Það var svo sannarlega ánægjulegt að vakna á laugardagsmorguninn við þær fréttir að það væri búið að semja við BSRB og aflýsa verkfalli félagsmanna í STAMOS hér í Mosfellsbæ. Það voru glaðir starfsmenn sem komu tilbaka í vinnu á mánudag og meðal þeirra þær Edda Davíðsdóttir forvarna- og tómstundafulltrúi og formaður STAMOS og Unnur Jenný Jónsdóttir verkefnisstjóri í fjármáladeild en þær voru meðal þeirra sem voru kallaðar út á föstudagseftirmiðdegi og sátu alla nóttina við samningaborðið.
Vikan hefur einkennst af innanhússfundum, svo sem föstum fundum með framkvæmdastjórn, fundi í vinnuhóp um stafræna umbreytingu, fundi vegna atvinnumála, stjórnkerfisbreytinga, skólalóða og framkvæmda í eldhúsi Varmárskóla, svo nokkuð sé nefnt.
Í gær var haldinn opinn íbúafundur um aðalskipulag í Hlégarði og var mjög góð mæting. Valdimar Birgisson formaður skipulagsnefndar opnaði fundinn og sagði frá helstu markmiðum fundarins og næstu skrefum. Þá tók Kristinn Pálsson skipulagsfulltrúi við og kynnti helstu efnisflokka í aðalskipulaginu og bauð svo upp á spurningar ásamt þeim Birni Guðbrandssyni og Eddu Einarsdóttur frá Arkis. Þær Matthildur Elmarsdóttir og Drífa Árnadóttir frá Alta kynntu síðan hugmyndir að rammahluta aðalskipulagsins fyrir Blikastaðaland. Það spunnust heilmiklar umræður í kjölfar þeirrar kynningar, meðal annars um þéttleikann á svæðinu. Þau gögn sem kynnt voru á fundinum eru nú aðgengileg á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Íbúum og öðrum hagaðilum gefst kostur á að veita umsagnir og koma með ábendingar til og með 12. ágúst næstkomandi í gegnum nýju gáttina.
Í bæjarráði í gær var samþykkt tillaga um skráningardaga í leikskólum bæjarins frá næsta hausti en tillagan var samþykkt í fræðslu- og frístundanefnd og vísað til bæjarráðs. Skráningardagar eru hugsaðir þannig að ætli foreldrar að nýta sér þjónustu leikskóla í jóla- og páskafríum og eftir klukkan 14 á föstudögum þurfi að skrá börnin sérstaklega. Mosfellsbær stendur frammi fyrir því, eins og mörg önnur sveitarfélög að útfæra verkefnið Betri vinnutíma eða styttingu vinnuvikunnar. Verkefnið hófst 2020 og var markmiðið að full stytting sem nemur tveimur vinnudögum á mánuði væri komin á í mars 2023 án þess að til komi viðbótar starfsfólk eða þjónusta minnkuð. Það hefur reynt á starfsemi leikskólanna meðal annars vegna þess að á sama tíma og börn geta dvalið allt að 45 tíma á viku í leikskólanum og algengasti vistunartími er 42,5 stundir á viku er unnið að því að stytta vinnutíma starfsfólks í 36 tíma á viku. Þá hefur orlof starfsmanna lengst og er nú 30 dagar yfir árið, til viðbótar við styttingu vinnuvikunnar. Til að mæta þessum breytingum er hugmyndin að bjóða foreldrum að skrá börnin sín og óska eftir vistun í kringum jól-, páska- og vetrarfrí og eftir kl. 14.00 alla föstudaga. Með þessu er hægt að skipuleggja leikskólastarfið fyrirfram og gera starfsfólki kleift að nýta þá daga til að taka út uppsafnaða styttingu vinnuvikunnar. Leikskólagjöld verða lækkuð sem nemur þeim skráningardögum sem foreldrar nýta ekki fyrir börn sín. Útfærsla á skráningardögum er í höndum hvers leikskólastjóra í samstarfi við starfsfólk og foreldra. Akureyri og Hafnarfjörður eru meðal þeirra sveitarfélaga sem hafa gert breytingar á leikskólastarfi til að mæta markmiðum um styttingu vinnuvikunnar.
Þá var samþykkt tillaga meirihlutans um að laun bæjarstjóra taki mið af þeirri launahækkun sem ríkisstjórnin ákvað, eða 2,5% í stað 9% sem er samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar og bundin í ráðningasamningi. Í fréttatilkynningu kemur fram að Mosfellsbær vilji sýna samfélagslega ábyrgð og þetta sé liður í því. Laun bæjarfulltrúa taka ennfremur mið af þingfararkaupi og munu því einnig hækka í samræmi við það þann 1. júlí næstkomandi.
Loks var samþykkt að hefja viðræður við Framkvæmdasýslu ríkisins um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra, það er að til viðbótar stækkun upp á 44 rými þá verði þau 66.
Samtal um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra hefur staðið milli Mosfellsbæjar og ráðuneyti heilbrigðismála frá árslokum 2018. Þann 5. maí 2022 var samstarfsamningur um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra um 44 rými undirritaður. Í þeim samningi er gert ráð fyrir að nýja byggingin verði norðan megin við núverandi hjúkrunarheimili og áföst því. Samkvæmt útreikningum frá frumathugun sem gerðir voru á árinu 2021 yrði heildarkostnaður við verkið 2.454 m.kr. og skyldi kostnaðurinn skiptast á milli aðilanna þannig að ríkissjóður greiði 85% kostnaðar og sveitarfélagið 15% í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Eignarhlutur aðila verði jafnframt í samræmi við þá skiptingu.
Í samstarfssamningnum kemur fram að sveitarfélagið muni afhenda lóð tilbúna til uppbyggingar í samræmi við forsendur. Þar var gert ráð fyrir að skipulag myndi heimila uppbyggingu og stækkun hjúkrunarheimilisins um að minnst 44 rými í áætlaðri 2.860 m2 viðbyggingu. Deiliskipulagsbreyting fyrir lóðina gerir ráð fyrir stækkun byggingarreitar í átt að Skeiðholti sem rúma mun viðbyggingu. Skipulagið var endanlega samþykkt og staðfest af bæjarstjórn Mosfellsbæjar þann 26. apríl 2023.
Náist samningar um 66 pláss í stað 44 plássa þá mun Mosfellsbær greiða viðbótarkostnað, 172 mkr. miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir.
Framundan eru mikil hátíðarhöld í Mosfellsbæ á 17. júní. Ég vona svo innilega að veðrið verði jafn gott og síðustu daga og við fáum þannig notið allra þeirra viðburða sem boðið verður upp á í bænum.
Gleðilega hátíð!