Miðvikudaginn 1. mars voru liðin 25 ár frá því að bæjarskrifstofurnar fluttu í Kjarna í Þverholtinu og bæjarstjórn hóf að funda í húsinu. Við fögnuðum áfanganum fyrir bæjarstjórnarfund sem var haldinn sama dag og forsíðumyndin var tekin af því tilefni. Auk mín eru á myndinni Anna Sigríður Guðnadóttir forseti bæjarstjórnar, Pétur Lockton fjármálastjóri sem hefur unnið í 25 ár á bæjarskrifstofunum þann 1. apríl næstkomandi, Unnur Ingólfsdóttir sem var félagsmálastjóri og síðar sviðsstjóri í 34 ár og leit í heimsókn til okkar þennan dag, Jóhanna Magnúsdóttir deildarstjóri grunnskóla og Gunnhildur Sæmundsdóttir starfandi sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs sem báðar störfuðu hjá Mosfellsbæ fyrir 25 árum.
Árshátíð Mosfellsbæjar var haldin um síðustu helgi og tókst með eindæmum vel. Um 600 manns skemmtu sér í Gullhömrum en það voru þær Anna Rún Sveinsdóttir forstöðumaður á áfangaheimilinu að Krókabyggð, María Aradóttir forstöðumaður heimila fyrir börn og Alexía Guðjónsdóttir þjónustufulltrúi á bæjarskrifstofunum sem sáu um undirbúning og framkvæmd árshátíðarinnar og gerðu það með miklum glæsibrag.
Það voru að venju margir fundir í vikunni, meðal annars um leikskólamál en á fundi bæjarráðs á fimmtudag var samþykkt að heimila umhverfissviði að bjóða út áframhaldandi uppbyggingu og innréttingu á nýjum leikskóla í Helgafellslandi. Umhverfissvið ásamt rýnihópi ráðgjafa, hönnuða og fulltrúa fræðslu- og frístundasviðs höfðu áður fengið það verkefni frá bæjarráði að endurskoða hönnun leikskólans með það að markmiði að lækka áætlaðan byggingakostnað við verkið. Það náðist að lækka áætlaðan kostnað um 15% einkum með því að breyta efnisvali og búnaði.
Ég fundaði með fulltrúum skógræktarfélagsins í Mosfellsbæ í vikunni og í dag sat ég í pallborði á ráðstefnu Skógræktarfélags Íslands og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins ásamt bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjóra til að ræða Græna stíginn. Stígurinn er hluti af Græna treflinum sem er svæði í upplandi byggðar á höfuðborgarsvæðinu þar sem mörg útivistarsvæði eru staðsett, svo sem Heiðmörk, Hvaleyrarvatn, Guðmundarlundur, Vífilsstaðavatn, Úlfarsfell og Esjan. Græni trefillinn er fyrst og fremst skipulagslegt hugtak og hugmyndin um Græna stíginn er að tengja svæðin saman með 40-50 km löngum stíg sem næði frá Kaldárseli og Hvaleyrarvatni í Hafnarfirði í suðri og upp að Mógilsá við Esjurætur í norðri. Mjög áhugavert verkefni en það sem getur verið flókið fyrir t.d. Mosfellsbæ er að stór hluti svæðisins sem hefur verið skilgreint sem hluti af Græna treflinum er á einkalandi. Svæðisskipulagsnefnd hefur ráðið Þráinn Hauksson í vinnu við að afmarka nákvæma legu stígsins í samvinnu við sveitarfélögin og það mun vonandi koma verkefninu eitthvað áfram. Björn Traustason formaður skógræktarfélags Mosfellsbæjar var annar umræðustjóranna á ráðsstefnunni og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir flutti mjög gott erindi um lýðheilsu og tók einnig þátt í pallborði með öðrum fyrirlesurum.
Í morgun stýrði ég fundi stefnuráðs höfuðborgarvæðisins um hringrásarmál þar sem farið var yfir nýja löggjöf á sviði úrgangsmála og stöðu Sorpu í því verkefni auk þess að ræða almennt um hlutverk stefnuráða og stjórna byggðarsamlaga.
Ég fékk heimsókn frá fulltrúum Kjósahrepps í vikunni, þeim Jóhönnu Hreinsdóttur oddvita hreppsins og Þorbjörgu Gísladóttur sveitarstjóra ásamt Páli Björgvini framkvæmdastjóra SSH. Við ræddum meðal annars stöðu sveitarfélagsins í samstarfinu innan höfuðborgarsvæðisins.
Á starfsmannafundi í vikunni fórum við yfir verkefnastöðu stafrænnar innleiðingar hjá Mosfellsbæ en Sif Sturludóttir leiðtogi upplýsingastjórnunar hjá Mosfellsbæ kynnti stöðuna. Við bindum miklar vonir við verkefni Sifjar en það er ljóst að stafræn innleiðing er langhlaup og það er af nógu að taka hjá okkur, eins og víða annarsstaðar í stjórnsýslunni, hvað varðar að bæta þjónustu með stafænum lausnum.
Helgin framundan gefur fögur fyrirheit um gott vorveður og ég vil að lokum minna á verkefnið Menningu í mars og opna listaskólann á morgun.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar!
Regína Ásvaldsdóttir