Markmiðið með þessum stuttu föstudagspistlum er fyrst og fremst að gefa innsýn í stjórnsýsluna, hver eru hin raunverulegu verkefni í starfi bæjarstjóra. Og ef satt skal segja þá snúast þau að miklu leiti um stjórnun og rekstur og á þessum tíma ársins eru fjárhagsáætlanir og fjárfestingaáætlanir mest krefjandi verkefnin.
Á mánudaginn héldum við fund með fulltrúum í bæjarráði, meiri- og minnihluta þar sem við lögðum fram frumdrög að fjárfestingaáætlun 2023 og til næstu fimm ára. Í þessari áætlun mátti finna öll þau góðu verkefni sem þarf að ráðast í Mosfellsbæ og snúa bæði að lögbundinni þjónustu sem tengjast skólum, leikskólum og þjónustu við fatlað fólk en líka verkefnum sem hafa mikið forvarnargildi, eins og þau sem tengjast íþróttum og aðstöðu í bænum. Gatnagerð er líka fyrirferðarmikil á uppbyggingarsvæðum og framkvæmdir sem tengjast veitum. Það er ljóst að það bíður kjörinna fulltrúa það vandasama verk að forgangsraða og þess vegna er mikilvægt að allt bæjarráð komi að borðinu en það eru nýmæli að bjóða fulltrúum minnihlutans á kynningu á frumdrögum að fjárfestingaáætlun.
Við héldum líka undirbúningsfund fyrir alla bæjarfulltrúa til að kynna endurskoðaða samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar sem var samþykkt á fundi bæjarráðs 6. október og vísað til tveggja umræðna í bæjarstjórn. Bæði er um að ræða formbreytingar en einnig breytingar á nefndum. Fjölskyldunefnd mun verða velferðarnefnd, menningar- og nýsköpunarnefnd verður menningar- og lýðræðisnefnd og ný atvinnu- og nýsköpunarnefnd mun líta dagsins ljós í stað lýðræðis- og jafnréttisnefndar. Atvinnu og nýsköpunarnefndin fær mikilvægt hlutverk í tengslum við uppbyggingu í Blikastaðalandi en þar hefur verið skipulagt atvinnusvæði.
Umhverfissvið bauð fulltrúum í umhverfisnefnd og skipulagsnefnd auk bæjarstjóra í kynningarferð um Mosfellsbæ, þar sem farið var um öll nýbyggingarsvæði og svæði sem eru og verða í skipulagsferli á næstu árum og áratugum. Einnig var farið í Mosfellsdal, í kringum Hafravatn og upp í Þormóðsdal. Þrátt fyrir að það hafi rignt verulega og skyggni frekar slæmt á köflum þá var þetta mjög lærdómsrík og skemmtileg skoðunarferð undir leiðsögn Kristins skipulagsfulltrúa og Jóhönnu framkvæmdastjóra sviðsins.
Í vikunni voru bæði bæjarstjórnarfundur og bæjarráðsfundur. Í bæjarráði var samþykkt að setja á laggirnar starfshóp til að greina þarfir Mosfellsbæjar fyrir leikskólapláss næstu fimm árin og rýna hönnun á fyrirhuguðum leikskóla í Helgafellslandi með tilliti til kostnaðar og fleiri þátta. Í bæjarráði var samþykkt að Aldís Stefánsdóttir formaður fræðsluráðs stýri hópnum en auk hennar voru bæjarfulltrúarnir Lovísa Jónsdóttir og Dagný Kristinsdóttir tilnefnd í hópinn ásamt embættismönnum á þessu sviði.
Tveggja daga fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna lauk í dag, 14. september en fjölmörg áhugaverð erindi voru haldin og rætt um fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Ég tók þátt í pallborðsumræðu um innleiðingu laga um farsæld barna ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er afar mikilvægt að vel takist til við innleiðingu á farsældarlögunum fyrir börn og fjölskyldur í Mosfellsbæ og undirbúningur er þegar hafinn með Farsældarhringnum svokölluðum.
Þá voru fundir Slökkviliðs höfuðborgarsvæðsins og almannavarnarnefndar haldnir snemma í morgun – áður en seinni dagur fjármálaráðstefnunnar hófst.
Í dag er svo Bleiki dagurinn og við á bæjarskrifstofunni tókum aðeins forskot á hann í vikunni og þar tjölduðu starfsmenn öllu til, eins og meðfylgjandi myndir sýna.
Góða helgi kæru bæjarbúar!
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1: Bleiki dagurinn tekinn alla leið.
Mynd 2: Kristinn skipulagsfulltrúi með kynningu fyrir skipulags- og umhverfisnefndir.
Mynd 3: Bæjarfulltrúar.
Mynd 4: Pétur Lockton og Anna María á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.
Mynd 5: Regína bæjarstjóri og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra í umræðum á ráðstefnunni.