Góð vika að baki með fjölbreyttum verkefnum. Í dag var ég stödd á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga þar sem byggðasamlögin Strætó bs, Sorpa og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kynntu starfsemi sína og fóru yfir helstu rekstrarþætti og framtíðarsýn. Ennfremur var farið yfir helstu verkefni á skrifstofu samtakanna en sveitarfélögin eru með mörg sameiginleg verkefni til viðbótar við byggðasamlögin, svo sem skíðasvæðin, sóknaráætlun og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðsins. Hefðbundin aðalfundastörf voru líka á dagskrá, meðal annars var ég kjörin formaður samtakanna til næstu tveggja ára en röðin var komin að Mosfellsbæ þetta haustið. Ég hlakka til þess verkefnis enda mörg brýn verkefni framundan sem snerta hagsmuni Mosfellsbæjar.
Ég fór í heimsókn á Reykjalund í vikunni og tóku forstjórinn, Pétur Magnússon og framkvæmdastjórnin afskaplega vel á móti mér. Forsíðumyndin er af fulltrúum í framkvæmdastjórn og forstöðumanni Múlalundar.
Reykjalundur í Mosfellsbæ er mjög merkileg stofnun sem fæst við alhliða endurhæfingu sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Hjarta starfseminnar er teymisvinna þar sem læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og fleiri starfsstéttir sinna fjölbreyttri endurhæfingu. Reykjalundur er í eigu SÍBS, samtaka íslenskra berklasjúklinga, en árið 2020 var ákveðið að stofna einkahlutafélag um rekstur heilbrigðisþjónustu á Reykjalundi, Reykjalund endurhæfingu ehf. Eigandi og eini hluthafi einkahlutafélagsins er SÍBS. Félagið er óhagnaðardrifið. Rekstur Reykjalundar endurhæfingu er fjármagnaður með samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Ásamt því að fá kynningu frá framkvæmdastjórninni þá skoðaði ég húsakynni og heimsótti einnig Múlalund og verslunina sem er opin daglega og hitti íbúa og starfsfólk á Hlein sem er hjúkrunarsambýli.
Bæjarstjórn og fræðslunefnd fóru í vettvangsferð í Kvíslarskóla í vikunni en þar standa yfir miklar framkvæmdir eins og ég hef áður fjallað um í þessum pistlum. Lárus Elíasson verkefnisstjóri á umhverfissviði tók á móti okkur og bæði sýndi okkur vinnusvæðin og líka rýmin sem eru tilbúin. Á næsta ári munum við verja 500 mkr í endurbæturnar, gluggaskipti á 1 og 2 hæð og verða gluggarnir á fyrstu hæðinni síkkaðir. Ennfremur þarf að endurbyggja allar kennslustofur á fyrstu hæðinni sem er í raun fokheld í dag.
Það var farið að rökkva þegar ég keyrði frá Félagsgarði í Kjós áðan og aðeins farið að kólna. Sem betur fer er aðventan á næsta leiti þar sem fallegar skreytingar munu lýsa upp tilveruna.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar.
Regína Ásvaldsdóttir
Forsíðumynd: Með mér á myndinni eru fulltrúar í framkvæmdastjórn Reykjalundar. Talið frá vinstri, Pétur Magnússon forstjóri, Stefán Yngvason framkvæmdastjóri lækninga, Sigurður Viktor Úlfarsson framkvæmdastjóri Múlalundar, Óskar Jón Helgason framkvæmdastjóri þjálfunar, Helgi Kristjónsson framkvæmdastjóri rekstrar og Ólöf Árnadóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar.
Mynd 1: Sigurður Viktor Úlfarsson framkvæmdastjóri Múlalundar
Mynd 2: Verslun Múlalundar
Mynd 3: Úr heimsókn í Kvíslarskóla
Mynd 4: Frá aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með Páli Björgvini Guðmundssyni framkvæmdastjóra SSH og Almari Guðmundssyni fráfarandi formanni SSH
Mynd 5: Með fulltrúum Mosfellsbæjar á aðalfundinum