Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
2. febrúar 2025

Þá er janú­ar­mán­uð­ur lið­inn og ekki hægt að segja ann­að en að hann hafi ver­ið nokk­uð svipt­inga­sam­ur, hvort held­ur lit­ið er til veð­urs eða verk­efna. Þó að verk­efn­in hafi mörg ver­ið skemmti­leg og gef­andi þá hafa önn­ur ver­ið tölu­verð áskor­un eins og stað­an á leik­skól­an­um Hlað­hömr­um eins og ég kem að hér á eft­ir.

Árið hófst með glæsi­legri þrett­ánda­brennu á veg­um Mos­fells­bæj­ar í sam­starfi við björg­un­ar­sveit­ina Kynd­il. Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar leiddi blys­för frá Mið­bæj­ar­torgi og skóla­hljóm­sveitin, Storm­sveit­in, Grýla, Leppal­úði, álfa­kóng­ur, álfa­drott­ing  ásamt Þorra og Þuru voru á svæð­inu.

Hér má sjá myndir frá þrettándabrennunni.

Í byrjun janúar var íþróttafólk Mosfellsbæjar heiðrað. Það voru bæjarbúar og íþrótta- og tómstundanefnd sem kusu úr hópi  þeirra sem voru til­nefndir íþrótta­fólk árs­ins 2024. Á sama tíma voru þjálf­ari, lið og sjálf­boða­liði árs­ins heiðr­uð.

Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir, kúlu­varp­ari í ÍR var kjörin íþróttakona ársins og Skarp­héð­inn Hjalta­son, jú­dóm­að­ur í JR var kosin íþróttakarl árisins. Meist­ara­flokk­ur karla í knatt­spyrnu í Aft­ur­eld­ingu var kjörinn afrekslið ársins 2024 og þjálfari ársins Magnús Már Ein­ars­son, þjálf­ari meist­ara­flokks karla í Aft­ur­eld­ingu. Þá var Hanna Sím­on­ar­dótt­ir útnefnd sjálf­boða­liði ársins 2024.

Hér má sjá nánari umfjöllun um íþróttafólk ársins 2024.

Í þessum mánuði hafa verið haldnir tveir nokkuð fjölmennir fundir sem snúa að skipulags-og samgöngumálum. Meðal annars var haldinn fundur í Hlégarði um vinnslutillögu vegna 1. áfanga í Blikastaðahverfi en skipulagslýsing vegna áfangans hefur verið kynnt og nú var haldinn annar opni fundurinn vegna undirbúnings að deiliskipulagstillögunni. Það er skemmst frá því að segja að sú útfærsla sem liggur fyrir er mjög vönduð og vel gerð og einkennist hverfið af grænum svæðum og lágreistum fjölbýlishúsum þó að húsin séu hærri þegar nær dregur Vesturlandsvegi. Skipulagstillagan liggur fyrir til umsagnar og má senda inn umsagnir til 10. febrúar næstkomandi.

Hér eru frekari upplýsingar frá fundinum og öll gögn.

Þá var haldinn opinn fundur um samgöngusáttmálann og þýðingu hans fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Fundurinn var haldinn í Hlégarði og var fín mæting. Á fundinum kom fram að Mosfellsbær hefði þegar fengið úrbætur, s.s. breikkun Vesturlandsvegar milli Skarhólabrautar og Hafravatnsvegar  auk hjóla- og göngustígs milli Varmár og Leirvogstungu sem var kláraður árið 2022. Þá mun 6. áfanga borgarlínunnar verða forgangsraðað framar í áfangaskiptingu og er gert ráð fyrir henni árið 2033 í gegnum Keldnaland og Blikastaði, þrátt fyrir að tímaramminn fyrir verkefnið í heild hafi lengst um sjö ár eða til ársins 2040.

Hér má sjá nánari upplýsingar um fundinn ásamt upptökum.

Í þessum mánuði hef ég átt tvo fundi með foreldrum leikskólabarna á Hlaðhömrum og einnig fund með öllu starfsfólki, vegna stöðu skólans. Forsagan er sú að í byrjun árs 2024, í kjölfar gluggaskipta á einni hlið í eldri hluta hússins vaknaði grunur um að þarna gæti verið asbest að finna í útvegg og staðfestu rannsóknir að svo væri. Viðkomandi deild var lokað og börn og starfsfólk færðist til innan leikskólans.

Í framhaldi var Verkfræðistofan Efla fengin til að fara í ítarlega ástandsskoðun á eldra húsnæðinu og kom í ljós að þörf væri á endurnýjun stærri hluta þess vegna asbests, raka og einangrun útveggja. Farið var í mótvægisaðgerðir á þessum tímapunkti og fram að sumarleyfi leikskólans.

Engin ný börn voru tekin inn í Hlaðhamra í haust og við það fækkaði í skólanum úr 80 börnum í 52 börn. Hluti eldra húsnæðisins var nýtt en engin starfsemi hefur verið í eldri hlutanum og tengibyggingu frá og með 6. janúar.  Þá fluttu kennarar og 22 börn í kennslurými í Krikaskóla en  30 börn eru áfram í nýrri hluta Hlaðhamra sem var byggður 1988. Stefnt er að því að loka leikskólanum alveg í sumar og þau 35 börn sem eiga að vera áfram í Hlaðhömrum eftir sumarfrí flytjist í nýja leikskólann í Helgafellshverfi sem á að verða tilbúinn í lok júní næstkomandi. Bæjarráð hefur samþykkt að fara í heildstæða skoðun  á framtíð leikskólans að Hlaðhömrum, hvort hann verði rifinn að hluta eða öllu leiti og ný viðbygging eða nýr skóli byggður.

Í öllum þessum hremmingum hefur starfsfólkið okkar staðið sig ótrúlega vel undir dyggri stjórn Sveinbjargar leikskólastjóra. Það eru vissulega vonbrigði að þurfa að skipta starfshópnum upp í tvennt en á móti kemur að við erum einstaklega lánsöm að geta nýtt nýja leikskólann í Helgafellslandinu frá sumrinu í þessari stöðu sem við erum. Börnin eru ánægð í Krikaskóla, en starfsfólk þar hefur tekið mjög vel á móti nýja hópnum. Foreldrar hafa eðlilega haft áhyggjur af stöðunni en við erum búin að eiga tvo fundi með þeim og munum funda aftur í febrúar auk þess að senda reglubundna upplýsingapósta.

Ég fór á fundi í öllum grunnskólunum okkar  í janúar ásamt Ólöfu Sívertsen sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs  til að kynna verkefnið Börnin okkar, sem er forvarnaverkefni með 27 aðgerðum og bæjarstjórn samþykkti 100 milljóna króna framlag í við gerð fjárhagsáætlunar 2025. Verkefnið felur í sér aukna og sýnilegri sálfræðiþjónustu, styrkingu barnaverndar, gerð samskiptasáttmála á milli skóla og foreldra, aukið námskeiðsframboð fyrir starfsfólk en einnig foreldra, hækkun frístundastyrks og eflingu lýðheilsuverkefna fyrir börn og ungmenni.

Ég er með mánaðarlega fundi með helstu sérfræðingum á sviði fræðslu, frístunda og velferðarmála auk skólastjóra, til að fara yfir stöðu þessa verkefnis en við viljum sýnilegar breytingar á árinu.

Listasalur Mosfellsbæjar hóf dagskrá ársins 2025 með sýningu á verkum Öldu Rose Cartwright og er yf­ir­skrift sýn­ing­ar­inn­ar Ég er hér sem er mantra sem snýst um hug­mynd­ina um að vera til stað­ar í augna­blik­inu og tengjast um­hverf­inu. Sýning Öldu stendur yfir til 7. febrúar næstkomandi og sjá má upplýsingar hér.

Um miðjan mánuð var neyðarstjórn Mosfellsbæjar, sem ég stýri, með skrifborðsæfingu í samstarfi við almannavarnanefnd sem undirbjó daginn. Æfingin stóð yfir í þrjá klukkustundir og viðbrögð okkar voru æfð allt frá því að jarðhræringar fundust í nágrenni bæjarins og að því að rýma þurfti um helming sveitarfélagsins og finn íbúum neyðarhúsnæði. Fjölmargir sérfræðingar komu að málum, m.a. frá Veðurstofunni, Rauða krossinum ofl. Þá fengum við æfingu frá Guðrúnu Sóleyju fréttakonu í því að miðla upplýsingum til almennings á svona stundu. Virkilega góð og mikilvæg æfing sem við þurfum vonandi aldrei á að halda!

Við höfum ennfremur verið að vinna með KPMG að áhættugreiningu fyrir sveitarfélagið til næstu 10 ára og héldum góða vinnustofu þar sem kjörnum fulltrúum var einnig boðið um miðbik mánaðarins.

Ég hef verið að fresta því að setja pistilinn á vefinn í dag þar sem fundur stendur enn yfir hjá ríkissáttasemjara þar sem fjallað er um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Kennarasambands Íslands og sveitarfélaga og ríkis. Sveitarfélögin og ríki samþykktu miðlunartillöguna fyrir helgi eftir fund í stjórn sambandsins og með framkvæmdastjórum sveitarfélaga. Kennarasambandið vildi gera breytingar á tillögunni og sú umræða stendur yfir, samkvæmt opinberum upplýsingum um málið en sett hefur verið á fjölmiðlabann á meðan að viðræðurnar eru á þessum viðkvæma stað.

Verkföll hefjast að óbreyttu í 14 leikskólum og 7 grunnskólum á morgun. Leikskólakennarar á Höfðabergi, einum fjölmennasta leikskólanum okkar, hafa boðað verkfall og það mun hafa áhrif á flestum deildum skólans en leikskólinn er níu deilda skóli og í sex deildum erum við með fagmenntaða leikskólakennara sem deildarstjóra.

Bæjaryfirvöld fengu áskorun frá foreldraráðum í leik- og grunnskólum bæjarins, um að beita sér fyrir því að samningar næðust, svo ekki þyrfti að koma til verkfalla og þau skilaboð komust vel til skila.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboðið fyrir hönd stjórnar sambandsins og það er mikilvægt að deilan verði leyst við það samningaborð og einstaka bæjarstjórar og sveitarstjórnir hafa almennt ekki tjáð sig opinberlega um deiluna. Við fáum hinsvegar tækifæri til að skiptast á skoðunum á upplýsinga- og samráðsfundum sem eru haldnir reglulega með bæjar-og sveitarstjórum og bara í liðinni viku voru haldnir þrír fundir með samninganefndinni.

Kennarar eru fjölmennur og mjög mikilvægur hópur í okkar barnmarga sveitarfélagi og það er til mikils að vinna að ná að bæta starfsumhverfi í grunn- og leikskólum. Þess vegna hefur fjöldi aðila verið kallaður að samningaborðinu s.s. aðilar frá mennta-og barnamálaráðuneyti til að ræða þann þátt til viðbótar við launakröfur.

Þó að veðrið hafi verið rysjótt í janúar, þá hafa svo sannarlega verið margir fallegir dagar og bæjarbúar notið þess að komast á skíði í túnfætinum – hvort sem er á Blikastöðum eða á Hafravatni. Þá hafa verið ófáir eftirmiðdagar þar sem sólsetrið hefur verið ægifagurt og norðurljósin hafa dansað að kvöldi af mikilli list.

Vonandi fáum við góðan febrúar og getum notið alls þess besta sem gott vetrarveður býður upp á!

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00