Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða

Fjög­urra daga vinnu­vika að baki, fjöl­breytt að vanda. Vik­an hófst á stöðufundi vegna verk­falls STAMOS fé­lags­manna á leik­skól­um, grunn­skól­um og á frí­stunda­heim­il­um. Við höfð­um sótt um und­an­þág­ur vegna Úlfs­ins og feng­um þær en við feng­um höfn­un á und­an­þág­um vegna fatl­aðra barna í skól­um og leik­skól­um. Við urð­um fyr­ir mikl­um von­brigð­um með þá höfn­un og Rósa Ingvars­dótt­ir skóla­stjóri Helga­fell­skóla lýs­ir svo vel í við­tali við frétta­stofu Stöðv­ar 2 á mánu­dags­kvöld.

Ég sá ein­hver um­mæli í tengsl­um við frétt­ina á þá leið að skóla­stjórn­end­ur gætu val­ið að láta kenn­ara ann­ast fötluð börn og börn sem eru ófötluð væru heima en það er ekki í sam­ræmi við lög um stétt­ar­fé­lög og vinnu­deil­ur þar sem kenn­ar­ar geta ekki geng­ið í störf stuðn­ings­full­trúa.

Ný­ráð­inn fram­kvæmda­stjóri Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, Arn­ar Þór Sæv­ars­son mætti á stjórn­ar­fundi SSH í há­deg­inu á mánu­dag til að ræða næstu  skref og mik­il­vægi þess að ná sam­komu­lagi í þess­ari hörðu deilu. Við feng­um líka Harald L. Har­alds­son og Arn­ar Har­alds­son frá HLH ráð­gjöf til að fara yfir vinnu við end­ur­skoð­un á fjár­fram­lög­um vegna mála­flokks fatl­aðs fólks. Gróft á lit­ið þá vant­ar sveit­ar­fé­lög­un­um á höf­uð­borg­ar­svæð­inu tekj­ur upp á um 40 millj­arða frá ár­inu 2018, til að standa straum af kostn­aði við mála­flokk­inn. Það er sárt fyr­ir not­end­ur þjón­ust­unn­ar að það sé sí­fellt ver­ið að klifa á því að mála­flokk­ur­inn sé van­fjár­magn­að­ur og það þarf að fara að ljúka þess­um við­ræð­um á milli að­ila um kostn­að­ar­skipt­ingu. Það voru líka skila­boð­in mín á fundi fjár­laga­nefnd­ar Al­þing­is í vik­unni en ég fór á fund þeirra á mið­viku­dag ásamt Páli Björg­vins­syni fram­kvæmda­stjóra SSH. Þar lögð­um við líka áherslu á fjár­mögn­un vegna sam­göngusátt­mál­ans auk þess sem far­ið var yfir víð­an völl í fjár­mál­um rík­is og sveit­ar­fé­laga.

Eitt af því sem stend­ur upp úr í vik­unni er mjög vel heppn­að­ur fund­ur at­vinnu- og ný­sköp­un­ar­nefnd­ar sem var hald­inn á þriðju­dag í fram­halds­skól­an­um í Mos­fells­bæ. Sæv­ar Birg­is­son formað­ur at­vinnu- og ný­sköp­un­ar­nefnd­ar opn­aði fund­inn og lýsti  fram­tíð­ar­sýn fyr­ir Mos­fells­bæ í at­vinnu­mál­um og mark­miði með fund­in­um. Dóri DNA hélt mjög hvetj­andi er­indi um mik­il­vægi menn­ing­ar og hvatti bæj­ar­yf­ir­völd til að hugsa stórt þeg­ar kem­ur að upp­bygg­ingu í bæn­um og nauð­syn þess að vanda sig. Hann tók fram­halds­skól­ann sem dæmi, þar sem engu var til sparað í hönn­un og bygg­ing­in með­al ann­ars til­nefnd til Mies Van der Roche verð­launa fyr­ir arki­tektúr. Dóri þakk­aði þá­ver­andi menn­ing­ar­mála­nefnd Mos­fells­bæj­ar fyr­ir styrk sem sjón­varps­serí­an Aft­ur­eld­ing fékk á sín­um tíma, 500 þús­und krón­ur  en það var fyrsti styrk­ur­inn sem verk­efn­ið fékk. Að lok­um sagð­ist hann eiga draum um  menn­ing­ar­hús með stóru sviði í mið­bæn­um í Mos­fell­bæ.

Björn H Reyn­is­son ráð­gjafi fór yfir tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fyr­ir­tæki í Mos­fells­bæ, stærð og teg­und at­vinnu­starf­semi. Í Mos­fells­bæ eru 629 fyr­ir­tæki, sam­kvæmt lista sem Cred­it­In­fo vann úr þjóð­skrá Ís­lands. Rúm­lega helm­ing­ur (56%) þess­ara fyr­ir­tækja er ekki með starfs­menn eða 354 fyr­ir­tæki. Þeg­ar skipt­ing­in er skoð­uð þá eru flest af stærstu fyr­ir­tækj­un­um í flokkn­um Land­bún­að­ur/iðn­að­ur og Bygg­ingar­iðn­að­ur. Fjöl­menn­asti vinnu­stað­ur í Mos­fells­bæ, fyr­ir utan sveit­ar­fé­lag­ið sjálft sem tel­ur yfir 900 starfs­menn, er Ístak með 289 skráða starfs­menn. Í öðru sæti er Mat­fugl með 155 og í þriðja sæti er  Reykjalund­ur með 153 starfs­menn. Þá kem­ur Reykja­bú­ið í fjórða sæti með 66 starfs­menn og Ís­fugl í því fimmta með 50 starfs­menn. List­inn er lengri yfir stærstu fyr­ir­tækin í Mos­fells­bæ en þetta er von­andi bara fyrsta skref­ið í gagna­söfn­un­inni en við þurf­um  dýpri grein­ing­ar sem tengjast fyr­ir­tækja­rekstri í bæn­um.  Við feng­um líka stutta kynn­ingu á at­vinnusvæð­inu að Blika­stöð­um en þar ráð­gera Reit­ir sem eiga land­ið að byggja upp at­vinnu­starf­semi á  90 þús­und fer­metr­um af bygg­ing­ar­landi með heild­ar­fjárfest­ingu upp á  um 30 ma.kr. Upp­bygg­ing­ar­tím­inn gæti ver­ið 7 – 12 ár og fjöldi fyr­ir­tækja  30 – 100 tals­ins og fjöldi starfa áætl­að­ur um  1300 manns.

Björn stýrði vinnu­stof­um í kjöl­far fyr­ir­lest­urs­ins og verð­ur afrakst­ur þeirra nýtt­ur í mót­un at­vinnu­stefnu Mos­fells­bæj­ar. Það var í raun sam­hljóm­ur á með­al fund­ar­gesta, sem voru yfir 50 tals­ins, að menn­ing, saga og nátt­úra væru auð­lind­ir sam­fé­lags­ins og tæki­færin væru ótelj­andi til að mark­aðsssetja bæ­inn og fá fleiri fyr­ir­tæki í Mos­fells­bæ. Þá var bent á mik­il­vægi þess að fá hraða af­greiðslu og upp­lýs­ing­ar í gegn­um bæj­ar­kerf­ið.

Ég fór á leik Aft­ur­eld­ing­ar og Hauka beint í kjöl­far fund­ar­ins og það var magn­að að upp­lifa þá gríð­ar­legu stemn­ingu sem var í íþrótta­hús­inu að Varmá þetta kvöld. Það var sett  upp auka­stúka fyr­ir 650 manns en samt sem áður varð upp­selt og komust færri að en vildu. Það var  gam­an að sjá Brynju okk­ar úr þátt­un­um Aft­ur­eld­ingu á með­al gesta  eða Svandísi Dóru Ein­ars­dótt­ur leik­konu. Það vant­aði bara Skarpa! Svandís leik­ur frá­bær­lega vel, eins og reynd­ar all­ir sem koma við sögu í þess­um snilld­ar þátt­um sem eru á leið í sýn­ingu til flestra Norð­ur­land­anna á næst­unni.

Aft­ur­eld­ing byrj­aði leik­inn gríð­ar­lega vel og var yfir í fyrri hálfleik en Hauk­ar náðu yf­ir­hönd­inni í seinni hálfleik sem end­aði í 17:23 fyr­ir Hauk­um. Áhorf­end­ur risu úr sæt­um og klöpp­uðu vel og lengi fyr­ir „strák­un­um okk­ar“, því þrátt fyr­ir úr­slit­in þetta kvöld þá hafa þeir stað­ið sig frá­bær­lega í vet­ur, bikar­meist­ar­ar og í topp­bar­átt­unni í keppn­inni um  Ís­lands­meist­ara­titil­inn. Eða eins og Gunn­ar Magnús­son seg­ir í við­tali við Vísi eft­ir sig­ur­leik­inn gegn Hauk­um á Ásvöll­um; við eig­um að njóta þess að fylgjast með öll­um þess­um fram­tíð­ar at­vinnu­mönn­um. Meist­ara­flokk­ur karla í hand­bolta er svo sann­ar­lega bú­inn að skemmta okk­ur vel í vet­ur. Mynd­irn­ar frá leikn­um eru úr flottri myndasyrpu Ragga Óla sem veitti mér góð­fús­legt leyfi til að nota þær í pistl­in­um.

Í vik­unni var lögð fram til­laga að stjórn­kerf­is­breyt­ing­um í bæj­ar­ráði og nýju skipu­riti ásamt skýrslu Strategíu um stjórn­sýslu- og rekstr­ar­út­tekt. Til­lög­urn­ar verða lagð­ar fram í bæj­ar­stjórn til sam­þykkt­ar ásamt skýrsl­unni og verða gerð­ar op­in­ber­ar í fram­hald­inu. Við höf­um hald­ið vinnufundi með bæj­ar­full­trú­um meiri og minni­hluta í að­drag­anda fund­ar bæj­ar­ráðs ásamt því að kynna fyr­ir starfs­mönn­um á bæj­ar­skrif­stof­um um helstu breyt­ing­ar sem eru fyr­ir­hug­að­ar. Það hafa því ver­ið stíf fund­ar­höld í vik­unni í kring­um þessa vinnu.

Í dag eru nokkr­ir fund­ir, flest­ir á Teams, með­al ann­ars með Sam­bandi ís­lenskra sveit­ar­fé­laga og lands­hluta­sam­tök­um, svo sem sam­tök­um sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, Suð­ur­landi, Vest­ur­landi, Vest­fjörð­um, Norð­ur­landi vestra og Aust­ur­landi. Þess­ir fund­ir eru mán­að­ar­lega og far­ið yfir mis­mun­andi hags­muna­mál sveit­ar­fé­laga.  Við erum líka að und­ir­búa okk­ur fyr­ir verk­föll í næstu viku, ef samn­ing­ar nást ekki og fundi næstu viku, sem eru bæði bæj­ar­stjórn og bæj­ar­ráð.

Eitt að lok­um. Vel­ferð­ar­svið Mos­fells­bæj­ar aug­lýs­ir eft­ir íbúð­um fyr­ir flótta­fólk á vef bæj­ar­ins í dag og face­book síðu. Það hrygg­ir mig að sjá mörg þeirra nei­kvæðu skila­boða sem eru komin inn á síð­una. Flótta­fólk er ekki í sam­keppni við íbúa Mos­fells­bæj­ar um fé­lags­legt hús­næði og hef­ur ekki áhrif á þann bið­lista sem þar er enda er ver­ið að leita að íbúð­um á frjáls­um mark­aði. Hitt er að það er rík­is­vald­ið sem ákveðj­ur fjölda flótta­fólks og greið­ir öll út­gjöld vegna þeirra fyrstu tvö árin. Það eru hins­veg­ar sveit­ar­fé­lög­in sem fram­kvæma þjón­ust­una. Mun­um að það geis­ar stríð í heimalandi flestra flótta­manna og þess vegna eru þau komin hing­að.

Ég óska ykk­ur ann­ars góðr­ar helg­ar og að þið njót­ið vel þrátt fyr­ir veð­ur­spána!

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00