Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
17. febrúar 2023

Sólin er farin að hækka á lofti og gef­ur fög­ur fyr­ir­heit um fal­legt vor. Það hef­ur ver­ið líf­legt í Mos­fells­bæ síð­ustu daga, en frá­bær dagskrá er í boði á veg­um stofn­ana bæj­ar­ins fyr­ir börn og fjöl­skyld­ur í vetr­ar­fríi skól­anna. Bóka­bingó, hesta­kynn­ing, wipeout-braut og golfleik­ir svo fátt eitt sé nefnt. Ég hvet ykkur að skoða dagskrána.

Í síðustu viku opnaði ný sýning í Listasal Mosfellsbæjar, Inventory of the Subconscious Mind þar sem listakonan Otilia Martin sýnir verk sín. Þema sýningarinnar er draumar og listakonan Otilia Martin hvetur okkur til að staldra við og veita draumum okkar athygli. Sýningin heldur áfram til 10. mars og það er opið  alla virka daga frá 9-18 og á laugardögum kl. 12-16.

Vik­an hófst með fundi bæj­ar­stjóra höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins um sam­göngu­mál þar sem við vor­um  að horfa á end­ur­skoð­un á sam­komu­lagi við rík­ið um al­menn­ings­sam­göng­ur. Það fer ekki fram­hjá nein­um sem ferð­ast um á höf­uð­borg­ar­svæð­inu að við erum komin að ákveðn­um þol­mörk­um þeg­ar kem­ur að um­ferð­ar­mál­um. Íbú­ar Mos­fells­bæj­ar sem starfa í Reykja­vík eða öðr­um ná­granna­sveit­ar­fé­lög­um finna mjög fyr­ir vax­andi um­ferð­ar­þunga,  ekki síst í upp­hafi dags og um eft­ir­mið­dag­inn.

Í flest­um þeim lönd­um sem við ber­um okk­ur sam­an við þá eru al­menn­ings­sam­göng­ur hluti af lífs­gæð­um íbúa og um þær gild­ir sér­stök lög­gjöf. Lög­in fela op­in­ber­um að­il­um að skipu­leggja og tryggja öfl­ug­ar al­menn­ings­sam­göng­ur þann­ig að  þær séu raun­veru­leg­ur val­kost­ur fólks í sam­göngu­mál­um. Járn­brauta­lest­ir, ferj­ur, spor­vagn­ar og stræt­is­vagn­ar eru svo sjálf­sagð­ir hlut­ir í til­ver­unni að um þessa inn­viði er ekki deilt og það­an af síð­ur er þeim stillt upp sem and­stæð­um við einka­bíl­inn. Sveit­ar­fé­lög­in á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og full­trú­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar skrif­uðu und­ir sam­göngusátt­mála árið 2019. Hluti af sam­göngusátt­mál­an­um  kvað á um end­ur­skoð­un á sam­komu­lagi um rekst­ur al­menn­ings­sam­gangna. Á veg­um Sam­taka sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu (SSH) hef­ur far­ið fram grein­ing á stöðu þess­ara mála í ná­granna­ríkj­un­um.  Í þeim lönd­um sem hafa ver­ið  skoð­uð, þ.e. Dan­mörku, Finn­landi, Sví­þjóð, Nor­egi og Bretlandi er al­gengt að svo­kölluð fylki eða ömt, sem eru mill­i­stjórn­sýslu­st­ig og fjár­mögn­uð af rík­inu ann­ist stjórn­un, skipu­lag og fjár­mögn­un al­menn­ings­sam­gangna en dag­leg­ur rekst­ur sé á hendi op­in­berra hluta­fé­laga. Á Ís­landi kosta stjórn­völd al­menn­ings­sam­göng­ur á milli lands­hluta og sveit­ar­fé­laga og Vega­gerð rík­is­ins held­ur utan um skipu­lag þjón­ust­unn­ar. Þó er að­koma rík­is­ins með allt öðr­um hætti á höf­uð­borg­ar­svæð­inu þar sem sveit­ar­fé­lög­in skipu­leggja al­menn­ings­sam­göng­ur og fjár­magna stærst­an hluta kostn­að­ar um­fram far­gjöld. Þetta sam­komulag á milli SSH og rík­is­ins er nú til end­ur­skoð­un­ar og í tengsl­um við það eru áform um að inn­leiða nýtt leiða­kerfi stofn­leiða og al­mennra leiða. Í  dag fá sveit­ar­fé­lög­in á höf­uð­borg­ar­svæð­inu rúm­lega 900 millj­ón­ir á ári til rekst­urs Strætó og sú tala hef­ur ekki ver­ið upp­færð frá ár­inu 2012. Að mati sveit­ar­fé­lag­anna þá þarf að ná sam­komu­lagi um kostn­að­ar­skipt­ingu á þessu verk­efni til fram­tíð­ar og stór­efla  al­menn­ings­sam­göng­ur á svæð­inu, sam­hliða upp­bygg­ingu á nauð­syn­leg­um sam­göngu­mann­virkj­um.

Í vik­unni héld­um við op­inn fund í Hlé­garði sam­vinnu við ráð­gjafa­fyr­ir­tæk­ið Strategíu þar sem íbú­ar og full­trú­ar hags­muna­að­ila og fyr­ir­tækja áttu þess kost að koma sín­um sjón­ar­mið­um að í helstu mála­flokk­um bæj­ar­ins. Fund­ur­inn var vel sótt­ur en um 60 manns mættu og tóku þátt í vinnu­stof­um. Vinnufund­ur­inn var lið­ur í gagna­öflun Strategíu vegna stjórn­kerf­is- og rekstr­ar­út­tekt­ar­inn­ar, sem ég hef áður minnst á hér. Búið er að taka við­töl við lyk­il­að­ila inn­an stjórn­kerf­is­ins og halda vinnu­stof­ur með starfs­mönn­um og stjórn­end­um. Auk íbúa­fund­ar­ins var sett á sam­ráðs­gátt þar sem bæj­ar­bú­ar geta kom­ið skoð­un­um sín­um á fram­færi, næstu tvær vik­urn­ar.

Á bæj­ar­stjórn­ar­fundi á mið­viku­dag var stafest ákvörð­un bæj­ar­ráðs um að loka tjald­svæð­inu við Varmár­hóla um óákveð­inn tíma. Tjald­svæð­ið hef­ur ver­ið starf­rækt frá ár­inu 2011 en var lokað í byrj­un sum­ars 2022 vegna fram­kvæmd­anna við Kvísl­ar­skóla þar sem tjald­svæð­ið er lagna­lega tengt skóla­hús­inu.

Í bæj­ar­ráði í vik­unni var sam­þykkt heim­ild til að fara í út­boð á lóð við Reykja­kot og enn­frem­ur að gera nýja gang­stétt frá Bjargsvegi að Reykj­um sem er fram­kvæmd sem búið er að kalla mik­ið eft­ir enda um mik­il­vægt um­ferðarör­ygg­is­mál að ræða. Gang­stétt­in verð­ur tengd við göngu­leið­ir við Reykja­hvol, gerð­ar verða mið­eyj­ur og hraða­minnk­andi að­gerð­ir við snún­ings­stöð strætó. Enn­frem­ur verð­ur götu­lýs­ing end­ur­nýj­uð.  Gert er ráð fyr­ir að bjóða verk­ið út  seinni part­inn í fe­brú­ar 2023.  Áætlað er að fram­kvæmd­ir geti haf­ist í mars/apríl 2023 og að verklok verði miðj­an sept­em­ber 2023.

Ég fór og hélt kynn­ingu hjá Kiw­an­is klúbbn­um í gær­kveldi þar sem ég fór yfir helstu áhersl­ur og fram­kvæmd­ir á ár­inu 2023. Það var mjög góð stemn­ing á fund­in­um og ég var leyst út með fána sam­tak­anna. Fund­ur­inn var hald­inn í sal sem er inn af veit­inga­söl­unni á veit­inga­staðn­um Blik í golf­skál­an­um. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég held er­indi fyr­ir fé­laga­sam­tök í bæn­um í þess­um sal í miðri viku og það er mjög ánægju­legt að sjá að veit­inga­hús­ið er þétt set­ið á kvöld­in.

Verk­fall ol­íu­dreif­ing­ar­bíl­stjóra hafa vissu­lega áhrif hér í Mos­fells­bæ eins og ann­ars­stað­ar. Við höf­um feng­ið sam­þykkt­ar um­sókn­ir um und­an­þág­ur vegna heimsend­ing­ar mat­ar, skóla­akst­urs og snjóruðn­ings. Enn­frem­ur ligg­ur fyr­ir beiðni um und­an­þág­ur vegna Mos­fellsveitna, rekst­urs þjón­ustu­bíls fyr­ir áfanga­heim­ili fyr­ir geð­fatlað fólk og fyr­ir akst­ur á skóla­mat. Nú er búið að fresta verk­fall­in­um um nokkra daga og það er bara að vona að það ná­ist sam­komulag á milli að­ila.

For­síðu­mynd­in í dag er frá íbúa­fund­in­um í Hé­garði. Að­r­ar mynd­ir eru af Lovísu Jóns­dótt­ur bæj­ar­full­trúa sem flutti loka­orð á fund­in­um og af  Tomma, Tóm­asi Gísla­syni um­hverf­is­stjóra Mos­fells­bæj­ar, sem hef­ur átt far­sæl­an fer­il hér í 15 ár og var kvadd­ur í vik­unni en hann tek­ur við starfi fram­kvæmda­stjóra heil­brigðis­eft­ir­lits Reykja­vík­ur­borg­ar í næsta mán­uði. Þá er mynd af  hress­um og glöð­um starfs­mönn­um í Þver­holti, bú­setu­þjón­ustu fyr­ir fatlað fólk í Mos­fells­bæ sem komu hing­að á bæj­ar­skrif­stof­una á kynn­ingu á tækni­bún­aði sem get­ur nýst í vinnu með fötl­uðu fólki.

Við erum svo sann­ar­lega rík af góðu starfs­fólki í bæn­um og að þessu sögðu óska ég ykk­ur góðr­ar helg­ar.

Regína Ás­valds­dótt­ir

Mynd 1: Lovísa Jóns­dótt­ir vara­formað­ur bæj­ar­ráðs hélt loka­ávarp á íbúa­fund­in­um í Hlé­garði
Mynd 2: Tóm­as Gíslason um­hverf­is­stjóri kvadd­ur eft­ir 15 ára starf
Mynd 3: Gest­ur for­stöðu­mað­ur ásamt Berg­lind Söru, Sögu Rut og Mar­gréti Sól­eyju starfs­mönn­um í Þver­holti á kynn­ingu á tækni­lausn­um

Netspjall

Opið virka daga
mán., þri., fim. 8:00-16:00
mið. 8:00-18:00
fös. 8:00-14:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán., þri., fim. 8:00-16:00
mið. 8:00-18:00
fös. 8:00-14:00