Frá því að ég hóf störf sem bæjarstjóri hef ég verið með vikulega pistla og eru þeir orðnir á sjötta tug. Ég ákvað að gera breytingar um áramótin og skrifa pistil mánaðarlega þar sem ég stikla á stóru varðandi helstu verkefni liðins mánaðar.
Það var dásamlegur viðburður nú í vikunni þegar við tókum á móti starfsmönnum Mosfellsbæjar, sem eru af erlendum uppruna, til að ganga með þeim fyrstu skrefin í notkun á appinu Bara tala.
Síðla hausts samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar að öllu starfsfólki sveitarfélagsins af erlendum uppruna yrði veittur gjaldfrjáls aðgangur að smáforriti (appi) sem heitir Bara tala en það er bæði skemmtileg og nýstárleg leið til að læra íslensku.
Forritið er nokkurskonar stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Það býður bæði upp á starfstengt íslenskunám og grunnnámskeið í íslensku fyrir vinnustaði með því að nota sjónrænar vísbendingar og myndir.
Á þennan upphafsviðburð sem var haldinn í Hlégarði í gær, þriðjudaginn 30. janúar, mættu um 35 starfsmenn frá 14 þjóðlöndum og hófu þar með þátttöku í verkefninu. Á næstu mánuðum er því líklegt að íslenskuþjálfun verði í forgrunni víða um Mosfellsbæ og þá er gott að hafa í huga ráðgjöf sem við fengum sem er að sýna þolinmæði og „bara hlusta”.
Þá var haldinn mjög góður fundur í dag, miðvikudaginn 31. janúar, hjá fræðslunefnd FaMos . Ég fór yfir það helsta sem er að frétta frá Mosfellsbæ í málaflokknum fyrir eldri borgara og Elva Björg Pálsdóttir fór yfir félagstarfið. Aðalerindið flutti hinsvegar Halldór Sigurður Guðmundsson hjá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands en hann fjallaði m.a. um einmanaleika og rannsóknir þeim tengdum. Mjög gott erindi og mikilvægt.
Annars hefur janúar verið viðburðaríkur. Starfsárið hófst á nýársboði hjá forseta Íslands en þangað eru boðnir embættismenn, forsvarsfólk félagasamtaka og bæjarstjórar stærstu sveitarfélaganna. Þetta var síðasta nýársboð Guðna forseta og því gott að mæta á þennan viðburð og ná að þakka þeim hjónum fyrir farsælt starf.
Í janúar hafa verið nokkrir viðburðir tengdir borgarstjóraskiptum í Reykjavík, meðal annars fyrirlestur um þróunina í Reykjavík síðustu áratugi eða Reykjavík – brot af því besta. Þar var farið yfir mjög vítt svið og það var meðal annars gaman að sjá kynningu frá framkvæmdastjóra Sorpu en yfirskrift einnar glærunnar var; Endalok urðunarstaðar í Álfsnesi. Og það er einmitt það sem verið er að vinna að, eins og ég kem að hér á eftir í umfjöllun um fund verkefnisstjórnar.
Þeir atburðir sem áttu sér stað í Grindavík og á svæðinu í kring, þann 14. janúar síðastliðinn, líða íslensku þjóðinni seint úr minni. Á þessari stundu varð ljóst að Grindvíkingar þurfa varanleg úrræði; húsnæði, vinnu, leikskólapláss og annað til að byggja upp lífið á nýjum stað. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið kölluð til samráðs vegna leikskólamálanna og ég á von á því að þau mál verði leyst en það er auðvita ákveðin óvissa uppi um hvar nákvæmlega Grindvíkingar muni setjast að. Reykjanesið hefur verið valkostur hjá mörgum og eins þau sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem eru næst Grindavík. Sveitarfélögin þurfa hugsanlega að breyta reglum tímabundið, til að geta brugðist við þessari stöðu, þannig að það gildi sérákvæði fyrir Grindvíkinga. Það samtal er þegar hafið á milli innanríkisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fyrstu viðburðirnir sem voru haldnir á vegum Mosfellsbæjar árið 2024 voru laugardaginn 6. janúar en þá var þrettándabrenna haldin samkvæmt hefð neðan Holtahverfis við Leirvoginn. Blysför var frá Miðbæjartorgi og skólahljómsveitin, Stormsveitin, Grýla, Leppalúði og fleiri voru á svæðinu. Björgunarsveitin Kyndill var með glæsilega flugeldasýningu undir lokin.
Þann sama dag var opnuð sýning á málverkum listamannsins Jakobs Veigars en hann er listmálari og notar jafnframt aðra miðla eins og ljós, myndbönd og textíl. Það var mjög margt um manninn á opnuninni enda hefur Jakob á mjög stuttum tíma gert sig gildandi innan myndlistargeirans. Sýning Jakobs stendur til 2. febrúar.
Ég á sæti í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar Skálatúns en í stjórninni eru tveir fulltrúar mennta- og barnamálaráðuneytis og einn fulltrúi Mosfellsbæjar. Við höfum átt alls fimm fundi í janúar. Í upphafi árs áttum við fund með Snorra Magnússyni sem hefur rekið ungbarnasund í sundlauginni á lóð Skálatúns í um 30 ár. Sundlaugin var nýtt af íbúum á Skálatúni og Snorri var starfsmaður Skálatúns þar til fyrir nokkrum árum, þegar sundþjálfun fatlaðra íbúa á Skálatúni var hætt og íbúar fóru að sækja almennar sundlaugar í Mosfellsbæ. Síðustu ár hefur laugin einvörðungu verið fyrir ungbarnasund. Við yfirtöku nýrrar sjálfseignastofnunar á húsnæði Skálatúns var farið í úttekt á öllu húsnæðinu, eins og eðlilegt er við aðilaskipti. Í ljós kom að sundlaugin var í afar lélegu ástandi og öryggismálum þar að leiðandi mjög áfátt. Það er yfirbyggingin sjálf sem er fúin, svo sem burðarbitarnir sem halda þakinu uppi og að mati sérfræðinga óverjandi að halda starfseminni úti við þessar aðstæður. Það var þrautinni þyngri að taka þessa ákvörðun, að framlengja ekki leigusamninginn við Snorra þar sem starfsemin er afar dýrmæt og mikilvæg. Nú eru komnar góðar fréttir um að ungbarnasundið verði á Háaleitisbraut sem eru mjög gleðilegar.
Við höfum verið að fjalla um skipulag uppbyggingar á svæðinu, þarfagreiningu vegna þeirra stofnana sem koma á svæðið og nafn á verkefninu. Við höfum ákveðið að hafa nafnasamkeppni sem verður vonandi kynnt í vikunni og vonum að sem flestir taki þátt.
Stjórn samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur hist sex sinnum í janúar. Meðal annars til að fara yfir stöðuna í viðræðum um samgöngusáttmálann og aðstoð við Grindvíkinga. Þá höfum við farið yfir stöðu verkefna vegna sóknaráætlunar 2023 en eitt af þeim verkefnum sem lögð var áhersla á á síðasta ári var að útbúa vefsvæði með öllum gönguleiðum á höfuðborgarsvæðinu. Það verkefni er í vinnslu í samstarfi við markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og ferðamálastofu og verður vonandi tilbúið í sumar.
Á mánudaginn síðasta var svo tveggja tíma vinnufundur vegna sóknaráætlunar 2024 en á árinu fáum við um 30 milljón króna framlag til sameiginlegra verkefna á höfuðborgarsvæðinu.
Ég fór einnig á fund með verkalýðshreyfingunni og forsvarsfólki sambands íslenskra sveitarfélaga í upphafi árs þar sem við hlustuðum á tillögur breiðfylkingarinnar (Efling og starfsgreinasambandið) í tengslum við kjarasamninga. Markmið breiðfylkingarinnar er að gera samninga sem halda aftur af verðbólgu. Í því samhengi gerir verkalýðshreyfingin þá kröfu að sveitarfélögin takmarki hækkanir á gjaldskrám. Það voru góðar umræður um þetta mál á fyrsta fundi bæjarstjórnar þann 17. janúar þar sem samstaða var um eftirfarandi bókun:
Eitt brýnasta hagsmunamál íslensks samfélags er að komið verði böndum á verðbólguna. Ljóst er að með samvinnu allra aðila á vinnumarkaði mun bestur árangur nást í þeirri baráttu. Eins og fram kom í umræðum um fjárhagsáætlun ársins 2024 mun Mosfellsbær ekki láta sitt eftir liggja í þeirri baráttu. Mikilvægt er að halda því til haga að Mosfellsbær er með lægstu leikskólagjöld og ódýrustu skólamáltíðir í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hvetur alla hagaðila til að taka þátt í þjóðarsátt. Enn fremur vill bæjarstjórn Mosfellsbæjar nú taka af allan vafa um að ef næst þjóðarsátt milli aðila vinnumarkaðarins, bæði á einka- og opinberum markaði, ríkis og sveitarfélaga, sem felur í sér tillögu um lækkun gjaldskráa sveitarfélaga þá mun Mosfellsbær ekki skorast undan þátttöku í þeim aðgerðum.
Við undirrituðum verksamning við fyrirtækið Varg ehf. þann 10. janúar um byggingu á nýjum upphituðum sparkvelli á skólalóð Varmárskóla sem er fyrsti hluti af endurbótum á lóð skólans.
Þegar hugmyndavinna við nýja skólalóð hófst var kallað eftir tillögum frá nemendum og voru flest sem óskuðu eftir sparkvelli. Hönnuði var svo falið að vinna með tillögu nemenda og var niðurstaðan kynnt fyrir þeim síðastliðið haust.
Framkvæmdin felur í sér að koma upp upphituðum sparkvelli að stærð 18x33m ásamt stálrimlagirðingu umhverfis völlinn, hellulögn og ljósastaurum. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á næstu vikum og verklok verði í lok júlí 2024.
Hér fyrir neðan er tengill í frétt um undirskriftina en á myndinni má meðal annars sjá stolta fulltrúa nemenda, þau Kristján Gísla Steinarsson Bech og Ragnheiði Önnu Árnadóttur nemendur í 6. bekk.
Íþróttafólk ársins var útnefnt þann 11. janúar við hátíðlega athöfn í Hlégarði.
Það voru þau Þorsteinn Leó Gunnarsson handknattleiksmaður í meistaraflokki karla í Aftureldingu og Hafrún Rakel Halldórsdóttir knattspyrnukona úr Breiðablik sem voru heiðruð. Auk þess var Meistaraflokkur karla í handbolta úr ungmennafélaginu Aftureldingu útnefndur Afrekslið Mosfellsbæjar 2023, þjálfari ársins var Magnús Már Einarsson þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu og sjálfboðaliði ársins var kjörin Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar. Eins og oft áður voru margir kallaðir til en fáir útvaldir en það var óvenju glæsilegur hópur einstaklinga sem fengu tilnefningar í ár.
Fyrsti bæjarráðsfundurinn var haldinn 11. janúar og þar voru töluvert mörg mál á dagskrá. Meðal annars var veitt heimild til að gera samkomulag um lagningu skíðagönguspora við Hafravatn og á Blikastöðum, allt að 10 skiptum á hvorum stað þegar veður og snjóalög heimila. Um er að ræða tilraunaverkefni í vetur. Við Jóhanna Hansen skrifuðum undir samstarfssamninginn í vikunni við Magne Kvam frá fyrirtækinu Icebike Adventures. Fyrirtækið er staðsett í Mosfellsbæ en hefur lagt skíðabrautir víða, meðal annars á Hólmsheiði og á Rauðavatni.
Þá var umhverfissviði heimilað að fara í samstarf við verkefnið
Römpum upp Ísland um uppsetningu 47 rampa við 17 opinberar byggingar í Mosfellsbæ. Römpum upp Ísland (RuÍ) ákvað á síðasta ári að útvíkka starfsemi sína og bauð sveitarfélögum að taka út opinberar byggingar í eigu sveitarfélaganna og mögulega þörf á römpum við þær. Gerðar voru úttektir á 17 byggingum í eigu bæjarins og var niðurstaða RuÍ sú að gera þurfi um 47 rampa við umræddar byggingar Mosfellsbæjar, flest alla við leik- eða grunnskóla.
Þá samþykkti bæjarráð að fara í úttekt á upplýsingatækniþjónustu, kerfis- og tækniumhverfi Mosfellsbæjar með áherslu á þjónustustig, kostnað, öryggismál, persónuvernd og innkaup. Lagt var til að úttektin verði framkvæmd af ytri sérfræðingum í upplýsingatækni og hönnun notendavænnar þjónustu. Í Mosfellsbæ er ekki starfrækt sérstök upplýsingatæknideild og bera stofnanir sjálfar ábyrgð á sínum upplýsingatæknimálum. Origo hefur þjónustað bæjarskrifstofurnar með viðveru starfsmanns einu sinni í viku og kerfisstjórar leik- og grunnskóla hafa verið ráðnir með aðsetur í Lágafellsskóla, Helgafellsskóla og Kvíslarskóla. Kerfisstjórarnir veita þjónustu til allra leik- og grunnskóla í bænum og hver skóli ber hlutfallslegan kostnað af þessari þjónustu. Mosfellsbær hefur undanfarin misseri lagt mikla áherslu á efla öryggi persónugreinanlegra gagna og að réttindi einstaklinga séu tryggð í samræmi við persónuverndarlögin. Þetta felur í sér sífellt endurmat á verklagi og stefnum til að tryggja lögmæta og örugga meðhöndlun persónuupplýsinga.
Þann 12. janúar var haldinn fyrsti fundur ársins í verkefnisstjórn urðunarstaða. Fyrir hönd Mosfellsbæjar eiga bæjarstjóri og Dóra Lind Pálmarsdóttir leiðtogi umhverfismála sæti í starfshópnum. Á fundinum kom fram að samið hafi verið við Stena Recycling AB á grundvelli undangengins útboðs SORPU á útflutningu á blönduðum, brennanlegum úrgangi. Samið var um útflutning á um það bil 42.000 tonnum af blönduðum úrgangi, sem hingað til hefur verið urðaður í Álfsnesi. Útflutningurinn hófst í byrjun desember 2023 og tók alfarið við af urðun í Álfsnesi. Kostnaður við útflutning hvers kílós af úrgangi til brennslu er rúmar 55 krónur án virðisaukaskatts. Áætlaður kostnaður SORPU við útflutning á 42.000 tonnum, eða 42 milljón kílóum, af blönduðum úrgangi til Sviþjóðar er rúmir 2,3 milljarðar króna á ársgrundvelli, auk virðisaukaskatts. Þá kom fram að vel hefði gengið að finna lífrænum úrgangi farveg en bannað er að urða lífrænan úrgang í Sorpu og tók sú ákvörðun gildi 1. janúar síðastliðinn. Í undirbúningi er hugmyndasamkeppni um notkun á fyrrum urðunarsvæði Sorpu, austanmegin á Álfsnesi og munu þau Dóra Lind og Kristinn Pálsson skipulagfulltrúi taka þátt í undirbúningi samkeppninnar ásamt fulltrúum frá skipulagssviði Reykjavíkurborgar og Sorpu.
Um miðjan mánuð var haldinn fundur með Reitum vegna uppbyggingar á Blikastaðalandi. Undirbúningur að gatna og veituframkvæmdum er í gangi og áhugaverð fyrirtæki hafa sýnt svæðinu mikinn áhuga. Það er því spennandi uppbygging framundan en af hálfu Mosfellsbæjar er lögð áhersla á að byggja upp góð þjónustufyrirtæki fyrir íbúa og starfsemi með mörg störf fyrir Mosfellinga.
Þorrblót Aftureldingar var haldið að venju og var eitt fjölmennasta blót sem hefur verið haldið síðastliðin ár. Ég skemmti mér að sjálfsögðu mjög vel eins og vonandi flestir en það sem gerir þetta blót einstakt er metnaðurinn og stemningin í kringum skreytingu á borðum. Salurinn fylltist um hádegi og allir sem vettlingi gátu valdið voru mættir að skreyta borðin sín.
Í janúar sótti ég líka fund með fulltrúum dómsmálaráðuneytis og almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fyrirtækinu Arcur til að fjalla um niðurstöður könnunar á skipulagi almannavarna og framtíðarsýn. Þá var fundur í stjórn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjallað var meðal annars um þörf á styrkingu á starfsfólki almennavarna en í dag eru einungis tveir aðilar sem sinna verkefninu, það eru slökkviliðsstjóri sem sinnir hlutverki almannavarna meðfram starfi sínu sem stjórnandi hjá SHS og síðan er verkefnisstjóri í einu stöðugildi. Þar sem það er viðbúið að það verði álag á almannavarnakerfið okkar á næstu misserum er mikilvægt að styrkja starfemina. Á fundinum var nýr formaður stjórnar SHS boðinn velkominn, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og leystur út með góðum gjöfum, eldvarnarteppi og slökkvitæki.
Ég hef líka átt fund með markaðsstofu Höfuðborgarsvæðisins í þessum mánuði vegna verkefnis sem stofan hefur áhuga á að vinna að í Mosfellsbæ. Þá var fyrsti fundur stýrihóps um uppbyggingu á Varmársvæðinu haldinn þann 24. janúar.
Á fundi bæjarstjórnar þann 24. janúar var meðal annars staðfest fundargerð skipulagsnefndar sem fjallaði um umsagnir og ábendingar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Blikastaðalandi.
Um var að ræða skipulagslýsingu sem var auglýst 13. desember í skipulagsgáttinni og höfðu íbúar og aðrir hagsmunaaðilar mánuð til að senda inn umsagnir sínar og ábendingar. Skipulagslýsingin er fyrsta skrefið í samráði vegna fyrsta áfanga Blikastaðalands. Í lýsingu skal koma fram hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við skipulagsgerðina, upplýsingar um forsendur, fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli samkvæmt lögum.
Skipulagssvæði 1. áfanga er u.þ.b. 30-35 ha að stærð og liggur upp að núverandi byggð við Þrastarhöfða. Svæðið verður skilgreint sem íbúðarbyggð og miðsvæði. Gert er ráð fyrir á bilinu 1.200-1.500 íbúðum sem skiptast muni í sérbýli, einbýlis-, par-, raðhús og fjölbýli eftir aðstæðum í landi og nálægð þeirra við helstu samgönguæðar. Þar má gera ráð fyrir allt að 250 sérbýlum neðst í hverfinu og næst sjónum. Þá er gert ráð fyrir grænum svæðum og einnig er markmiðið að skapa aðlaðandi bæjarmynd þar sem gamli Blikastaðabærinn er hjarta svæðisins og aðdráttarafl.
11 umsagnir bárust, meðal annars frá hagsmunasamtökum íbúa í Mosfellsbæ. Hagsmunasamtökin eru nýlega stofnuð og hafa sett af stað könnun vegna uppbyggingarinnar. Sú könnun er hinsvegar ekki unnin í samstarfi við Mosfellsbæ en framundan er umfangsmikið samráð vegna skipulagsvinnunnar og er áætlað að sú vinna taki um eitt og hálft ár vegna fyrsta áfangans. Þannig má gera ráð fyrir að uppbygging fyrsta áfanga geti tekið allt að fjögur til fimm ár héðan í frá. Í umræðum um Blikastaði er gjarnan talað um heildarfjölda þeirra íbúða sem áætlaðar eru á svæðinu en þess ber að geta að uppbyggingin getur tekið um 20 – 30 ár.
Á fundi bæjarráðs þann 25. janúar var meðal annars fjallað um breyttar forsendur vegna uppbyggingar við Bjarkarholt en fyrirtækið Render Centium ehf hefur rift samningi um uppbyggingu við Bjarkarholt 1-5, frá 24. september 2021. Bæjarráð samþykkti með fimm atkvæðum að fela bæjarstjóra að hlutast til um að aðrir aðilar uppbyggingarsamkomulagsins verði upplýstir um framkomna riftun. Jafnframt að undirbúa næstu skref í vinnu við uppbyggingu á þeim lóðum sem um ræðir.
Eftir fund bæjarráðs héldum við til Akraness, fulltrúar verkefnishóps Mosfellsbæjar um farsæld barna þar sem við fengum góðar móttökur og kynningu á verkefninu. Akanes hefur verið valið eitt af frumkvöðlasveitarfélögum í farsældinni og fengum við mjög gagnlegt yfirlit yfir vinnuna.
Þá hitti ég einnig fulltrúa fyrirtækisins Strategíu vegna verkefna við innleiðingu umbótatillagna í kjölfar rekstrar og stjórnsýsluúttektar sem var lögð fyrir bæjarráð síðastliðið vor.
Janúar hefur verið kaldur og einkennst af töluvert mikilli snjókomu. Það hefur reynt töluvert á starfsmenn þjónustustöðvarinnar og verktaka við þessar aðstæður. Við minnum íbúa á að færa bíla úr götum og bílastæðum meðfram götum til að liðka til fyrir vinnu við snjómokstur eins og hægt er.
Upplýsingar um skipulag snjómoksturs- og hálkueyðingar má finna á kortavef undir Samgöngur > Snjómokstur-hálkueyðing: map.is/moso
Ábendingar varðandi mokstur má senda í gegnum ábendingakerfi: mos.is/abending
Eigið góðar stundir!