Í vikunni var mikil áhersla á sorpmál enda umfjöllun í frettaskýringaþættinum Kveik á þriðjudagskvöld um urðunarmál. Þátturinn var að mörgu leiti góður og vakti vonandi marga til umhugsunar um umhverfismál og mikilvægi þess að koma hringrásarhagkerfinu af stað með öflugri flokkun og meiri endurnýtingu. Íslendingar henda mun meira af rusli en nágrannaþjóðirnar. Hver íbúi henti 666 kílóum af heimilissorpi í fyrra sem er aukning frá árinu á undan. Við eigum talsvert langt í land til að ná markmiðum ESB landanna um hlutfall endurvinnslu. Á þessu ári er markmiðið að sorphirða á landinu verði samræmd sem þýðir að heimili þurfa að flokka sorp í fjórar tunnur; pappír, plast, lífrænt og almennt sorp. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru að undirbúa samræmdu flokkunina í þéttu samstarfi við Sorpu.
Það kom fram í Kveiksþættinum að í lok árs 2023 standi til að loka urðunarstaðnum í Álfsnesi í samræmi við eigendasamkomulag frá árinu 2013 með viðaukum frá árunum 2018 og 2020. Ég fór í viðtal í Speglinum vegna þessa á miðvikudag þar sem ég lýsti yfir vonbrigðum með þá stöðu sem er uppi, að það hafi ekki enn fundist nýr urðunarstaður en það getur tekið mörg ár frá ákvörðun um staðarval og þar til urðun getur hafist.
Ég fór líka í viðtal í kvöldfréttum RÚV um sama mál. Þar var umræðan því miður tengd við beiðni íslenska Gámafélagsins um kaup á sorpi til útflutnings og látið í veðri vaka að það myndi leysa öll þessi mál. Þannig er staðan því miður ekki þó að útflutningur myndi leysa málin að hluta. Stjórn Sorpu hefur þegar samþykkt að fara í útboð en verkefni af þessari stærðargráðu er að sjálfsögðu útboðsskylt.
Fulltrúar Sorpu, þeir Jón Viggó Gunnarsson, Gunnar Bragason, Gunnar Dofri Ólafsson og Þorleifur Þorbjörnsson komu á fund bæjarráðs á fimmtudagsmorgunn og fóru vel yfir stöðu mála og hvað fyrirtækið hefur gert á undanförnum árum til að minnka umhverfisáhrif urðunar. Bæjarráð var skýrt í afstöðu sinni að það þyrfti að hætta urðun í Álfsnesi.
Fjölmargir fundir hafa verið haldnir í vikunni að venju, meðal annars hitti ég fulltrúa nýstofnaðra íbúasamtaka Álafosskvosarinnar í gær, þau Birtu Fróðadóttur formann auk þeirra Önnu, Ólöfu, Jóel og Sigurjón. Félagið var stofnað 2. nóvember og segir svohljóðandi í samþykktum félagsins:
„Tilgangur félagsins er að vera málsvari Álafosskvosar og standa vörð um sameiginleg hagsmunamál íbúa, eigenda fasteigna og rekstraraðila í Álafosskvos. Félagið skal standa vörð um menningarverðmæti og sögulega arfleifð Álafosskvosar. Einnig skal félagið efla félagsleg tengsl íbúa og hagsmunaaðila á svæðinu. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að funda reglulega um málefni sem varða sameiginlega hagsmuni svæðisins og skapa þar umræðuvettvang fyrir íbúa, eigendur og rekstraraðila á svæðinu. Jafnframt skal félagið vera samstarfsaðili við bæjarfélagið og önnur yfirvöld“.
Á fundinum var meðal annars rætt um umhverfismál og ásýnd svæðisins, skipulagsmál, umferðaröryggismál og umsókn Mosfellsbæjar um að kvosin verði skilgreind sem verndarsvæði í byggð. Lög um verndarsvæði í byggð voru samþykkt árið 2015 en þar segir meðal annars:
„Við framkvæmd mats á varðveislugildi byggðar skal sveitarstjórn m.a. líta til heildarásýndar byggðar og huga að samspili ólíkra þátta í umhverfinu, heildarsvip bygginga á svæðinu, sameiginlegum einkennum byggðarinnar og tengslum hennar við staðhætti og umhverfi. Slíkt mat skal hafa víða skírskotun til sögu byggðarinnar og listræns gildis hennar sem nánar tiltekið felst í sérkennum í byggingarlist og stílbrigðum sem einkenna byggðina og gefa henni ákveðið heildaryfirbragð sem hefur varðveislugildi umfram það sem á við um einstök hús innan hennar. Líta skal til einkenna byggðar sem eiga sér sögulegar forsendur og tengst geta atvinnusögu, búsetuháttum og menningarlífi á tilteknum stað“.
Mosfellsbær fékk styrk árið 2021 úr húsafriðunarsjóði til að vinna umsóknina.
Á forsíðumyndinni í dag er mynd af fulltrúum íbúasamtakanna. Það verður spennandi að eiga í samstarfi við samtökin en svæðið býr yfir einstakri sögu sem er mikilvægt að gera sem mest úr.
Í morgun var mjög góður fundur bæjarstjóranna á höfuðborgarsvæðinu með Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra og aðstoðaryfirlögregluþjónunum Grími Grímssyni og Ásgeiri Þór Ásgeirssyni. Við fórum yfir afbrotatölur og helstu afbrotaflokka ásamt því að fá kynningu á þáttum eins og heimilisofbeldi og hlutverki samfélagslögregluþjóna. Flest afbrot á höfuðborgarsvæðinu eru í Reykjavík og er miðbærinn sá staður sem flest ofbeldisbrot eru framin. Íbúar í Mosfellsbæ eru um 5 % af íbúafjölda svæðisins en hér eru framin 2 % afbrota á höfuðborgarsvæðinu.
Það kom fram í máli Höllu Bergþóru að lögreglan á Íslandi er mjög fáliðuð miðað við nágrannaþjóðir auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er mun fámennari miðað við íbúafjölda en lögreglan úti á landi eða með 1,2 lögreglumenn á hverja eitt þúsund íbúa. Við ályktuðum um þessi mál á vettvangi stjórnar samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fyrr í vetur en það er mjög brýnt að fylgja því eftir að það fáist aukið fjármagn til lögreglunnar á þessu svæði, þar sem flest brot á Íslandi eru framin auk þess sem lögreglan hér er með landsdekkandi verkefni á borð við landamæravörslu og fleira.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar og friðsællar helgar!
Regína Ásvaldsdóttir