Fjögurra daga vinnuvika að baki, fjölbreytt að vanda. Vikan hófst á stöðufundi vegna verkfalls STAMOS félagsmanna á leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum. Við höfðum sótt um undanþágur vegna Úlfsins og fengum þær en við fengum höfnun á undanþágum vegna fatlaðra barna í skólum og leikskólum. Við urðum fyrir miklum vonbrigðum með þá höfnun og Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri Helgafellskóla lýsir svo vel í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 á mánudagskvöld.
Ég sá einhver ummæli í tengslum við fréttina á þá leið að skólastjórnendur gætu valið að láta kennara annast fötluð börn og börn sem eru ófötluð væru heima en það er ekki í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem kennarar geta ekki gengið í störf stuðningsfulltrúa.
Nýráðinn framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Arnar Þór Sævarsson mætti á stjórnarfundi SSH í hádeginu á mánudag til að ræða næstu skref og mikilvægi þess að ná samkomulagi í þessari hörðu deilu. Við fengum líka Harald L. Haraldsson og Arnar Haraldsson frá HLH ráðgjöf til að fara yfir vinnu við endurskoðun á fjárframlögum vegna málaflokks fatlaðs fólks. Gróft á litið þá vantar sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu tekjur upp á um 40 milljarða frá árinu 2018, til að standa straum af kostnaði við málaflokkinn. Það er sárt fyrir notendur þjónustunnar að það sé sífellt verið að klifa á því að málaflokkurinn sé vanfjármagnaður og það þarf að fara að ljúka þessum viðræðum á milli aðila um kostnaðarskiptingu. Það voru líka skilaboðin mín á fundi fjárlaganefndar Alþingis í vikunni en ég fór á fund þeirra á miðvikudag ásamt Páli Björgvinssyni framkvæmdastjóra SSH. Þar lögðum við líka áherslu á fjármögnun vegna samgöngusáttmálans auk þess sem farið var yfir víðan völl í fjármálum ríkis og sveitarfélaga.
Eitt af því sem stendur upp úr í vikunni er mjög vel heppnaður fundur atvinnu- og nýsköpunarnefndar sem var haldinn á þriðjudag í framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Sævar Birgisson formaður atvinnu- og nýsköpunarnefndar opnaði fundinn og lýsti framtíðarsýn fyrir Mosfellsbæ í atvinnumálum og markmiði með fundinum. Dóri DNA hélt mjög hvetjandi erindi um mikilvægi menningar og hvatti bæjaryfirvöld til að hugsa stórt þegar kemur að uppbyggingu í bænum og nauðsyn þess að vanda sig. Hann tók framhaldsskólann sem dæmi, þar sem engu var til sparað í hönnun og byggingin meðal annars tilnefnd til Mies Van der Roche verðlauna fyrir arkitektúr. Dóri þakkaði þáverandi menningarmálanefnd Mosfellsbæjar fyrir styrk sem sjónvarpsserían Afturelding fékk á sínum tíma, 500 þúsund krónur en það var fyrsti styrkurinn sem verkefnið fékk. Að lokum sagðist hann eiga draum um menningarhús með stóru sviði í miðbænum í Mosfellbæ.
Björn H Reynisson ráðgjafi fór yfir tölulegar upplýsingar um fyrirtæki í Mosfellsbæ, stærð og tegund atvinnustarfsemi. Í Mosfellsbæ eru 629 fyrirtæki, samkvæmt lista sem CreditInfo vann úr þjóðskrá Íslands. Rúmlega helmingur (56%) þessara fyrirtækja er ekki með starfsmenn eða 354 fyrirtæki. Þegar skiptingin er skoðuð þá eru flest af stærstu fyrirtækjunum í flokknum Landbúnaður/iðnaður og Byggingariðnaður. Fjölmennasti vinnustaður í Mosfellsbæ, fyrir utan sveitarfélagið sjálft sem telur yfir 900 starfsmenn, er Ístak með 289 skráða starfsmenn. Í öðru sæti er Matfugl með 155 og í þriðja sæti er Reykjalundur með 153 starfsmenn. Þá kemur Reykjabúið í fjórða sæti með 66 starfsmenn og Ísfugl í því fimmta með 50 starfsmenn. Listinn er lengri yfir stærstu fyrirtækin í Mosfellsbæ en þetta er vonandi bara fyrsta skrefið í gagnasöfnuninni en við þurfum dýpri greiningar sem tengjast fyrirtækjarekstri í bænum. Við fengum líka stutta kynningu á atvinnusvæðinu að Blikastöðum en þar ráðgera Reitir sem eiga landið að byggja upp atvinnustarfsemi á 90 þúsund fermetrum af byggingarlandi með heildarfjárfestingu upp á um 30 ma.kr. Uppbyggingartíminn gæti verið 7 – 12 ár og fjöldi fyrirtækja 30 – 100 talsins og fjöldi starfa áætlaður um 1300 manns.
Björn stýrði vinnustofum í kjölfar fyrirlestursins og verður afrakstur þeirra nýttur í mótun atvinnustefnu Mosfellsbæjar. Það var í raun samhljómur á meðal fundargesta, sem voru yfir 50 talsins, að menning, saga og náttúra væru auðlindir samfélagsins og tækifærin væru óteljandi til að markaðsssetja bæinn og fá fleiri fyrirtæki í Mosfellsbæ. Þá var bent á mikilvægi þess að fá hraða afgreiðslu og upplýsingar í gegnum bæjarkerfið.
Ég fór á leik Aftureldingar og Hauka beint í kjölfar fundarins og það var magnað að upplifa þá gríðarlegu stemningu sem var í íþróttahúsinu að Varmá þetta kvöld. Það var sett upp aukastúka fyrir 650 manns en samt sem áður varð uppselt og komust færri að en vildu. Það var gaman að sjá Brynju okkar úr þáttunum Aftureldingu á meðal gesta eða Svandísi Dóru Einarsdóttur leikkonu. Það vantaði bara Skarpa! Svandís leikur frábærlega vel, eins og reyndar allir sem koma við sögu í þessum snilldar þáttum sem eru á leið í sýningu til flestra Norðurlandanna á næstunni.
Afturelding byrjaði leikinn gríðarlega vel og var yfir í fyrri hálfleik en Haukar náðu yfirhöndinni í seinni hálfleik sem endaði í 17:23 fyrir Haukum. Áhorfendur risu úr sætum og klöppuðu vel og lengi fyrir „strákunum okkar“, því þrátt fyrir úrslitin þetta kvöld þá hafa þeir staðið sig frábærlega í vetur, bikarmeistarar og í toppbaráttunni í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Eða eins og Gunnar Magnússon segir í viðtali við Vísi eftir sigurleikinn gegn Haukum á Ásvöllum; við eigum að njóta þess að fylgjast með öllum þessum framtíðar atvinnumönnum. Meistaraflokkur karla í handbolta er svo sannarlega búinn að skemmta okkur vel í vetur. Myndirnar frá leiknum eru úr flottri myndasyrpu Ragga Óla sem veitti mér góðfúslegt leyfi til að nota þær í pistlinum.
Í vikunni var lögð fram tillaga að stjórnkerfisbreytingum í bæjarráði og nýju skipuriti ásamt skýrslu Strategíu um stjórnsýslu- og rekstrarúttekt. Tillögurnar verða lagðar fram í bæjarstjórn til samþykktar ásamt skýrslunni og verða gerðar opinberar í framhaldinu. Við höfum haldið vinnufundi með bæjarfulltrúum meiri og minnihluta í aðdraganda fundar bæjarráðs ásamt því að kynna fyrir starfsmönnum á bæjarskrifstofum um helstu breytingar sem eru fyrirhugaðar. Það hafa því verið stíf fundarhöld í vikunni í kringum þessa vinnu.
Í dag eru nokkrir fundir, flestir á Teams, meðal annars með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtökum, svo sem samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. Þessir fundir eru mánaðarlega og farið yfir mismunandi hagsmunamál sveitarfélaga. Við erum líka að undirbúa okkur fyrir verkföll í næstu viku, ef samningar nást ekki og fundi næstu viku, sem eru bæði bæjarstjórn og bæjarráð.
Eitt að lokum. Velferðarsvið Mosfellsbæjar auglýsir eftir íbúðum fyrir flóttafólk á vef bæjarins í dag og facebook síðu. Það hryggir mig að sjá mörg þeirra neikvæðu skilaboða sem eru komin inn á síðuna. Flóttafólk er ekki í samkeppni við íbúa Mosfellsbæjar um félagslegt húsnæði og hefur ekki áhrif á þann biðlista sem þar er enda er verið að leita að íbúðum á frjálsum markaði. Hitt er að það er ríkisvaldið sem ákveðjur fjölda flóttafólks og greiðir öll útgjöld vegna þeirra fyrstu tvö árin. Það eru hinsvegar sveitarfélögin sem framkvæma þjónustuna. Munum að það geisar stríð í heimalandi flestra flóttamanna og þess vegna eru þau komin hingað.
Ég óska ykkur annars góðrar helgar og að þið njótið vel þrátt fyrir veðurspána!