Forsíðumyndin að þessu sinni er af skólastjórum leikskóla í Mosfellsbæ ásamt Gunnhildi sviðsstjóra fræðslu- og frístundaviðs og Ragnheiði leikskólaráðgjafa. Við erum með frábæra stjórnendur í Mosfellsbæ og það hefur mætt mikið á þessum hópi undanfarnar vikur við að skipuleggja starfið í leikskólunum, ekki síst þar sem sumar deildir eru opnar en aðrar ekki. Því miður greinir forystu sambandsins og BSRB á um skilgreiningu á verkfallsbrotum og við erum með misvísandi leiðbeiningablöð í höndunum frá sitthvorum aðilanum. Ég hef hvatt forystu sambandsins til að koma á talsambandi á milli aðila, þar sem það er mjög mikilvægt að við séum hvorki með víðtækari lokanir á okkar stofnunum en þörf er á og á hinn bóginn að við virðum rétt starfsfólks til verkfalls og göngum ekki í störf þeirra.
Það er fortakslaus regla að stjórnendur stofnana mega ganga í öll störf í verkfalli og á bæjarskrifstofunum er það bæjarstjóri sem hefur það umboð, en ekki sviðsstjórar né deildarstjórar. Þjónustuverið er lokað og ég hef því sinnt nauðsynlegustu verkefnum s.s. móttekið pósta og framsent á tiltekna starfsmenn auk ýmissa tilfallandi verkefna. Við höfum hinsvegar ekki tök á því að taka á móti fólki né svara í símann. Ég vil nota tækifærið hér og biðla til bæjarbúa að nýta sér líka vef Mosfellsbæjar en þar er að finna netföng einstakra starfsmanna og best er ef póstar fara beint þangað.
Ég verð að viðurkenna að það sér ekki alveg til lands í verkfallinu og ég tel afar mikilvægt að ríkissáttasemjari stígi inn af fullum krafti núna og leggi fram miðlunartillögu. Það verður að semja og báðir aðilar að gefa eitthvað eftir.
Vikan var fjölbreytt að vanda og í morgun fékk ég mjög áhugaverða heimsókn frá fulltrúum Liztvinnslunnar sem er miðstöð fatlaðs listafólks og Þórir okkar Gunnarsson er þar mjög virkur meðlimur. Auk Þóris komu á fundinn þau Elín Sigríður Margrét Ólafsdóttir, listakona sem kallar sig ESMÓ og Margrét Norðdahl sem stýrir vinnunni. Þau vilja samstarf við ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um stofnun og stuðning við listamiðstöð sem gæti nýst fötluðu listafólki á svæðinu. Frábær fundur með skapandi og góðu fólki.
Annars einkenndist dagurinn af undirbúningi fyrir næsta bæjarráð, upplýsingafundi sambandsins vegna verkfallsins, nokkrum innanhúss fundum og símtölum vegna verkfallsins og áhrifa þess á einstaka verkefni og stofnanir.
Í vikunni var bæði bæjarstjórnarfundur og bæjarráðsfundur og í bæjarráði var samþykkt að heimila skipulagsfulltrúa og lögmanni að útbúa og ganga frá samningum við áhugasama aðila í Leirvogstunguhverfi sem vilja nýta sér afnotareiti í samræmi við skipulag en forsagan er sú aðskipulagi svæðisins var breytt árið 2022 með það að markmiði að aðliggjandi hús og lóðir við bæjarland geti fengið afnotasvæði sem viðbót við garð eða lóð. Fyrirkomulagið gefur íbúum kost á að nýta vannýtt svæði betur. Afnotahafar geta mótað land og aðlagað það lóð sinni. Svæði má girða af með einföldum hætti og gróðursetja. Afnotareitir gefa ekki auknar byggingarheimildir húsa og þar má ekki reisa eða framkvæma varanleg mannvirki, svo sem háa skjólveggi eða garðhýsi. Ég reikna með að það verði margir íbúar sem muni sækja um afnotaréttinn og verkefnið hafi þannig jákvæð áhrif á umhverfið í Leirvogstungu.
Á miðvikudag skrifuðum við undir samning við Samtökin 78 um hinsegin fræðslu í skóla og frístundastarfi í Mosfellsbæ. Með þessum samningi fá viðkomandi aðilar ráðgjöf Samtakanna án endurgjalds. Fræðslan er í formi erinda fyrir allt starfsfólk og námskeiða fyrir nemendur og mun hefjast strax á haustönn 2023. Þetta málefni er bæjarfulltrúum mjög hugleikið og gleðiefni að samningurinn sé kominn á.
Hagsmunasamtök hinsegin fólks hafa bent á að margskonar áreitni, hatursorðræða og ofbeldi hefur aukist mjög í garð hinsegin fólks. Einnig hafa fréttir af slíku ofbeldi verið í fjölmiðlum og til umræðu á samfélagsmiðlum. Mikilvægt er að bregðast við með aukinni umræðu og fræðslu og þar viljum við í Mosfellsbæ fast til jarðar til að sporna við þessri þróun.
Ég sótti stjórnarfund Reykjalundar í vikunni og fór einnig í viðtal við ráðgjafa Strategíu sem er að undirbúa stefnumótun á starfseminni í haust. Aðalfundur Reykjalundar verður haldinn þann 20. júní næstkomandi og þar mun heilbrigðisráðherra meðal annars ávarpa fundinn. Fundurinn er opinn öllum og verður vel auglýstur.
Ég átti fundi með bæði leikskólastjórahópnum og síðan fulltrúum Stamos vegna túlkunar á ákvæðum laga um verkföll. Ég átti líka fleiri en einn fund með framkvæmdastjóra samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars til að undirbúa stefnuráðsfund um almenningssamgöngur og úrgangsmál sem verður haldinn í þar næstu viku. Þá átti ég mjög góðan fund með Valdimar Smára Gunnarssyni sem kynnti verkefnið Allir með sem snýr að því að hvetja fleiri fatlaða til að æfa íþróttir. Í máli Valdimars kom fram að um 3.000 börn, 17 ára og yngri, eru með fatlanir á Íslandi en aðeins 150 þeirra eða 4%, stunda íþróttir hjá íþróttafélagi skv. félagaskráningarkerfi ÍSÍ og UMFÍ. Það er ljóst að þarna þurfa bæði sveitarfélög og íþróttafélög að gera betur og eru það hugmyndir Valdimars að hægt verði að byrja á einni til tveimur íþróttagreinum í hverju sveitarfélagi fyrir sig, og þá mismunandi greinum. Þannig yrði til fjölbreytt flóra námskeiða fyrir fötluð börn á höfuðborgarsvæðinu. Við munum halda þessu samtali áfram og fá fleiri að borðinu.
Það eru tímanna tákn að í sömu vikunni fáum við heimsókn frá ungu fötluðu fólki sem vill hafa sömu möguleika og ófatlað fólk til að sinna listsköpun og brautryðjanda í íþróttum fyrir fatlaða sem eru nánast ósýnilegir í íþróttafélögunum í dag. Það er nefnilega ekki nóg að vera með Skóla án aðgreiningar, við verðum að vera með Samfélag án aðgreiningar og það tekur til háskólanáms, atvinnulífs, íþrótta og menningarlífs. Fjölbreytni eykur litróf lífsins!
Að þessu sögðu þá minni ég á leikinn á morgun, fyrsta leik knattspyrnudeildar karla í Aftureldingu á nýja grasvellinum að Varmá. Leikurinn er við Vestra. Ég kemst ekki sjálf þar sem ég verð á ferðalagi um helgina en ég veit að margir bæjarfulltrúar ætla að mæta á leikinn.
Áfram Afturelding og góða helgi!