Vikan hefur einkennst af miklu samstarfi og samráði á milli kjörinna fulltrúa sveitarfélaga og framkvæmdastjóra en landsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk á Akureyri í dag. Yfirskrift þingsins var Grunnur að góðu samfélagi. Helsta verkefni fundarins var að móta stefnu sambandsins til næstu fjögurra ára, meðal annars um samspil ríkis og sveitarfélaga.
Fulltrúar Mosfellsbæjar voru bæjarfulltrúarnir Aldís Stefánsdóttir, Anna Sigríður Guðnadóttir, Lovísa Jónsdóttir, Ásgeir Sveinsson og Jana Katrín Knútsdóttir auk bæjarstjóra. Á landsþinginu var eftirfarandi ályktun samþykkt um málefni fatlaðs fólks;
,,XXXVII. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið er á Akureyri dagana 28.-30. september 2002 samþykkti fyrir stundu eftirfarandi ályktun er varðar málefni fatlaðs fólks.
Fjárhagsstaða sveitarfélaga á Íslandi er grafalvarleg. Frá árinu 2019 hefur sveitarfélögum sem ekki uppfylla lágmarksviðmið um fjárhagslega sjálfbærni og eru undir eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga fjölgað úr 12 í 30. Vanfjármögnun vegna þjónustu við fatlað fólk er ein megin orsök fjárhagsvanda margra sveitarfélaga. Ítarleg greining starfshóps félagsmálaráðherra um rekstur málaflokks fatlaðs fólks sýnir að hallinn á málaflokknum árið 2020 nam 8,9 milljörðum króna. Ætla má að hallinn nemi nú um 12 til 13 milljörðum króna.
Í yfirstandandi viðræðum sveitarfélaga og ríkisins leggur sambandið þunga áherslu á að fá fjárhagslega leiðréttingu frá ríkinu til að standa undir útgjöldum sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk, en gríðarlegur vöxtur útgjalda er einkum til kominn vegna aukinna krafna í löggjöf og reglum um hærra þjónustustig. Mikilvægt er að niðurstaða viðræðna liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2022 og að sveitarfélögin fái þá strax leiðréttingu. Jafnframt lýsir sambandið þeim vilja að teknar verði upp viðræður við ríkið um framtíðarfyrirkomulag og fjármögnun þjónustu við fatlað fólk.
Sveitarstjórnarlög kveða á um skyldu stjórnvalda að kostnaðarmeta þau verkefni sem sveitarfélögum er falið að sinna. Þjónusta við fatlað fólk er stórlega vanfjármögnuð af hálfu ríkisins og vegur að möguleikum sveitarfélaga til að ná sjálfbærni í rekstri. Enginn ávinningur er af því fyrir ríkið og samfélagið í heild að sveitarfélög reki verkefni með halla eða taki að sér ný verkefni sem ekki eru fjármögnuð.“
Í þessari viku átti ég fund með Guðmundi Inga Guðbrandssyni félags- og vinnumarkaðsráðherra ásamt framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs en ráðherra hefur boðað fulltrúa stærstu sveitarfélaga landsins á fundi til að ræða samræmda móttöku flóttafólks. Fyrir liggja drög að samningum sem ráðuneytið hefur óskað eftir að sveitarfélögin skrifi undir með skuldbindingu um að þau taki á móti flóttafólki þannig að það verði eðlileg dreifing á búsetu fólksins, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Það sem mörg sveitarfélög hafa gagnrýnt í samningsdrögunum er að það er ekki skilgreint fjármagn til að styðja flóttabörn í skólum en verið er að vinna að áætlun um slíkt í mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Í vikunni fundaði ég einnig með Hermanni Jónssyni forstjóra húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Elmari Erlendssyni verkefnisstjóra ásamt þeim Jóhönnu Hansen og Kristni Pálssyni frá Mosfellsbæ. Markmið fundarins var að fara yfir rammasamning um húsnæðisáætlun til tíu ára en aðilar að samningnum eru Samband íslenskra sveitarfélaga, innviðaráðuneyti og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Tilgangur rammasamningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins til skemmri og lengri tíma og stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Í rammasamningnum kemur fram áætlun á landsvísu um byggingu 4.000 íbúða árlega á næstu fimm árum og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár eftir það til að mæta áætlaðri þörf fyrir íbúðarhúsnæði. Samningnum fylgir viðauki með tuttugu og fjórum tímasettum aðgerðum en gert er ráð fyrir að sú aðgerðaáætlun verði uppfærð árlega. Aðgerðaáætlun felur m.a. í sér útfærslu á niðurstöðum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, sem kynntar voru í maí sl., og skipaður var fulltrúum ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Fundurinn í vikunni var upphafið að samtali við sveitarfélögin til að fá upplýsingar um stöðu framkvæmda og lóðaframboð.
Í upphafi vikunnar var haldinn eigendafundur Strætó bs á vettvangi samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Staða Strætó er mjög alvarleg, eins og ég hef getið um áður í þessum pistlum og árshlutauppgjörið eftir fyrstu sex mánuði ársins sýnir tap upp á 599 milljónir. Það verður biðlað til sveitarfélaganna að leggja meira fé inn í reksturinn auk þess sem gjaldskrár verða hækkaðar til að koma til móts við hækkandi olíuverð.
Í vikunni var einnig haldinn samráðsfundur Mosfellsbæjar og Aftureldingar þar sem farið var möguleika á að koma fyrir tveimur æfingavöllum í fullri stærð þar sem núverandi gervigrasvöllur er auk þess sem ýmsar aðrar tillögur voru ræddar.
Um miðbik vikunnar náðist sá góði áfangi að fjórar kennslustofur við Kvíslarskóla fengu fullnægjandi öryggisúttektir og byrjað var að flytja húsgögn og búnað þangað inn. Lokið verður við fjórar stofur til viðbótar í næstu viku.
Í vikunni var einnig haldið upp á 60 ára afmæli Varmárskóla með glæsilegri dagskrá en ég gat því miður ekki verið viðstödd hátíðarhöldin vegna landsþingsins á Akureyri. Ég vil nota tækifærið og óska Varmárskóla, nemendum, starfsfólki og aðstandendum innilega til hamingju með áfangann!
Á morgun, laugardaginn 1. október fer ég á flugslysaæfingu sem fulltrúi í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins en öllum bæjarstjórum og borgarstjóra er boðið að vera viðstödd fjögurra tíma æfingu.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar og þakka fyrir vikuna.
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1: Frá vinstri, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og Sigurbjörg Fjölnisdóttir framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs.
Mynd 2: Frá vinstri, Hermann Jónasson forstjóri Húsnæðis og mannvirkjastofnunar, Elmar Erlendsson verkefnisstjóri HMS, Kristinn Pálsson skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar, Jóhanna Björg Hansen, framkvæmdastjóri umhverfissviðs Mosfellsbæjar og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri.
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024