Fjölbreytt vika að baki sem endaði á fundum með slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og framkvæmdaráði almannavarna nú í eftirmiðdag. Tilefni fundar almannavarna eru jarðhræringar á suðvesturhorninu sem við þurfum öll að vera viðbúin undir. Í framkvæmdaráði almannavarna eiga sæti bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjóri auk lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og framkvæmdastjóra almannavarna. Farið var yfir stöðu mála ásamt rýmingaráætlun, ef það kemur til þess að það þurfi að flytja fólk af svæðinu. Á fundi með slökkviliðinu fórum við aftur yfir hugmyndir að framtíðar staðsetningu slökkvistöðva á höfuðborgarsvæðinu sem verða kynntar á aðalfundi SSH sem verður á föstudag eftir viku.
Í morgun var upphafsfundur með verkefnisstjóra verkefnisins Gott að eldast sem er samþættingarverkefni á vegum heilbrigðis- og félags- og vinnumarkaðsráðuneytanna. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Mosfellsbær voru valin í verkefnið ásamt fimm öðrum svæðum á landinu. Markmiðið er að samþætta heimastuðning og heimahjúkrun. Á fundinum var farið yfir ýmis praktísk atriði sem tengjast verkefninu, samninga við þriðja aðila um þjónustu, áfangaskiptingu, tölfræði og fleira. Það er mikill hugur í starfsfólki velferðarsviðs Mosfellsbæjar og heilsugæslunnar að þróa þjónustu við eldri borgara enn frekar og frábært að fá þann stuðning sem ráðuneytin munu veita inn í verkefnið.
Vikan hófst með fundi með samninganefnd SSH í viðræðum við ríkið um fjármögnun samgöngusáttmálans en við höfum haldið þrjá slíka fundi í vikunni, yfirleitt eldsnemma að morgni, þar sem bæjarstjórar og borgarstjóri eru yfirleitt með þéttbókaða dagskrá og þessi vinna kemur til viðbótar. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, að leiða til lykta fjármögnun á stofnvegum höfuðborgarsvæðsins og auka akgreinar fyrir almenningsvagna. Uppbygging í nokkrum sveitarfélögum hefur beinlínis miðast við staðsetningu biðstöðva Borgarlínunnar og því mikilvægt að þeir samningar sem gerðir hafa verið standi.
Þá átti ég fund á mánudaginn með stýrihópi stjórnarráðsins varðandi úthlutun úr sóknaráætlun en höfuðborgarsvæðið, sem og aðrir landshlutar hafa fengið árlega styrki til sameiginlegra verkefna. Áherslur SSH hafa verið á verkefni sem falla undir atvinnu og nýsköpun, umhverfi og náttúru og velferð og samfélag. Verkefni á árinu 2023 eru: Markaðssetning almenningssamgangna, förgun rafúrgangs, útivistarvefur fyrir höfuðborgarsvæðið og innleiðing hringrásarhagkerfisins.
Nánari upplýsingar um verkefni sóknaráætlunarinnar:
Þá sat ég fund ásamt Jóhönnu Hansen með forsvarsfólki hestamannafélagsins Harðar, þeim Margréti Harðardóttur formanni félagsins og Jóni Geir Sigurbjörnssyni varaformanns. Á fundinum fórum við yfir skipulags- og lóðamál, lýsingu, reiðstíga o.fl.
Á þriðjudag var aukafundur í bæjarráði vegna fjárhagsáætlunar. Áætlunin er trúnaðarmál fram yfir framlagningu til fyrri umræðu í bæjarstjórn en fundurinn verður haldinn þann 8. nóvember næstkomandi. Þann dag var líka hrekkjavaka og æsispennandi keppni hér innanhúss um bestu búningana. Velferðarsvið vann keppnina með frábærum búningum og leikmunum, fóru fram úr öllum væntingum. Aðrar deildir lögðu einnig hart að sér og samkeppnin var mikil. Ég set mynd af sigurvegurunum með þessari færslu ásamt starfsfólki þjónustuversins.
Þá var ferðamálaþing höfuðborgarsvæðsins eftir hádegi, þar sem fjölmargir fyrirlesarar fluttu erindi og ég kynnti áherslur Mosfellsbæjar þegar kemur að ferðaþjónustu. Fundurinn var fyrsti fundur nýstofnaðrar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og bar heitið Fyrstu skrefin. Á fundinum voru fjölmörg erindi og ég hélt stuttan fyrirlestur undir heitinu Hugleiðingar bæjarstjóra. Ég velti því upp hvers vegna það væri ákjósanlegt fyrir sveitarfélög að koma að opinberum stuðningi við þessa atvinnugrein, eins og með þátttöku í Markaðsstofunni, og hvernig við tökum vinnuna áfram heima í „héraði“. Helstu rökin fyrir því að sveitarfélög vilja efla ferðaþjónustu er að hún skapar bakland meðal annars fyrir verslanir, veitingahús og afþreyingarfyrirtæki þannig að íbúar njóta góðs af fjölbreyttari flóru þjónustufyrirtækja í sveitarfélaginu.
Hjalti Már Einrsson viðskiptaþróunarstjóri Datera sýndi inn í könnun fyrirtækisins um segla höfuðborgarsvæðisins út frá leitaráhuga á vefjum. Á topp tíu listanum var Sky Lagoon í Kópavogi númer eitt, Harpa númer tvö og Hallgrímskirkja númer þrjú. Staðir í Mosfellsbæ komust ekki á lista yfir 20 mest sóttu ferðamannastaðina á leitarvélunum en þeir fimm staðir í Mosfellsbæ sem eru mest skoðaðir eru Gljúfrasteinn, Helgufoss, Lágafellslaug, Hafravatn og Úlfarsfell. Svo sannarlega tækifæri til að komast ofar í leitarvélar á þeim stöðum sem við viljum styrkja sem ferðamannastaði. Í nýsamþykktri atvinnustefnu Mosfellsbæjar er einmitt lögð áhersla á eflingu ferðaþjónustunnar. Sævar Birgisson formaður atvinnumálanefndar á sæti í stjórn Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.
Á miðvikudag voru hvorki fleiri né færri en 10 fundir. Flestir innanhússfundir, svo sem stöðumat með hverjum sviðsstjóra varðandi verkefni, yfirferð á skipulagsverkefnum og vinnufundur bæjarstjóra og sviðsstjóra með öllum bæjarfulltrúum um drög að fjárhagsáætlun. Þar kynnti hver sviðsstjóri helstu verkefni málaflokksins ásamt tölulegum upplýsingum.
Á fimmtudag var fundur bæjar- og sveitarstjóra með Unicef og Ásmundi Daða Einarssyni mennta- og barnamálaráðherra en ríflega 20 sveitarfélög á Íslandi taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Á fundinum var farið yfir nokkur fyrirmyndarverkefni, svo sem á Akranesi en þar hefur gefið góða raun að samþætta verkefnið Barnvænt samfélag og innleiðingu farsældar. Þá var skrifað undir yfirlýsingu þar sem bæjarstjórarnir lofuðu að halda áfram að halda réttindum allra barna á lofti í gegnum verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Fyrr um morguninn voru verkefnisstjórar Barnvænna sveitarfélaga á vinnufundi Unicef og síðar sama dag komu fulltrúar ungmennaráða ennfremur saman. Formaður verkefnisstjórnar Mosfellsbæjar um Barnavænt samfélag er Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi og verkefnisstjóri er Hugrún Ósk Ólafsdóttir. Forsíðumynd pistilsins er af þeim 18 bæjar- og sveitarstjórum sem sóttu fundinn.
Frétt frá Unicef um fundinn:
Það var ljóst í mínum huga þegar ég fór af fundinum að það eru fjölmörg tækifæri til að gera betur og stilla saman strengi varðandi aðkomu barna að ákvörðunum sem snerta daglegt líf og velferð.
Ég óska ykkur góðrar og friðsællar helgar!