Ánægjuleg vinnuvika að baki eins og venjulega. Við fengum góða heimsókn frá fulltrúum Vinnumálastofnunar með hvatningu um að Mosfellbær geri betur þegar kemur að því að útvega einstaklingum með skerta starfsgetu störf hjá bæjarfélaginu.
Þær Anna Arnórsdóttir og Hildur Benediktsdóttir fóru yfir verkefnið sem ber nafnið Atvinna með stuðningi. Í máli þeirra kom fram mikilvægi þess að gefa öllum jöfn tækifæri til vinnu. Þær kynntu verkefnið, hvað felst í vinnusamningi öryrkja og hvaða stuðningi mætti vænta frá Vinnumálastofnun varðandi einstaka starfsmenn. Þær leggja mikið upp úr því að para saman einstaklinga og störf til að auka líkur á því að viðkomandi starfsmaður njóti sín í starfinu. Það er skemmst frá því að segja að framkvæmdastjórar sviða tóku afar vel í þessa beiðni og nú er verið að skoða hvaða störf myndu henta hjá Mosfellsbæ.
Þriggja tíma vinnufundur var haldinn með fulltrúum í bæjarstjórn og formönnum nefnda til að fara yfir helstu atriði fjárhags- og fjárfestingaáætlunar 2023-26. Auk kynningar bæjarstjóra á lykilþáttum í áætluninni þá kynntu framkvæmdastjórar helstu verkefni og breytingar á milli ára í málaflokkunum. Gögn í tengslum við fjárhagsáætlun verða birt að afloknum bæjarstjórnarfundi sem verður haldinn þann 9. nóvember.
Við fengum góðan gest á mánaðarlegan starfsmannafund bæjarskrifstofunnar, Sigríði Huldu Jónsdóttur sem fjallaði um árangursrík samskipti á vinnustað. Fyrirlesturinn var mjög góður og hvatning fyrir sérhvert okkar að horfa aðeins inn á við með það að markmiði að efla eigin samskiptafærni. Við fengum líka kynningu frá Hönnu Guðlaugsdóttur um nýja fræðsluvefinn okkar en Mosfellsbær hefur gert samkomulag við Akademias um veftæk námskeið, meðal annars nýliðanámskeið, námskeið um stjórnun og leiðtogafærni, ýmis námskeið sem tengjast Microsoft hugbúnaði s.s. Outlook, Power Point, Planner, Excel, Teams ofl. Fræðsluvefurinn var settur í loftið í byrjun vikunnar og vonumst við til að starfsmenn nýti sér hann óspart.
Í vikunni hittum við forsvarsmenn Bjargs, íbúðafélags en markmið félagsins er að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði sem eru fullgildir félagsmenn ASÍ eða BSRB aðgengi að öruggu húsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða leiguheimili að norrænni fyrirmynd. Fyrstu íbúðirnar voru afhentar í júní 2019 en síðan hefur Bjarg byggt yfir 600 íbúðir í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Þorlákshöfn og Selfossi og eru einnig með íbúðir í byggingu í Garðabæ. Vilji stendur til þess hjá Bjargi að byggja 24 íbúðir í Mosfellsbæ og var undirrituð viljayfirlýsing þar að lútandi síðastliðið vor.
Á fundi bæjarráðs í vikunni var kynnti Íris Dögg Hugrúnardóttir Marteinsdóttir Farsældarhringinn í Mosfellsbæ. Verkefnið byggir á nýjum farsældarlögum sem voru samþykkt síðustu áramót.
Lögin taka til þjónustu sem er veitt innan alls skólakerfisins, þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu sem er veitt í þágu barna innan sveitarfélaga, auk verkefna lögreglu. Á þessum þjónustuveitendum hvíla ríkar skyldur samkvæmt lögunum. Þeim ber til dæmis að taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt og bregðast við slíkum vísbendingum með tilteknum hætti. Aðrir sem vinna með börnum, til dæmis hjá íþrótta- eða æskulýðsfélögum, bera líka skyldur og geta tekið þátt í samþættingu þjónustu. Við bindum miklar vonir við þetta verkefni sem er samstarfsverkefni velferðarsviðs og fræðslu- og frístundasviðs.
Kynningarbæklingur frá félags-og vinnumarkaðsráðuneytinu
Á fundinum var einnig samþykkt að fara í útboð á matarþjónustu fyrir Kvíslarskóla og Varmárskóla fyrir vorönnina en sá gleðilegi áfangi náðist í Kvíslarskóla að aðalinngangurinn var tekinn í notkun og salerni á 1. hæð. Auk þess var gerður tímabundinn samningur við Skólamat um heitan mat í hádeginu og mæltist það mjög vel fyrir hjá nemendum og kennurum.
Loks var samþykkt á fundi bæjarráðs að breyta nafni fjölskyldusviðs í velferðarsvið í samræmi við nafnabreytingu á nefndinni, úr fjölskyldunefnd í velferðarnefnd. Á fjölskyldusviði er unnið að verkefnum á sviði barnaverndar, félagsþjónustu, þjónustu við fatlað fólk og eldra fólk auk félagslegra húsnæðismála. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að flytja jafnréttismál til velferðarnefndar sem undirbýr stefnumörkun í málaflokknum sem verður sinnt af nefndarfólki, starfsfólki nefndarinnar og jafnréttisfulltrúa Mosfellsbæjar. Þjónusta fjölskyldusviðs beinist að einstaklingum jafnt og fjölskyldufólki og er hugtakið velferð talið fanga betur það markmið að auka lífsgæði þeirra sem leita eftir þjónustu sviðsins, hvort sem það tengist fjármálum, húsnæðismálum, félagslegri ráðgjöf, heimastuðningi eða þátttöku í félagsstarfi. Velferð getur þannig spannað huglæga þætti eins og líðan og traust, félagslega þætti á borð við persónuleg tengsl, áhrif og félagslegt öryggi og efnislega þætti á borð við húsnæði og framfærslu. Mörg sveitarfélög hafa breytt nafni félagsþjónustu eða fjölskyldusviða í velferðarvið til að spanna víðtækara málefnasvið.
Með pistlinum að þessu sinni fylgja myndir af skemmtilega samstarfsfólkinu mínu á bæjarskrifstofunni sem fóru alla leið í Hrekkjavökunni einn eftirmiðdag í síðustu viku.
Góða helgi!
Regína Ásvaldsdóttir