Forsíðumyndin að þessu sinni er úr „Græna herberginu“ og er af stjörnunum sem prýddu dagskrá Sautjánda júní í Mosfellsbæ. Hátíðarræðan var í höndum Önnu Sigríðar Guðnadóttur forsetja bæjarstjórnar og fjallkona var Lára Hrönn Pétursdóttir sem flutti Storm eftir Hannes Hafstein. Þær eru umvafðar flottu leikurunum okkar úr Dýrunum í Hálsaskógi ásamt meðlimum í Langa Sela og skuggunum. Svo sannarlega frábær hópur og dagskráin og veðrið við Hlégarð einstaklega gott. Ég byrjaði daginn á hátíðarmessu í Lágafellskirkju undir stjórn sr. Hennings Emils Magnússonar. Ræðumaður var söngarinn Jógvan Hansen sem flutti einnig nokkur lög. Þetta var dásamleg stund, Jógvan einstaklega skemmtilegur í sinni einlægu frásögn og umgjörðin öll til fyrirmyndar. Ég fór í létt útvarpsspjall ásamt Hilmari hjá Jóhanni Alfreðssyni á Rás 2 áður en hátíðardagskráin hófst kl. 14:00. Dagskráin var einstaklega glæsileg og hátíðarhöldin mjög vel sótt. Ég fór líka á kaffihlaðborð Aftureldingar og ég verð að viðurkenna að ég hef sjaldan séð eins girnilegt hlaðborð.
Það er full ástæða til að þakka öllum sem komu að undirbúningi dagsins, hvort sem það var hátíðardagskráin í Hlégarði í umsjón Hilmars Gunnarssonar, umgjörðin sem var í höndum garðyrkjudeildarinnar og þjónustustöðvarinnar, skátunum sem stóðu heiðursvörð við Lágafellskirkju og leiddu skrúðgönguna frá Kjarna og að Hlégarði, skólahljómsveitinni undir stjórn Daða, Aftureldingu sem stóð fyrir kaffihlaðborðinu, leikurum úr Leikfélagi Mosfellsbæjar og Láru fjallkonu sem kom úr þeirra röðum, Hjalta Úrsus sem stóð fyrir keppni um sterkasta Mosfellinginn og öllum skemmtikröftunum. Þegar margir leggjast á eitt verður útkoman glæsileg.
Það var annars nóg um að vera í vikunni. Á mánudeginum átti ég fund með fulltrúum í viðræðuhópi SSH við ríkið um almenningssamgöngur ásamt þeim Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í Kópavogi og Degi B. Eggertsyni borgarstjóra. Það eru viðræður sem hafa staðið um nokkurt skeið og snúast um kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga við rekstur Borgarlínunnar. Sama dag stýrði ég stefnuráðsfundi þar sem Valdimar Víðisson bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður stjórnar Sorpu kynnti helstu niðurstöður í stefnumótun fyrirtækisins ásamt því að velta upp þeim spurningum sem eigendur standa frammi fyrir varðandi úrgangsmál. Auk þess kynnti Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri úrgangsmála hjá Reykjavíkurborg áfanganiðurstöður starfshóps sem SSH skipaði til að fara yfir nýja löggjöf varðandi hringrásarhagskerfið m.a. var hópnum falið að greina verkefni og skyldur sveitarfélaganna í málaflokknum og gera, á grundvelli þeirrar vinnu, tillögur að sameiginlegum samþykktum og gjaldskrám sveitarfélaganna.
Í kjölfar af stefnuráðsfundinum var haldinn eigendafundur Sorpu þar sem farið yfir tillögur að forverkefni nr. 2 um sorporkustöð með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Helgi Þór Ingason verkfræðingur kynnti drög að verkáætlun um framhald þessa verkefnis en þar er gert ráð fyrir áætluðum verkskilum, þ.e. skilum á heildstæðri skýrslu um verkefnið þ.á.m. kostnaðar- og áhættugreiningu, þann 15. desember næstkomandi. Um er að ræða fýsileikaathugun á soprbrennslu á Íslandi.
Í vikunni kvöddum við Þrúði Hjelm fráfarandi skólastjóra Krikaskóla en hún hefur starfað í skólanum í 15 ár og leitt mikið brautryðjendastarf. Þrúði voru færðar þakkir frá Mosfellsbæ og ýmsum samstarfsfélögum fyrir frábært samstarf. Þrúður færði öllum gestum kveðjugjafir, litríkar borðtuskur sem hún prjónaði sjálf en að hennar mati er fátt betra til að hvíla hugann og endurnærast en að prjóna.
Á þriðjudag var úthlutun úr Klörusjóði en markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í Mosfellsbæ. Í sjóðinn geta sótt kennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við skóla/frístund í Mosfellsbæ og fræðslu- og frístundasvið í samstarfi við skóla. Áherslan 2023 er lögð á stoðir nýrrar menntastefnu Mosfellsbæjar sem eru vöxtur, fjölbreytni og samvinna. Að þessu sinni hlutu eftirfarandi verkefni styrk úr sjóðnum:
- Tónlist í Kvíslarskóla: Davíð Ólafsson, Kvíslarskóla
- Í nálægð við náttúruna: Kristlaug Þ. Svavarsdóttir, leikskólanum Reykjakoti
- Námsefnisgerð/námskrá fyrir gróðurhús: Margrét Lára Eðvarðsdóttir, Helgafellsskóla
- Rafræn stærðfræðikennsla: Örn Bjartmars Ólafsson, Kvíslarskóla
Sama dag var aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf. haldinn í samkomusal Reykjalundar. Félagið sem er óhagnaðardrifið var stofnað um áramótin 2020/2021. Fundurinn hófst á ávarpi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sem ræddi meðal annars um stefnu í endurhæfingarmálum og hlutverk Reykjalundar í endurhæfingarstarfi íslenska heilbrigðiskerfisins. Í kjölfarið hófust hefðbundin aðalfundarstörf þar sem ný stjórn var meðal annars kosin. Ég hef verið í stjórn fyrir hönd Mosfellsbæjar frá síðasta aðalfundi en gaf ekki kost á mér áfram og var Aldís Stefánsdóttir bæjarfulltrúi kjörin í stjórnina fyrir hönd Mosfellsbæjar. Það hefur verið mjög áhugavert að kynnast einum fjölmennasta vinnustað bæjarins en þar starfar mjög hæft starfsfólk á sviði endurhæfingar með fjölbreytta menntun, s.s. á sviði sálfræði, læknisfræði, hjúkrunar, iðjuþjálfun og félagsráðgjafar, svo helstu starfsstéttir séu nefndar. Það eru mikil sóknarfæri á Reykjalundi sem er ein fremsta endurhæfingarmiðstöð landsins. Á aðalfundinum kynntu þær Berglind Gunnarsdóttir og Hlín Bjarnadóttir, gæðastjórar Reykjalundar niðurstöður árangurskönnunar, þar sem líðan og heilsufar einstaklinga sem komu í meðferð var skoðuð við innritun og svo aftur við útskrift og ánægjulegt að sjá marktækan jákvæðan árangur af dvölinni. Ég fékk hlýjar kveðjur frá Sveini Guðmundssyni formanni SÍBS sem færði mér bókina Sigur Lífsins, SÍBS í 75 ár í kveðjuskyni og sömuleiðis frá Önnu Stefánsdóttur formanni sem færði mér blómvönd.
Á miðvikudag var haldinn síðasti bæjarstjórnarfundur fyrir sumarfrí en bæjarráð fær nú heimild til fullnaðarafgreiðslu mála. Á fundinum voru nokkrar breytingar gerðar á nefndum og ráðum og var Örvar Jóhannesson bæjarfulltrúi B lista kjörinn forseti bæjarstjórnar. Við fórum svo út að borða á Blik, bæjarfulltrúar og við Þóra bæjarlögmaður og var það svo sannarlega vel til fundið þar sem útsýnið var ægifagurt þetta kvöld.
Á fimmtudag var bæjarráð að vanda kl. 7:30 og þar var meðal annars samþykkt að veita bæjarstjóra heimild til að gera samkomulag við fyrirtækið Hopp um rafskútur í Mosfellsbæ. Þá var einnig samþykkt að leita samninga við Reykjavíkurborg og stjórn Strætó um næturstrætó. Á fundinum var einnig samþykkt að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda, Alefli ehf., í byggingu leikskóla í Helgafellshverfi á grundvelli tilboðs og umhverfissviði jafnframt heimilt að leita leiða til að lækka byggingarkostnað verksins í samráði við verktaka.
Eftir vinnu í gær fórum við nokkur saman á Mosfell en við erum með skemmtilegt verkefni sem heitir Tindagöngur á bæjarskrifstofunni en með hverri nýrri stafrænni lausn sem við innleiðum göngum við saman á einn af „tindum“ Mosfellsbæjar til að verðlauna okkur. Við höfum innleitt Völu sumarfrístundakerfi og rafræna fjárhagsaðstoð á síðustu vikum og í næstu viku verðlaunum við okkur með göngu á Úlfarsfell en þá munum við klára að innleiða rafrænar undirskriftir á húsaleigusamningum vegna húsnæðisbóta.
Í dag voru nokkrir fundir m.a. með félagasamtökum ásamt fundi með húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna uppbyggingar á húsnæði fyrir tekjulágt fólk.
Þessi pistill verður sá síðasti í sumar þar sem ég mun fylgja dagatali bæjarstjórnar og koma með næsta pistil 18. ágúst. Það verður þó nóg við að vera á bæjarskrifstofunum í sumar og bæjarráð mun fullnaðarafgreiða mál í sumarleyfi bæjarstjórnar eins og áður hefur verið nefnt.
Ég óska ykkur gleðilegs sumars og þakka fyrir lestur á pistlunum í vetur og vor.
Góða helgi!