Sólin er farin að hækka á lofti og gefur fögur fyrirheit um fallegt vor. Það hefur verið líflegt í Mosfellsbæ síðustu daga, en frábær dagskrá er í boði á vegum stofnana bæjarins fyrir börn og fjölskyldur í vetrarfríi skólanna. Bókabingó, hestakynning, wipeout-braut og golfleikir svo fátt eitt sé nefnt. Ég hvet ykkur að skoða dagskrána.
Í síðustu viku opnaði ný sýning í Listasal Mosfellsbæjar, Inventory of the Subconscious Mind þar sem listakonan Otilia Martin sýnir verk sín. Þema sýningarinnar er draumar og listakonan Otilia Martin hvetur okkur til að staldra við og veita draumum okkar athygli. Sýningin heldur áfram til 10. mars og það er opið alla virka daga frá 9-18 og á laugardögum kl. 12-16.
Vikan hófst með fundi bæjarstjóra höfuðborgarsvæðisins um samgöngumál þar sem við vorum að horfa á endurskoðun á samkomulagi við ríkið um almenningssamgöngur. Það fer ekki framhjá neinum sem ferðast um á höfuðborgarsvæðinu að við erum komin að ákveðnum þolmörkum þegar kemur að umferðarmálum. Íbúar Mosfellsbæjar sem starfa í Reykjavík eða öðrum nágrannasveitarfélögum finna mjög fyrir vaxandi umferðarþunga, ekki síst í upphafi dags og um eftirmiðdaginn.
Í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við þá eru almenningssamgöngur hluti af lífsgæðum íbúa og um þær gildir sérstök löggjöf. Lögin fela opinberum aðilum að skipuleggja og tryggja öflugar almenningssamgöngur þannig að þær séu raunverulegur valkostur fólks í samgöngumálum. Járnbrautalestir, ferjur, sporvagnar og strætisvagnar eru svo sjálfsagðir hlutir í tilverunni að um þessa innviði er ekki deilt og þaðan af síður er þeim stillt upp sem andstæðum við einkabílinn. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúar ríkisstjórnarinnar skrifuðu undir samgöngusáttmála árið 2019. Hluti af samgöngusáttmálanum kvað á um endurskoðun á samkomulagi um rekstur almenningssamgangna. Á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hefur farið fram greining á stöðu þessara mála í nágrannaríkjunum. Í þeim löndum sem hafa verið skoðuð, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Bretlandi er algengt að svokölluð fylki eða ömt, sem eru millistjórnsýslustig og fjármögnuð af ríkinu annist stjórnun, skipulag og fjármögnun almenningssamgangna en daglegur rekstur sé á hendi opinberra hlutafélaga. Á Íslandi kosta stjórnvöld almenningssamgöngur á milli landshluta og sveitarfélaga og Vegagerð ríkisins heldur utan um skipulag þjónustunnar. Þó er aðkoma ríkisins með allt öðrum hætti á höfuðborgarsvæðinu þar sem sveitarfélögin skipuleggja almenningssamgöngur og fjármagna stærstan hluta kostnaðar umfram fargjöld. Þetta samkomulag á milli SSH og ríkisins er nú til endurskoðunar og í tengslum við það eru áform um að innleiða nýtt leiðakerfi stofnleiða og almennra leiða. Í dag fá sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu rúmlega 900 milljónir á ári til reksturs Strætó og sú tala hefur ekki verið uppfærð frá árinu 2012. Að mati sveitarfélaganna þá þarf að ná samkomulagi um kostnaðarskiptingu á þessu verkefni til framtíðar og stórefla almenningssamgöngur á svæðinu, samhliða uppbyggingu á nauðsynlegum samgöngumannvirkjum.
Í vikunni héldum við opinn fund í Hlégarði samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Strategíu þar sem íbúar og fulltrúar hagsmunaaðila og fyrirtækja áttu þess kost að koma sínum sjónarmiðum að í helstu málaflokkum bæjarins. Fundurinn var vel sóttur en um 60 manns mættu og tóku þátt í vinnustofum. Vinnufundurinn var liður í gagnaöflun Strategíu vegna stjórnkerfis- og rekstrarúttektarinnar, sem ég hef áður minnst á hér. Búið er að taka viðtöl við lykilaðila innan stjórnkerfisins og halda vinnustofur með starfsmönnum og stjórnendum. Auk íbúafundarins var sett á samráðsgátt þar sem bæjarbúar geta komið skoðunum sínum á framfæri, næstu tvær vikurnar.
Á bæjarstjórnarfundi á miðvikudag var stafest ákvörðun bæjarráðs um að loka tjaldsvæðinu við Varmárhóla um óákveðinn tíma. Tjaldsvæðið hefur verið starfrækt frá árinu 2011 en var lokað í byrjun sumars 2022 vegna framkvæmdanna við Kvíslarskóla þar sem tjaldsvæðið er lagnalega tengt skólahúsinu.
Í bæjarráði í vikunni var samþykkt heimild til að fara í útboð á lóð við Reykjakot og ennfremur að gera nýja gangstétt frá Bjargsvegi að Reykjum sem er framkvæmd sem búið er að kalla mikið eftir enda um mikilvægt umferðaröryggismál að ræða. Gangstéttin verður tengd við gönguleiðir við Reykjahvol, gerðar verða miðeyjur og hraðaminnkandi aðgerðir við snúningsstöð strætó. Ennfremur verður götulýsing endurnýjuð. Gert er ráð fyrir að bjóða verkið út seinni partinn í febrúar 2023. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist í mars/apríl 2023 og að verklok verði miðjan september 2023.
Ég fór og hélt kynningu hjá Kiwanis klúbbnum í gærkveldi þar sem ég fór yfir helstu áherslur og framkvæmdir á árinu 2023. Það var mjög góð stemning á fundinum og ég var leyst út með fána samtakanna. Fundurinn var haldinn í sal sem er inn af veitingasölunni á veitingastaðnum Blik í golfskálanum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég held erindi fyrir félagasamtök í bænum í þessum sal í miðri viku og það er mjög ánægjulegt að sjá að veitingahúsið er þétt setið á kvöldin.
Verkfall olíudreifingarbílstjóra hafa vissulega áhrif hér í Mosfellsbæ eins og annarsstaðar. Við höfum fengið samþykktar umsóknir um undanþágur vegna heimsendingar matar, skólaaksturs og snjóruðnings. Ennfremur liggur fyrir beiðni um undanþágur vegna Mosfellsveitna, reksturs þjónustubíls fyrir áfangaheimili fyrir geðfatlað fólk og fyrir akstur á skólamat. Nú er búið að fresta verkfallinum um nokkra daga og það er bara að vona að það náist samkomulag á milli aðila.
Forsíðumyndin í dag er frá íbúafundinum í Hégarði. Aðrar myndir eru af Lovísu Jónsdóttur bæjarfulltrúa sem flutti lokaorð á fundinum og af Tomma, Tómasi Gíslasyni umhverfisstjóra Mosfellsbæjar, sem hefur átt farsælan feril hér í 15 ár og var kvaddur í vikunni en hann tekur við starfi framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar í næsta mánuði. Þá er mynd af hressum og glöðum starfsmönnum í Þverholti, búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk í Mosfellsbæ sem komu hingað á bæjarskrifstofuna á kynningu á tæknibúnaði sem getur nýst í vinnu með fötluðu fólki.
Við erum svo sannarlega rík af góðu starfsfólki í bænum og að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar.
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1: Lovísa Jónsdóttir varaformaður bæjarráðs hélt lokaávarp á íbúafundinum í Hlégarði
Mynd 2: Tómas Gíslason umhverfisstjóri kvaddur eftir 15 ára starf
Mynd 3: Gestur forstöðumaður ásamt Berglind Söru, Sögu Rut og Margréti Sóleyju starfsmönnum í Þverholti á kynningu á tæknilausnum