Ágætu bæjarbúar,
Mikið var gaman að koma í íþróttahúsið í morgun og hitta um 500 starfsmenn leikskóla, grunnskóla, frístundastarfs og listaskóla til að ræða nýja menntastefnu Mosfellsbæjar, Heimurinn er okkar. Ég fékk þann heiður að ávarpa fundargesti í upphafi starfsdagsins. Stefnan er metnaðarfull og nafnið á henni vísar í mikilvægi fjölbreytileikans. Það er full ástæða til þess að óska öllum þeim sem komu að stefnunni til hamingju með afraksturinn. En engin stefna getur verið án góðrar aðgerðaáætlunar og það eru einmitt næstu skref, að fylgja henni eftir með markvissum aðgerðum.
Í gær ávarpaði ég gesti á jafnréttisdegi sem er haldinn árlega í Mosfellsbæ til heiðurs Helgu J. Magnúsdóttur en hún var fyrst kvenna oddviti í sveitarfélaginu og lét sig varða málefni kvenna með ýmsum hætti í sínum störfum. Efnistök dagsins sneru að jafnrétti á vinnumarkaðnum út frá ólíkum aldurshópum og voru erindin fjölbreytt frá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum sem hafa reynslu af vinnumarkaðnum úr ólíkum áttum. Upptökur frá fundinum verða settar á vef Mosfellsbæjar.
Ég náði að heimsækja nokkrar stofnanir í vikunni, Klapparhlíð sem er búsetukjarni og Hulduhlíð sem er heimili fyrir börn og hitta stjórnendur og starfsfólk. Ég fór einnig í þjónustustöðina og átti góðan fund með starfsfólki þar en þar er starfsfólk sem sinnir veitunum í Mosfellsbæ, garðyrkju og almennum þjónustustörfum.
Á fundi bæjarráðs í vikunni var tekið fyrir minnisblað frá starfshópi sem var settur á laggirnar af fulltrúum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og mótar tillögur um samræmingu úrgangsflokkunar. Þann 1. janúar 2023 taka gildi lagabreytingar um meðhöndlun úrgangs. Lagabreytingar kveða m.a. á um að innheimta vegna sorphirðu skuli vera sem næst raunkostnaði við meðhöndlun úrgangs. Breytingin hefur verið kölluð „borgað þegar hent er“ en ýmist er innheimt eftir rúmmáli eða þyngd úrgangs sem framleiddur er.
Ítarleg lýsing á valkostum sem verkfræðistofan Efla gerði fyrir sveitarfélögin á landinu:
Á fundinum var einnig farið yfir framkvæmdir í Kvíslarskóla. Jóhanna Hansen framkvæmdastjóri umhverfissviðs fór yfir stöðuna. Búið er að koma öllum lausum kennslustofum á endanlegan stað og er nú verið að ljúka síðustu handtökunum við öryggiskerfi, brunavarnir og pallasmíði. Stefnt er að öryggisúttektum á stofunum fyrir lok september og er horft til þess að stofurnar verði teknar í notkun á tímabilinu 26.-30. september.
Vinnu við anddyri og salerni 1. hæðar á að ljúka í október en gert er ráð fyrir að þá verði opnuð leið milli hæða og út í kennsluver, en þar er nú verið að undirbúa lagningu gólfefnis. Fyrirhugað er útboð á gluggum fyrir 1. og 2. hæð og uppúr áramótum fer fram útboð á endurinnréttingu 1. hæðar. Hafist verður handa við þá verkþætti um leið og búið er að ganga frá samningum við verktaka.
Enn og aftur vil ég færa nemendum, foreldrum og kennurum í Kvíslarskóla þakkir fyrir þolinmæðina og öllum framkvæmdaaðilum fyrir þeirra mikilvægu vinnu. Að þessu sögðu óska ég ykkur öllum góðrar helgar.
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1: Starfsdagur hjá starfsfólki leikskóla, grunnskóla, frístundastarfs og listaskóla.
Myndir 2-3: Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar haldinn hátíðlegur í Hlégarði.
Mynd 4: Helena Byron og Helena Vigdís í Klapparhlíð.
Mynd 5: María í Hulduhlíð.
Mynd 6: Starfsfólk þjónustustöðvar.
Mynd 7: Bæjarfulltrúar á námskeiði KPMG.
Myndir 8-10: Myndir frá framkvæmdum á Kvíslarskóla.
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024