Þetta var svo sannarlega viðburðarík vika enda Kvennaverkfall á þriðjudag og sögulegur fjöldi kvenna mætti á Arnarhól til að sýna samstöðu með kynsystrum sínum. Við í Mosfellsbæ fórum ekki varhluta af verkfallinu og voru stofnanir bæjarins ýmist lokaðar eða þjónusta skert. Forsíðumyndin er af starfskonum bókasafnsins í Mosfellsbæ sem fóru saman á Arnarhól og það er Rósa Traustadóttir verkefnisstjóri sem heldur á myndavélinni og tekur þessa flottu sjálfu. Arnar Jónsson sviðsstjóri menningar, íþrótta og lýðheilsusviðs stóð vaktina á bókasafninu og Kristján Þór Magnússon mannauðsstjóri var í móttökunni í þjónustuveri bæjarins og svaraði símanum. Við fengum einmitt senda þessa fínu mynd af Kristjáni ásamt dóttur sinni við störf þennan dag sem fylgir pistlinum.
Margar konur féllu hinsvegar í þann flokk að vera „ómissandi“ en það eru aðallega þær sem starfa við umönnun og þjónustu við fatlaða einstaklinga. Ég færi þeim sérstakar þakkir fyrir að standa vaktina þennan dag á meðan við hinar gátum tekið þátt í fundarhöldum dagsins. Ég vil líka þakka þeim körlum sem hlupu í skarðið fyrir okkur þennan dag.
Hjá Mosfellsbæ eru konur um 75% af starfsmönnum og það má því segja að þær haldi uppi þjónustu bæjarins, ekki síst þegar kemur að skóla og velferðarmálum.
Í vikunni var ég viðstödd vígslu ramps númer níuhundruð í átakinu „Römpum upp Ísland“ við hátíðlega athöfn á Reykjalundi. Á fjórða tug rampa hafa verið byggðir fyrir endurhæfingarmiðstöðina á Reykjalundi og hjúkrunarsambýlið Hlein sem staðsett er á lóð Reykjalundar. Það var einmitt Valgerður Karlsdóttir íbúi á Hlein, sem fékk heiðurinn að því að klippa á rauða borðann á vígslunni. Næsta verkefni hjá „Römpum upp Ísland“ hér í Mosfellsbæ er á Hlaðgerðarkoti og síðan í Skálatúni. Við höfum átt í mjög farsælu samstarfi við þá sem stýra verkefninu en þetta er gríðarlega flott og mikilvægt framtak sem Haraldur Þorleifsson hafði frumkvæði að.
Í vikunni voru fjölmargir fundir eins og hefðin er, meðal annars hjá bæjarstjórum og borgarstjóra með Arnari Þór Sævarssyni framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna málaflokks fatlaðs fólks. Arnar situr í samninganefnd sem var skipuð fyrir rúmu ári síðan til að greina tölulegar upplýsingar og rekstur málaflokksins og er að móta tillögur að tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þessa. Ég fór líka á fund félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundar Inga Gunnarssonar ásamt Páli Björgvini Guðmundssyni framkvæmdastjóra SSH til að ræða stöðu málaflokksins á höfuðborgarsvæðinu og kröfur okkar sveitarfélaganna. Þá fór ég í viðtal til Mosfellingsins Guðmundar Pálssonar sem er með þáttinn Samfélagið á Rás 1 vegna undirbúnings Mosfellsbæjar fyrir kvennafrídaginn. Opnu viðtalstímanir voru á sínum stað og bæði bæjarstjórnarfundur í vikunni og bæjarráð.
Það sem hefur þó tekið mestan tíma er fjárhagsáætlunarvinnan og í þessum skrifuðu orðum, er henni ekki lokið og við erum nokkur sem erum að leggja lokahönd á áætlunina sem fer út til bæjarfulltrúa um helgina, og verður lögð fyrir bæjarráð á þriðjudagsmorgunn. Við vorum svo heppin að Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs kom færandi hendi í dag með nýbakað brauð og ég náði að smella mynd af henni ásamt þeim Pétri Lockton fjármálastjóra, Önnu Maríu Axelsdóttur verkefnisstjóra fjármála, Ólafíu Dögg Ásgeirsdóttur skrifstofustjóra og Þóru M. Hjaltested bæjarlögmanni. Þvílíkt teymi!
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar – en veðurspáin er frábær og ég vona að þið njótið vel.