Forsíðumyndin er af áhorfendastúkunni í Laugardalshöll en eins og flestir vita þá vann Afturelding Stjörnuna með glæsibrag á fimmtudagskvöldinu í undanúrslitum Powerade bikarsins. Með sigri á Stjörnunni, 35:26 tryggði Afturelding sér þátttöku í úrslitaleiknum á móti Haukum á morgun. Það verður að segjast eins og er að leikurinn var algjör upplifun því ,,strákarnir okkar” spiluðu ótrúlega vel, bæði í sókn og í vörn. Hvernig sem fer á morgun þá getum við svo sannarlega verið stolt af liðinu. Það er ekki síður mikilvægt að eiga góða stuðningsaðila og það var frábært að upplifa stemninguna í stuðningshópi Aftureldingar.
Það eru mikil samskipti á milli Mosfellsbæjar og Aftureldingar og síðast í dag átti ég fund með framkvæmdastjóra og formanni til að fara yfir ýmis praktísk mál. Samstarfið er mjög gott enda eru íþróttafélög og önnur samtök sem vinna í þágu samfélagsins nauðsynleg fyrir í starfsemi sveitarfélaga, ekki síst í barna og unglingastarfi. Ég heimsótti líka Sigurð íþróttafulltrúann okkar og Dönu vaktstjóra í Varmárlaug í vikunni til að fara yfir stöðu íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ, skipulag vinnunnar og ýmis forgangsmál í viðhaldi og rekstri. Það er öflugt fólk að starfa í þessum málum hjá okkur í Mosfellsbæ og þar eins og í Aftureldingu er mikill metnaður til að gera sem allra best.
Ég skrifaði undir samning við félags- og vinnumarkaðsráðherra í vikunni um samræmda móttöku flóttafólks en bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti að taka á móti allt að 80 manns. Nú þegar hafa tugir einstaklinga komið frá Úkraínu á eigin vegum til Mosfellsbæjar og leigja sér húsnæði en samningurinn tryggir að við getum veitt fólki ráðgjöf og stuðning við að aðlagast samfélaginu og fengið fjarmagn til þess í gegnum samninginn.
Nánari umfjöllun um samninginn um samræmda móttöku flóttafólks
Í vikunni var samþykkt að bjóða út fyrri hluta í 5. áfanga Helgafellshverfis. Á svæðinu hafa verið skipulagðar 151 íbúð sem mynda blandaða byggð í hlíð á móti suðri. Byggingarrétti lóða við Úugötu verður úthlutað í tveimur hlutum á grunni úthlutunarskilmála sem lýsa fyrirkomulagi úthlutunar, verðlagningu og tímasetningum. Í fyrri úthlutun er óskað eftir tilboðum í byggingarrétt annars vegar fjögurra fjölbýla með 12 íbúðum hvert, alls 48 íbúðir, og hins vegar sjö raðhúsa, alls 24 íbúðir. Tveimur fjölbýlishúsum við Úugötu 10-12, alls 24 íbúðir, verður úthlutað til Bjargs íbúðafélags og lóðinni Úugötu 1 verður úthlutað til Þroskahjálpar undir fimm íbúða íbúðakjarna fyrir fatlaða. Á næstu vikum verður auglýst eftir umsóknum um úthlutun á vef Mosfellsbæjar og dagblöðum. Áformað er að síðari úthlutun lóða á svæðinu, sem eru að mestu einbýlishúsa- og parhúsalóðir, eigi sér stað í september 2023. Nánari upplýsingar varðandi þá úthlutun verða birtar síðar í sumar. Í úthlutunarreglunum verða skilyrði fyrir úthlutun tíunduð. Lóðunum verður úthlutað á grundvelli tilboðs í byggingarrétt hverrar lóðar en lágmarksverð verður lagt til grundvallar. Bæði einstaklingar og lögaðilar geta lagt fram tilboð í byggingarrétt lóða en hver umsækjandi getur þó aðeins lagt fram eitt tilboð í hverja lóð. Umsækjendur þurfa að uppfylla skilyrði um fjárhagslegt hæfi sem tilgreind eru í 3. gr. úthlutunarreglna Mosfellsbæjar. Samhliða auglýsingu um úthlutunina verða reglur um úthlutunarskilmála betur kynntar.
Í bæjarstjórn á miðvikudag var fjallað um samþykkt í fræðslunefnd þar sem sviðsstjóra fræðslu og frístundasviðs var heimilað að undirbúa viðauka við gildandi samning við félagið Leikskóli fyrir alla sem rekur leikskólana Korpukot og Fossakot í Grafarvogi. Mosfellsbær er með gildandi samning um 22 börn en viðaukinn mun fela í sér fjölgun plássa um 50 talsins. Með því viljum við tryggja að öll börn sem verða 12 mánaða eða eldri fái leikskólapláss eða pláss hjá dagforeldri í haust. Fjallað hefur verið um samningsviðræðurnar á mbl.is síðustu daga í tengslum við skort á leikskólaplássum í Reykjavík. Í dag er viðtal við borgarstjóra þar sem fram kemur að Reykjavík muni gera skilyrði um forgang reykvískra barna í samningum við Korpukot. Þar er aðallega verið að vísa í samning Korpukots um leigu á leikskólanum Bakka sem er í eigu borgarinnar og ætti ekki að hafa áhrif á okkar samningsstöðu í dag þar sem við erum að horfa á húsnæði í eigu fyrirtækisins.
Það hefur verið líflegt í menningarlífinu í bænum og ekkert lát á. Um helgina opnar Rósa Traustadóttir sýningu sína Áhrifavaldur = Shinrin Yoku í Listasal Mosfellsbæjar en sýning opnar kl. 14.00 laugardaginn 18. mars. Rósa er að mestu sjálfmenntuð í myndlist en stundaði nám í Myndlistarskóla Kópavogs um nokkurt skeið og hefur sótt þau námskeið sem Vatnslitafélag Íslands hefur staðið fyrir. Síðasti sýningardagur er 15. apríl. Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Þverholti 2. Opið er kl. 9-18 alla virka daga og kl. 12-16 á laugardögum.
Í vikunni var tilkynnt um að hönunarfyrirtækið Kolofon væri tilnefnt til verðlauna Félags íslenskra teiknara vegna tveggja verkefna og er annað þeirra mörkun á Mosfellsbæ. Hlutverk FÍT verðlaunanna er að veita því viðurkenningar sem skarar fram úr á Íslandi í grafískri hönnun og myndlýsingum. Við hjá Mosfellsbæ erum með nýtt útlit á vefnum og í auglýsingum og kynningarefni sem unnið hefur verið af Kolofon í dyggu samstarfi og undir forystu Arnars Jónssonar framkvæmdstjóra þjónustu- og samskipta og Sigurlaugar Sturlaugsdóttur verkefnisstjóra á bæjarskrifstofunni og við krossum fingur í kvöld og vonum hið besta. Við krossum að sjálfsögðu fingur líka vegna úrslitaleiksins á morgun og að þessu sögðu óska ég ykkur öllum góðrar helgar!