Þema myndefnis með pistlinum í dag er Bleiki dagurinn sem er haldinn hátíðlegur í dag, föstudag, víða á vinnustöðum landsins. Bæjarskrifstofan lét ekki sitt eftir liggja en tók forskot á sæluna og hélt Bleika daginn hátíðlegan í gær með tilheyrandi bakkelsi og bleikum skreytingum. Og allir tíndu til bleiku fötin úr fataskápnum. Á forsíðumyndinni eru með mér þær Ólafia Dögg Ásgerisdóttir skrifstofustjóri umbóta og þróunar, Sif Sturludóttir leiðtogi upplýsingastjórnunar og Sigurbjörg Fjölnisdóttir sviðsstjóri velferðarviðs.
Annars hefur vikan ekki verið tíðindamikil, ef frá er talin tillaga frá fulltrúum VG í borgarstjórn Reykjavíkur á þriðjudag um að fela borgarstjóra sameiningarviðræður við Mosfellsbæ og Seltjarnarnes. Tillögunni var vísað frá af meirihlutanum í borgarstjórn en hún vakti töluverða athygli. Ég fékk símtal frá blaðamanni Morgunblaðsins sama morgun og tillagan var flutt í borgarstjórninni og svaraði eins og var, að tillagan hefði komið á óvart og þetta mál hefði ekki verið til umræðu hjá kjörnum fulltrúum og ég teldi ekki mikinn áhuga. Það eru auðvita kjörnir fulltrúar sem taka slíkar ákvarðanir og þá yfirleitt að undangengnum viðræðum og kosningum. Oft er aðdragandi að slíkum tillöguflutningi og samtal á milli kjörinna fulltrúa þvert á sveitarfélagamörk, sem var ekki í þessu tilviki og kom tillagan fram flestum að óvörum.
Á mánudag bauð golfklúbburinn bæjarfulltrúum í heimsókn þar sem formaður klúbbsins, Kári Tryggvason kynnti þá miklu starfsemi sem fer fram í klúbbnum. Um 2.200 manns eru meðlimir í Golfklúbbi Mosfellsbæjar og þar af eru rúmlega 900 Mosfellingar. Barnastarfið er mjög rómað enda fá börn og ungmenni ókeypis í klúbbinn ef foreldrar eru meðlimir. Golfklúbbi Mosfellsbæjar hefur gengið afar vel á mótum og til dæmis urðu bæði lið kvenna og karla Íslandsmeistarar sumarið 2022.
Golfklúbburinn hefur sótt um stækkun vallarins, með það að markmiði að snúa vellingum og bæta aðstæður og öryggi og sendu inn umsögn við Aðalskipulag Mosfellsbæjar, sem er að finna í skipulagsgáttinni ásamt öðrum umsögnum en alls barst 41 umsögn.
Á mánudaginn vorum við líka með vinnufund fyrir bæjarfulltrúa um drög að fjárfestingaáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2023. Stefnt er að því að leggja fjárhagsáætlun og fjárfestingaáætlun fram á aukafundi bæjarráðs þann 31. október.
Á mánudaginn var einnig vinnufundur stjórnar samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þá var stjórnarfundur samtakanna þar sem fjárhagsáætlun samstarfsnefndar um skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins var tekin fyrir. Þá voru eigendafundir Sorpu og Strætó þar sem fjárhagsáætlanir voru einnig teknar fyrir.
Fyrir fimm árum var skrifað undir samkomulag á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um stórfellda uppbyggingu í Bláfjöllum, m.a.kaup á nýjum lyftum og tækjum til snjóframleiðslu. Aðstaðan í Bláfjöllum hefur gjörbreyst og má segja að framkvæmdirnar hafi verið mjög vel heppnaðar. Í samkomulaginu var einnig kveðið á um uppbyggingu af hófsamari tagi í Skálafelli og átti að kaupa þangað notaða lyftu. Það mál var síðan skoðað og komist að því að það borgaði sig ekki að fara í slík kaup heldur yrði að fjárfesta í nýrri lyftu auk þess sem skálinn þyrfti endurbætur. Kostnaðaráætlun fyrir endurbætur í Skálafelli hefur því aukist úr rúmum milljarði í tæplega þrjá milljarða. Stjórn skíðasvæðanna lagði því til að fresta framkvæmdum um tvö ár og endurskoða þarfagreiningar og kostnaðaráætlanir. Þá var lagt til að loka skíðasvæðinu, þar til endurbætur hafi farið fram en stjórn SSH lagði áherslu á að svæðinu yrði haldið opið þegar aðstæður væru til og var það samþykkt.
Á þriðjudag var ég aðallega með innanhússfundi, meðal annars erum við að undirbúa okkur fyrir kvennaverkfallið sem verður haldið á þriðjudaginn 24. október næstkomandi. Á fjórða tug samtaka hafa hvatt konur og kvár til þess að leggja niður störf og sömuleiðis hvatt atvinnurekendur til þess að hliðra til þannig að konur geti tekið þátt í deginum. Í Mosfellsbæ eru um 75 % starfsmanna konur og því ljóst að það verður heilmikil skerðing á starfsemi bæjarins. Þó er fyrirvari um störf með viðkvæma hópa, s.s. í velferðarþjónustu og almannaþjónustu og ekki gert ráð fyrir að sú starfsemi skerðist.
Á miðvikudag hófst dagurinn á starfsmannafundi sem Kristján Þór Magnússon sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfis stýrði. Við fórum yfir ýmis praktísk mál, s.s. innleiðingu Vinnustundar, sem er nýtt innstimplunarkerfi. Einnig kynnti Kristján hugbúnaðinn Moodup sem mælir starfsánægju í rauntíma í stað þess að taka kannanir einu sinni á ári. Með því móti geta stjórnendur brugðist hraðar við ef það kemur upp vandi í starfseminni. Eftir hádegi fórum við stjórnendahópurinn á námskeið í leiðtogafærni og teymisvinnu sem var undir stjórn Sigríðar Indriðadóttur, fyrrum mannauðsstjóra Mosfellsbæjar sem sinnir stjórnendaþjálfun fyrir fyrirtæki og stofnanir í dag.
Í bæjarráði á fimmtudag var samþykkt að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Mineral ehf., í kjölfar útboðs á eldhúsbyggingu við Reykjakot og förgun eldra húss. Tilboð Mineral er kr. 108.100.000. Heildarkostnaður framkvæmda er áætlaður kr. 113.243.162.
Þá var samþykkt að að senda tvær umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðmannastaða fyrir árið 2024, annars vegar vegna sundaðstöðu við Hafravatn og hins vegar vegna framkvæmdar á útivistarsvæði við Hamrahlíð við Úlfarsfell. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er sjóður í vörslu Ferðamálastofu og er markmið og hlutverk hans að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt. Sjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja. Styrkurinn getur numið 80% af styrkfjárhæð og mótframlag umsækjenda er 20%.
Uppbygging á sundaðstöðu við Hafravatn er verkefni sem upphaflega var samþykkt í íbúakosningunni Okkar Mosó árið 2021. Baðaðstaðan er fyrirhuguð við norðurenda Hafravatns. Þar yrðu framkvæmd bílastæði, einföld búningsaðstaða, hugsanleg sturtuaðstaða og pallur út í vatn. Verkefnið er ekki hafið og hönnun liggur ekki fyrir. Lagt er til að sótt verði um styrk fyrir hönnun aðstöðunnar og þar með undirbúning á verkefninu. Heildarkostnaður er áætlaður 7.000.000 kr.
Hitt verkefnið sem sótt var um er útivistarsvæðið við Hamrahlíð við Úlfarsfell. Svæðið er þegar skilgreint sem ferðamannastaður í áfangastaðaáætlun Markaðsstofu höfuborgarsvæðisins. Úlfarsfell er mjög vinsæll áningarstaður til útivistar. Gönguleiðin er vel sótt af höfuðborgarbúum og svæðið er einnig fjölsótt þegar jólatrésala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar hefst skömmu fyrir hátíðir. Sótt er um styrk fyrir lagfæringum á bílaplani auk stækkunar og nýrri umgjörð bílastæðanna og aðkomu. Í umsókninni verður einnig sótt um styrk fyrir gerð nýrra upplýsingaskilta. Heildarkostnaður er áætlaður kr. 12.000.000 kr.
Fleiri mál voru einnig tekin fyrir í bæjarrráðinu og hægt er að skoða fundargerðina hér fyrir neðan.
Góða helgi!