Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
3. apríl 2024

Þá er mars­mán­uð­ur senn á enda en hann hef­ur ver­ið ótrú­lega við­burða­rík­ur. Vetr­ar­há­tíð­in Menn­ing í mars, Dag­ur Lista­skól­ans, árs­há­tíð Mos­fells­bæj­ar og margt, margt fleira.

Fyrsti við­burð­ur­inn á Menn­ingu í mars voru skemmti­leg­ir tón­leik­ar sem Stöll­urn­ar héldu í Hlé­garði á föstu­dags­kvöld­inu 1. mars ásamt Sól­dís­um úr Skagafirði. Þar voru flutt lög Magnús­ar Ei­ríks­son­ar. Það var hús­fyll­ir í Hlé­garði þetta föstu­dags­kvöld og mjög góð byrj­un á menn­ing­ar­há­tíð­inni.

Á laug­ar­deg­in­um 2. mars var Dag­ur Lista­skól­ans sem var mik­il veisla. Dag­ur­inn hófst með op­inni æf­ingu A og B sveit­ar skóla­hljóm­sveit­ar­inn­ar sem voru haldn­ir í há­tíð­ar­sal Varmár­skóla. Þar fengu hljóm­sveit­ar­með­lim­ir að spreyta sig und­ir stjórn kenn­ara og stjórn­anda sveit­ar­inn­ar, Daða Þórs Ein­ars­son­ar. Mjög ánægju­leg stund og góð­ur hóp­ur for­eldra sem var mætt­ur til að fylgjast með.

Í Lista­skól­an­um var boð­ið upp á tónlist og hljóð­færa­kynn­ing­ar í öll­um stof­um. Og þar var líka boð­ið upp á rjúk­andi kaffi og ljúf­fenga súkkulaði­köku. Það var afar góð mæt­ing og skemmti­leg stemn­ing og full ástæða til að óska Helgu Þór­dísi Guð­munds­dótt­ur skóla­stjóra Lista­skól­ans, kenn­ur­um og öðru starfs­fólki og nem­end­um  til ham­ingju með afar vel heppn­að­an dag. For­síðu­mynd pist­ils­ins að þessu sinni er af nem­end­um Lista­skól­ans – þeim Þor­steini Flóka Högna­syni, Ivgvari Daða Guð­munds­syni, Aski Vals­syni og Unn­ari Sveini Guð­munds­syni ásamt Ívari Sím­on­ar­syni kenn­ara.

Við Gunn­hild­ur Sæ­munds­dótt­ir sviðs­stjóri fræðslu- og frí­stunda­sviðs kom­um líka við hjá leik­fé­lag­inu þar sem við skoð­uð­um hvern krók og kima og rædd­um við stjórn­ar­fólk og aðra full­trúa leik­fé­lags­ins. Hús­næð­is­mál skól­ans hafa ver­ið í brenni­depli og rík­ur vilji til þess hjá að­stand­end­um leik­fé­lags­ins að fá að vera í Bæj­ar­leik­hús­inu áfram. Á sunnu­deg­in­um var svo frum­sýn­ing á Línu lang­sokk sem tókst afar vel enda leik­ur­inn frá­bær. Ég hvet alla sem vett­lingi geta vald­ið að sækja þá sýn­ingu.

Í byrj­un vik­unn­ar 4.-8.  mars stóð­um við í stjórn sjálf­seign­ar­stofn­un­ar­inn­ar Skála­túns fyr­ir við­burði þar sem til­kynnt var um val á nafni fyr­ir þá starf­semi sem fyr­ir­hug­að er að komi á svæði Skála­túns og mun hýsa að­ila sem veita börn­um, ung­menn­um og fjöl­skyld­um þeirra þjón­ustu.

Rúm­lega 150 til­lög­ur bár­ust í nafnasamkeppninni sem stjórnin stóð fyrir. Nið­ur­staða dóm­nefnd­ar var að heit­ið „Far­sæld­artún“ yrði hlut­skarp­ast. Vinn­ings­haf­arn­ir voru þær Gerð­ur Páls­dótt­ir, Guð­rún Birna Ein­ars­dótt­ir og Sig­ur­veig Gunn­ars­dótt­ir og hver um sig hlaut 100.000 króna pen­inga­verð­laun og við­ur­kenn­ing­ar­skjal.

Dóm­nefnd­in var skip­uð Ásmundi Ein­ari Daða­syni, mennta- og barna­mála­ráð­herra, f.h. mennta- og barna­mála­ráðu­neyt­is­ins, Önnu Sig­ríði Guðna­dótt­ur bæj­ar­full­trúa, f.h. Mos­fells­bæj­ar og Ragn­ari Jóns­syni, f.h. aug­lýs­inga­stof­unn­ar TVIST.

Um þess­ar mund­ir stend­ur yfir val­ferli í sam­starfi við Hönn­un­ar­mið­stöð Ís­land til að leita að teymi arki­tekta og fleiri fag­að­ila til að móta hug­mynd­ir og til­lög­ur að deili­skipu­lagi svæð­is­ins. Markmiðið er að hefja und­ir­bún­ing­ að deili­skipu­lagi  í sumar þegar liggur fyrir hvaða teymi verði fyrir valinu.

Til að taka af all­an vafa þá er vert að leggja áherslu á að þeir íbú­ar sem þeg­ar eru bú­sett­ir á svæð­inu halda áfram að búa þar og njóta þjón­ustu frá Mos­fells­bæ.  Upp­bygg­ing svæð­is­ins mun taka nokk­urn tíma og er þess utan það stórt að það rúmar núverandi íbúðarhúsnæði og nýjar stofnanir. Þó eru nokkrir sem kjósa að hefja sjálfstæða búsetu annarsstaðar og mun sveitarfélagið styðja við bakið á þeim.

Þessa fyrstu viku í mars voru haldnir fjölmargir fundir. Meðal annars með hagsmunaaðilum í byggingargeiranum,  forsvarsfólki Bjarkahlíðar og fulltrúa ríkislögreglustjóra sem óskuðu eftir samtali um stuðning sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við samtökin. Þá var fundur stýrihóps um farsæld barna, stjórnarfundur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, bæjarstjórnarfundur og bæjarráðsfundur.

Á laugardagskvöldinu 12. mars var árshátíð Mosfellsbæjar haldin í íþróttahúsinu við Varmá. Árshátíðin var ein sú fjölmennasta sem hefur verið haldin og að mínu mati ótrúlega vel heppnuð. Salurinn var einstaklega fallega skreyttur og matur og tónlistaratriði fyrsta flokks. Þá höfðu flestir gestanna tekið litaþemun alvarlega en starfsfólk í skólum, leikskólum og í frístund sem tilheyra fræðslu og frístundasviði var með fjólublátt þema, starfsfólk í velferðarmálum í bleiku, starfsfólk íþróttamiðstöðva í rauðu, starfsfólk umhverfissviðs í grænu og stjórnsýslan í bláu. Það er full ástæða til að þakka skemmtinefndinni sérstaklega fyrir þetta glæsilega kvöld en hún var skipuð fulltrúum allra sviða og vann undir stjórn okkar góða mannauðsstjóra, Kristjáns Þórs Magnússonar.

Í vikunni 11. – 16. mars var sömuleiðis mikið um fundarhöld vegna ýmissa hagsmunamála einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka. Þá var stjórnarfundur hjá sjálfseignastofnuninni Skálatúni sem ég mun kalla Farsældartún hér eftir þar sem við vorum meðal annars að leggja lokahönd á texta fyrir auglýsingu hönnunarmiðstöðvarinnar. Það var ennfremur fundur í stýrihóp um uppbyggingu Varmársvæðisins og undir lok vikunnar fórum við í heimsókn  á Hlíðarenda til að kynna okkur uppbygginguna og starfsemina hjá Val. Það var einstaklega vel tekið á móti okkur og það sem er svo gott við þjónustubygginguna hjá þeim er að hún er eins og hjartað í húsinu sem allir þurfa að fara í gegnum til að komast á æfingar eða á leiki. Við tókum líka eftir því að það var einstaklega vel tekið á móti börnum í sem komu í húsið á meðan að við dvöldum þar sem er auðvitað lykilatriði. Gott húsnæði er eitt en barnvæn menning og hlýja þarf að einkenna alla svona starfsemi svo að börn og unglingar sækist í að koma á æfingar.

Stýrihópurinn stóð fyrir könnun á meðal íþróttaiðkenda, aðstandenda barna, starfsfólks og íbúa í Mosfellsbæ varðandi nýja þjónustubyggingu og við fengum 1.200 svör. Kærar þakkir fyrir það! Verið er að vinna úr niðurstöðum þessa dagana sem verða væntanlega kynntar á næsta fundi stýrihópsins um miðjan apríl.

Þá sat ég eigendafund Strætó, stjórnarfund SSH og fund með samninganefnd um samgöngusáttmálann. Þá  átti ég fund með forsvarfólki Eir öryggisíbúða.

Ég fór líka á fræðslunefndarfund til að kynna niðurstöður Gallup könnunar og sömuleiðis átti ég fund með skólastjórum grunnskólanna til að ræða sömu könnun.

Á fimmtudeginum 17. mars var haldinn bæjarráðsfundur að venju kl. 7:30 en honum lauk í fyrra fallinu enda hófst landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga  í Hörpu klukkan tíu um morguninn. Kjaramál voru áberandi á fundinum og töluvert tekist á um það samkomulag sem verkalýðshreyfingin, sambandið og ríkið skrifuðu undir og tengist gjaldfrjálsum skólamáltíðum.

Mosfellsbær hafði þegar skuldbundið sig til þess að endurskoða gjaldskrár til að liðka fyrir þjóðarsátt en bókun þess efnis var samþykkt í bæjarstjórn í desember.

Kjarasamningarnir hafa töluverð áhrif á bæjarsjóð. Laun hækka minna en ráð var fyrir gert en á móti kemur að tekjur vegna útsvars lækka að sama skapi auk þess sem að tekjur sveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði lækka. Þá kemur til tekjutap vegna lækkunar gjaldskráa en þess ber að geta að ríkið mun koma til móts við 75% af kostnaði við gjaldfrjálsar máltíðir til næstu fjögurra ára. Það sem vegur þó upp á móti þessum áhrifum af kjarasamningunum er minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Fyrir jafn skuldsett sveitarfélag og Mosfellsbæ er eftir töluverðu að slægjast þar.

Á laugardaginn 19. mars var opnuð sýning í Listasal Mosfellsbæjar en það er Þórunn Bára Björnsdóttir sem sýnir verkin sín og nefnist sýningin Gróðurhula. Mjög falleg verk og gaman að skoða.

Í þriðju viku marsmánaðar var áfram líf og fjör í fundarhaldi, meðal annars aukafundur stjórnar SSH, eigendafundur Strætó og fundur almannavarna með fulltrúum neyðarstjórna á höfuðborgarsvæðinu með sérfræðingum í jarðvísindum til að ræða gerð áhættumats fyrir höfuðborgarsvæðið sem er í vinnslu. Þá var bæði bæjarráð og bæjarstjórn að venju. Ég fór líka á sameiginlegan fund velferðarnefndar og notendaráðs fatlaðs fólks þar sem ég fór yfir niðurstöður Gallup könnunar auk þess sem ég hitti leikskólastjóra bæjarins til að ræða sömu niðurstöður.

Þá vorum við með vinnustofu um endurskoðun siðareglna Mosfellsbæjar fyrir starfsmenn og kjörna fulltrúa. Það var Þóra Margrét Hjaltested bæjarlögmaður sem undirbjó vinnustofuna í samráði við Helgu Hlín Jóhannesdóttur hjá Strategíu.

Ég tók þátt í veitingu viðurkenninga í lokaúrslitum Stóru upplestrarkeppninnar sem var haldin í Lágafellsskóla 21. mars. Vel staðið að verki við undirbúning hátíðarinnar og eiga allir sem tóku þátt í því  þakkir skildar.

Á fimmtu­dags­kvöld­ið sótti ég  sögu­kvöld í Hlé­garði en þema kvölds­ins voru her­náms­árin í Mos­fells­bæ. Bjarki Bjarna­son stýrði um­ræð­um en við­mæl­end­ur voru þeir Sig­urð­ur Hreið­ar og Leif­ur Reyn­is­son. Sýnd­ar voru ljós­mynd­ir sem hafa ver­ið varð­veitt­ar á Hér­aðs­skjala­safni Mos­fells­bæj­ar.  Rúm­lega 200 manns  sóttu við­burð­inn og var komin röð við Hlé­garð áður en sal­ur­inn opn­aði. Hilm­ar Gunn­ars­son birti skemmti­legt mynd­band frá kvöld­inu sem tókst frá­bær­lega vel.

Það er full ástæða að mínu mati að hrósa menn­ing­ar- og lýð­ræð­is­nefnd fyr­ir hug­mynd­ina að Menn­ingu í mars sem er svo kær­komin á þess­um árs­tíma. Svo ramm­ar Hlé­garð­ur svo fal­lega inn þá við­burði sem eru haldn­ir þar með metn­aði í upp­still­ingu og skreyt­ing­um.

Ég tók mér frí frá störf­um í dymb­il­vik­unni og átti góða páska á Spáni þar sem ég spil­aði golf í roki og rign­ingu – alla dag­ana! Ég bíð því spennt eft­ir ís­lenska vor­inu sem kem­ur í apríl!

Eig­ið góð­ar stund­ir.

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00