Afar annasöm en ánægjuleg vika að baki. Í dag var haldinn landsfundur Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem meðal annars var fjallað um húsnæðismál og málefni flóttafólks. Í gær var svo fundur formanna landshlutasamtakanna og framkvæmdastjóra.
Á landsþinginu í dag hvatti Sigurður Ingi innviðaráðherra sveitarfélögin til dáða hvað varðar uppbyggingu húsnæðis, ekki síst fyrir tekjulágt fólk. Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið skrifuðu undir rammasamning síðastliðið sumar sem fjallar um uppbyggingu húsnæðismarkaðarins. Reykjavíkurborg hefur eitt sveitarfélaga gengið til samninga við innviðaráðuneytið á grundvelli rammasamningsins. Í húsnæðisáætlun borgarinnar er gert ráð fyrir byggingu 16 þúsund íbúða á næstu 10 árum, þar af ríflega 4 þúsund íbúðum fyrir tekjulágt fólk. Fleiri sveitarfélög eru að undirbúa samningsgerð.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra sagði ríkið vera að undirbúa stefnumörkun hvað varðar inngildingu fólks af erlendum uppruna í samfélagið á Íslandi, en engin stefna er í móttöku fólks af erlendum uppruna á Íslandi. Hann fjallaði um stöðu fólks á flótta í heiminum sem eru um 28 milljónir manns og brá upp tölfræði varðandi fjölda flóttafólks í þeim Evrópulöndum sem taka á móti flestu fólki. Tyrkland tók á móti 3,4 milljónum í fyrra og Pólland 1,5 milljónum. Nú hafa 11 sveitarfélög gengið til samninga um samræmda móttöku og Guðmundur Ingi hvatti fleiri sveitarfélög til að slást í hópinn. Fram kom að atvinnuþáttaka þeirra sem hafa fengið vernd sé mjög góð og um 40 % flóttafólks frá Úkraínu hafa farið í vinnu á einu ári. Einnig var rætt um umsækjendur um alþjóðlega vernd, en ábyrgð á þjonustu við þá einstaklinga liggur hjá Vinnumálastofnun sem leigir húsnæði fyrir umsækjendur sem eru að bíða eftir úrlausn sinna mála, vernd eða brottflutning úr landi. Það var gagnrýnt á þinginu að það hafi í mörgum tilvikum gerst að Vinnumálastofnun hafi leigt húsnæði fyrir fjölda manns án samráðs við viðkomandi sveitarfélag. Á þinginu var líka farið yfir stöðu kjarasamninga og undir lok þingsins var Karli Björnssyni fráfarandi framkvæmdastjóra sambandsins þökkuð afar góð störf á þessum vettvangi en hann hóf störf árið 2008.
Í gærkvöldi var haldið sögukvöld í Hlégarði, vonandi það fyrsta af mörgum. Yfirskriftin var Sveitin og heita vatnið og var saga jarðhitunar rakin bæði hvað varðar húshitun, ylrækt og sundiðkun. Jón Magnús Jónsson alifuglabóndi á Suður-Reykjum, Gísli Jóhannsson garðyrkjubóndi í Dalsgarði og Bjarki Bjarnason rithöfundur sögðu skemmtilega frá og vörpuðu upp myndum og félagar úr Karlakór Kjalnesinga tóku lagið. Sögukvöldið var síðasti viðburðurinn í Menningarmars í Mosó, verkefni á vegum menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar sem hefur það að markmiði að efla menningarstarf í bænum og gera það sýnilegra. Í heild voru 15 viðburðir í mars og vonandi verður framhald á.
Í vikunni hef ég sótt fjölda funda eins og venjulega, með samstarfsfólki, fyrirtækjum í bænum og einstaklingum. Auk þess var haldinn auka stjórnarfundur hjá SSH þar sem meðal annars var fjallað var um samþykkt stjórnar Strætó bs á útboði á þjónustu Strætó. Um er að ræða útboð á sama hluta aksturs Strætó bs., að teknu tilliti til breytinga á leiðakerfi, og nú þegar er boðinn út. Í útboðinu er miðað við að allt að þrír aðilar/fyrirtæki geti annast aksturinn og er aksturs magninu því skipt upp í þrjá sambærilega stærðarhluta.
Á þriðjudag boðuðum við alla bæjarfulltrúa á fund vegna fjárhags- og fjárfestingaáætlunar 2024. Þar fórum við yfir fjárhagsáætlun 2023, áhrif vaxta, verðbólgu og verðbóta á stöðuna og yfirlit verkefna. Einnig var farið yfir málefni sem tengjast veitukerfunum, þ.m.t. vatnsöflun þegar til lengri tíma er litið.
Fjölmörg mál voru tekin fyrir í bæjarstjórn á miðvikudag og bæjarráði á fimmtudagsmorgni. Í bæjarráðinu var samþykkt að fela umhverfissviði að mæla fyrir gervigrasknattspyrnuvelli á núverandi aðalvelli að Varmá sem uppfyllir skilyrði samkvæmt UEFA 2 reglugerð hvað stærð, öryggissvæði o.s.frv. varðar. Miðað verði við að völlurinn verði færður austar. Samhliða þarf að uppfæra núverandi kostnaðarmat sem taki tillit til færslu á vellinum. Þá er að sama skapi lagt til að mælt verði fyrir 200 m frjálsíþróttabraut með 4 hlaupabrautum og 1500+ manna stúku milli gervigrasvalla sem uppfyllir skilyrði samkvæmt UEFA 2 reglugerð hvað stærð varðar. Í öllum tilvikum þarf að uppfæra fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir.
Umfjöllun um málið í fundargerð bæjarráðs:
Sigríður Kristinsdóttir sýslumaður mætti á fund bæjarráðs ásamt Einari Jónssyni sviðsstjóra. Sýslumaður fór yfir helstu málaflokka sýslumannsembættisins og tölfræði en embættið er í stöðugum umbótum með stafræna þróun að leiðarljósi.
Inn á milli funda og verkefna hef ég reynt að taka þátt í gleðinni á bæjarskrifstofunni með misjöfnum árangri en þar voru haldnir skrifstofuleikar þar sem við áttum að leysa daglegar þrautir með liðinu okkar. Það er fátt sem þjappar vinnustaðnum eins vel saman og keppni af þessum toga. Ég lenti í appelsínugula liðinu og stóð mig ekki betur en svo að það þurfti að klippa mig inn á hópmyndina. Hér með er mínu góða samstarfsfólki í appelsínugula liðinu þakkað fyrir hugulsemina í minn garð. Mottumarsinn var líka haldinn hátíðlegur, eins og vera ber með með morgunkaffi þar sem allir skörtuðu sínum fínustu mottum.
Um helgina er úrslitaleikur hjá kvennaflokki Aftureldingar en þær eru búnar að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og eru að fara að taka á móti deildarmeistarabikarnum. Ég verð því miður fjarri góðu gamni en treysti á öflugan stuðning heimamanna.
Forsíðumyndin að þessu sinni er af okkar góðu bæjarstjórn ásamt bæjarstjóra og bæjarlögmanni. Sigurjón Ragnar ljósmyndari tók myndina en það er hefð að bæjarstjórnin fari í myndatöku einu sinni á kjörtímabilinu og sú mynd prýðir virðulegan vegg við bæjarstjórnarsalinn á bæjarskrifstofunum.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar og gleðilegra páska!
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024