Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða

Þessi vika var ótrú­leg! Hápunkt­ur­inn var í gær, fimmtu­dag þeg­ar ég skrif­aði und­ir samn­inga við full­trúa IOGT sem reka Skála­tún, mennta- og barna­mála­ráð­herra og inn­viða­ráð­herra um yf­ir­töku á þjón­ustu Mos­fells­bæj­ar á Skála­túni og af­hend­ingu eigna og af­not af landi til upp­bygg­ing­ar á þjón­ustu við börn og ung­menni á Ís­landi. Þar verð­ur mið­stöð far­sæld­ar barna með öll­um helstu stofn­un­um í mála­flokkn­um.

Samn­ing­arn­ir voru ein­róma sam­þykkt­ir í bæj­ar­stjórn fyrr um morg­un­inn.  Við höf­um unn­ið að þess­um samn­ing­um í marga mán­uði og það þurfti ótrú­lega margt að spila sam­an til að þetta gengi upp, fjár­hags­lega en líka stjórn­sýslu­lega. Það er búið að vera frá­bært að vera sam­ferða Ásmundi Ein­ari Daða­syni mennta-og barna­mála­ráð­herra í þess­ari veg­ferð en það eru fjöl­marg­ir sem hafa lagt hönd á plóg. Af hendi Mos­fells­bæj­ar voru það auk mín þær Þóra Hjaltested bæj­ar­lög­mað­ur og Sig­ur­björg Fjöln­is­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri vel­ferð­ar­sviðs sem unnu að mál­inu og við feng­um mik­inn stuðn­ing frá allri bæj­ar­stjórn­inni, sem er gríð­ar­lega mik­ils virði. Halla Karen Kristjáns­dótt­ir formað­ur bæj­ar­ráðs flutti þakk­arræð­una fyr­ir hönd bæj­ar­stjórn­ar­inn­ar við at­höfn­ina sem var hald­in í vinnu­stof­um í Skála­túni en hún hef­ur stað­ið öt­ul­lega við bak­ið á okk­ur í þess­ari vinnu.

Fimmtu­dag­ur­inn hófst með fundi í bæj­ar­ráði kl. 7.30, þá var hald­inn auka­fund­ur í bæj­ar­stjórn kl. 9.00 og svo hélt ég starfs­manna­fund, til að kynna mál­ið fyr­ir sam­starfs­fólki á bæj­ar­skrif­stof­un­um. Í fram­haldi héld­um við starfs­manna­fund í Skála­túni þar sem var mjög góð mæt­ing en það starfa rúm­lega 100 manns þar. Í fram­haldi af þeim fundi hélt ég fund með íbú­um Skála­túns og að­stand­end­um þeirra og það voru lík­lega um 70 – 80 manns á þeim fundi. Það komu fjöl­marg­ar spurn­inga á fund­in­um, með­al ann­ars hvað verð­ur um þá fötl­uðu íbúa sem búa á Skála­túni í dag. Okk­ar svör voru þau að við för­um í þetta verk­efni með  virð­ingu við íbú­ana að leið­ar­ljósi og ber­um hag þeirra fyrst og fremst fyr­ir brjósti. Þeir sem þess óska fá að búa áfram á Skála­túni en við mun­um þurfa að bretta upp erm­ar og bjóða upp á aðra bú­setu­kosti fyr­ir þá sem vilja búa sjálf­stæð­ar. Næstu vik­ur og mán­uð­ir fara í að kynn­ast íbú­um og starfs­mönn­um og um helg­ina aug­lýs­um við eft­ir leið­toga í mála­flokk fatl­aðs fólks hjá Mos­fells­bæ. Hér má finna hlekk í frétt Mos­fells­bæj­ar um mál­ið og þar er líka slóð í til­lög­una sem var lögð fyr­ir bæj­ar­ráð og bæj­ar­stjórn. For­síðu­mynd­in er af okk­ur Ásmundi Ein­ari Daða­syni við und­ir­rit­un samn­inga og Lóu sem býr á Skála­túni en við feng­um að sjálf­sögðu leyfi til þess að taka mynd­ir.

Ann­ar stór dag­ur var á mið­viku­dag en þá sam­þykkti bæj­ar­stjórn til­lög­ur í 14 lið­um um stjórn­kerf­is­breyt­ing­ar og nýtt skip­urit Mos­fells­bæj­ar. Sam­þykkt var að starf­semi Mos­fells­bæj­ar skipt­ist í fjög­ur fags­við, tvö stoðsvið og tvær skrif­stof­ur. Fagsvið­in verða vel­ferð­ar­svið, fræðslu- og frí­stunda­svið, um­hverf­is­svið og menn­ing­ar-, íþrótta og lýð­heilsu­svið. Stoðsvið­in verða fjár­mála- og áhættu­stýr­ing­ar­svið og mannauðs- og starfs­um­hverf­is­svið. Skrif­stof­urn­ar verða skrif­stofa bæj­ar­lög­manns og skrif­stofa um­bóta og þró­un­ar. Skipu­rit­ið mun taka gildi 1. sept­em­ber 2023. Til­lög­urnar  byggja á grein­ingu og ábend­ing­um í stjórn­sýslu- og rekstr­ar­ú­t­ekt sem unn­in var á tíma­bil­inu janú­ar til apríl 2023 af ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæk­inu Strategíu. Við­fangs­efni stjórn­sýslu- og rekstr­ar­út­tekt­ar­inn­ar voru þrí­þætt. Í fyrsta lagi að greina fjár­hag og rekst­ur sveit­ar­fé­lags­ins. Í öðru lagi að greina stöðu og tæki­færi á sviði sta­f­rænn­ar umbreyt­ing­ar. Og í þriðja lagi að skoða gild­andi stjórn­kerfi og stjórn­un­ar­hætti, lýsa stöð­unni og koma með ábend­ing­ar um æski­leg­ar um­bæt­ur. Nán­ar til­tek­ið eru um 74 um­bóta­til­lög­ur að ræða sem bæjarstjórn þarf að taka afstöðu til og í framhaldinu að forgangsraða þeim sem samþykkt verður að vinna með.

Leið­ar­ljós við mót­un nýs skipu­rits Mos­fells­bæj­ar var að horfa á verk­efn­in út frá áhersl­um sveit­ar­fé­lags­ins og efla þjón­ustu við bæj­ar­búa í stækk­andi sveit­ar­fé­lagi. Með nýju skipu­lagi teljum við að það gefist auk­ið svig­rúm til að skerpa á áhersl­um varð­andi stjórn­ar­hætti, efla áhættu- og ár­ang­urs­mat, sam­hæfa verk­efni á milli sviða og deilda, fylgja eft­ir um­bót­um og nýta bet­ur þá tækni­þró­un sem hef­ur orð­ið í sam­fé­lag­inu.

Hér er slóð á tillögu um stjórnkerfisbreytingar og hér má finna skýrslu Strategíu.

Af öðrum mikilvægum málum vikunnar má nefna verkföll félaga í BSRB sem hefur mikil áhrif á samfélagið hér. Í næstu viku þurfum við að loka þremur leikskólum og í fimm öðrum skólum verður starfið skert. Síðan er boðað til allsherjarverkfalls þann 5 júní sem hefur áhrif á leikskóla, íþróttamannvirki og bæjarskrifstofurnar. Bæjarráð Mosfellsbæjar fjallaði um málið á fundi sínum í gær, fimmtudag og lýstu bæjarfulltrúar yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Það eru miklir hagsmunir fyrir Mosfellsbæ að það verði samið sem allra fyrst enda um mikilvæg störf að ræða, sem snerta daglegt líf flestra bæjarbúa.

Ég afhenti fyrstu tvískiptu tunnuna fyrir mat­ar­leif­ar og bland­að­an úr­gan til hjónanna Halldórs Þórarinssonar og Sigrúnar Wöhler sem búa að Hamratúni 6 snemma á miðvikudagsmorgni. Þau fengu plast­körfu og búnt af bréf­pok­um til að safna mat­ar­leif­um úr eld­húsi ásamt tunn­unni.

Dreif­ingin er því haf­in í Mos­fells­bæ og má sjá dreifingaráætlunina hér.

Við fáum þó nokkuð af fyrirspurnum um það hvers vegna ekki er hægt að fá tvær tvískiptar tunnur í stað þriggja tunna. Þegar farið var af stað með þetta verkefni þá var það alltaf hugmyndin, að afhenda tvær tvískiptar tunnur, annarsvegar fyrir pappa og plast og hinsvegar fyrir blandaðan úrgang og matarleifar. Það kom svo í ljós að ein tvískipt tunna hefur ekki nægjanlegt rúmmál fyrir það magn af plasti og pappa sem safnast saman og er hirt einu sinni í mánuði og því var þessi lausn valin. Plastið hefur tilhneigingu til að festast ef það hefur ekki nægt rúmmál og því var það mat sérfræðingahóps sem hefur verið saman að störfum í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins að þrjár tunnur væru nauðsynlegar. Sveitarfélögin eru þó tilbúin að skoða málið þegar reynsla er komin á flokkunina og hugsanlega endurskoða þá afstöðu. Ég veit til þess að sumir sem eru til dæmis með steypta umgjörð utan um tunnurnar ætla að hafa pappírstunnuna í bílskúrnum, að minnsta kosti til að byrja með. Ég minni líka á opna kynningarfundi í Bókasafni Mosfellsbæjar sem eru auglýstir á vef og facebook síðu bæjarins en þar er hægt að fara nánar yfir þessi mál með fulltrúum á umhverfissviði sem annast umsjón með innleiðingunni á nýju kerfi. Svo er Sorpa með ítarlegar leiðbeiningar sem eru hér að finna.

Í vikunni var líka skrifað undir samninga um glugga og inn­rétt­ing­ar í Kvísl­ar­skóla og nem­ur upp­hæð­in sam­tals um 450 mkr. Um er að ræða end­ur­inn­rétt­ingu fyrstu hæð­ar skól­ans sem verð­ur í hönd­um E. Sig­urðs­son ehf. sem var lægst­bjóð­andi í verk­ið og fel­ur með­al ann­ars í sér end­ur­nýj­un á bæði al­menn­um kennslu­stof­um og þeim sem ætl­að­ar eru fyr­ir sér­kennslu, geymsl­um og að­stöðu fyr­ir starfs­fólk mötu­neyt­is. Þá verð­ur loftræsti­kerfi hæð­ar­inn­ar end­ur­nýj­að og áhersla lögð á góða hljóð­vist. Samn­ing­ur var einnig und­ir­rit­að­ur við fyr­ir­tæk­ið Múr- og máln­ing­ar­þjón­ust­an Höfn ehf. sem var lægst­bjóð­andi um end­ur­nýj­un glugga á báð­um hæð­um Kvísl­ar­skóla. Glugg­ar á fyrstu hæð verða síkk­að­ir og fel­ur verk­ið einnig í sér end­ur­nýj­un á dyr­um og neyð­ar­út­göng­um á ann­arri hæð. Verk­efn­in hefjast strax og er gert ráð fyr­ir verklok­um í októ­ber sam­kvæmt ver­káætl­un­um. Skólahald hefst á eðlilegum tíma að afloknu sumarfríi  og reynt verður að valda sem minnstri röskun vegna framkvæmdanna á skólatíma.

Í dag var haldinn fundur með forystufólki ASÍ vegna húsnæðismála en formaður og fulltrúar aðildarfélaganna hafa óskað eftir að hitta forsvarsfólk  sveitarfélaganna til þess að fara yfir stöðu húsnæðismála og hverjar fyrirætlanir sveitarfélaganna eru, ekki síst þegar kemur að uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis. Þetta var góður og gagnlegur fundur um þessi mikilvægu mál.

Við áttum líka fund með forstjóra Orkuveitunnar í vikunni og samstarfsfólki til að fara yfir ýmsa kosti til öflunar orku.

Um helgina verða auglýstar nokkrar stjórnendastöður í Mosfellsbæ. Um er að ræða lausar stöður vegna þess að stjórnendur hafa fært sig um set eða eru að hætta vegna aldurs. Síðan eru nýjar stöður, annarsvegar staða skrifstofustjóra umbóta og þróunar og  staða leiðtoga í málaflokki fatlaðs fólks. Auglýsingarnar birtast í fjölmiðlum um helgina og á vef ráðgjafafyrirtækisins Intellecta sem annast umsjón með ferlinu.

Góða helgi!

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00