Þessi pistill er sá fyrsti eftir sumarfrí bæjarstjórnar en bæjarráð fór með fullnaðarafgreiðslu mála í sumar.
Sumarið hefur verið nýtt til ýmissa framkvæmda þó að veður hafi tafið einstök verk. Helstu verkefni þegar kemur að gatna og veitukerfinu voru:
- Lokahús við Víðteig og kaldavatnsstofn frá Skarhólabraut að Víðiteig
- Blikastaða athafnasvæði, framkvæmdir hafnar
- 5. áfangi Helgafellshverfis – frágangur gatna
- Endurgerð gangstétta við Álfatanga
- Lýsing á flugvallahring (í vinnslu)
Þá voru fjölmörg verkefni tengd skólum og íþróttahúsum, s.s.
- Nýr leiksskóli í Helgafellslandi – vinna við innréttingar hafnar
- Íþróttahús við Helgafellsskóla
- Varmárvöllur, knattspyrnu- og frjálsíþróttavöllur
- Kvíslarskóli, endurinnrétting 1. hæð og uppbygginga lóðar og snjóbæðsla
- Varmárskóli, 1. áfangi lóðar, upphitaður sparkvöllur
- Eldhúsbygging leikskólanum Reykjakoti
- Hlaðhamrar, endurnýjuð lóð, nýjar rólur og sandkassar
- Endurbætur á Varmár- og Lágfellslaugum
- 1 og 2 hæði í Brúarlandi
Á opnum svæðum voru helstu framkvæmdir:
- Ævintýragarðurinn, ný hjólabraut
- Ævintýragarðurinn, endurnýjun á frisbígolfvelli
- Endurgerð á fótbolta- og körfuboltavöllum við Leirutanga
Í kortasjá Mosfellsbæjar má sjá helstu framkvæmdir eru útlistaðar, þ.e. bæði á stofnunum og í gatnagerð.
Einn hátíðlegasti viðburðurinn í sumar var útnefning heiðursborgara Mosfellsbæjar en Birgir D. Sveinsson hlaut nafnbótina við hátíðlega athöfn við Varmárlaug þann 17. júní á 60 ára afmæli laugarinnar og skólahljómsveitar Mosfellsbæjar. Birgir er fjórði heiðursborgari Mosfellsbæjar. Aðrir eru nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Kiljan Laxnes (1902-1998) sem var útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar árið 1972. Jón M. Guðmundsson (1920-2009), fyrrverandi oddviti sveitarstjórnar Mosfellshrepps var útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar árið 2000. Salome Þorkelsdóttir (f. 1927), fyrrverandi oddviti sveitarstjórmnar Mosfellshrepps og alþingismaður var gerð að heiðursborgara Mosfellsbæjar 2007 og var sérstakur boðsgestur á hátíðinni.
Á næsta fundi bæjarstjórnar verður nýr viðauki við samgöngusáttmálann tekinn til fyrri umræðu en viðaukinn þarf tvær umferðir í bæjarstjórninni. Töluvert hefur verið fjallað um samninginn á undanförnum vikum en fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu er mest um vert að fá ríkið til að koma að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Ráðist var í uppfærslu sáttmálans á síðasta ári vegna aukins umfangs og mikilla almennra kostnaðarhækkana. Kostnaðaráætlanir hafa verið endurskoðaðar með fenginni reynslu og mörg verkefni komin nær framkvæmdatíma. Gildistími sáttmálans hefur verið lengdur til ársins 2040 til að tryggja raunhæfan tímaramma fyrir undirbúning og fjármögnun.
Allar lykilframkvæmdir eru þær sömu og áður í samgöngusáttmálanum en breytingar eru gerðar á einstökum verkefnum.
Heildarfjárfesting á fyrsta tímabili í uppfærðum samgöngusáttmála, til ársins 2029, er að jafnaði rúmlega 14 ma. kr. á ári. Það samsvarar þriðjungi af árlegum samgöngufjárfestingum á fjárlögum. Á tímabilinu 2030-2040 er heildarfjárfesting að jafnaði 19 ma. kr. á ári. Heildarfjárfesting til ársins 2040 er áætluð 311 ma. kr.
Verkefni samgöngusáttmálans skiptast í fjóra meginflokka sem eru: Stofnvegir, Borgarlína og strætóleiðir, göngu- og hjólastígar og verkefni tengd umferðarstýringu, flæði og öryggi. Eftirfarandi er nánari lýsing á verkefnaflokkunum og hlutdeild í samgöngusáttmálanum:
- Stofnvegir – 42%. Ráðist verður í sex stór verkefni við stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar við þau þrjú sem lokið er á vegum sáttmálans (stofnvegaverkefni á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut).
- Borgarlína og strætóleiðir – 42%. Almenningssamgöngur verða stórbættar með uppbyggingu Borgarlínu í sex lotum. Þjónusta við íbúa verður stöðugt bætt með samþættu leiðaneti strætisvagna og Borgarlínu.
- Hjóla- og göngustígar – 13%. Hjóla- og göngustígum verður fjölgað og þeir bættir verulega í uppfærðum sáttmála, en lagðir verða um 80 km af nýjum stígum til viðbótar við 20 km sem þegar hafa verið lagðir á vegum sáttmálans.
- Umferðarstýring, umferðarflæði og öryggisaðgerðir – 3%. Fjárfest verður áfram í nýrri tækni og búnaði til að bæta umferðarflæði og -öryggi á stofnvegum Miklabraut í jarðgöng og ný gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegs
Stærstu breytingarnar á einstökum verkefnum frá fyrri samgöngusáttmála eru að Miklabraut verði lögð í um 2,8 km jarðgöng með tengigöngum við Kringlumýrarbraut í stað 1,8 km Miklubrautstokks og að Sæbraut verði lögð í stokk í stað fyrri áforma um ein mislæg gatnamót. Þá hafa ný gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verið útfærð með frjálsu flæði bílaumferðar auk sérrýmis Borgarlínu til að tengja Mjódd við almenningssamgöngukerfið. Loks flytjast framkvæmdir við Suðurlandsveg milli Norðlingavaðs og Bæjarháls yfir á samgönguáætlun. Stöðugt mat er lagt á valkosti sem leiða til aukinnar hagkvæmni og umferðaröryggis.
Skipting fjármögnunar milli ríkis og sveitarfélag verður hin sama og áður, þ.e. sveitarfélög með 12,5% og ríkið 87,5%.
Beint framlag ríkisins í samgöngusáttmálann verður 2,8 ma. kr. á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess er gert ráð fyrir árlegu viðbótarframlagi að fjárhæð 4 ma. kr. í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisins frá 2025 til og með 2029. Þá er gert ráð fyrir auknum ábata af þróun og sölu Keldnalands sem ríkið lagði inn í verkefnið við undirritun samgöngusáttmálans 2019.
Beint framlag sveitarfélaganna verður 1,4 ma.kr. á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess mun árlegt viðbótarframlag að fjárhæð 555 miljónir kr. bætast við bein framlög sveitarfélaganna frá og með 2025. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skipta með sér kostnaði á hverju ári miðað við hlutfallslegan íbúafjölda 1. desember árið á undan.
Samkomulagið felur í sér að sveitarfélögin og ríkið stofni sameiginlegt félag sem beri ábyrgð á skipulagi og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Rekstur nýja félagsins mun taka hvort tveggja til hefðbundinna strætisvagnaleiða og Borgarlínu. Stefnt er að því að félagið taki til starfa um næstu áramót.
Fyrir Mosfellinga skiptir einna mestu máli að Borgarlínan frá Keldnalandi að Háholti er komin nr. 2 í framkvæmdaröðinni en er ekki síðust eins og í fyrri sáttmála. Þá skiptir líka máli að fara í framkvæmdir við Sæbrautarstokk til að greiða fyrri umferð um Sundabraut en í gildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir að vinna hefjist við Sundabraut árið 2026 og verði hægt að taka í notkun 2031.
Helstu gögn sem fylgja viðauka með uppfærðum samgöngusáttmála:
Bæjarhátíðin Í Túninu heima var haldin nú um helgina og tókst afar vel – þrátt fyrir rigningu og rok, hluta helgarinnar. Mosfellingar létu veðurspána ekki slá sig út af laginu þegar kom að brekkusöngnum í Álafosskvosinni á föstudagskvöldinu en vissulega voru færri sem mættu til dæmis á Kjúllann og aðra slíka viðburði sem voru utandyra. Bæjarhátíðin var formlega sett á fimmtudeginum 28. september með dagskrá í Hlégarði. Þar voru umhverfisviðurkenningar veittar, bæjarlistamaður útnefndur og starfsmenn með 25 ára starfsaldur heiðraðir. Þá spilaði hljómsveitin Piparkorn nokkur lög.
Umhverfisnefnd sá um valið og veittar voru viðurkenningar meðal annars fyrir tré ársins, íbúaátak ársins og garð ársins. Tré ársins 2024 var valinn Garðahlynur við Byggðarholt 33, viðurkenning fyrir íbúaátak féll í skaut íbúa við Einiteig og Hamarsteig en þeir hafa tekið að sér umhirðu opins græns svæðis í miklu og góðu samstarfi við Garðyrkjudeild Mosfellsbæjar. Garður ársins er í Áslandi 14 og er það Nahla Ratana Lampha sem hefur umsjón með honum. Auk þess fengu þrír aðrir garðar umhverfisviðurkenningar: Hagaland 5, Hjarðaland 3 og Dalatangi 19.
Þóra Sigurþórsdóttir var útenfnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2024. Menningar- og lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Hrafnhildur Gísladóttir formaður nefndarinnar leirlistakonunni Þóru Sigurbjörnsdóttur verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni.
Þóra Sigurþórsdóttir á langan feril að baki sem leirlistakona og hefur meðal annars verið með vinnustofu í Álafosskvos og tók mikinn þátt í því fjölskrúðuga listalífi sem blómgaðist í kvosinni. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis. Þóra starfrækir nú vinnustofu að Hvirfli í Mosfellsdal.
Sex starfsmönnum var veittur þakklætisvottur fyrir vel unnin störf í tengslum við 25 ára starfsafmæli þeirra hjá Mosfellsbæ. Það voru þau Hrafnhildur Svendsen kennari við Lágafellsskóla, Jón Eiríksson kennari við Lágafellsskóla, Þór Sigurþórsson byggingartæknifræðingur á skrifstofu umhverfissviðs, Þóra Ösp Magnúsdóttir leiðbeinandi í Leikskólanum Reykjakoti, Þuríður Stefánsdóttir leikskólastjóri á leikskólanum Huldubergi og Ásta Sif Jóhannsdóttir félagsliði á búsetukjarnanum Norðurhlíð. Það er mikils virði fyrir Mosfellsbæ að eiga svona góða starfsmenn sem halda tryggð við vinnustaðinn í áratugi.
Bæjarhátíðinni var eiginlega „þjófstartað“ á miðvikudeginum með formlegri opnun Brúarlands þar sem verður félagsstarf fyrir aldraða í Mosfellsbæ og félag aldraðra í Mosfellsbæ FaMos verða með aðstöðu. Ólafur Óskarsson formaður velferðarnefndar hélt ávarp og minntist þess að félagsstarfinu hefði verið lofað húsið árið 2012 en orðið að hopa fyrir framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Þau væru því eiginlega búin að bíða eftir húsinu í 12 ár. Áfram verður félagsstarf í Eirhömrum en þar er stefnan að stækka rými fyrir dagdvölina og fjölga plássum. Eftir vigslu Brúarlands var hladið í Hlégarð þar sem um 250 manns mættu til að hlusta á bráðskemmtilegt erindi Svavars Knúts og Líneyjar Úlfarsdóttur sálfræðings og skoða þau tómstundatilboð sem verða í boði í bænum í vetur.
Á föstudag var hjólabrautin Flækjan opnuð í Ævintýragarðinum og endurnýjuðaður Frisbí golfvöllur sem við vonum að bæjarbúar nýti sér – en það var líf og fjör við opnun Flækjunnar og strákar úr hjóladeild Aftureldingar léku listir sínar.
Ég náði að fara á fjölmarga tónleika og viðburði yfir helgina þó það sé erfitt að þurfa að velja og hafna þar sem margir byrja á sama tíma. Ég ræsti Tindahlaupið á laugardagsmorgninum kl. 9 og 11 en Tindahlaupið átti 15 ára afmæli. Ég dáðist að þessum dugnaðarforkum sem fóru út í frekar blautan daginn. Það voru yfir 400 manns sem skráðu sig, tæplega 100 í 5 og 7 tinda og 300 í 1 og 3 tinda,
Ég fór á tónleika hjá Stöllunum að Suðurá í Mosfellsdal á læaugardeginum, heimsótti Þóri listapúka á vinnustofunni í Kjarna, Ólöfu Björgu myndlistarkonu í Álafosskvosinni og skoaði nýja textílbarinn sem var opnaður í Björtuhlíð af þeim frænkum Hrafnhildi og Hildigunni.
Það kom í hlut okkar hjóna að halda götugrill fyrir næstu nágranna í Leirutanganum og það var haldið innandyra – í garðskálanum – þetta árið!
Á sunnudeginum hafði barnadagskráin vinninginn þar sem við fórum í Tívolí, Hoppukastala, slökkvistöðina og fengum ljúffengar veitingar hjá skátunum í Álafosskvosinni.
Þó að hátíðin hafi farið vel fram í heildina þá verður að segjast eins og er að þeir hræðilegu atburðir sem áttu sér stað á menningarnótt, þegar ung stúlka var myrt og önnur ungmenni særðust höfðu mikil áhrif á okkur sem vorum að undirbúa hátíðina. Við fengum ábendingar um hugsanlegar hópamyndanir á bæjarhátíðinni og það var tekin ákvörðun um að stórefla alla gæslu sem ég held að hafi verið hárrétt ákvörðun. Við réðum öryggisfyrirtæki til verka sem var með sex þrautþjálfaða starfsmenn á föstudagskvöldinu og tólf á laugardagskvöldinu. Við áttum í góðu samstarfi við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu í aðdraganda hátíðarinnar og ég verð að hrósa lögreglunni fyrir mjög mikinn og góðan stuðning. Okkar fólk stóð sig líka frábærlega, starfsfólk Bólsins og Barnaverndar ásamt Flotanum og björgunarsveitinni. Ég vil nota tækifærið og færa þeim öllum mínu bestu þakkir.
Til að svona hátíð verði að veruleika þurfa ansi margir að leggja hönd á plóg. Verkefnisstjórarnir okkar þau Auður Halldórsdóttir og Hilmar Gunnarsson á menningar-, íþrótta og lýðheilsusviði stóðu í stafni ásamt Arnari Jónssyni sviðsstjóra og svo voru fjölmargir aðrir bæjarstarfsmenn sem komu að helginni. Hlégarður og Bókasafnið stóðu fyrir fjölmörgum viðburðum, garðyrkjudeildin okkar og þjónustustöðin sáu um að skreyta bæinn og taka til eftir viðburði. Barnavernd og Bólið sáu um öryggismál tengdum börnum og ungmennum. Íþróttahúsin voru einnig til reiðu og þá þurfti að miðla upplýsingum og fréttum sem starfsfólk á bæjarskrifstofu sá um.
Síðan eru það öll félagasamtölkin í bænum sem koma að með einum eða öðrum hætti, s.s. Afturelding og skátarnir, björgunarsveitin, kvenfélagið og fleiri. Fyrirtækin í bænum styrktu líka hátíðina, eins og Nettó, Mosfellsbakarí, Ísband, Ístak, VGH, KFC og BÓ smiðir.
Síðast en ekki síst allt listafólkið og gestgjafarnir sem opnuðu heimili sín fyrir gestum og gangandi. Öllum þessum aðilum færi ég mínar allra bestu þakkir fyrir hönd Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024