Það kom vel á vondan eins og sagt er þegar það fór að snjóa í fyrradag. Deginum áður fór ég nefnilega í kaffi í þjónustustöðina og hitti þá sem báru hitann og þungann af snjómokstri í hópi starfsmanna til að fara yfir veturinn og þakka þeim fyrir vel unnin störf. Einhver hafði á orði að ekki væri víst að veturinn væri alveg búinn að kveðja en við hin vorum á því að sumarið væri komið enda skein sólin skært eins og sjá má á forsíðumyndinni sem var tekin af starfsfólki þjónustustöðvarinnar.
Þetta var góð vika að vanda og ríflega 30 fundir og viðtöl að baki. Margir fundanna eru innanhúss en ég hitti stjórnendur sviðanna vikulega, sem og starfshóp um stafræna þróun. Þá eru margir fundir með ýmisskonar hagsmunaaðilum og viðtöl á fimmtudögum þar sem umfjöllunarefnið spannar allt litróf samfélagsins í Mosfellsbæ. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru með fjölmörg verkefni sem þarf að sinna og þá sérstaklega þar sem Mosfellsbær fer með formennsku. Þá eru ótaldir mikilvægustu fundirnir sem eru bæði bæjarráð og bæjarstjórn en það þarf að undirbúa þá fundi í stjórnsýslunni og sjá til þess að gögn og annað sé tilbúið.
Ég tók á móti mjög hressum hópi Norðmanna á mánudaginn en það eru fulltrúar í norræna félaginu í Skien sem voru hér á ferð. Þau gistu á Laxness hótelinu hér og áttu nokkra góða daga í Mosfellsbæ undir leiðsögn Helgu Jónsdóttur sem starfaði á bókasafni Mosfellsbæjar og tók þátt í norrænu samstarfi fyrir hönd bæjarins í mörg ár.
Á þriðjudaginn átti ég mjög gott spjall við starfsmenn þjónustustöðvarinnar, eins og kom fram hér að ofan þar sem ég þakkaði fyrir snjómokstur vetrarins. Starfsmennirnir sem sinna snjómokstri á gangstéttum og stígum bæjarinns eru að jafnaði sex talsins. Fimm þeirra eru á snjóvakt frá 1. okt. til 15. apríl. Þeir taka viku í senn frá föstudegi til föstudags og eru þá á vakt allan sólahringinn og kalla út okkar fólk og verktaka eftir þörfum. Frá miðjum desember og út febrúar var mannskapurinn kallaður út að meðaltali 10-12 sinnum í þeim mánuðum jafnt um helgar sem og virka daga. Kallað er út kl. 04 á morgnana og unnið við snjómokstur allan daginn og oft fram á kvöld. Verktakar annast svo snjómokstur á götunum og vinnuálagið á þeim er líka gríðarlega mikið á þessum annasömu mánuðum og þeir standa sig líka frábærlega. Í febrúar var lagt fram minnisblað umhverfissviðs vegna snjómoksturs í bæjarráði.
Minnisblað umhverfissviðs
Á þriðjudagskvöldinu fór ég á dásamlega tónleika með Stöllunum sem voru haldnir í Bæjarleikhúsinu. Frábær sýning með mikilli gleði, leikrænum tilþrifum og fallegum söng en tónleikarnir voru helgaðir lögum Magnúsar Eiríkssonar og komust færri að en vildu.
Á miðvikudag var síðari umræða um ársreikning Mosfellsbæjar en ég hef áður fjallað um útkomu ársins, sem var neikvæð um tæplega 900 milljónir og að stærstum hluta eða 808 milljónir vegna hárra vaxta og verðbóta. Það kom fram í máli oddvita meirihlutans að það þyrfti að taka upp fjárfestingar og fjárhagsáætlun, vegna þessarar stöðu. Við erum þegar farin að horfa á fjárfestingaáætlun 2024, en hún mun að sjálfsögðu taka mið af ytri aðstæðum eins og því verðbólguskeiði sem ríkir um þessar mundir.
Á fimmtudag kvöddum við kæran starfsmann, Marco Pizzolato sem hefur unnið hjá Mosfellsbæ undanfarin ár, þó með hléum. Hann kom frá Sviss árið 2019 sem skiptinemi til að vinna hjá Mosfellsbæ, en hann var í verkfræðinámi í Zurich. Hann dvaldi hér um nokkurra mánaða skeið og kom svo aftur fyrir tveimur árum og hefur unnið m.a. við kortagerð hjá bænum. Marco var kosinn Reykvíkingur ársins árið 2022 þar sem hann var í forystu um uppsetningu á frískáp, sem er ísskápur staðsettur utandyra og fólk getur komið mat sem það vill gefa í ísskápinn. Marco kom líka nýlega upp slíkum skáp í Mosfellsbæ sem er staðsettur við Kjarna. Markmið með frískápnum er að sporna gegn matarsóun.
Viðtal við Marco:
Í gærkveldi sótti ég aðalfund Aftureldingar en það var mjög vel mætt á fundinn. Birna Kristín Jónsdóttir var kjörin áframhaldandi formaður og Valdimar Leó Friðriksson var sæmdur heiðursviðurkenningu Aftureldingar fyrir margra ára störf fyrir félagið, meðal annars sem framkvæmdastjóri um árabil. Það sem var einstaklega skemmtilegt var að fulltrúi ÍSÍ veitti formönnum allra deilda félagsins viðurkenningu fyrir að vera með fyrirmyndarstarf ÍSÍ.
Upplýsingar um hvað þarf til, til að fá slíka viðurkenningu:
Í dag var maraþonfundardagur sem hófst með opnum rafrænum fundi SSH um tvö verkefni sem hafa verið unnin á vettvangi samtakanna. Annarsvegar um forvarnarstarf og geðrækt á höfuðborgarsvæðinu og hinsvegar um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir í sveitarfélögum utan Reykjavíkur. Það kom margt athyglisvert fram í þeirri skýrslu, meðal annars að 76 einstaklingar innan aðildarsveitarfélaganna eru í bráðum húsnæðisvanda og af þeim nýttu 67 einstaklingar sér gistingu í gistiskýlum á vegum Reykjavíkurborgar á árinu 2022. Karlmenn eru í töluverðum meirihluta, eða 76%, og meginþorri heimilislausra, eða tæp 90%, er með íslenskt ríkisfang.
Þá sótti ég líka rafrænan fund landshlutasamtaka Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fjallað var um fjárhagsstöðu sveitarfélaga og samstarf um stafræna þróun meðal annars. Á fundinum var Karl Björnsson framkvæmdastjóri sambandsins, á sínum síðasta starfsdegi en það verður mikill sjónarsviptir af honum á vettvangi sveitarstjórnarmála. Af þessu tilefni skellti ég í mynd af Kalla og fundarfólkinu.
Um helgina ætla ég að sjá Dýrin í Hálsaskógi og svo er stóri Plokkdagurinn á sunnudag og við hvetjum alla Mosfellinga til að fara út og plokka og huga að nærumhverfinu.
Upplýsingar um plokkstangir og poka ásamt upplýsingum um grenndarstöðvar:
Foreldrafélag Helgafellsskóla stendur fyrir grillveislu við skólann fyrir plokkara í hverfinu klukkan þrjú á sunnudag sem er algjörlega til fyrirmyndar. Það held ég að plokkarinn okkar hann Steinar Þór verði ánægður með framtakið.
Ég óska ykkar góðrar helgar og vona að sólin haldi áfram að skína svona glatt eins og núna!
Forsíðumynd er frá þjónustustöðinni og eru það þau Sigurður Andrésson, Heiða Ágústsdóttir, Einar Eiríksson, Bjarni Ásgeirsson, Tryggvi Júlíusson og Haukur Níelsson talið frá vinstri. Á myndina vantar Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem er líka á snjóvaktinni. Aðrar myndir eru frá tónleikum hjá Stöllunum, kveðjustund með Marco þar sem hann er ásamt Jóhönnu Hansen framkvæmdastjóra umhverfissviðs, gestum frá Skien í Noregi, síðasta fundi Karls Björnssonar og skjáskot af fyrirmyndar framtaki foreldrafélags Helgafellsskóla.