Þá er aftur komin helgi og vikan leið á ógnarhraða. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga tók töluverðan part af vinnuvikunni en það er tveggja daga ráðstefna sem sveitarstjórnarfólk og stjórnendur sækja á hverju hausti. Ráðstefnan er svo vinsæl að það verður gjarnan uppselt undir eins og því hefur samband íslenskra sveitarfélaga brugðið á það ráð að streyma ráðstefnunni líka, til að fleiri fái að njóta.
Það voru mörg góð erindi flutt á ráðstefnunni þessa tvo daga. Ræða formanns sambandsins Heiðu Bjargar Hilmisdóttir var mjög góð að mínu mati, þar sem hún tæpti á flestum hagsmunamálum sveitarfélaga sem eru sameiginleg um land allt. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var hressandi að vanda en fékk mestu athygli fjölmiðla fyrir þann hluta ræðunnar hans sem snýr að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Það verður aldrei ofsagt að samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu hafa setið eftir þegar kemur að samgönguúrbótum og miklar væntingar hafa verið bundnar við sáttmálann. Það er verið að endurskoða allar forsendur og tölur samgöngusáttmálans þessar vikurnar og gera ábatagreiningu og vonandi fáum við niðurstöðu á næstu vikum.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra ávarpaði einnig samkomuna en að þessu sinni var viðtal við hann tekið upp, þar sem ráðherrann er að jafna sig eftir mjaðmaskiptaaðgerð eins og hefur komið fram í fjölmiðlum. Ég var í pallborði í kjölfar ávarpsins ásamt þeim Hermanni Sæmundssyni ráðuneytisstjóra, Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra í Skagafirði og Helga Kjartanssyni oddvita meirihlutans í Bláskógabyggð. Umfjöllunarefnið var meðal annars Jöfnunarsjóður og nýjar reglur, sem gera kröfu á sveitarfélög að fullnýta útsvarsheimildir. Ennfremur sameiningarhugmyndir og stærð sveitarfélaga auk fjármálalegrar stöðu þeirra.
Á ráðstefnunni voru tvær flottar konur heiðraðar fyrir dygg störf fyrir sveitarfélögin í landinu, þær Aldís Hafsteinsdóttir fyrrum formaður sambandsins og bæjarstjóri í Hveragerði til margra ára og núverandi sveitarstjóri Hrunamannahrepps og Guðný Sverrisdóttir fyrrverandi sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi og stjórnarkona hjá sambandinu og í Jöfnunarsjóði til áratuga.
Í dag voru málstofur og í þeirri sem ég sótti var m.a. farið yfir útboð á sorphirðu, fjárhagsáætlanangerð í fjölkjarnasveitarfélögum, kostnaðarmat nýrra laga og svo stórgott erindi Friðjóns Einarssonar bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ um upprisu sveitarfélagsins í kjölfar efnahagshrunsins.
Í upphafi vikunnar var haldinn stjórnarfundur samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem meðal annars var fjallað um stöðu viðræðna vegna samgöngusáttmálans. Ég fór í viðtal á RÚV á mánudeginum vegna viðaukans við eigendasamkomulag vegna urðunar í Álfsnesi sem bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 15. september síðastliðinn og ég fjallaði ítarlega um í síðasta pistli.
Á miðvikudagsmorgunn var haldinn starfsmannafundur á bæjarskrifstofunni þar sem við fórum meðal annars yfir stöðu stafrænna verkefna. Við erum komin með sjö verkefni sem eru ný á þessu ári. Það verkefni sem er nýjast eru rafræn skil á öllum teikningum til byggingafulltrúa. Það þýðir að það þarf ekki lengur að keyra á bæjarskrifstofuna með teikningarnar og fá stimplun. Og vinnusparnaðurinn er mikill þar sem það þarf ekki lengur að taka á móti viðskiptavinum með teikningar, stimpla þær, skanna og setja inn í skjalavistunarkerfi. Þetta er ekki bara vinnusparandi heldur líka umhverfisvænt þar sem það sparar bílferðirnar á bæjarskrifstofurnar. Á einni af myndunum með þessari færslu er einmitt Árni Jón Sigfússon byggingarfulltrúi með möppuna góðu með öllum þeim skjölum sem þurfti að skanna áður, vegna eins leyfis en sendast núna rafrænt.
Seinnipart miðvikudags fórum við stjórnendateymi á bæjarskrifstofunni í heimsókn á vinnustofu Ólafar Bjargar Björnsdóttur listakonu í Álafosskvosinni og er forsíðumyndin einmitt tekin út um glugga hjá Ólöfu. Það er ótrúlega gaman að skoða verkin hennar og vinnuaðstöðu á þessum fallega stað. Við heimsóttum líka Guðjón Svansson og Völu Mörk sem reka litla líkamsræktarstöð við Engjaveg og þar fórum við í ýmsar skemmtilegar þrautir. Það er fátt sem sameinar starfshópa betur en að taka smá hvíld frá daglegum störfum og takast á við öðruvísi áskoranir en þær sem finnast eingöngu við skrifborðið.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar.
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024