Ágætu bæjarbúar,
Vikan 12. – 16. september var viðburðarík enda er oft mikið að gera á haustin í tengslum við sveitarstjórnarmál, ekki síst á nýju kjörtímabili. Stjórn SSH, eða Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hélt aukafund í byrjun vikunnar vegna mála sem frestuðust á föstum stjórnarfundi sem var haldinn 5. september og var fjöldi mála tekinn fyrir á aukafundinum.
Meðal annars var staða viðræðna við ríkið vegna samgöngusáttmála kynnt og einstök verkefni,s.s. almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ennfremur var rætt um rammasamning innviðaráðuneytisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga en samningurinn kveður á um uppbyggingu húsnæðis í sveitarfélögum landsins. Stefnt er að því að gera samning við hvert og eitt sveitarfélag um útvegun lóða til uppbyggingar og áhersla lögð á að eyrnarmerkja ákveðið hlutfall af lóðunum til byggingar á svokölluðu óhagnaðardrifnu húsnæði. Undir þá skilgreiningu falla til dæmis félög eins og Bjarg sem er í eigu verkalýðsfélaga og leigir tekjulágu fólki húsnæði á kostnaðarverði. Það eru skilyrði fyrir úthlutun að viðkomandi sé fullgildur aðili í einhverju af þeim stéttarfélögum sem standa að Bjargi og sé með tekjur innan tiltekinna viðmiðunarmarka. Einnig eru félög eins og Búseti, skilgreint sem óhagnaðardrifið en það er félag sem byggir og selur kaupleiguíbúðir. Þá falla félög sem byggja námsmannaíbúðir undir skilgreininguna og félög sem byggja fyrir eldri borgara. Einnig er gert ráð fyrir að sveitarfélög uppfylli skyldur um uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk með það að markmiði að leggja niður herbergjasambýli. Ennfremur að sveitarfélög byggi eða kaupi íbúðir fyrir fólk í félagslegum vanda. Enn er ósamið á milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þessarar miklu húsnæðisuppbyggingar sem er áætluð á næstu 10 árum en boðað er að framlög verði aukin til stofnstyrkja. Sveitarfélögin hafa kallað eftir því að ríkið komi að kostnaði vegna uppbyggingar í málaflokks fatlaðs fólks og hafa jafnframt bent á mikinn kostnað vegna innviða þegar lóðum er úthlutað í nýbyggingarhverfum. Ný hverfi kalla ekki eingöngu á gatnagerð og veituframkvæmdir heldur einnig á ýmis konar fjárfestingu í samfélagslegum innviðum s.s. skóla og leikskóla.
Þessar fyrstu tvær vikur í starfi hafa leitt hugann að því mikla starfi sem fram fer á vettvangi stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin reka saman almenningssamgöngur og standa saman að samgöngusáttmála og fyrirtækinu Betri samgöngur ehf. Einnig standa þau saman að rekstri Sorpu og mótun sameiginlegrar framtíðarsýnar á úrgangsmál á höfuðborgarsvæðinu. Þau standa ennfremur saman að slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, almannavörnum og skíðasvæðum auk ýmissa smærri verkefna. Fundargerðir samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru opnar og aðgengilegar almenningi á vef sambandsins. Þar er einnig að finna fundargerðir stjórna byggðarsamlaganna auk eigendafunda.
Í vikunni var einnig haldinn fundur stefnuráðs höfuðborgarsvæðisins með stjórn og forstjóra Strætó bs og með stjórn og framkvæmdastjóra Sorpu. Stefnuráð er vettvangur kjörinna fulltrúa sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og framkvæmdastjóra sveitarfélaganna og er ætlað að marka stefnu í málefnum byggðarsamlaganna og málaflokkanna í heild sinni.
Fulltrúar Mosfellsbæjar í stefnuráði höfuðborgarsvæðisins eru bæjarfulltrúarnir Lovísa Jónsdóttir og Ásgeir Sveinsson auk bæjarstjóra.
Ég átti líka fund í vikunni með Aftureldingu en sérstakur samráðsvettvangur er starfandi sem mun funda á hálfsmánaðarfresti í vetur til að ræða ýmis mál sem tengjast bænum og félaginu. Í kjölfar þess að ekkert tilboð barst í þjónustuhús sem hefur verið á teikniborðinu í langan tíma er þörf á að endurmeta næstu verkefni við uppbyggingu á þessu mikilvæga útvistar og íþróttasvæði Mosfellinga.
Ég náði að fara í heimsókn á tvær stofnanir í vikunni, frístundaklúbbinn Úlfinn sem er staðsettur í Kjarnanum, nánar tiltekið þar sem heilsugæslan í Mosfellsbæ var áður og Eirhamra þar sem fram fer mjög líflegt félagsstarf fyrir eldri borgara. Í Úlfinn koma 10 börn og ungmenni daglega sem eiga við mismunandi fötlun að stríða. Annars vegar hópur barna í 5. – 10. bekk og hins vegar unglingar í framhaldsskólum. Margrét Rós Einarsdóttir forstöðumaður og hennar fólk eru að skipuleggja vetrarstarfið og hafa mikinn metnað til að gera sem fjölbreyttasta dagskrá. Frístundastarf fyrir fötluð börn og unglinga er gríðarlega mikilvæg þjónusta sem þarf að vera í stöðugri þróun.
Í Eirhömrum fer fram félagsstarf fyrir eldri borgara Mosfellsbæjar og er starfið í nánum tengslum við öryggisíbúðir við Eirhamra og hjúkrunarheimilið Hamra. Elva Björg Pálsdóttir stýrir því starfi og var einmitt kjörinn Mosfellingur ársins 2021 vegna starfa sinna í þágu eldri borgara. Í bígerð er að stækka húsnæði félagsstarfsins og við hittum einmitt forsvarsfólk Eirar, sem leigir Mosfellsbæ húsnæði undir félagsstarfið. Við hittum líka Inga sem er nýráðinn yfirmaður heimahjúkrunar og heimaþjónustu en Mosfellsbær er með samning við Eir um alla heimaþjónustu við íbúa bæjarins, hvort sem þeir búa að Eirhömrum eða annarsstaðar í bænum. Og svo má ekki gleyma hressa gönguhópnum sem var tilbúinn að stilla sér upp í myndatöku og smitaði frá sér mikla gleði og kátínu. Því miður get ég ekki merkt alla í hópnum með nafni – en það kemur síðar!
Ég sótti minn fyrsta bæjarstjórnarfund í þessari viku og voru mörg áhugaverð mál reifuð og rædd. Í bæjarstjórn eru fundargerðir fagráða lagðar fyrir og skapast oft umræður um einstaka dagskrárliði.
Forsvarsmenn Sorpu komu á fund bæjarráðs á fimmtudagsmorguninn til að ræða samstarfssamning á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem rennur út í árslok 2023 en þar er kveðið á um að urðun verði hætt í Álfsnesi fyrir þann tíma. Bæjarráð bókaði eftirfarandi í lok fundarins;
,,Bæjarráð Mosfellsbæjar þakkar stjórnendum Sorpu fyrir greinargóða kynningu á stöðu mála.
Í viðauka við eigendasamkomulag Sorpu sem undirritað var 6. júlí 2020 um lokun urðunarstaðarins er kveðið á um að áætlun um aðgerðir sem henni tengjast skulu liggja fyrir í árslok 2022.
Bæjarráð Mosfellsbæjar lýsir miklum vonbrigðum með að ekki hafi tekist að finna viðunandi framtíðarlausn varðandi urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið, sérstaklega í ljósi þess að bæjarfélagið hefur nú þegar í tvígang fallist á áframhaldandi urðun í góðri trú um að unnið væri að lokun“.
Ég komst því miður ekki á bæjarráðsfundinn þar sem ég var á leið í námsferð bæjarskrifstofunnar til borgarinnar Zurich í Sviss. Þessi ferð var skipulögð fyrir margt löngu en vegna Covid hafði hún frestast um tvö ár. Það er hefð fyrir því á bæjarskrifstofunni og víða í stofnunum bæjarins og sveitarfélögum almennt að fara í starfsmenntunarferðir á nokkurra ára fresti en allur ferðakostnaður og uppihald er greiddur úr starfsmenntunarsjóði viðkomandi stéttarfélags. Að þessu sinni eru 36 starfsmenn með í ferðinni og Zurich var meðal annars valin vegna þekkingar Marco verkefnisstjóra á umhverfissviði á stjórnsýslu borgarinnar en hann er Svissneskur og dvaldi í Zurich á námsárunum. Við fengum mjög fjölbreytta fræðslu. Meðal annars um aðgengismál fatlaðs fólks, umhverfismál, mannauðsstjórnun og samgöngur svo það helsta sé nefnt. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að fara í þessa ferð en mér þótti fyrirvarinn svolítið skammur, þegar hún var kynnt fyrir mér í sumar. En með því að fara hef ég fengið tækifæri til að kynnast frábæru samstarfsfólki á miklu auðveldari hátt en ella hefði gerst auk þess sem Zurich er að gera marga áhugaverða hluti sem hægt er að yfirfæra á okkar góða samfélag í Mosfellsbæ.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar og þakka þeim sem ég hef átt í samstarfi við fyrir góða vinnuviku.
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1: Margrét forstöðukona Úlfsins og Sigurbjörg framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs.
Mynd 2: Með Elvu og Inga á Eirhömrum ásamt Sigurbjörgu framkvæmdastjóra á fjölskyldusviði og Eybjörgu Hauksdóttur frá Eir.
Mynd 3: Hressir félagar í gönguklúbbi félagsstarfsins.
Mynd 4: Góðar móttökur á flugvellinum í Zurich.
Mynd 5: Hluti starfshópsins á bæjarskrifstofunni í Zurich.
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024