Mjög viðburðarík vika að baki!
Ég var rétt í þessu að undirrita viljayfirlýsingu við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu og skólameistara framhaldsskólans í Mosfellsbæ um verklagsreglur vegna barna sem verða fyrir ofbeldi eða beita önnur börn ofbeldi. Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti tillögu þessa efnis á fundi sínum í gær.
Verkefnið hefur verið töluverðan tíma í þróun með nokkrum tilraunasveitarfélögum en Mosfellsbær er fyrsta sveitarfélagið sem innleiðir nýjar verklagsreglur. Í þeim er kveðið á um þá ferla sem fara af stað, ef grunur vaknar um ofbeldi gegn börnum og hvert er hlutverk hverrar og einnar stofnunar í þeim málum.
Í þessu verkefni kristallast mikilvægi samfélagslögreglu en á stjórnarfundi samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrr í vikunni var einmitt samþykkt bókun sem snýr að mikilvægi lögreglunnar þegar kemur að starfi með börnum og ungmennum.
En forsíðumyndin að þessu sinni er frá tónleikum Mosfellskórsins sem voru haldnir í Hlégarðsgarðinum sem er svo fallega skreyttur núna á aðventunni. Góður söngur og skemmtilegt lagaval skapaði notalega stemningu í garðinum. Tímasetningin var líka einstaklega vel valin en á milli fjögur og fimm síðdegis þá tekur að rökkva og gaman að fylgjast með ljósaskiptunum.
Í vikunni fengum við Halla Karen formaður bæjarráðs mjög góða heimsókn frá Árborg en Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri og Bragi Bjarnason formaður bæjarráðs heimsóttu okkur. Það er margt líkt með þessum sveitarfélögum þegar kemur að íbúafjölda en þau eru rúmlega 11 þúsund á móti rúmlega 13 þúsund í Mosfellsbæ. Það hefur verið hraður vöxtur í uppbyggingu þar – eins og hér og margt hægt að læra af þeim og öfugt.
Vesturlandsvegur, í gegnum Mosfellsbæ, var vígður formlega eftir endurbætur og breikkun í vikunni. Vígðir voru tveir áfangar, tæpir 2 kílómetrar frá Skarhólabraut að Reykjavegi, en framkvæmdirnar eru hluti af verkefnum Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem gerður var í september 2019. Framkvæmdir við fyrsta áfanga hófust í lok maí 2020 og lauk í desember það sama ár. Seinni áfangi fór af stað í febrúar á þessu ári og lauk formlega við opnunina þann 8. desember. Í fyrri áfanga, sem náði frá Skarhólabraut að Langatanga, var akreinum fjölgað úr þremur í fjórar og þannig komið í veg fyrir umferðarteppur sem oft mynduðust við Lágafellskirkju. Í seinni áfanganum, sem náði frá Langatanga að Reykjavegi, voru fjórar akreinar fyrir en þörf á endurbyggingu vegarins. Stærsta breytingin er sú að akstursstefnur eru nú aðskildar með vegriði á allri leiðinni sem stóreykur umferðaröryggi á veginum. Við vorum fjögur sem klipptum á borðann, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, auk mín. Við fengum dygga aðstoð frá þeim Dagbjörtu Lilju Oddsdóttur og Þórhildi Karen Gunnarsdóttur úr 7. bekk Lágafellsskóla en þær voru skæraverðir.
Á miðvikudag var seinni umræða í bæjarstjórn um fjárhagsáætlun 2023 og jafnframt síðasti fundur bæjarstjórnar á árinu. Það eru alltaf tímamót að fylgja fjárhagsáætlun úr hlaði en í henni má finna aukna áherslu á velferðarþjónustu, mikinn fjölda uppbyggingarverkefna í skóla og íþróttamálum auk gatnagerðar og veituframkvæmda. Rekstrarafgangur minnkar um 170 mkr. á milli umræðna, aðallega í formi fjármagnsliða vegna nýrrar þjóðahagsspár um verðbólgu á árinu 2023.
Það var líka bæjarráðsfundur í vikunni og þar var meðal annars samþykkt heimild til að fella niður leikskólagjöld hjá þeim foreldrum sem óska eftir að taka samfleytt frí fyrir börnin sín á milli jóla og nýárs. Eins og kemur fram í greinargerð frá fræðslu- og frístundasviði þá hefur þörf foreldra fyrir leikskólavistun í kringum jól og áramót verið aðeins minni en á öðrum tímum ársins. Rétt er að ítreka að ekki er verið að leggja það til að leikskólinn verði almennt lokaður á þessum tíma, heldur einungis verið að gefa þeim foreldrum sem þess kjósa möguleika á að vistunargjald þeirra verði fellt niður þegar barnið er í fríi.
Þá var samþykkt að ganga til samninga við fyrirtækið Strategíu um stjórnsýslu- og rekstrarúttekt á sveitarfélaginu Mosfellsbæ. Í desember og janúar verður unnið að gagnaöflun, m.a. í gegnum viðtöl og fundi og í febrúar og mars unnið að greiningu og tillögum að úrbótum.
Það voru fleiri fundir í vikunni, meðal annars stjórnarfundir í almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Ég tók líka þátt í skemmtilegum undirbúningi vegna árshátíðar Mosfellsbæjar en um það atriði ríkir mikil leyndarhyggja og best að ljóstra engu upp að sinni 🙂
Á morgun er svo opnun á jólaskóginum í Hamrahlíð á vegum skógræktarfélags Mosfellsbæjar og þar fæ ég hjálp frá jólasveinunum við að saga fyrsta tréð sem fer í sölu. Það er líka opið hús hjá hestamannafélaginu Herði, upplestur á Gljúfrasteini, kyrrðarstundir í Lágafellskirkju, tónleikar í Hlégarði og margt fleira.
Það er ljóst að það er nóg um að vera í samfélaginu hér og ég óska ykkur góðrar helgar.
Regína Ásvaldsdóttir
Forsíðumynd er af Mosfellskórnum
Mynd 1: Hluti kórfélaga og gesta í Hlégarðsgarðinum
Mynd 2: Við Halla Karen formaður bæjaráðs og Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri Árborgar og Bragi Bjarnason formaður bæjarráðs Árborgar
Mynd 3: Hanna Guðlaugsdóttir mannauðsstjóri og Anna Rún Sveinsdóttir í undirbúningsnefnd fyrir árshátíðina eitthvað að bralla
Mynd 4: Klippt á borða við Vesturlandsveg í kulda og trekki
Mynd 5: Skæraberarnir Dagbjört og Þórhildur ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra