Átján einstaklingar voru tilnefnd sem íþróttamaður ársins 2022 í Mosfellsbæ en það voru bæjarbúar ásamt fulltrúum í íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar sem kusu íþróttafólk ársins auk þess sem þjálfari, lið og sjálfboðaliði ársins voru heiðruð við hátíðlega athöfn á Blik í gær. Íþróttafólk ársins í Mosfellsbæ 2022 eru Anton Ari Einarsson knattspyrnumaður hjá Breiðablik og Thelma Dögg Grétarsdóttir blakkona í Aftureldingu. Afrekslið Mosfellsbæjar 2022 er Meistaraflokkur kvenna úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Þjálfari ársins er Davíð Gunnlaugsson, þjálfari hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Sjálfboðaliði ársins er Guðrún Kristín Einarsdóttir.
Ég fékk þann heiður að veita Gunnu Stínu eins og hún er kölluð dags daglega viðurkenninguna og er forsíðumyndin einmitt tekin af því tilefni af Hilmari Gunnarssyni. Það voru þau Erla Edvardsdóttir formaður og Leifur Eysteinsson varaformaður íþrótta – og tómstundanefndar sem gerðu grein fyrir tilnefningum og vali á íþróttafólki og Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs sá um verðlaunaafhendinguna. Eins og Erla sagði við verðlaunaafhendinguna þá er Gunna Stína formaður Blakdeildar Aftureldingar og einn af þeim eldhugum í Aftureldingu sem hefur staðið vaktina í kringum blakið í Mosfellsbæ frá upphafi. Hún hefur með óþreytandi seiglu og elju haldið utan starfsemina. Auk þess að vinna óeigingjarnt starf fyrir blakíþróttina í Mosfellsbæ hefur hún líka unnið fyrir blakið á landsvísu. Skólablak er einn af þeim viðburðum sem Gunna Stína hefur átt stóran þátt í að þróa en hugmyndin byrjaði hjá henni og snérist um það hvernig hægt væri að vekja áhuga grunnskólabarna á blaki og búa í leiðinni til skemmtilegan viðburð. Í dag er Skólablakið einn stærsti viðburður blaks á Íslandi og er mótið unnið í samvinnu við evrópska blaksambandið og haldið út um allt land.
Nánari er fjallað um þá einstaklinga sem voru tilnefndir á vef Mosfellsbæjar.
Ég vil enn og aftur óska öllum þeim sem voru tilnefnd innilega til hamingju.
Í vikunni var fjöldi funda eins og hefðbundið er. Vegna Eir öryggisíbúða, Skálatúns og fleiri mála. Ennfremur sótti ég fund á nýrri Barna- og fjölskyldustofu. Þá var haldinn fyrsti bæjarstjórnarfundur ársins.
Á fundi bæjarráðs í gær var samþykkt að fara í útboð á nýjum gervigrasvelli en það hefur verið ákall frá Aftureldingu um bætingu á aðstöðunni, bæði á grasvellinum og á aðalvellinum. Jafnframt hefur verið samþykkt að fara í hönnun og í framhaldinu útboð á aðalvellinum.
Á sama fundi fengum við kynningu á undirbúningsvinnu við nýjan Hringrásariðngarð en verið er að vinna að undirbúningi verkefnis á Álfsnesi í samvinnu Reykjavíkurborgar, SSH og Sorpu.
Hringrásariðngarður, stundum kallaður grænn iðngarður, er samstarfsnet fyrirtækja á ákveðnu atvinnusvæði. Samstarfsnetið felst meðal annars í því að fyrirtækin skipta með sér orku og hráefnum, t.d. ef úrgangur eins fyrirtækis nýtist sem hráefni fyrir annað fyrirtæki á svæðinu. Til þess að ná sem bestum árangri þurfa innviðir hringrásargarðs að vera skipulagðir með samvinnu í huga. Síðustu ár hafa nokkrir hringrásargarðar verið settir á fót á Íslandi. Þar má til að mynda nefna hringrásargarðinn við Svartsengi þar sem Bláa lónið er þekktasti hluti hringarásarinnar. Bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að tilnefna áheyrnarfulltrúa í undirbúningshópinn.
Ég sótti líka fund sem borgarstjóri boðaði til og nefndi frá Hvíta til Hvítár en bæjarstjórum frá Árborg í austri og Borgarbyggð í norðri var boðið til fundarins til að ræða sameiginleg hagsmunamál meðal annars á sviði samgangna og almannavarna. Eins og segir í fundarboðinu þá eiga sveitarfélögin á suðvesturhorninu, sem skilgreinist sem eitt atvinnu-og búsetusvæði ótal mörg sóknarfæri þegar kemur að skipulags og umhverfismálum.
Í dag fór ég með framkvæmdastjórn og nokkrum öðrum stjórnendum á bæjarskrifstofunni á kynningu á Höfðatorgi, meðal annars um rafræna miðstöð velferðarsviðs og velferðartæknismiðju. Það var Mosfellingurinn Styrmir Erlingsson ásamt samstarfsfólki sem hafði veg og vanda af kynningunni en hann hefur leitt stafræna umbreytingu og fjölmörg nýsköpunar-og þróunarverkefni hjá Reykjavíkurborg á undanförnum árum.
Eftir margra daga og vikna froststillur með tilheyrandi ægifögrum sólarupprásum og sólsetrum kom asahláka í dag en þó ekki alveg eins slæm og spáð var. Við héldum fund í viðbragðsteymi bæjarins á miðvikudag til að undirbúa okkur og miðla upplýsingum til bæjarbúa og annarra hagsmunaaðila.
Þorrinn gekk í garð í dag og um helgina verður haldið þorrablót Aftureldingar eftir tveggja ára hlé. Ég hlakka mikið til blótsins og ekki síst að sjá allar heimalöguðu borðskreytingarnar sem Mosfellingar eru frægir fyrir.
Ég fer í nokkurra daga frí í næstu viku og næsti pistill verður því föstudaginn 3. febrúar.
Áfram Ísland!
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1: Anton Ari Einarsson ásamt Andreu og syni þeirra, Grétar og Guðrún, foreldrar Themu Daggar, Erla og Leifur úr stjórn íþrótta- og tómstundanefndar og við Halla Karen
Mynd 2: Einstaklingar tilnefndir til íþróttafólks 2022
Mynd 3: Styrmir framkvæmdastjóri Rafrænnar miðstöðvar ásamt Eybjörgu, Matthildi og Svanhildi, stjórnendum á miðstöðinni
Mynd 4: samstarfsfólk af bæjarskrifstofunni
Mynd 5: Óli Örn, Jón Viggó og Jón Kjartan kynntu Hringrásariðngarðinn í bæjarráði.