Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
30. september 2022
Regína Ás­valds­dótt­ir

Vik­an hef­ur ein­kennst af miklu sam­starfi og sam­ráði á milli kjör­inna full­trúa sveit­ar­fé­laga og fram­kvæmda­stjóra en lands­fundi Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga lauk á Ak­ur­eyri í dag. Yf­ir­skrift þings­ins var Grunn­ur að góðu sam­fé­lagi. Helsta verk­efni fund­ar­ins var að móta stefnu sam­bands­ins til næstu fjög­urra ára, með­al ann­ars um sam­spil rík­is og sveit­ar­fé­laga.

Full­trú­ar Mos­fells­bæj­ar voru bæj­ar­full­trú­arn­ir Aldís Stef­áns­dótt­ir, Anna Sig­ríð­ur Guðna­dótt­ir, Lovísa Jóns­dótt­ir, Ás­geir Sveins­son og Jana Katrín Knúts­dótt­ir auk bæj­ar­stjóra. Á lands­þing­inu var eft­ir­far­andi álykt­un sam­þykkt um mál­efni fatl­aðs fólks;

,,XXXVII. lands­þing Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga sem hald­ið er á Ak­ur­eyri dag­ana 28.-30. sept­em­ber 2002 sam­þykkti fyr­ir stundu eft­ir­far­andi álykt­un er varð­ar mál­efni fatl­aðs fólks.

Fjár­hags­staða sveit­ar­fé­laga á Ís­landi er grafal­var­leg. Frá ár­inu 2019 hef­ur sveit­ar­fé­lög­um sem ekki upp­fylla lág­marks­við­mið um fjár­hags­lega sjálf­bærni og eru und­ir eft­ir­liti eft­ir­lits­nefnd­ar með fjár­mál­um sveit­ar­fé­laga fjölgað úr 12 í 30. Van­fjár­mögn­un vegna þjón­ustu við fatlað fólk er ein meg­in or­sök fjár­hags­vanda mar­gra sveit­ar­fé­laga. Ít­ar­leg grein­ing starfs­hóps fé­lags­mála­ráð­herra um rekst­ur mála­flokks fatl­aðs fólks sýn­ir að hall­inn á mála­flokkn­um árið 2020 nam 8,9 millj­örð­um króna. Ætla má að hall­inn nemi nú um 12 til 13 millj­örð­um króna.

Í yf­ir­stand­andi við­ræð­um sveit­ar­fé­laga og rík­is­ins legg­ur sam­band­ið þunga áherslu á að fá fjár­hags­lega leið­rétt­ingu frá rík­inu til að standa und­ir út­gjöld­um sveit­ar­fé­laga vegna þjón­ustu við fatlað fólk, en gríð­ar­leg­ur vöxt­ur út­gjalda er einkum til kom­inn vegna auk­inna krafna í lög­gjöf og regl­um um hærra þjón­ustust­ig. Mik­il­vægt er að nið­ur­staða við­ræðna liggi fyr­ir eigi síð­ar en 1. des­em­ber 2022 og að sveit­ar­fé­lög­in fái þá strax leið­rétt­ingu.  Jafn­framt lýs­ir sam­band­ið þeim vilja að tekn­ar verði upp við­ræð­ur við rík­ið um fram­tíð­ar­fyr­ir­komulag og fjár­mögn­un þjón­ustu við fatlað fólk.

Sveit­ar­stjórn­ar­lög kveða á um skyldu stjórn­valda að kostn­að­ar­meta þau verk­efni sem sveit­ar­fé­lög­um er fal­ið að sinna. Þjón­usta við fatlað fólk er stór­lega van­fjár­mögn­uð af hálfu rík­is­ins og veg­ur að mögu­leik­um sveit­ar­fé­laga til að ná sjálf­bærni í rekstri. Eng­inn ávinn­ing­ur er af því fyr­ir rík­ið og sam­fé­lag­ið í heild að sveit­ar­fé­lög reki verk­efni með halla eða taki að sér ný verk­efni sem ekki eru fjár­mögn­uð.“

Í þess­ari viku átti ég fund með Guð­mundi Inga Guð­brands­syni fé­lags- og vinnu­mark­aðs­ráð­herra ásamt fram­kvæmda­stjóra fjöl­skyldu­sviðs en ráð­herra hef­ur boð­að full­trúa stærstu sveit­ar­fé­laga lands­ins á fundi til að ræða sam­ræmda mót­töku flótta­fólks. Fyr­ir liggja drög að samn­ing­um sem ráðu­neyt­ið hef­ur óskað eft­ir að sveit­ar­fé­lög­in  skrifi und­ir með skuld­bind­ingu um að þau taki á móti flótta­fólki þann­ig að það verði eðli­leg dreif­ing á bú­setu fólks­ins, ekki síst á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Það sem mörg sveit­ar­fé­lög hafa gagn­rýnt í samn­ings­drög­un­um er að það er ekki skil­greint fjár­magn  til að styðja flótta­börn í skól­um en ver­ið er að vinna að áætlun um slíkt í mennta- og barna­mála­ráðu­neyt­inu.

Í vik­unni fund­aði ég einn­ig með Her­manni Jóns­syni for­stjóra hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un­ar og Elmari Er­lends­syni verk­efn­is­stjóra ásamt þeim Jó­hönnu Han­sen og Kristni Páls­syni frá Mos­fells­bæ. Markmið fund­ar­ins var að fara yfir ramma­samn­ing um hús­næð­isáætlun til tíu ára en að­il­ar að samn­ingn­um eru Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, inn­viða­ráðu­neyti og Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un. Til­gang­ur ramma­samn­ings­ins er að auka fram­boð nýrra íbúða til að mæta fyr­ir­sjá­an­legri íbúða­þörf ólíkra hópa sam­fé­lags­ins til skemmri og lengri tíma og stuðla að aukn­um stöð­ug­leika og jafn­vægi á hús­næð­is­mark­aði.

Í ramma­samn­ingn­um kem­ur fram áætlun á landsvísu um bygg­ingu 4.000 íbúða ár­lega á næstu fimm árum og 3.500 íbúða ár­lega næstu fimm ár eft­ir það til að mæta áætl­aðri þörf fyr­ir íbúð­ar­hús­næði. Samn­ingn­um fylg­ir við­auki með tutt­ugu og fjór­um tíma­sett­um að­gerð­um en gert er ráð fyr­ir að sú að­gerða­áætlun verði upp­færð ár­lega. Að­gerða­áætlun fel­ur m.a. í sér út­færslu á nið­ur­stöð­um starfs­hóps um að­gerð­ir og um­bæt­ur á hús­næð­is­mark­aði, sem kynnt­ar voru í maí sl., og skip­að­ur var full­trú­um rík­is, sveit­ar­fé­laga og að­ila vinnu­mark­að­ar­ins. Fund­ur­inn í vik­unni var upp­haf­ið að sam­tali við sveit­ar­fé­lög­in til að fá upp­lýs­ing­ar um stöðu fram­kvæmda og lóða­fram­boð.

Í upp­hafi vik­unn­ar var hald­inn eig­enda­fund­ur Strætó bs á vett­vangi sam­taka sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Staða Strætó er mjög al­var­leg, eins og ég hef get­ið um áður í þess­um pistl­um og árs­hluta­upp­gjör­ið eft­ir fyrstu sex mán­uði árs­ins sýn­ir tap upp á 599 millj­ón­ir. Það verð­ur biðlað til sveit­ar­fé­lag­anna að leggja meira fé inn í rekst­ur­inn auk þess sem gjald­skrár verða hækk­að­ar til að koma til móts við hækk­andi olíu­verð.

Í vik­unni var einn­ig hald­inn sam­ráðs­fund­ur Mos­fells­bæj­ar og Aft­ur­eld­ing­ar þar sem far­ið var mögu­leika á að koma fyr­ir tveim­ur æf­inga­völl­um í fullri stærð þar sem nú­ver­andi gervi­grasvöll­ur er auk þess sem ýms­ar að­r­ar til­lög­ur voru rædd­ar.

Um mið­bik vik­unn­ar náð­ist sá góði áfangi að fjór­ar kennslu­stof­ur við Kvísl­ar­skóla fengu full­nægj­andi ör­ygg­is­út­tekt­ir og byrj­að var að flytja hús­gögn og bún­að þang­að inn. Lok­ið verð­ur við fjór­ar stof­ur til við­bót­ar í næstu viku.

Í vik­unni var einn­ig hald­ið upp á 60 ára af­mæli Varmár­skóla með glæsi­legri dagskrá en ég gat því mið­ur ekki ver­ið við­stödd há­tíð­ar­höld­in vegna lands­þings­ins á Ak­ur­eyri. Ég vil nota tæki­fær­ið og óska Varmár­skóla, nem­end­um, starfs­fólki og að­stand­end­um inni­lega til ham­ingju með áfang­ann!

Á morg­un, laug­ar­dag­inn 1. októ­ber fer ég á flug­slysaæf­ingu sem full­trúi í al­manna­varna­nefnd höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins en öll­um bæj­ar­stjór­um og borg­ar­stjóra er boð­ið að vera við­stödd fjög­urra tíma æf­ingu.

Að þessu sögðu óska ég ykk­ur góðr­ar helg­ar og þakka fyr­ir vik­una.

Regína Ás­valds­dótt­ir

Mynd 1: Frá vinstri, Regína Ás­valds­dótt­ir bæj­ar­stjóri, Guð­mund­ur Ingi Guð­brands­son fé­lags- og vinnu­mark­aðs­ráð­herra og Sig­ur­björg Fjöln­is­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri fjöl­skyldu­sviðs.

Mynd 2: Frá vinstri, Her­mann Jónasson for­stjóri Hús­næð­is og mann­virkja­stofn­un­ar, Elm­ar Er­lends­son verk­efn­is­stjóri HMS, Krist­inn Páls­son skipu­lags­full­trúi Mos­fells­bæj­ar, Jó­hanna Björg Han­sen, fram­kvæmda­stjóri um­hverf­is­sviðs Mos­fells­bæj­ar og Regína Ás­valds­dótt­ir, bæj­ar­stjóri.

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00