Ég las frétt um að septembermánuður hafi verið óvenju kaldur sem mér finnst einkennilegt því mér finnst hann hafa verið bæði bjartur og fagur. Sólríkur með fallegu sólsetri á kvöldin og norðurljósadýrð. Það hefur verið mikið um að vera í Mosfellsbæ þennan mánuðinn eins og reyndar alltaf á haustin þegar skólar hefjast og hin árlega fjárhagsáætlunargerð.
Þessi pistill er seinn á ferðinni þar sem ég var í nokkurra daga fríi í kringum mánaðarmótin. Það er freistandi að nefna alþjóðadag kennara – sem var í gær og tilnefningar til íslensku menntaverðlaunanna en við eigum tvær tilnefningar sem er gríðarlega ánægjulegt!
Í flokknum framúrskarandi kennari er Dóra Guðrún Wild kennari við leikskólann Hlaðhamra í Mosfellsbæ tilefnd fyrir faglega og metnaðarfulla leikskólakennslu, meðal annars útinám og fyrir að auðga líf barna í Mosfellsbæ með fjölbreyttu lista- og menningarstarfi.
Þá er Snjallræði – þróunarverkefni í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ tilnefnt í flokknum Framúrskarandi þróunarverkefni. Um er að ræða heildstæða nýsköpunarkennslu sem nær frá leikskólastigi til unglingastigs.
Til hamingju Dóra og Helgafellsskóli!
Það er vissulega stílbrot að fjalla um viðburði í október í septemberpistli en freistingin er bara of mikil – þar sem um mjög ánægjuleg tíðindi er að ræða.
Það má með sanni segja að nú í byrjun september hafi verið uppi mjög krefjandi aðstæður í skólamálum í Mosfellsbæ þar sem foreldrar stigu fram og gagnrýndu skóla barna sinna harðlega. Þegar svona mál koma upp er mjög erfitt fyrir skólastjórnendur að bregðast við opinberlega og það sama gildir fyrir bæjaryfirvöld, sökum ákvæða stjórnsýslulaga um þagnarskyldu um einkamálefni, í þessu tilviki nemenda. Það er því ekki hægt að lýsa málinu frá sjónarhorni kennara eða skólastjórnenda eða þeim aðgerðum gripið hefur verið til. Þessi einhliða umræða getur oft verið ansi óvægin þar sem starfsfólk má þola meiðandi umræðu í kommentakerfum á facebook og í fjölmiðlum án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér.
Á hitt ber að líta að fólk grípur oft til þess örþrifaráðs, þegar þeim finnst ekki á það hlustað, að segja sögu sína opinberlega til þess að fá viðbrögð. Öll viljum við að börnunum okkar líði vel í skólanum og þurfi ekki að kvíða skóladeginum vegna áreitis eða ofbeldis annarra barna og ég vil árétta að skólayfirvöld í Mosfellsbæ leggja sig mjög mikið fram við að tryggja farsæla úrlausn þegar slík mál koma upp.
Ég held að við getum öll verið sammála um að við eigum framúrskarandi kennara og annað starfslið skóla á Íslandi sem starfa oft við afar krefjandi aðstæður. Ég er allavega stolt af frábærum kennurum og starfsfólki í skólunum í Mosfellsbæ og óska þeim og öðrum kennurum á Íslandi til hamingju með daginn í gær!
Á fyrsta fundi bæjarráðs í september var uppfærsla á samgöngusáttmálanum lögð fram að nýju en kynning á innihaldi samningsins fór fram á síðasta fundi ágústmánaðar með fulltrúum Betri samgangna og SSH. Á fundinum 5 september var samþykkt að vísa uppfærslunni til tveggja umræðna í bæjarstjórn.
Umræður fóru fram 11. september í bæjarstjórninni og samningurinn var samþykktur á fundi bæjarstjórnar 25 september.
Uppfærður samgöngusáttmáli sem gildir til ársins 2040 felur í sér lengri tímaramma, endurskoðun kostnaðaráætlana og tímsetninga einstakra verkefna auk þess sem aukið fjármagn kemur frá ríki vegna almenningssamgangna þar sem áherslan er á aukið valfrelsi í samgöngum. Lykilframkvæmdir sáttmálans breytast ekki en breytingar hafa verið gerðar á einstaka verkefnum. Engar breytingar voru gerðar á tímasetningu Borgarlínu til Mosfellsbæjar en hún færist framar í forgangsröðinni, verður í áfanga 2 í stað 6 áður.
Sáttmálinn felur í sér sameiginlega sýn fyrir allt höfuðborgarsvæðið, þar sem lögð verður höfuðáhersla á skilvirka og hagkvæma uppbyggingu samgönguinnviða.
Á sama fundi var lögð fram framvinduskýrsla um byggingu leikskólans í Helgafellshverfi sem miðar mjög vel og stefnt að því að opna leikskólann sumarið 2025. Þá var lögð fram greining Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins á möguleikum Álafosskvosar sem áfangastaðar. Boðað er til opins fundar um skýrsluna og framtíðarmöguleika í kvosinni þann 16. október næstkomandi.
Síðasti fundur stýrihóps um uppbyggingu Varmársvæðisins var haldinn 3. október og í kjölfarið var auglýst eftir samstarfsaðilum til að byggja nýja þjónustu og aðkomubyggingu. Um er að ræða markaðskönnun þar sem kannaður er áhugi aðila til að koma í samstarf við Mosfellsbæ um uppbygginguna. Hægt er að koma fyrir allt að 3 þúsund fermetra byggingu á reitnum en þarfagreining Mosfellsbæjar og Aftureldingar gerir ráð fyrir 1600 fermetrum þannig að það er rými fyrir fleiri í húsnæðinu og þar að leiðandi samnýtingu á ákveðnum rýmum.
Miðvikudaginn 4. október héldum við á bæjarskrifstofunni starfsdag eftir hádegi og unnum í Hlégarði að svokölluðum samskiptasáttmála og fengum Sigríði Indriðadóttur ráðgjafa með okkur í lið. Markmiðið er að bjóða öðrum vinnustöðum í Mosfellsbæ upp á sambærilega vinnu og móta sáttmála fyrir alla starfsemina. Góð samskipti er lykilbreyta þegar kemur að starfsánægju á vinnustöðum og oft er hikað við að taka á vandamálum þegar þau koma upp, s.s. viðmóti, frammistöðu í starfi, ákvarðanaleysi ofl þar til vandinn vex það mikið að erfitt er að snúa til betri vegar. Samskiptavandi er oft stór þáttur í að starfsmenn upplifa kulnun og örmögnun í starfi og því mikilvægt að vinna vel með þessa þætti og virkja allan vinnustaðinn til þátttöku.
Reglulegar kannanir í gegnum samskiptaforritið Moodup er liður í að kanna líðan og ánægju starfsmanna en þær eru lagðar fyrir á tveggja mánaða fresti. Starfsánægjan er upp á við en 79% starfsmanna voru ánægðir í starfi samkvæmt síðustu könnun sem var framkvæmd í lok ágúst.
Sunnudaginn 8. september sótti ég skáldagöngu frá Gljúfrasteini upp að Helgufossi í tilefni þess að 90 ár eru liðin frá því að Halldór Laxness gaf út Sjálfstætt fólk. Rithöfundarnir Kristín Svava, Pétur Gunnarsson og Gerður Kristný lásu upp úr Sjálfstæðu fólki. Bjarki Bjarnason var í fararbroddi og stjórnaði göngunni. Frábær dagur og góð mæting. Það er gott samstarf á milli Mosfellsbæjar og forstöðukonu safnsins, Guðnýjar Gestsdóttur enda sameiginlegir hagsmunir að halda uppi merkjum Halldórs Laxness og skáldverka hans.
Ég fór í viðtal í Morgunvaktina á Rúv þann 9. september til að ræða um uppfærslu samgöngusáttmálans en einnig um málefni barna og ungmenna þar sem ég sat í stýrihópi sem vann úttekt á þörfum á meðferðarheimilum og stuðningi við börn og ungmenni á Íslandi.
Þung undiralda hefur verið í samfélaginu eftir atburðinn á menningarnótt þar sem ung stúlka var myrt af unglingspilti og kallað eftir betri úrræðum fyrir börn með alvarlegan hegðunarvanda. Þessi umræða leiddi til þess að við boðuðum forelda efstu bekkinga grunnskólans á fund um miðjan mánuð í Hlégarði og fengum góða gesti frá samfélagslögreglunni og Flotanum sem er færanleg félagsmiðstöð í Reykjavík. Það var gríðarlega vel mætt á fundinn, um 300 manns og afar góðar umræður. Í undirbúningi er að halda sambærilegan fund fyrir foreldra barna á miðstigi.
Ég sótti mjög ánægjulegan viðburð í Lágafellskirkju 22. september þegar þrír prestar voru settir í embætti í sókninni en það eru þau sr. Arndís G. Bernharðsdóttir Linn og sr. Henning Emil Magnússson sem tóku við stöðum sóknarprests og prests fyrir rúmu ári síðan og sr. Guðlaug Helga sem var vígð í vor og starfar nú sem þriðji prestur kirkjunnar. Innsetningarmessan var mjög hátíðleg og í kjölfarið var boðið í kaffi í safnaðarheimilinu. Við erum gríðarlega heppin með góða presta í Mosfellsbæ sem láta sig samfélagið varða. Þá er einnig nýlega búið að ráða nýjan framkvæmdastjóra fyrir sóknina, Jóhönnu Ýr Jóhannsdóttur og stefnum við á fund með henni fljótlega í október til að ræða sameiginlega hagsmuni kirkjunnar og bæjarins.
Undirbúningur að gerð fjárfestingaráætlunar og fjárhagsáætlunar er í fullum gangi þessi dægrin og fjölmargir fundir í september sem fóru í að rýna þarfir með sviðunum og öðrum hagsmunaaðilum en það er ljóst að við þyrftum helmingi meira fjármagn en við höfum til umráða til að fullnægja öllum kröfum og óskum um bættan aðbúnað í stofnunum okkar, í gatnagerð og frágangi opinna svæða og í íþróttamannvirkin. Hátt vaxtastig og verðbólga hafa mikil áhrif á rekstur sveitarfélagsins og takmarkar svigrúm til lántöku.
Í lok september tók Mosfellsbær þátt í evrópskri íþróttaviku og var með mikla dagskrá af því tilefni. Þetta var skemmtilegt verkefni sem var unnið undir stjórn Guðjóns Svanssonar íþrótta og forvarnarfulltrúa og ljóst að margir fundu viðburði við sitt hæfi.
Fótbolti hefur átt hug og hjarta margra Mosfellinga í septembermánuði þar sem liðið blandaði sér í toppbaráttuna um sæti í efstu deild karla. Ég náði að fara á nokkra leiki en var svo óheppin að úrslitaleikurinn var haldinn sama dag og ég var stödd í helgarfríi erlendis. Ég gat þó fylgst með á hliðarlínunni og þvílíkur árangur hjá liðinu okkar, þjálfara, stuðningsfólki og öðrum sem komu að stuðningi við liðið. Ég fékk senda mynd af liðinu sem prýðir að sjálfsögðu forsíðuna á pistlinum þennan mánuðinn.
Til hamingju Afturelding!