum forritið er boðið upp á starfstengt íslenskunám og grunnnámskeið í íslensku fyrir vinnustaði. Með notkun sjónrænna vísbendinga og mynda geta notendur auðveldlega bætt orðaforða sinn. Hjá Mosfellsbæ eru að minnsta kosti um 100 starfsmenn af erlendum uppruna og brýnt að aðstoða okkar mikilvæga starfsfólk í að læra íslensku á vinnutíma.
Við afhentum einnig bókina Orð eru ævintýri en um er að ræða myndaorðabók sem býður upp á tækifæri til að spjalla um orð daglegs lífs og efla orðaforða. Bókin hefur verið þýdd á nokkur tungumál og verður aðgengileg á rafrænu formi á vef ásamt gagnvirkum verkefnum og kennsluleiðbeiningum fyrir leik- og grunnskóla. Aftast í bókinni eru stuttar leiðbeiningar um notkun og hugmyndir að umræðuefnum. Myndhöfundar eru Blær Guðmundsdóttir, Böðvar Leós, Elín Elísabet Einarsdóttir og Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson.
Bókin er gefin út af Menntamálastofnun og var unnin í samvinnu Miðju máls og læsis hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, námsbrautar í talmeinafræði við Háskóla Íslands, leikskólanna Laugasólar og Blásala, Austurbæjarskóla og Menntamálastofnunar. Það var Guðrún Björg Pálsdóttir leikskólastjóri í Leirvogstungu sem fékk fyrstu bókina.
Eins og ég minntist á í upphafi pistilsins þá hófst dagurinn á fundi framkvæmdaráðs Almannavarna. Í dag var ennfremur fundur stefnuráðs byggðasamlaganna þar sem við fórum meðal annars yfir vinnu starfshóps um úrgangsmál sem var falið að rýna og gera umsögn um fyrirliggjandi drög að stefnusáttmála sveitarfélaganna á sviði úrgangsmála.
Flest þessara mála sem við erum að fást við alla daga verða nánast hjóm eitt miðað við þá stöðu sem bæjarbúar í Grindavík upplifa þessa dagana. Ég vona svo innilega að náttúruöflin verði bænum hliðhollari næstu vikurnar og að það verði ekki gos í miðju bæjarfélaginu.
Góða helgi!
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024