Vinnuvikan hófst með hefðbundnum hætti. Fyrsti fundurinn var klukkan átta á mánudagsmorgni með fulltrúum okkar í viðræðunefnd við ríkið um samgöngusáttmálann þar sem við fórum yfir stöðu mála. Fyrir hönd samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sitja Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH í nefndinni, Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs í Kópavogi, Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari í Garðabæ og Birgir Björn Sigurjónsson ráðgjafi. Í bakhópi viðræðuhópsins erum við Ásdis Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Klukkan níu var svo framkvæmdastjórnarfundur, þar sem ég fer yfir málefni vikunnar með sviðsstjórum og ýmis mál sem koma upp í rekstrinum. Ég átti svo fundi kl. 10.30 vegna Barnvæns samfélags þar sem við vorum að fara yfir stöðuna á verkefninu en bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að sækja um viðurkenningu Unicef sem Barnvænt samfélag. Til þess þarf að skila verkefnum í átta áföngum. Við erum í skrefi 2, sem er umfangsmikil greiningarvinna. Verkefnisstjóri Barnvæns samfélags í Mosfellsbæ er Hugrún Ósk Ólafsdóttir og formaður er Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi.
Ég átti síðan fund kl. 11.30 með sérfræðingum skólaþjónustunnar og sviðsstjóra fræðslu og frístundasviðs þar sem við fórum yfir næstu skref varðandi innleiðingu farsældar í Mosfellsbæ. Við höfum notið góðs af því að hafa verið með mjög öflugan verkefnisstjóra sem hefur byggt upp Farsældarhring Mosfellsbæjar og kortlagt mjög vel þau skref sem við verðum að taka í verkefninu. Ég átti svo fund um ráðningarsamninga með mannauðsstjóra og deildarstjóra launadeildar og í framhaldinu fund til að fara yfir lóðir í eigu Mosfellsbæjar. Þá átti ég fund með sviðsstjóra umhverfissviðs til að undirbúa drög að fjárfestingaáætlun næsta árs.
Deginum lauk í Sveinatungu í Garðabæ þar sem stjórn SSH átti vinnufund með fulltrúum Betri samgangna til að fara yfir forgangsröðun sveitarfélaganna í tengslum við endurskoðun samgöngusáttmálans. Fundinum lauk á áttunda tímanum um kvöldið.
Á þriðjudeginum átti ég fasta fundi innanhúss en eftir hádegi tók ég á móti stjórnarfólki úr sjálfseignastofnuninni Skálatúni ses, þeim Haraldi Líndal Haraldssyni og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur ásamt fulltrúum úr mennta- og barnamálaráðuneyti. Með mér voru stjórnendur í velferðarþjónustunni í Mosfellsbæ, þau Sigurbjörg Fjölnisdóttir og Gestur Guðrúnarson. Við fórum á öll heimilin í Skálatúni og heilsuðum upp á íbúa og starfsfólk en heimilin eru sex talsins. Þá skoðuðum við líka dagþjálfun Skálatúns sem er tímabundið í Hlöðunni, einnig aðalbygginguna þar sem skrifstofur Skálatúns hafa verið, húsnæði dagþjálfunarinnar sem stendur autt vegna skemmda og sundlaugina þar sem við hittum Snorra Magnússon sem rekur ungbarnasund og hefur gert síðastliðin 30 ár við frábærar undirtektir.
Stjórn Skálatúns ses sem ég á sæti í fyrir hönd Mosfellsbæjar mun fara með eignir Skálatúns og undirbúa svæðið fyrir uppbyggingu.
Framsal lóðarréttinda til sjálfseignastofnunarinnar frá IOGT var bundið þeirri kvöð að framtíðaruppbygging á svæðinu verði einungis í þágu hagsmuna barna og fjölskyldna auk þess sem frekari takmarkanir eru á framsali landsins. Sú uppbygging sem stefnt er að felur í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar verði staðsettir á sama svæðinu. Markmiðið með því er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Í samningunum eru einnig sólarlagsákvæði þess efnis að núverandi íbúar á Skálatúni geti búið áfram í þeim búsetukjörnum sem hafa verið byggðir, þrátt fyrir undirbúning að framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Þó er ljóst að einhverjir íbúar eru tilbúnir að flytja í aðra kjarna á vegum Mosfellsbæjar og hefur bærinn skuldbundið sig til þess að veita íbúunum þjónustu við hæfi.
Á miðvikudagsmorgninum mætti ég á umhverfisnefndarfund kl. 7.30 þar sem ég var með kynningu á helstu tillögum að stjórnkerfisbreytingum og nýju skipuriti Mosfellsbæjar. Þá var framhaldsfundur SSH, vegna samgöngusáttmálans – og svo var ég mætt til Sillu, Sigurlaugar Jónasdóttur dagskrárgerðarkonu í þáttinn Segðu mér, sem hófst rúmlega 9.00.
Ég átti síðan nokkra fasta fundi fram eftir degi og síðan hófst bæjarstjórn kl. 16.00 og stóð framyfir kvöldmat.
Á fimmtudeginum fengum við góðan gest í bæjarráð, Ingu Hlín Pálsdóttur framkvæmdastjóra markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins sem fór yfir stöðu mála fyrstu mánuði í starfsemi markaðsstofunnar en Inga Hlín var ráðin til starfa síðastliðið vor.
Stofan er markaðs- og áfangastaðastofa fyrir ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu í heild og samstarfsvettvangur sveitarfélaganna, stjórnvalda og atvinnugreinarinnar. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga fulltrúa í stjórninni og er Sævar Birgisson bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ í stjórn Markaðsstofunnar. Inga Hlín var staðsett á bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar þessa vikuna og notaði tímann til að kynnast starfseminni og funda með nokkrum fyrirtækjum og stofnunum í bænum til að ræða tækifærin og framtíðina. Við skrifuðum undir tveggja ára samning um þátttöku Mosfellsbæjar í rekstri markaðsstofunnar í kjölfar bæjarráðsfundarins.
Í gær kvöddum við Jóhönnu Magnúsdóttur sem lét af störfum eftir tæplega 30 ár hjá Mosfellsbæ. Jóhanna hefur verið verkefnisstjóri grunnskólamála á fræðslu- og frístundasviði síðastliðin fjögur ár. Hún hóf sinn starfsferil í Mosfellsbæ árið 1991 sem dagforeldri. Jóhanna var kennari í Varmárskóla á árunum 1994 til 1999 þegar hún færði sig yfir í Vestursetrið sem var útibú frá Varmárskóla og samanstóð af lausum kennslustofum. Vestursetrið var undir stjórn Varmárskóla þar til Lágafellsskóli var stofnaður árið 2002. Jóhanna var ráðin skólastjóri og gegndi því starfi til ársins 2019. Kennslu- og stjórnendaferill Jóhönnu spannar tæp 50 ár og þar af 29 ár í Mosfellsbæ. Gunnhildur Sæmundsdóttir sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs flutti ræðu og þakkaði Jóhönnu fyrir framúrskarandi störf í þágu Mosfellsbæjar. Þær Gunnhildur og Jóhanna prýða forsíðumynd pistilsins þessa vikuna.
Í morgun skrifuðum við undir viðauka við verksamning við Íslenska Gámafélagið og gildir sá samningur til 30 júní 2024. Í honum felst m.a. að við bjóðum eigendum fámennra sérbýla að sækja um tvískiptar tunnur fyrir pappa og plast. Þá verður aukin tíðni sorphirðu frá og með 1. október næstkomandi og pappír/pappi og plastumbúðir á 21 daga fresti. Matarleifar og blandaður úrgangur verður áfram hirtur á 14 daga fresti.
Það er ótrúlega spennandi helgi framundan en Afturelding og Vestri spila til úrslita um sæti í Bestu deild karla Lengjudeildinni á Laugardalsvelli á morgun kl. 16.00. Knattspyrnudeildin stendur fyrir fjölskylduupphitun frá kl. 13.00 í Kjarna og eru nánari upplýsingar að finna á Facebook síðu Aftureldingar.
Þá er 30 ára afmæli Ásgarðs haldið hátíðlegt á morgun með opnu húsi í Hlégarði. Það er því nóg um að vera og óskandi að veðrið haldist svona fallegt á morgun, eins og það er núna.
Góða helgi og áfram Afturelding!
Tengt efni
Pistill bæjarstjóra febrúar 2025
Pistill bæjarstjóra janúar 2025
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!