Til hamingju með baráttudag verkafólks í dag, 1. maí!
Flaggað var við bæjarskrifstofurnar í tilefni dagsins, á aðal flaggstönginni austan megin við húsið. Við fengum athugasemd á íbúasíðunni Mosó, bærinn okkar vegna þess að það sáust ekki flögg fyrir framan húsið og ég setti af því tilefni mynd og færslu inn á íbúasíðuna, sem ég geri yfirleitt ekki, nema mikið liggi við. Og það fannst mér í dag, þar sem það var beinlínis rangt að Mosfellsbær flaggaði ekki í tilefni þessa mikilvæga baráttudags.
Samfélagsmiðlarnir eru gott tæki til að koma upplýsingum á framfæri til bæjarbúa og við höfum svo sannarlega verið að bæta í þar, bæði á vefnum, facebook og nú erum við að taka Instagram síðuna okkar meira í notkun. Við höfum hinsvegar ekki farið í þá vegferð að svara öllum þeim athugasemdum sem koma inni á íbúasíðunum – sem eru tvær, Mosó, bærinn okkar og íbúar í Mosfellbæ. Ég skoða hinsvegar alltaf allar athugasemdir sem snúa að þjónustu bæjarins og kanna hvort eitthvað hafi misfarist. Og það verða því miður alltaf einhver mistök í svona stóru kerfi, með um eitt þúsund starfsmenn og ótal handtök á hverjum degi. Ein sorptunna sem gleymist, eða göngustígur sem má moka betur. Við erum þess vegna með ábendingakerfi, mos.is/abending, og markmiðið er að svara eins fljótt og auðið er og leysa úr málum sem hægt er að ganga í strax.
Á síðasta ári komu 1.560 ábendingar inn í ábendingakerfið. Þegar málin fara í þann farveg, þá er haldið utan um þau, ábendingin skráð og síðan hvað gert er með hana. Við notum stafrænt vinnuafl sem við köllum Mosa, til að greina og flokka ábendingarnar og í framhaldinu eru þær settar í réttan farveg.
Þetta er því öflugt tæki til að halda utan um athugasemdir og á allt öðru plani en ábendingar á íbúasíðu, sem eru ekki skráðar og skjalfestar enda rekur Mosfellsbær ekki síðurnar.
Ég hvet ykkur því til að skoða ábendingakerfið okkar og nýta það til að senda inn athugasemdir, það er skjótvirkasta leiðin til að ná til okkar á bæjarskrifstofunum.
Í gær var ársreikningur Mosfellsbæjar lagður fram til seinni umræðu. Afkoman var mjög góð á árinu, 877 milljónir úr A og B hluta. Það er aðeins tekist á um það í pólitíkinni hvort niðurstaðan sé góð eða ekki en þessi mikli afgangur kemur til af sölu á byggingarrétti. Þær tekjur eru svokallaðar einskiptis tekjur og nýtast því frábærlega vel í að greiða inn á þá miklu uppbyggingu sem er í bænum. Ef við værum ekki með byggingarréttartekjurnar þá hefði rekstrarniðurstaða A hluta í Mosfellsbæ verið í mínus 50 milljónir. Það er hinsvegar besta rekstrarniðurstaða frá árinu 2019. Flest sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu reiða sig á byggingarréttartekjur, til að ná rekstri A hluta í plús.
Að sjálfsögðu erum við mjög ánægð með að skila svona góðum rekstrarafgangi og halda áætlun svona vel en vissulega væri betra að hafa traustari tekjustofna þegar til framtíðar er litið. Og fyrir því þurfum við að berjast, sveitarfélögin saman, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem vöxturinn er mikill.
Árið 2024 einkenndist af umfangsmiklum framkvæmdum en það var fjárfest fyrir 3,7 ma kr. brúttó og er eitt stærsta fjárfestingaár Mosfellsbæjar til þessa. Stærsta framkvæmd ársins var nýr leikskóli fyrir 150 börn í Helgafellshverfi sem verður tekinn til notkunar í sumar 2025. Þá var einnig unnið að innréttingum í íþróttahúsinu við Helgafellsskóla og við gatnagerð í hverfinu. Framkvæmdir voru hafnar á aðalvellinum við Varmá og endurnýjun skólalóða við Kvíslarskóla og Varmárskóla. Auk þess var farið í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir í skólabyggingum.
Forsíðumyndin er af okkar öfluga teymi á fjármála- og áhættustýringarsviði. Frá vinstri má sjá Pétur Lockton sviðsstjóra, þá Helgu Óskarsdóttur aðalbókara, Guðrúnu Hilmarsdóttur innheimtufulltrúa, Önnu Maríu Axelsdóttur verkefnisstjóra og staðgengil sviðsstjóra, Björn Þór Þorsteinsson verkefnisstjóra innkaupamála og Jennýju Jónsdóttur fulltrúa í bókhaldi. Þeim var þakkað fyrir frábæra vinnu á bæjarstjórnarfundinum í gær.
Á bæjarráðsfundi í gær var ársskýrsla bæjarins fyrir árið 2024 lögð fram en hún er sett fram í fyrsta sinn á veftæku formi, arsskyrsla.mos.is.
Þá er líka hægt að nálgast ársskýrsluna á pdf skjali á ársskýrsluvefnum. Í ársskýrslunni kennir ýmissa grasa og hvet ég bæjarbúa til að skoða hana en þar er til dæmis yfirlit yfir allar verklegar framkvæmdir ársins 2024, tölulegar upplýsingar um málaflokkana og margt fleira fróðlegt. Það er verkefnisstjórinn okkar á skrifstofu umbóta og þróunar, Sif Sturludóttir sem á mesta heiðurinn af framsetningu efnisins.
Apríl var fljótur að líða, enda mikið um frídaga og páskarnir voru tiltölulega seint þetta árið. Ég fór í byrjun mánaðarins á fund með forsætisráðherra ásamt oddvitum Samfylkingar, Viðreisnar og Framsóknarflokksins til þess að ræða ýmis hagsmunamál Mosfellsbæjar. Eitt af þeim málum er staða öryggisvistunar á Íslandi, en þau mál hafa verið í miklum ólestri og afar flókið og erfitt fyrir sveitarfélög að þjónusta fólk sem getur verið hættulegt sjálfum sér og öðrum. Það er því gleðilegt að segja frá því að nú í apríl var tilkynnt um undirbúning frumvarps um öryggisvistun auk þess sem plássum verður fjölgað á réttargeðdeild. Við ræddum einnig um Farsældartún og mikilvægi þess að það verkefni haldi áfram þó að ný ríkisstjórn hafi tekið við völdum og við fórum yfir stöðuna á Sundabraut. Þá fórum við yfir frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð en Mosfellsbær fær að okkar mati alltof mikla skerðingu á tekjum samkvæmt frumvarpinu.
Íþróttalífið er í mikilli uppsveiflu í bænum í mörgum greinum. Það var mjög gaman að sækja fyrsta heimaleikinn í Bestu deild karla í fótbolta þó að það hafi verið ansi napurt! Við það tilefni var Gísla Halldórssyni formanni meistararáðs færður áletraður silfurplatti frá Aftureldingu.
Ég sótti mjög áhugavert bæjar- og sveitarstjóramót núna í lok mánaðarins sem var haldið af fjórum sveitarfélögum, Grímsnes og Grafningshreppi, Skeiða og Gnúpverjahreppi, Bláskógabyggð og Hrunamannahreppi. Málþing í bland við skoðunarferðir og frábær samvera með kollegum allstaðar að af landinu. Það er mjög skemmtilegt að sjá hvað konum hefur fjölgað í þessum hópi og ekki síst ungum konum.
Á bæjarráðsfundi í gær voru opnuð tilboð í lóðir í Helgafellshverfi en það bárust 57 umsóknir um 16 lóðir. Margir sóttu um sömu lóðirnar og hugsanlegt að einhverjar lóðir verði afgangs. Það spretta upp ný hús á þessu svæði en Bakki er að byggja fjölbýlishús sem uppfyllir skilyrði til þess að íbúar geti sótt um hlutdeildarlán og síðan er verið að byggja leiguíbúðir á vegum byggingarfélagsins Bjargs sem er í eigu ASÍ og BSRB. Búsetukostum er því að fjölga verulega fyrir tekjulágt fólk í Mosfellsbæ sem er afar mikilvægt og eitt af helstu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar. Mosfellsbær hefur staðið sig mjög vel á síðustu tveimur árum þegar kemur að stofnframlögum til íbúðauppbyggingar fyrir tekjulágt fólk en árið 2024 veitti bærinn stofnframlög til 30 íbúða, 7 íbúða árið 2023, en þær voru hinsvegar ekki nema 6 á árunum 2016 til 2022. Það er því mikil breyting á skömmum tíma.
Að lokum – gleðilegt sumar!