Alþjóðlegur dagur eineltis var haldinn á Íslandi á þriðjudag, þann 8. nóvember. Skólarnir í Mosfellsbæ létu ekki sitt eftir liggja og var fjölbreytt dagskrá í þeim öllum. Í Kvíslarskóla var dansað gegn einelti, í Helgafellskóla var hátíðlega athöfn í samvinnu við samtökin Heimili og skóla þar sem forsetafrúin Elísa Reid veitti viðurkenningu samtakanna fyrir baráttu gegn einelti. Í Varmárskóla var haldið nemendaþing í samvinnu við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ þar sem eldri nemendur voru umræðustjórar með börnum í 5 og 6 bekk. Kastljós gerði þessu verkefni góð skil og var með viðtöl við nemendur, skólastjóra og kennara.
Í vikunni voru líka sýndar stuttmyndir frá skólastarfi í Mosfellsbæ í þætti um menntamál ,,Ferðalag um Íslenska skólakerfið“. Annarsvegar viðtal við Sveinlaugu Sigurðardóttur leikskóla- og útikennara í Krikaskóla sem segir frá útinámi leikskólabarna og viðtal við Málfríði Bjarnadóttur kennara í Helgafellsskóla sem segir frá þróunarverkefninu Snjallræði.
Fyrsta fjárhagsáætlun þessa kjörtímabils var rædd í bæjarstjórn á miðvikudag, 9. nóvember og vísað til seinni umræðu sem verður 7. desember. Þetta var líka fyrsta fjárhagsáætlun nýs meirihluta og fyrsta fjárhagsáætlunin mín í starfinu sem bæjarstjóri. Það hefur verið töluverð áskorun að koma áætluninni heim og saman, vegna hárra fjármagnsgjalda, komandi kjarasamninga og aukinnar útgjaldaþörf sveitarfélagsins í skóla- og velferðarmálum vegna aukningar á íbúafjölda. Helstu áhersluatriðin eru þessi:
- Nýjum lóðum verður úthlutað í 5. áfanga uppbyggingar í Helgafellslandi.
- Fjárfest verður fyrir rúma fjóra milljarða til að byggja upp innviði.
- Áformað er að A- og B-hluti verði rekinn með 548 m.kr. afgangi á næsta ári.
- Veltufé frá rekstri verður jákvætt um 2.151 m.kr. eða 11% af heildartekjum.
- Álagningarhlutfall fasteignagjalda lækkar til að koma til móts við hækkun fasteignamats.
- Fasteignaskattur A – álagning lækkar úr 0,203 í 0,195%.
- Fasteignaskattur C – álagning lækkar úr 1,540% í 1,520%.
- Vatnsgjald – álagning lækkar úr 0,070% í 0,065%.
- Fráveitugjald – álagning lækkar úr 0,095% í 0,090%.
- Skuldir sem hlutfall af tekjum munu lækka og skuldaviðmiðið verður 89,9%.
- Álagningarhlutfall útsvars verður 14,52% en útsvar er um 52% af heildartekjum sveitarfélagsins.
- Hækkun á gjaldskrám verður hófleg og til samræmis við breytingar á verðlagi.
- Íbúar eru um 13.300 og er ætluð fjölgun um 2,5% á milli ára.
Afgangur af rekstri Mosfellsbæjar næst fram þrátt fyrir erfitt efnahagslegt umhverfi, aukningu í þjónustu og miklar framkvæmdir á næsta ári.
Meðal áherslna á kjörtímabilinu er heildstæð uppbygging íþróttasvæða í bæjarfélaginu, umfangsmiklar stofnframkvæmdir vegna fjölgunar atvinnulóða, aukning á leikskólaplássum og bygging búsetuúrræða fyrir fatlað fólk. Ennfremur er gert ráð fyrir stofnframlögum til óhagnaðardrifinna félaga. Þá verður unnið að því að Mosfellsbær hljóti viðurkenningu sem Barnvænt samfélag á kjörtímabilinu.
Á næsta ári er gert ráð fyrir að öll börn fái þjónustu að loknu fæðingarorlofi foreldra og gert er ráð fyrir eflingu heimaþjónustu fyrir eldri borgara. Þá er frístundaþjónusta við fötluð börn efld, sem og skammtímadvöl.
Á árinu 2023 verður ennfremur haldið áfram að innleiða farsældarlögin með Farsældarhringnum sem er samstarfsverkefni velferðarsviðs og fræðslu- og frístundasviðs. Fjárheimildir eru auknar til stoðþjónustu við börn í leik- og grunnskólum og ráðgjafaþjónustu við börn og fjölskyldur.
Fjárfestingar ársins 2023 einkennast af mörgum verkefnum en þar bera hæst endurbætur á Kvíslarskóla og lokið verður við byggingu íþróttahúss við Helgafellsskóla auk vinnu við endurbætur íþróttavalla á Varmársvæðinu.
Komið verður á fót nýjum leikskólarýmum en mikil fjölgun er í hópi leikskólabarna í Mosfellsbæ samhliða uppbyggingu nýrra hverfa.
Í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu atvinnusvæðis á Blikastöðum er gert ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum við stofnlagnir vatns-, hita- og fráveitu ásamt raf- og fjarskiptalögnum. Þá verður unnið að frekari stefnumörkun á sviði atvinnumála.
Á næsta ári lýkur endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar og vinna hafin við forgangsröðun og gerð rammaskipulags mögulegra uppbyggingasvæða.
Í vikunni fundaði ég með nokkrum hagaðilum vegna uppbyggingar í Mosfellsbæ. Meðal annars þeim Sigurði Rúnari og Eybjörgu Hauksdóttur frá Eir en Eir og Mosfellsbær eiga áralanga sögu um samstarf á sviði öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ. Eir hjúkrunarheimili rekur hjúkrunarheimilið Hamra og sér þar að auki um heimaþjónustu fyrir íbúa Mosfellsbæjar samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um. Eir öryggisíbúðir eiga rúmlega 50 íbúðir í Eirhömrum fyrir eldri borgara og hyggja á uppbyggingu fleiri íbúða í Bjarkarholti, í svokölluðum áfanga 4-5.
Ég fundaði líka með Guðjóni Auðunssyni forstjóra Reita og Friðjóni Sigurðssyni framkvæmdastjóra þróunarsviðs, vegna uppbyggingar atvinnusvæðisins við Blikastaði, eða á Korputúni eins og Reitir kjósa að kalla svæðið. Forsvarsmenn Reitna finna fyrir miklum áhuga á svæðinu en framundan eru stórar fjárfestingar af hendi Mosfellsbæjar í stofnlagnakerfinu til að koma svæðinu í byggingarhæft ástand.
Nemendur frá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ komu í heimsókn í vikunni en þær tóku við mig viðtal vegna umhverfisverkefnis sem er hluti af námskeiðinu Mennntamaskínu þar sem nemendur velja heimsmarkmið og vinna með það í samstarfi við FabLab í Reykjavík.
Ég fór líka í heimsókn í framhaldsskólann sem er í gríðarlega fallegri byggingu sem ég hef oft dáðst að frá Vesturlandsvegi og húsnæðið verður bara enn fallegra þegar inn er komið. Ég átti góðan fund með Guðbjörgu Aðalbergsdóttur skólastjóra, Valgarði Má Jakobssyni aðstoðarskólastjóra og þeim Ingu Þóru Ingadóttur og Guðrúnu Guðjónsdóttur áfangastjórum. Virkilega gaman að fá innsýn í hugmyndafræði skólans og kennsluháttum sem byggja á leiðsagnarnámi og skoða þessa fallegu byggingu.
Góða helgi!
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1. Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs með framsögu á fundi bæjarstjórnar vegna fyrstu fjárhagsáætlunar kjörtímabilsins
Mynd 2. Fundur með forsvarsmönnum Reitna
Mynd 3. Með Guðbjörgu, Valgarði, Ingu Þóru og Guðrúnu í Framhaldsskólanum