Í dag tók ég þátt í stafrænni ráðstefnu á vegum sambands íslenskra sveitarfélaga og sat þar í pallborði ásamt nokkrum öðrum bæjarstjórum. Sif Sturludóttir leiðtogi upplýsingastjórnunar hjá Mosfellsbæ tók einnig þátt í pallborði ásamt stafrænum leiðtogum sveitarfélaga. Við kynntum báðar stöðu Mosfellsbæjar sem hefur tekið miklum framförum í stafrænni umbreytingu. Ástæðan fyrir því er að það hefur verið lögð áhersla á stafræna þróun á öllum stigum stjórnsýslunnar. Allt frá áherslum í meirihlutasáttmála núverandi bæjarstjórnar, með ákvörðun um ráðningu leiðtoga upplýsingastjórnunar, með stofnun verkefnishóps með starfsfólki allra sviða, með ítarlegri greiningu á innviðum og verklagi innan Mosfellsbæjar og með því hugarfari að læra af þeim bestu. „Við þurfum ekki að finna upp hjólið“ eins og Sif, okkar öflugi verkefnastjóri segir gjarnan. Stafræn umbreyting er að nálgast verkefni með nýjum hætti og horfa á þjónustuna út frá sjónarhorni notandans. Í vikunni var viðtal við Sif á vef Mosfellsbæjar. Viðtalið var upptaktur í nýjum þræði á vefnum sem eru „Sögur af vettvangi“ og við munum hefja vegferðina með því að birta nokkrar sögur af stafrænni umbreytingu.
Fyrir ráðstefnuna mætti ég á fund slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins þar sem við fórum meðal annars yfir fjárhagsáætlun 2024. Í vikunni var einnig vinnufundur með slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem var haldinn á slökkvistöðinni í Hafnarfirði að Skútuhrauni. Þar var farið yfir valkosti varðandi fjölgun slökkvistöðva en vegna íbúaaukningar á höfuðborgarsvæðinu er orðið brýnt að greina vel staðsetningu stöðvanna miðað við útkallstíma bæði slökkviliðsins og sjúkrabíla. Stjórn SHS samþykkti fyrr á árinu að setja á laggirnar starfshóp til að skoða og greina valkosti og hópurinn kom með áfanganiðurstöður á fundinum. Þær verða kynntar kjörnum fulltrúum á aðalfundi SSH.
Um síðustu helgi var mikið um að vera í Mosfellsbæ. Ásgarður hélt upp á 30 ára afmæli á laugardaginn og mikill fjöldi sem kom í Hlégarð til að fagna frábæru starfi. Meðal gesta voru Guðni forseti og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það var glatt á hjalla og mikið sungið og spilað.
Svo var það fótboltinn. Í fyrsta sinn í sögunni keppti Afturelding um sæti í Bestu deildinni. Liðið keppti á móti Vestra og staðan var 0:0 í leikslok. Vestri tryggði sér svo sigurmarkið í framlengingu. Mikil vonbrigði en okkar lið hefur staðið sig frábærlega í sumar og öll umgjörð hjá stjórn félagsins, starfsmönnum og sjálfboðaliðum hefur einkennst af metnaði og gleði, Fyrir það ber að þakka!
Á mánudeginum voru eigendafundir Strætó og Sorpu vegna fjárhagsáætlunar og stjórnarfundur SSH. Þá var haldinn fundur sjálfseignastofnunarinnar Skálatúns að viðstöddum mennta- og barnamálaráðherra. Það er mjög viðamikið verkefni, að undirbúa nýtingu svæðisins í þágu barna og fjölskyldna og mörg handtökin sem þarf að taka á næstu vikum og mánuðum.
Á mánudaginn fengum við nýja starfsmenn, þær Ólafíu Dögg Ásgeirsdóttur skrifstofustjóra umbóta og þróunar og Dóru Lind Pálmadóttur leiðtoga umhvefis og framkvæmda. Þá eru þau öll komin sem voru ráðin í stjórnendastöður í sumar og ég bind miklar vonir við samstarfið við þau.
Það voru fjölmargir innanhússfundir í vikunni að venju, enda erum við á kafi i fjárhagsáætlun eins og alltaf á þessum árstíma. Í bæjarráði fengum við kynningu frá fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur um vindorkukosti í nágrenni Hellisheiðar en Orkuveitan er að kanna þrjár staðsetningar á svæðinu fyrir vindorku, meðal annars við Lyklafell sem er innan sveitarfélagsins. Málið er á frumstigi og er stefnt að því að halda opinn fund á vegum Orkuveitunnar síðar í haust.
Þingmenn Suðvesturkjördæmis heimsóttu Mosfellsbæ á fimmtudag og tókum við á móti þeim í húsnæði bæjarins á neðri hæðinni í golfskálanum. Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs bauð þá velkomna og fékk þingmenn, ráðherra og bæjarfulltrúa til að taka nokkrar æfingar í morgunsárið. Forsíðumyndin er einnitt frá einni slíkri æfingu. Ég kynnti svo fyrir þeim helstu tækifæri og áskoranir sem bærinn stendur frammi fyrir, sem og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu almennt. Ég byrjaði þó á glæru um þau mál sem við teljum ástæðu til að þakka fyrir og það er að Sundabraut sé komin á dagskrá, stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra en við fengum viðbótarstækkun úr 44 rýmum í 66 í ár, fjölgun dagdvalarrýma úr 9 í 15, friðlýsing Leiruvogs, samgöngustíg og breikkun Vesturlandsvegar auk samningsins um Skálatún en allt eru þetta verkefni sem komu til framkvæmda eða hafa verið samþykkt á árunum 2022 og 2023. Það þarf nefnilega stundum að staldra við og átta sig á öllum þeim verkefnum sem eru í góðum farvegi því hin viðfangsefnin eru næg.
Það er frábært veður í dag og ég ætla að reyna að ná góðum göngutúr áður en það fer að dimma of mikið.
Góða helgi!