Það er alltaf tilhlökkun þegar mars ber að garði – styttist í vorið og hlýnandi daga.
Febrúar hefur vissulega einkennst af þeirri stöðu sem hefur verið í kjaramálum kennara en það er fagnaðarefni að kjarasamningar voru undirritaðir seint á mánudagskvöld. Það var eftir að sveitarfélög höfðu hafnað innanhússtillögu ríkissáttasemjara sem var önnur tilraun til að ná sáttum eftir að kennarar höfðu áður hafnað svipaðri tillögu nema með lægri prósentutölu.
Það gekk mikið á í karphúsinu í aðdraganda samninganna og harðar aðgerðir boðaðar. Í byrjun mánaðar fór leikskólinn Höfðaberg í ótímabundið verkfall ásamt fjölda leikskóla í mismunandi sveitarfélögum. Félagsdómur úrskurðaði að verkföll í sveitarfélögum, þar sem væri fleiri en einn skóli, væru ólögleg nema allir skólarnir hjá sama vinnuveitenda færu í verkfall. Sveitarfélagið væri vinnuveitandinn en ekki einstaka skóli. Verfallið stóð því í viku en þann 3. mars voru boðuð verkföll í öllum leikskólum í Kópavogi, Hafnarfirði og Hveragerði. Þá voru fimm framhaldsskólar komnir í verkföll í lok mánaðar og tímabundnnar verkfallsaðgerðir boðaðar í grunnskólum.
Kennurum var lofuð leiðrétting launa árið 2016, þegar þeir afsöluðu sér tilteknum lífeyrisréttindum. Þá leiðréttingu sóttu þau mjög fast í þessum kjaraviðræðum. Það var erfitt fyrir sveitarfélögin að mæta þessum kröfum núna af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að sátt hafði náðst á vinnumarkaði um 3,5 % hækkanir á ári í fjögur ár í stöðugleikasamningum og það að fara verulega fram yfir það gæti skapað óróleika. Hitt er fjárhagsstaða sveitarfélaga sem er enn mjög erfið í kjölfar Covid og þeirrar verðbólgu og vaxta sem hefur einkennt efnahagslífið.
Það náðist sátt um að fara svokallaða virðismatsleið þar sem störf og starfsumhverfi kennara fer í gegnum mat sem Jafnlaunastofa mun sjá um en vinnan mun lúta stjórn ríkissáttasemjara. Aðrir sérfræðingar á vegum hins opinbera hafa farið í gegnum slíkt mat og það er til mikils að vinna fyrir sveitarfélögin að fá kennarastarfið einnig inn í það virðismat. Þá náðist samkomulag um að kennarar fengju 8 % launahækkun ofan á 3,5 % hækkun þessa árs, sem er fyrirframgreiðsla inn í virðismatsvegferðina. Fyrir Mosfellsbæ þýðir fyrirframgreiðslan 300 milljóna króna aukagreiðslu á árinu 2025 sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Á móti mun koma einhver hækkun útsvars.
Við fengum innsýn í fyrirhugaðar aðgerðir ríkisins sem tengjast umhverfi barna á fundi Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær, en þar kom fram að ríkið muni taka alfarið yfir þjónustu við börn og ungmenni með fjölþættan vanda. Verði þær að veruleika mun það muna töluverðu fyrir starfsumhverfi fagfólksins okkar, hvort heldur er í skólum, í barnavernd og annarri sérfræðiþjónustu.
Ég lít því bjartsýn fram á veginn og fagna því að við höfum náð þessu samkomulagi og hlakka til að vinna að bættu starfsumhverfi í leik og grunnskólum og vonast til að við náum að fá fleira fagfólk í þessi mikilvægu störf í kjölfar samninganna.
Það er annað mál sem hefur einkennt þennan mánuð og það eru húsnæðismál leikskólans Hlaðhamra. Ég sagði frá því í síðasta pistli að engin starfsemi hafi verið í eldri hluta leikskólans Hlaðhamra frá 6. janúar. Þá fluttu kennarar og 22 börn í kennslurými í Krikaskóla en 30 börn voru áfram í nýrri hluta Hlaðhamra. Stefnt hefur verið að því að loka leikskólanum alveg í sumar og þau börn sem eiga að vera áfram í Hlaðhömrum eftir sumarfrí flytjist í nýja leikskólann í Helgafellshverfi sem á að verða tilbúinn í lok júní næstkomandi.
Við fengum verkfræðistofuna Eflu til að skoða nokkra staði í þeim hluta leikskólans sem er kölluð ,,nýja“ byggingin og niðurstaðan af þeirri skoðun leiðir í ljós að það húsnæði uppfyllir ekki þau viðmið sem við viljum hafa um heilnæm loftgæði þannig að við munum alfarið loka leikskólanum núna í fyrrihluta mars og flytja þau börn sem eru þar núna í tímabundið bráðabirgðahúsnæði. Við höfum haldið fundi með foreldrum og starfsfólki síðustu daga og erum að leggja lokahönd á tillögur að staðsetningu bráðabirgðahúsnæðis. Þær Sveinbjörg og Guðrún leikskólastjórar og allt þeirra starfsfólk á hrós skilið fyrir þrautseigju og aðlögunarhæfni í krefjandi aðstæðum. Það verður mikið gleðiefni þegar nýi leikskólinn tekur til starfa í Helgafelli og bæði börn og starfsfólk Hlaðhamra fær varanlegar starfsaðstæður. Þá hefur bæjarráð samþykkt að fara í heildarendurskoðun á húsnæði leikskólans Hlaðhamra til þess að meta hvort eigi að rífa allt húsið og byggja nýtt eða að hluta. Það helst einnig í hendur við framtíðarsýn um uppbyggingu leikskóla í bænum.
Margir skemmtilegir viðburðir hafa átt sér stað í febrúar. Þar ber hæst ljósasýningin í Helgafelli dagana 7 og 8 febrúar. Það mæltist einstaklega vel fyrir hjá bæjarbúum að fá þessa sýningu í skammdeginu og gaman að gera tilraun með að lýsa á heilt fell. Hönnun verksins var í höndum Arnar Ingólfssonar, ljósameistara HljóðX, og sá Hákon Hákonarson um að forrita lýsinguna. Meira um það hér.
Við héldum upp á 30 ára afmæli Reykjakots í febrúar og notuðum tækifærið og vígðum nýtt eldhús sem er algjör bylting fyrir leikskólann. Auk eldhússins þá hefur bæst við starfsmannaaðstaða og vinnuaðstaða leikskólastjóra en það var verktakinn Mineral sem sá um framkvæmdina og notaðist við svokallaða Durisol kubba í burðarvirkið á nýju byggingunni sem er 97 fermetrar að stærð. Hér má sjá frétt um afmælið og vígsluna.
Undir lok mánaðarins voru samstarfssamningar undirritaðir við sex íþrótta-og tómstundafélög í bænum og samráðsvettvangur félaganna stofnaður. Samningarnir byggja á fyrri samningum, áherslum íþrótta- og tómstundanefndar og samtölum starfsmanna menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs við forystu félaganna. Sérstök áhersla er nú lögð á að stuðla að auknu framboði íþrótta og tómstunda fyrir börn með sértækar þarfir og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Um er að ræða hestamannafélagið Hörð, björgunarsveitina Kyndil, ungmennafélagið Aftureldingu, skátafélagið Mosverja, Motocrossfélag Mosfellsbæjar og Kraftlyftingafélag Mosfellsbæjar. Auk þess er í gildi samstarfssamningur við Golfklúbb Mosfellsbæjar sem gildir út árið 2027. Hér má sjá nánari frétt um samstarfið.
Dagskráin í vetrarfríinu í Mosfellsbæ var glæsileg að vanda en á mánudaginn stýrði Vilborg Bjarkadóttir myndlistarkona klippimyndasmiðju í bókasafninu þar sem þátttakendur skoðuðu sérstaklega fellin í nágrenni Mosfellsbæjar. Á þriðjudaginn voru það svo kórónurnar sem réðu ríkjum en fjöldinn allur af börnum og fullorðnum notuðu tækifærið og föndruðu glæsileg höfuðdjásn í kórónusmiðju. Forsíðumyndin er einmitt frá glöðum börnum í bókasafninu.
Að lokum vil ég minnast Hilmars Tómasar Guðmundssonar, varaformanns menningar-og lýðræðisnefndar og varabæjarfulltrúa sem varð bráðkvaddur þann 21. febrúar síðastliðinn. Hilmar var kjörinn í menningar- og lýðræðisnefnd fyrir hönd B lista Framsóknarflokks vorið 2022 og sinnti sínum verkefnið fyrir bæjarfélagið með miklum sóma.
Ég votta eiginkonu Hilmars, Karlottu Lind Pedersen, börnum þeirra og öðrum ástvinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Tengt efni
Pistill bæjarstjóra janúar 2025
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024