Það er farið að hausta og skólastarf er komið á fullt í grunn- og leikskólum Mosfellsbæjar. Það á meðal annars við um Helgafellsskóla en skólinn tekur þátt í vitundarvakningunni Göngum í skólann sem er verkefni sem ÍSÍ setti á laggirnar fyrir rúmlega 20 árum og 60 skólar taka þátt í. Verkefnið var formlega sett á miðvikudaginn í Helgafellsskóla að viðstöddum nemendum í skólanum og foreldrum þeirra, mennta-og barnamálaráðherra, heilbrigðisráðherra, ríkislögreglustjóra og forsvarsfólki ÍSÍ. Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri bauð gesti velkomna og Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs ávarpaði gesti fyrir hönd Mosfellsbæjar. Að athöfn lokinni var gengið um nágrenni skólans. Þeir sem að verkefninu standa eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Mennta- og barnamálaðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli. Ég gat því miður ekki verið viðstödd en fékk leyfi til að nýta myndir frá ÍSÍ með færslunni.
Í vikunni fundaði bæjarstjórn og bæjarstjóri með ungmennaráði en það voru þau Eyrún Birna Bragadóttir, Edda Steinunn Erlendsdóttir Scheving, Katrín Vala Arnarsdóttir Linden og Sigurður Óli Karlsson sem komu á fundinn. Þau fóru yfir helstu atriðin sem komu fram á barna- og ungmennaþingi sem haldið var í Mosfellsbæ 13. apríl sl. á vegum verkefnisins Barnvænt sveitarfélag.
Dæmi um áherslur frá barna- og ungmennaþinginu sem voru ræddar á fundinum með bæjarstjórn voru meðal annars strætisvagnasamgöngur í Mosfellsbæ og aðrar samgöngur eins og rafhlaupahjól. Þá var einnig rætt um málefni barna með sérþarfir, s.s. lesblindra nemenda og barna og unglinga með ADHD, umhverfismál og mismunandi kennsluhætti í grunnskólum bæjarins. Auk þess var fjallað um opnunartíma félagsmiðstöðva og sundlauga, ungmennahús og hugmynd ungmennaráðs um ungmennaseríu, stigakeppni fyrir alla aldurshópa í tengslum við skóla og vinnuskóla.
Nánari umfjöllun um fundinn:
Um miðbik vikunnar boðuðu verkefnisstjórar bæjarhátíðarinnar, Í túninu heima til fundar í Hlégarði til að fara yfir alla þætti hátíðarinnar, þ.e. hvað gekk vel og hvað má bæta. Rúmlega 20 manns mættu og farið var yfir verkefni s.s. hreinsun bæjarins, rafmagnsmál, gæsluna, skreytingar, einstaka viðburði, svo fátt eitt sé nefnt. Samhljómur var á milli fundarmanna að hátíðin hefði verið einstaklega vel heppnuð og aðsóknin frábær. Þó er eitt og annað sem má laga, eins og rafmagnsmálin í Álafosskvosinni, strætisvagnasamgöngur og fleira. Ég sagði frá því að ég hefði fengið bréf frá 8 ára nemanda, í Varmárskóla sem hrósaði hátíðinni en vildi koma því á framfæri að tækin í tívolíinu væru annarsvegar fyrir 3-5 ára börn og hinsvegar fyrir 14 til 50 ára. Hún saknaði þess að það væru ekki tæki fyrir aldurshópinn 8 til 12 ára. Ég lofaði henni að við myndum fylgja málinu eftir!
Í vikunni var töluvert um fundi, eins og endranær. Ég stýrði eigendafundum Sorpu og Strætó, þar sem farið var m.a.yfir forsendur fjárhagsáætlunar 2024. Einnig stjórnarfundi samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem farið var yfir stöðu endurskoðunar á Samgöngusáttmálanum. Reiknað er með því að sú vinna taki einhverjar vikur til viðbótar. Í morgun sat ég stjórnarfund slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og þar voru fjölmörg mál til efnislegrar umræðu. M.a. fjárhagsáætlun og húsnæðismál slökkviliðsins en það er stefnt að því að slökkviliðið færi sig yfir í nýtt húsnæði við Sundahöfn á næstu árum, ásamt almannavörnum, lögreglunni og fleiri aðilum.
Ég læt þennan frekar stutta pistil duga þessa vikuna og óska lesendum góðrar helgar.