Dagurinn í dag hófst á fundi hjá almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins sem var haldinn á Veðurstofu Íslands. Þar vorum við í tveggja og hálfstíma prógrammi þar sem við fengum yfirferð helstu sérfræðinga veðurstofunnar á áhættum tengdum jarðaskjálftum, eldgosum, flóðum og veðri auk þess að skoða nýja veðurstöð sem er staðsett efst á veðurstofureitnum. Mjög góðar kynningar og mikilvægar fyrir okkur í almannavarnanefnd að fá svona gott yfirlit. Auk mín voru Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi og nefndarmaður í almannavarnanefnd, Örvar Jóhannesson bæjarfulltrúi og varamaður í almannavarnanefnd og Dóra Lind Pálmarsdóttir leiðtogi umhverfismála hjá Mosfellsbæ á fundinum.
Ég átti síðan fundi innanhúss vegna vinnu við fjárhagsáætlun, en við erum ,,á milli umræðna” eins og það er kallað en þá er svigrúm fyrir bæjarfulltrúa að leggja fram tillögur um breytingar á áætluninni. Við vorum líka að fá nýjar hagtölur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem breytir verðbólguspá úr 4,9 % í 5,6 % sem þýðir um 130 milljóna aukningu í verðbætur á árinu, miðað við fyrri spá. Það er því í mörg horn að líta þessa dagana, miklar breytingar í samfélaginu vegna jarðhræringanna á Reykjanesi sem hafa áhrif á efnahagsumhverfið, til viðbótar við þau áhrif sem t.d. Úkraínustríðið hefur haft á verðbólgu síðustu tvö ár.
Vikan hófst á innanhússfundum að vanda auk fundar í stjórn SSH þar sem við fengum heimsókn frá Ármanni Kr. Ólafssyni sem hefur verið formaður í starfshópi sem umhverfis-, orku og loftlagsráðherra skipaði til að koma með tillögur að bættu eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum.
Starfshópurinn taldi að það væri þörf á gagngerum breytingum á fyrirkomulagi eftirlits. Þau telja að ósamræmi í framkvæmd sé of mikið, stjórnsýsla of flókin, það skorti yfirsýn og misbrestir kerfisins hafi neikvæð áhrif á atvinnulíf og samkeppnishæfni Íslands. Þá séu vannýtt tækifæri til skilvirkni, einföldunar og stafrænnar þróunar. Það var einróma niðurstaða starfshópsins að leggja til að færa allt eftirlit til stofnana ríkisins. Sú niðurstaða hefur farið misvel í heilbrigðisnefndir og bókaði t.d. heilbrigðisnefnd Garðabæjar, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness mjög eindregið gegn því að fara þá leið að færa allt eftirlit til ríkisstofnana. Það er mikilvægt að skoða allar hliðar þessa máls á vettvangi SSH og síðan hjá sveitarfélögunum, með það að markmiði að bæta eftirlitið og einfalda kerfið.
Á þriðjudag átti ég fund með sviðsstjórum velferðarsviðs og fræðslusviðs vegna farsældarmála en sviðin eru nýbúin að ráða verkefnisstjóra farsældar, Elvar Jónsson deildarstjóra unglingastigs í Helgafellsskóla en hann hefur mikla reynslu af skólastarfi, m.a. sem skólameistari framhaldsskólans á Neskaupstað og aðstoðar skólameistari fjölbrautarskólans í Breiðholti auk þess að hafa setið í barnaverndarnefnd og fjölskyldunefnd í Fjarðarbyggð. Við væntum mikils af Elvari.
Við sóttum fræðslu um hinseginleikann, starfsfólk Mosfellsbæjar í Hlégarði á þriðjudeginum en það var leikkonan og verkefnisstjóri hjá Samtökunum 78 Íris Tanja Flygenring sem hélt fyrirlestur og ræddi við okkur. Íris hefur farið á stofnanir bæjarins sem starfa með börnum og unglingum til að fræða um kynhlutverk og hinseginleika og hafa fyrirlestrar hennar mælst mjög vel fyrir.
Ég sótti stjórnarfund Skálatúns ses sama dag og einnig fund með fulltrúum fyrrtækis sem er að skoða uppbyggingarmöguleika á höfuðborgarsvæðinu.
Á miðvikudag átti ég vikulegan fastan samráðsfund með framkvæmdastjóra SSH auk reglulegra funda með sviðsstjórum málaflokka en ég á fasta fundi á tveggja vikna fundi með hverjum og einum sviðsstjóra auk fastra funda tvisvar í viku, annarsvegar með framkvæmdastjórninni í heild, til að ræða sameiginleg verkefni og hinsvegar fastan fund með sviðsstjórum, vegna undirbúnings bæjarráðs. Þá mæta þeir sem eru með mál fyrir fund auk bæjarlögmanns.
Í hádeginu var svo stöðufundur vegna samgöngusáttmálans og síðan nokkrir innanhússfundir. Meðal annars átti ég mjög góðan fund með Sigurði Guðmundssyni fráfarandi íþróttafulltrúa sem er að kveðja okkur eftir áratuga farsælt starf. Mig langar að nýta þennan vettvang til að þakka honum kærlega fyrir frábært samstarf og allan þann metnað og áhuga sem hann hefur sýnt í þessu mikilvæga starfi.
Bæjarstjórnarfundur hófst svo að venju kl. 16.30 og stóð til klukkan 19.00. Á fundinum var meðal annars staðfest ákvörðun bæjarráðs um úthlutun lóða við Fossatungu og Langatanga. Um er að ræða tvær einbýlishúsalóðir við Fossatungu og fjórar raðhúsalóðir við Langatanga.
Upplýsingar um lóðirnar:
Á fimmtudaginn var bæjarráðsfundur og nokkur þung mál á dagskrá. Meðal annars ályktanir Aftureldingar vegna aðstöðumála, samráðsvettvangs og frjálsíþróttaaðstöðu. Það er mjög mikilvægt að það sé traust og gott samstarf á milli íþróttafélaganna í bænum og Mosfellsbæjar og ég finn ekki annað en að það sé fullur vilji til þess af hendi bæjarfulltrúa Mosfellsbæjar og aðalstjórnar Aftureldingar, þrátt fyrir ágreining um forgangsröðun. Fyrir næstu þrjú ár hafa verið settir 2,5 milljarðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja, þar af endurnýjun á aðalvelli á næsta ári. Þó að þetta sé mikið fjármagn, þá er fjárþörfin meiri og það er eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem eru framundan að afla frekari tekna fyrir sveitarfélagið til að setja í aðstöðumál við Varmá.
Ég var svo með opna viðtalstíma að venju á fimmtudagsmorgunn og fundi í framhaldinu. Í gærkvöldi stóð starfsmannafélag bæjarskrifstofunnar fyrir jólahlaðborði í húsnæði bæjarins á neðri hæðinni að Blik og var það mjög góð skemmtun og frábær matur. Starfshópurinn er einstakur, bæði fólk með langa reynslu og svo nýliðarnir okkar og ég er gríðarlega þakklát fyrir að vinna með svona góðum hópi.
Í lok dagsins í dag sótti ég málverkasýningu í Listasal Mosfellsbæjar sem nefnist ,,Allt sem ég sá” en myndlistarmaðurinn og Mosfellingurinn Georg Douglas sýnir þar listaverk um blóm. Georg Douglas er jarðfræðingur að mennt það gefur honum innblástur til verka sem eru að mestu leyti íslensk villi og garðblóm. Ég hvet ykkur lesendur góðir að koma við í listasafninu okkar og skoða þessa fallegu sýningu. Með þeirri hvatningu segi ég góða helgi!